Úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið breiðfylking hægri manna á Íslandi. Innan hans hafa rúmast misjafnar skoðanir á fólks á hægri væng stjórnmálanna. Styrkur flokksins hefur verið sá að stefna hans hefur verið mörkuð á þann hátt að jafnvel þó að ekki allir hægri menn hafi getað tekið undir allt í henni hefur ekki verið gengið fram á hátt sem gerir ákveðnum hópum það nánast útilokað að starfa með flokknum. Á undanförnum misserum hefur því miður orðið misbrestur á þessu.

Einn af þeim hópum sem alltaf hefur verið áberandi í starfi Sjálfstæðisflokksins eru þeir sem kalla má kristilega íhaldsmenn. Þeir hafa jafnan barist fyrir því að flokkurinn verji kristni og Þjóðkirkjuna. Það hefur gengið misvel. Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki markað sér opinbera stefnu á landsfundi um aðskilnað ríkis og kirkju sem má e.t.v. telja eðlilegt í ljósi þess að skiptar skoðanir eru um það málefni innan flokksins og ólíklegt að hægt væri að ná sátt um afstöðu í aðra hvora áttina. Flokkurinn endurspeglar þannig ekki afstöðu þjóðarinnar í málinu þar sem meirihluti hefur verið fyrir aðskilnaði í könnunum Gallup í hartnær tvo áratugi.

Undanfarið hefur mörgum fundist Sjálfstæðisflokkurinn hafa tekið skarpa beygju í átt til kristilegrar íhaldssemi. Það sást vel í umræðum um nýlegar reglur Reykjarvíkurborgar um samstarf lífsskoðunar- og trúfélaga við menntastofnanir. Þar beittu fulltrúar flokksins í borgarstjórn og nefndum borgarinnar sér gegn reglunum og endurómuðu í þeirri baráttu spuna ættaðan frá Biskupsstofu sem ekki var alltaf vandaður eða réttur.

Nú hefur svo 40. landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkt að standa vörð um tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið og í raun er gengið lengra þar sem uppihald kirkjunnar og annara trúfélaga með framlögum úr ríkissjóði, sem ranglega eru kölluð félagsgjöld, eiga nú að vera tryggð betur en verið hefur gert skv. fundinum.

Þessar samþykktir má finna í ályktun landsfundar um innanríkismál. Í stjórnmálaályktun landsfundar stendur svo eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi.

„Kristin gildi“ er líklega einhver þvældasta klisja trúmálaumræðunnar á Íslandi. Þetta er merkingarlaus frasi því að hann er bæði notaður til þess að lýsa náungakærleika og svo til þess að festa í sessi fordóma og óþol, t.d. gagnvart samkynhneigðum. Flokkurinn á svo að hlúa sérstaklega að „kirkju“, sem augljóslega vísar til ríkisstofnunarinnar Þjóðkirkju.

Þeim sem aðhyllast minni ríkisafskipti af málefnum einstaklinga, hvað þá minni fjáraustur ríkisins til fyrirbæra sem hafa alla burði til að reka sig sjálf og engin sjáanleg þörf er fyrir að rekin séu með skattpeningum almennings, hlýtur að blöskra.

Framganga formanns flokksins, Bjarna Benediktssonar, undanfarna mánuði hefur einnig vakið athygli. Í ræðustóli alþingis við seinustu eldhúsdagsumræður vakti hann athygli á því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði íhugað að segja sig úr Þjóðkirkjunni og fann því allt til foráttu. Af hverju gróf Bjarni upp rúmlega ársgömul ummæli Jóhönnu á þeim vettvangi? Og af hverju telur Bjarni að trúfélagaskráning einstaklinga sé yfirhöfuð eitthvað sem honum kemur við? Það ríkir trúfrelsi í landinu, það nær líka til ráðherra í ríkisstjórn.

Trúfrelsi varð Bjarna svo tilefni til furðulegra ummæla í setningarræðu sinni á nýliðnum landsfundi. Þar sagði hann:

Trúfrelsið er misskilið. Sumir virðast halda að það snúist um að enginn megi hafa neina trú – og alveg sérstaklega ekki kristna.

Hér bergmálar Bjarni fórnarlambskjökur forvígismanna ríkiskirkjunnar, einnar elstu og sterkustu valdastofnunar ríkisins. Staðreyndin er hins vegar sú að engin hefur lýst skoðunum sem gefa tilefni til ummæla á þessum nótum.

Þegar allt er tekið saman er augljóst að flokkurinn er að færa sig enn frekar inn á lendur kristilegrar íhaldssemi. Þær skoðanir sem settar hafa verið fram, bæði af formanni og kjörnum fulltrúum, rýma illa við hugmyndir um að ríkið eigi að skipta sér sem minnst af persónulegum málefnum einstaklinga. Þær passa líka illa við hugmyndir um að skattfé almennings fari ekki í uppihald á stofnunum sem vel geta rekið sig sjálfar.

Ég get ekki unnið stefnu hylli sem innifelur það að ein lífsskoðun sé réttari og að þeir sem hana aðhyllast skuli hafa meiri rétt og meira vægi en aðrir. Ég get ekki stutt stefnu sem felur í sér að ríkið úthluti trúfélögum (athugið að hvergi í ályktunum landsfundar er minnst á lífsskoðunarfélög í þessu samhengi) fjárframlögum úr ríkissjóði og styðji auk þess sérstaklega eitt trúfélag umfram önnur.

Þess vegna hef ég sagt mig úr Sjálfstæðisflokknum.

Það kemur þó fleira til en varðstaða flokksins um ríksivædd trúarbrögð. Mér hefur ekki líkað við vinnubrögð núverandi forystu flokksins, mér líkar ekki við dálæti fjölmargra flokksfélaga á ákveðnum fyrrverandi formanni sem einsamall jarðaði ágæta skýrslu endurreisnarnefndar á landsfundi 2009 með hótfyndni og leiðindum, ég er kominn með ógeð á ungliðapólitíkinni í flokknum og síðast en ekki síst hef ég fengið talsvert óþol á pólitík almennt.

Kannski finnst einhverjum flokksmeðlimum þetta ekki réttlátar ástæður. En á meðan ég er á þessum stað get ég ekki verið í Sjálfstæðisflokknum.  Í gegnum flokksstarfið hef ég eignast marga góða vini og félaga og á árunum sem ég var virkastur var yfirleitt ofboðslega gaman að starfa í flokknum. Þessum vinum og félögum óska ég alls góðs. Ég verð auk þess áfram frjálslyndur í stjórnmálaskoðunum og flokka sjálfan mig hægra megin við miðju.

En nú skilja leiðir.