Góða fólkið og öfgafólkið

Að fylgjast með samfélagsumræðunni á Íslandi er stundum eins og að horfa á… tja, ég veit eiginlega ekki í hvaða líkingu ég á að grípa hér. Umræðan er stundum svo firrt að það þarf háfleygari heilakvarnir en mínar til þess að lýsa henni almennilega. 

Umræður um hverskonar „öfgar“ eru yfirleitt mjög frjóar svo ég taki dæmi. Við sem eru meðlimir í Vantrú erum til dæmis mikið öfgafólk. Öfgarnar sem við leyfum okkur eru þær að andæfa sókn trúfélaga, og þá sérstaklega ríkiskirkjunnar, inn í opinbert rými (sem er ekki það sama og almannarými, ég þarf að taka þetta fram að gefnu tilefni) auk þess sem við reynum að benda á kukl og hindurvitni sem vaða uppi. Greinarnar sem við birtum á vefriti okkar eru oft harðar en við spörum við okkur gífuryrði nema að við teljum tilefni til þeirra. Ég held, nei ég er eiginlega alveg viss um, að það er ekki innihald greinanna sjálft sem stuðar fólk heldur sú staðreynd að við leyfum okkur að tala á sama hátt um trúarbrögð og aðrir tala um pólitík. Þannig ógnum við fyrirbæri sem hefur völd. Og það er ávísun á leiðindi. 

Í gegnum tíðina hefur okkur verið lýst sem þröngsýnum, fáfróðum og skilningslausum. Við höfum verið sögð hreinlega heimsk og varla þess virði að orðum sé í okkur eytt, svo að ég haldi mig bara við dæmi sem eru innan við tveggja vikna gömul. Auk þess höfum við fengið að heyra að við séum níðingar sem ekkert gott látum af okkur leiða. 

Það sem er magnaðast er að þeir sem lýsa okkur svona líta á okkur sem öfgafólkið en sig sem hófsama. 

Undanfarna daga hefur átt sér stað alveg stórkostleg umræða um annað öfgafólk. Tveim konum blöskraði að fyrrverandi ráðherra og sendiherra sem misnotaði aðstöðu sína sem starfsmaður utanríkisþjónustunnar og skrifaði barnungri frænku sinni klámfengin bréf væri ráðin sem gestalesari við Háskóla Íslands. Þessar konur eru femínistar og þannig samkvæmt skilgreiningu öfgafólk. Og þeir leyfðu sér að skrifa hreinlega grein á internetið, INTERNETIÐ!, þar sem þær veltu fyrir sér réttmæti þess að þessi einstaklingur væri ráðin sem gestafyrirlesari við HÍ. Þær fóru ekki fram á að hann yrði rekinn en kröfðu háskólann svara. 

Ingimar Karl Helgason skrifaði í gær grein þar sem hann tók m.a. saman hluti sem látnir hafa verið falla í umræðunni sem skapaðist í kjölfar greinar kvennanna tveggja:

Orð og setningar sem hafa komið fram í þessari umfjöllun eru t.d. „brennuvargar“, „ofstækislið“, „geðveiki“, „hugleysi“, „brot á mannréttindum“, „öfgafullur minnihluti“, „litlar þrýstisellur“, „vaða uppi með látum“, „kúgun“, „hálar brautir“, „Berufsverbot“, „hótanir kynjafræðinga“, „linnulaus klögumál“, „ef einhver öskrar nógu hátt“, „ofstækisfullur sértrúarsöfnuður“, „rangar og vondar hugmyndir“, „pólitískur rétttrúnaður“, „talíbanar“, „refsing“, „heift“.

Konurnar hafa einnig verið kallaðar grimmir femínistar og þær hafa verið sagðar haldnar kvalalosta, gægjufíkn og yfirdrifnum hefndarþorsta. 

En munið samt að þær eru öfgafólkið í þessu máli. Af því að þær eru að rugga bátnum. Og eins og ég hef fengið að kynnast eftir að ég gekk í Vantrú þá má það ekki. Það eru sjálfkrafa öfgar. Öfugt við það að líkja fólki við nasista og talibana.