Kennarar á móti breytingum

Algengt viðkvæði í umræðunni um styttingu framhaldsskólans er að kennarar séu bara alltaf á móti öllum breytingum. Að þeir séu hrikalega íhaldssöm stétt sem stendur vörð um staðnað menntakerfi sem ekkert hafi breyst í áraraðir. Ég held að þetta sé tóm vitleysa.

Andstaðan við „tillögurnar“ sem lagðar hafa verið fram núna hafa að mínu viti ekkert með það að gera að kennarar vilji heilt yfir ekki endurskoða námstíma til stúdentsprófs. Tvö atriði skipta þar miklu meira máli. Annars vegar það að það er ekkert fast í hendi varðandi þessar tillögur. Ráðherra hefur slegið úr og í varðandi það hvort að iðnnámið eigi að fylgja með. Hann talaði líka um það fyrr á kjörtímabilinu að skoða þyrfti skólakerfið heildstætt, en ekki endilega að einblína bara á framhaldsskólann. Og það er alveg augljóst að áður en svona nokkuð er ákveðið er gáfulegra að gera mat á skólakerfinu og sjá hverju þarf og er hægt að breyta. Allt þetta hafa kennarar bent á.

Hitt atriðið er svo það að sú taktík að henda styttingunni inn á samningsborðið örfáum klukkutímum fyrir verkfall, eftir langar viðræður, er einfaldlega fáránlegt. Og er einhver í alvörunni hissa á því að stétt sé ekki alveg tilbúin til þess að fá kjarahækkun útfrá þeim forsendum að hækkunin verði til með því að segja upp hluta hennar?

En það er þetta með það að kennarar séu alltaf á móti breytingum. Þeir sem halda þessu fram geta ekki haft mikla þekkingu á skólakerfinu á Íslandi og þeim breytingum sem þar hafa átt sér stað.

Kennaramenntunin sjálf tók miklum breytingum fyrir örfáum árum síðan. Nýjar aðalnámskrár eru samþykktar með nokkra ára millibili. Og ef við skoðum bara framhaldsskólann þá hefur verið hringlað fram og til baka með brautafyrirkomulag og einingakerfið á undanförnum árum.

Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla voru 4-5 brautir í boði í mörgum skólum. Á meðan ég var ennþá í námi var framboðið takmarkað við þrjár brautir. Fyrir nokkrum árum var tekið upp nýtt einingakerfi sem í rauninni gerði reiknilíkanið sem skólarnir notast við til þess að reikna út fjárhag sinn ónýtt. Það á enn eftir að bæta úr því (og hefði kannski verið gáfulegra og ræða það á undan þeim breytingum sem mönnum langar að gera).

Nú og svo er nú ekkert svo langt síðan að skólum var veitt leyfi til þess að ákveða sjálfir hver almennt lengd námstíma til stúdentsprófs er. Tillögur Illuga snúast því í raun um aukna miðstýringu í menntakerfinu.

Ég er algjörlega á því að það þurfi að gera breytingar á íslensku menntakerfi. Reyndar er ég á því að öll menntakerfi eigi alltaf að vera að leita að leiðum til þess að þróa sig áfram. Mér er hinsvegar ekki sama hvaða breytingar eru gerðar og á hvaða forsendum.

Og það að kennarar hafi staðið í vegi fyrir öllum breytingum á íslensku menntakerfi í áratugi er tóm della. Þvert á móti má jafnvel segja að stundum hefðu þeir einmitt betur komið í veg fyrir stefnulaust hringl með ákveðin skólastig af höndum yfirvalda.

Punktar

Stundum finnst mér voðalega gott að setja niður blogg sem eru bara nokkrir frekar samhengislausir punktar sem verða kannski seinna að alvöru bloggfærslum.

  • Stjórnunarfræðin sem ég hef lært í MA náminu eru áhugaverð. Eitt af því sem mér finnst áhugaverðast er að dágóður partur af þessu er eitthvað sem mér finnst í rauninni common sens. Það er t.d. nokkuð augljóst að til þess að breytingar gangi vel þarf starfsfólkið að vera með í för. Það þarf að sjá tilganginn með breytingunni og sjá kostina fram yfir gamla dótið. En það sem er svo ennþá áhugaverðara er að maður er alltaf að heyra af stjórnendum sem virðast ekki átta sig á hlutunum sem manni sjálfum finnst einfaldastir
  • Ég var að undirbúa mig fyrir foreldraviðtöl í leikskólanum í dag og skrifa niður nokkur atriði um börnin í hópnum mínum. Ég áttaði mig þá á því hvað ég er í rauninni með frábærum börnum á hverjum degi. Það er gaman.
  • Fred Phelps er dáinn. Það er ljótt að segja það en só bí itt: Farið hefur fé betra. Hann stóð fyrir hatur og fordóma og gerði virkilega ógeðslega hluti.
  • Ég hef staðið mig að því undanfarið að verða fyrir smá vonbrigðum þegar stórir sjónvarpsviðburðir eiga sér stað og ég er ekki í aðstöðu til að hanga á twitter. Seinni undanúrslitakvöldið og svo úrslitakvöldið í Söngvakeppninni um daginn er tvö góð dæmi. Það er fátt skemmtilegra en að gera smá grín á twitter þegar svona er í gangi.
  • Lokarannsóknin mín heldur áfram að formast í hausnum á mér, með aðstoð frábærra leiðbeinenda. Ég held að þetta verði ákaflega áhugaverð vinna.
  • Ég tók þátt í að dæma páskabjórana fyrir ákveðin fjölmiðil í gær (kemur í ljós um helgina). Það var mjög skemmtilegt. Ég rakst enn og aftur á það hvað smekkur fólks er ólíkur þegar kemur að bjór. Þarna var fólk með ólíkan bakgrunn og þekkingu á bjór og ég er nokkuð viss um að niðurstöðurnar hefðu orðið aðrar ef eintómir bjórnördar hefðu tekið þátt. En þá hefði væntanlega ekki verið dæmt á sömu forsendum heldur og almennir neytendur kannski ekki mikið grætt á niðurstöðunum.
  • Pústið í bílnum er farið aftur. Sennilega það sama og síðast, þ.e. að rörið hefur farið af alveg við hljóðkútinn. Hjörtur vinur ætla að kíkja á þetta með mér. Það er gott að eiga einn Hjört.
  • Í staðinn ætla ég að taka myndir í brúðkaupsveislunni hans og Valdísar í sumar. Nú er ég kominn með almennilegt flass á stóru vélina og ætla að bæta við mig diffuser fyrir veisluna. Þá verð ég held ég bara góður. Gríp litla krílið með líka.
  • Eva bauð mér á Ali Baba eftir bjórdómgæsluna í gær. Það er fínn matur. Svona staðir eru á hverju horni í Gautaborg þar sem ég kíkti til títtnefnds Hjartar í heimsókn 2012. Mér finnst það mjög sjarmerandi að geta gengið inn á svona litla og ágæta matsölustaði í íbúðarhverfum, þetta er eitthvað sem vantar mikið til hér. Ég bý sjálfur reyndar í næstu götu fyrir ofan Nýbýlaveg þannig að ég get svosem ekki kvartað sjálfur en Dominos og American Style er kannski ekki alveg sama dótið.
  • Á morgun er föstudagur. Einhvern veginn er maður ekki alveg jafn spenntur fyrir helgunum þegar maður veit að þær fara meira og minna í lærdóm. En það stefnir reyndar í vinahitting og spil líka. Það er eitthvað til að hlakka til.

Arðgreiðslur úr skólum

Nú berast af því fréttir að Menntaskólinn Hraðbraut muni hugsanlega hefja aftur rekstur. Skólinn var lagður niður í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á rekstrinum og komst að því að greiddur hafði verið út arður sem skólinn stóð í raun ekki undir, að nemendur í honum hafi um árabil verið færri en þjónustusamningur hans við ríkið hafi sagt til um og skólinn því fengið tæpum 200 milljónum hærri framlög frá ríkinu en honum í raun bar og þess að eigandi hans hafi lánað aðilum tengdum sér 50 milljónir af rekstrarfé skólans.

Þarna var semsagt eitthvað skrýtið í gangi en eigandinn hefur fengið jákvæðar móttökur frá núverandi menntamálaráðherra um að hefja rekstur aftur.

En það sem ég hef verið að spá í undanfarið tengist Hraðbraut í sjálfu sér ekki beint, en það eru arðgreiðslur úr rekstri skóla. Nú er það svo að hreinir einkaskólar finnast varla hér á landi, þ.e. skólar sem reka sig algjörlega með skólagjöldum. Nemendum fylgir fé, það hefur verið stefnan hér, og því fá skólar úthlutað opinberu fé til reksturs síns. Samt er það svo að sé rekstrarfélag sjálfstæðs skóla hlutafélag (en ekki t.d. sjálfseignastofnun) þá geta eigendur hans greitt sér arð af rekstrinum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hraðbraut kemur enda fram að arðgreiðslurnar hafi verið í samræmi við lög og þjónustusamning skólans, en að þær hafi hinsvegar ekki staðið undir sér þegar miðað er við að skólinn var að fá greitt of mikið miðað við nemendafjölda.

Finnst fleirum en mér þetta furðulegt? Að ég geti stofnað rekstrarfélag utan um skólahald, fengið úthlutað úr sjóðum sveitarfélags eða ríkis og greitt sjálfum mér arð af því fé? Og áður en einhver fer að tala um að í slíkum skóla væri hægt að innheimta skólagjöld þá vil ég benda á að forsendurnar fyrir því að hægt sé að reka t.d. framhaldsskóla eru einmitt þessi opinberu gjöld. Það er engin að fara að greiða að fullu kostnaðinn við sitt eigið (ólánshæfa) framhaldsskólanám. Hvað þá ef að ofan á það bættist kostnaður svo að eigandi gæti greitt sér arð úr rekstri skólans.

Það er eitt að hreinir einkaskólar geti greitt eigendum sínum arð (umræðan um hvort eðlilegt sé að reka menntastofnanir sem gróðafyrirtæki kemur kannski seinna). En að það sé yfirhöfuð leyfilegt að skólar sem engin rekstrargrundvöllur væri fyrir ef ekki kæmu til greiðslur úr sjóðum sveitarfélaga eða ríkis greiði eigendum arð skil ég engan veginn.

Ráðherra og fréttaefni

Það er voðalega mikið af því sem ákveðnir fjölmiðlar kalla „stóra X-málið“ í gangi þessa dagana. Í dag var það auðvitað stóra viðtalsmálið.  Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra neitaði að fara í viðtal við RÚV um ástandið í Úkraínu nema að það yrði í beinni eða að hann fengi óklippta upptöku af viðtalinu í hendurnar.

Nú veit ég að það er vinsælt að frýja þingmönnum Framsóknar vits en  ég neita að trúa því að Gunnar Bragi hafi ekki áttað sig á því að með þessum skilyrðum var hann auðvitað að neita viðtali yfirhöfuð. Þetta kallaði ekki á beina útsendingu og þeir sem eru vanir samskiptum við fjölmiðla vita að kröfur um heildarupptökur og önnur álíka gögn eru óraunhæfar.

En það sem mér finnst merkilegast eru útskýringar ráðherra á þessum skilyrðum. Hann vill nefnilega meina að fréttamenn RÚV hafi klippt út alveg ógurlega fréttnæm ummæli eftir sig á föstudaginn. Hann útskýrir með eftirfarandi orðum hver fréttapunkturinn var:

Jú, ég kom því á framfæri að vitanlega gæti utanríkismálanefnd komið með niðurstöðu, tillögu varðandi þá gagnrýni sem komið hefur fram varðandi þingsályktun um að draga umsókn Íslands að ESB til baka. Fréttamanni þótti það ekki fréttaefni að ráðherra opni a slíkt.

Ég sá að Helgi Seljan benti á Facebook á að það væri engin frétt í þessu. Ráðherra þarf nefnilega ekkert að „opna“ á þennan möguleika. Hann er einfaldlega mjög skýr í stjórnsýslunni.

Ég held þó að það sé alveg vinkill á frétt í þessu. Þarna kemur nefnilega berlega fram í hvaða ljósi ráðherrar líta á þingið. Það er ekki sjálfstætt löggjafarvald heldur framlenging af framkvæmdavaldi ráðherra, sem hefur það í hendi sinni hvort að opnað sé fyrir að þingið geti gert breytingar á málum sem hann leggur fram.

Þetta er sennilega ekkert voðalega frumleg frétt. Við höfum svosem vitað að svona er þetta ansi lengi. Og það má auðvitað deila um hvers vel það hefði komið sér fyrir ráðherrann ef að þessi ummæli hefðu fengið að fljóta með. En það er svo auðvitað líka enn eitt dæmið um það hversu illa áttaðir meðlimir stjórnarmeirihlutans eru þessa dagana að ráðherra geri mál úr þessu.