Greinasafn fyrir flokkinn: Almennt/hugleiðingar

Punktar

Stundum finnst mér voðalega gott að setja niður blogg sem eru bara nokkrir frekar samhengislausir punktar sem verða kannski seinna að alvöru bloggfærslum.

  • Stjórnunarfræðin sem ég hef lært í MA náminu eru áhugaverð. Eitt af því sem mér finnst áhugaverðast er að dágóður partur af þessu er eitthvað sem mér finnst í rauninni common sens. Það er t.d. nokkuð augljóst að til þess að breytingar gangi vel þarf starfsfólkið að vera með í för. Það þarf að sjá tilganginn með breytingunni og sjá kostina fram yfir gamla dótið. En það sem er svo ennþá áhugaverðara er að maður er alltaf að heyra af stjórnendum sem virðast ekki átta sig á hlutunum sem manni sjálfum finnst einfaldastir
  • Ég var að undirbúa mig fyrir foreldraviðtöl í leikskólanum í dag og skrifa niður nokkur atriði um börnin í hópnum mínum. Ég áttaði mig þá á því hvað ég er í rauninni með frábærum börnum á hverjum degi. Það er gaman.
  • Fred Phelps er dáinn. Það er ljótt að segja það en só bí itt: Farið hefur fé betra. Hann stóð fyrir hatur og fordóma og gerði virkilega ógeðslega hluti.
  • Ég hef staðið mig að því undanfarið að verða fyrir smá vonbrigðum þegar stórir sjónvarpsviðburðir eiga sér stað og ég er ekki í aðstöðu til að hanga á twitter. Seinni undanúrslitakvöldið og svo úrslitakvöldið í Söngvakeppninni um daginn er tvö góð dæmi. Það er fátt skemmtilegra en að gera smá grín á twitter þegar svona er í gangi.
  • Lokarannsóknin mín heldur áfram að formast í hausnum á mér, með aðstoð frábærra leiðbeinenda. Ég held að þetta verði ákaflega áhugaverð vinna.
  • Ég tók þátt í að dæma páskabjórana fyrir ákveðin fjölmiðil í gær (kemur í ljós um helgina). Það var mjög skemmtilegt. Ég rakst enn og aftur á það hvað smekkur fólks er ólíkur þegar kemur að bjór. Þarna var fólk með ólíkan bakgrunn og þekkingu á bjór og ég er nokkuð viss um að niðurstöðurnar hefðu orðið aðrar ef eintómir bjórnördar hefðu tekið þátt. En þá hefði væntanlega ekki verið dæmt á sömu forsendum heldur og almennir neytendur kannski ekki mikið grætt á niðurstöðunum.
  • Pústið í bílnum er farið aftur. Sennilega það sama og síðast, þ.e. að rörið hefur farið af alveg við hljóðkútinn. Hjörtur vinur ætla að kíkja á þetta með mér. Það er gott að eiga einn Hjört.
  • Í staðinn ætla ég að taka myndir í brúðkaupsveislunni hans og Valdísar í sumar. Nú er ég kominn með almennilegt flass á stóru vélina og ætla að bæta við mig diffuser fyrir veisluna. Þá verð ég held ég bara góður. Gríp litla krílið með líka.
  • Eva bauð mér á Ali Baba eftir bjórdómgæsluna í gær. Það er fínn matur. Svona staðir eru á hverju horni í Gautaborg þar sem ég kíkti til títtnefnds Hjartar í heimsókn 2012. Mér finnst það mjög sjarmerandi að geta gengið inn á svona litla og ágæta matsölustaði í íbúðarhverfum, þetta er eitthvað sem vantar mikið til hér. Ég bý sjálfur reyndar í næstu götu fyrir ofan Nýbýlaveg þannig að ég get svosem ekki kvartað sjálfur en Dominos og American Style er kannski ekki alveg sama dótið.
  • Á morgun er föstudagur. Einhvern veginn er maður ekki alveg jafn spenntur fyrir helgunum þegar maður veit að þær fara meira og minna í lærdóm. En það stefnir reyndar í vinahitting og spil líka. Það er eitthvað til að hlakka til.

Kaldi

Í síðustu viku var fyrsta staðlotan mín í Háskólanum á Akureyri þessa önnina. Sú hefð hefur skapast í fjölskyldunni minni að fara í bústað á aðventunni til þess að slaka á og eiga góðar stundir saman fyrir jólin en eftir að við bræðurnir byrjuðum allir í háskólanámi gekk það ekki lengur upp. Á seinasta ári ákváðum við því að færa þá ferð yfir á fyrstu lotuferðina mína í Háskólanum á Akureyri og dvelja saman í einum af þeim bústöðum sem KÍ hefur yfir að ráða í Kjarnaskógi á Akureyri. Það heppnaðist vel og því var það endurtekið í ár.

Við höfum alla jafna ekki verið mjög aktíf í þessum ferðum hingað til enda hafa þær fyrst og fremst snúist um kósýheit og afslöppun en Eva, kærastan mín, kom með þá hugmynd í ár að við gætum kíkt í Bruggsmiðjuna á Árskógssandi.

Þetta var auðvitað frábær hugmynd. Ég er, eins og margir vita, talsvert bjórnörd. Ég til dæmis skrifa um bjór á hinni frábæru matarsíðu matviss.is. Mér finnst bjór mjög merkilegur drykkur og pæli mikið í honum. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort að ég var ekki glaður með kærustuna þegar hún stakk upp á ferð í brugghús í þessari ferð. Eva er auðvitað best.

Og þessi heimsókn var ekkert annað en frábær. Agnes, sem stofnaði Bruggsmiðjuna ásamt Ólafi eiginmanni sínum, tók á móti okkur og byrjaði auðvitað á því að skenkja okkur bjór. Hún fór í gegnum sögu fyrirtækisins sem byrjaði sem brjáluð hugmynd en er orðin að einhverju flottasta fyrirtæki landsins. Þegar talað er um frumkvöðlastarfsemi þá er Bruggsmiðjan einmitt gott dæmi. Þau fengu hugdettu, létu hana rætast og fyrirtækið gengur vel í dag.

Agnes fór vel í gegnum ferilinn sem varð til þess að fyrsti bjór Kalda varð til. Mér fannst merkilegt að heyra að þau hikuðu ekki við að kaupa sér sem bestu bruggunartækin til að byrja með en áhugaverðast fannst mér að heyra að þau fengu strax frá upphafi með sér hörku bruggmeistara, David Masa. David hannaði fyrstu bjórana sem við þekkjum sem Kalda og það þarf ekki nema að smakka þá bjóra til þess að vita að þar er maður sem veit hvað hann er að gera.

Bruggsmiðjan var fyrsta örbrugghúsið hér á landi og allt frá byrjun hefur það staðið fyrir ákveðin gæði í bruggun bjórs. Maður veit það orðið þegar maður smakkar bjór frá Kalda að þar er á ferðinni gott brugg. Arftaki David er að einhverju leyti Kristinn Ingi Valsson, sem hlýtur að teljast meðal efnilegustu bruggmeistara á Íslandi. Hann á heiðurinn af seinasta Sumar Kalda sem var áhugaverðasti sumarbjór íslensku brugghúsana seinasta sumar. Kristinn er ennþá að læra fagið en miðað við sumarbjórinn þá má búast við miklu af honum.

En að heimsókninni aftur. Agnes er góður gestgjafi og gaf mikið af sér í heimsókninni. Hún ræddi opinskátt við okkur um rekstur fyrirtækisins hingað til og hugsanleg áform þess í framtíðinni. Kannski fengum við, bara sjö manna hópur, persónulegri þjónustu en stærri hópar en þetta var virkilega ánægjuleg heimsókn. Þarna voru staddir fagmaður í tæknifræði og brunahönnun, nemi í hagfræði, nemi í lögfræði, nemi í viðskiptafræði, nemi í lífeðlisfræði, leikskólakennari og nemi í menntavísindum og svo mamma, sem veit alltaf best og við vorum öll sannfærð um að þetta væri vel rekið fyrirtæki, í góðu og hentugu húsnæði sem uppfyllir alla kröfur, sem hefur skemmtilegar hugmyndir um framtíðina og þekkir sinn markað. Það var líka virkilega gaman að heyra, fyrir mig sem er að læra stjórnun, að starfsmannstefna fyrirtækisins er að gera vel við fólkið sem vinnur þar. Þannig hefur þeim tekist að koma í veg fyrir starfsmannaveltu að mestu leyti.

Og svo er bjórinn þeirra bara verulega góður.

Lífið það gengur í hringi

Titill þessarar færslu er sóttur í texta við lag Skálmaldar, Valhöll. Ég trúi því nefnilega, og hef upplifað, að svona er þetta bara. Lífið gengur í hringi. Þegar ég var unglingur sveiaði gamla fólkið sér yfir því sem unga kynslóðin missti sig yfir og í dag horfi ég upp á jafnaldra mína gera það nákvæmlega það sama. Við erum bara orðin svona gömul.

Þegar ég byrjaði í því sem þá hét fyrsti bekkur en heitir í dag annar bekkur var ég nýr pjakkur í Digranesskóla. Sem heitir í dag eftir sameiningu tveggja skóla sem voru innan við 300 metra frá hvorum öðrum Álfhólsskóli. Mér var tekið ágætlega af þessum bekk sem ég lenti í. Alveg eins og þegar ég kom aftur í sjötta bekk eftir tveggja ára búsetu á Akureyri. Þetta voru góðir krakkar og ég held ennþá sambandi við nokkra af þeim og spjalla við hina þegar ég hitti þá á förnum vegi.

En þegar við byrjuðum í öðrum bekk fengum við umsjónarkennara sem var þá tiltölulega nýútskrifaður úr námi. Þetta var ung kona sem hafði augljóslega brennandi áhuga á starfi sínu og kenndi okkur af miklum áhuga og ástríðu. Hún reyndar tengdist bekknum það vel að þegar hún hætti sem umsjónarkennari eftir þriðja árið, þegar ég var fluttur til Akureyrar, þá bauð hún bekknum heim til sín í kveðjuveislu. Sjálfur hitti ég hana svo fyrir tilviljun fyrir norðan þangað sem hún flutti á meðan ég bjó þar.

Líða svo árin og ég er orðinn leikskólakennari og ákveð að skella mér í framhaldsnám. Það var svolítið yfirþyrmandi, að vera mættur í meistarnám í menntavísindum í háskóla og mæta á fyrstu önn í einn af þeim áföngum sem þarf að taka til þess að öðlast gráðuna. Þarna var samansafn af mjög reyndum kennurum af öllum skólastigum sem höfðu frá ýmsu að segja. Mér fannst ég svolítið blautur á bakvið eyrun.

Marserar þá inn í skólastofuna forstöðukona miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Og mér leið strax betur því að ég þekkti hana á augabragði. Þarna var kominn fyrsti kennarinn minn sem ég man eftir, og einn af þeim bestu. Mér fannst svolítið viðeigandi að kennarinn sem tók mér svo vel sem litlum og feimnum strák í sjö ára bekk í Digranesskóla væri nú að kenna mér í meistarnámi í kennslufræðum í háskóla.

Lífið það gengur í hringi.

Jarre, Grier og táningarnir

Nei, ég hef ekki hugmynd um það hverjir Jerome Jarre og Nash Grier eru. Né langar mig sérstaklega að vita það. Þeir vekja ekki áhuga minn. Samt tókst þeim að fylla Smáralindina af táningum núna um daginn. Flott hjá þeim.

Fyndnustu viðbrögðin í þessu öllu saman finnst mér þó ekki koma frá æstum krökkunum í verslunarmiðstöðinni heldur jafnöldrum mínum á Facebook. Djöfull erum við að verða gömul. Það að horfa á fólk um og yfir þrítugt fussa og sveia yfir ungdómnum og skilja ekkert í því hvernig einhverjir gaurar sem það veit ekki hverjir eru geta valdið svona viðbrögðum er ekkert minna er stórkostlega fyndið.

Auðvitað eru þessir gaurar ekki hluti af okkar menningarheimi (flestra okkar allavega). Það væri hreinlega stórfurðulegt ef svo væri. Við erum rétt rúmlega tveimur áratugum eldri en flestir þeir sem fylktu liði í Smáralind. Menningarheimur unglinga (eða menningarheimar ætti þetta kannski frekar að vera) skarast ekki við menningarheim okkar gamla fólksins nema að takmörkuðu leyti. Sem betur fer, það tilheyrir einfaldlega þessum aldri að vera öðruvísi en þeir sem eldri eru.

Þá finnst mér líka fyndið að fólk sé að fussa yfir því að þarna hafi orðið öngþveiti. Eins og að það sé eitthvað skrýtið við það að krakkarnir hafi viljað sjá þessa stráka, eða jafnvel komast á Vine myndband hjá þeim. Svo er nú ekki eins og það þurfi mikið til þess að öngþveiti skapist hér á landi. Eru nokkuð það mörg ár síðan einhver handleggsbrotnaði þegar fólk þusti inn í opnun einhverrar raftækjabúðar?

Truflun

Truflun

Þá er ég kominn á Truflun. Ég hef bloggað á nokkrum stöðum í gegnum tíðina, alveg frá þriðja eða fjórða ári í menntó. Ekki mjög mikið þó undir það allra seinasta, held að ég hafi birt eitt blogg í fyrra. Undanfarið hef ég nær eingöngu skrifað um trúmál og efahyggju eða þá eitthvað í skólanum. Ég hugsa að skrifin um trú, kukl og hindurvitni  muni fyrst og fremst birtast á vefriti Vantrúar eftir sem áður en hér gæti ratað eitthvað inn um skólamál, t.d. þegar ég byrja á lokarannsókninni minni. Hér hugsa ég að birtist aðallega hugleiðingar mínar um hitt og þetta; pólitík, mat og drykk, ljósmyndun og daglegt líf t.d. Og talsverð vitleysa sjálfsagt líka.

Ég flutti allar færslurnar af gamla wordpressblogginu mínu hingað yfir þannig að fólk getur skoðað þær ef það hefur áhuga. Ég rakst þó á þegar ég fletti yfir það um daginn að þar er að finna hitt og þetta sem ég hef skipt um skoðun á. En það er bara ágætt, það er gott að skipta um skoðanir öðru hverju.

Góða fólkið og öfgafólkið

Að fylgjast með samfélagsumræðunni á Íslandi er stundum eins og að horfa á… tja, ég veit eiginlega ekki í hvaða líkingu ég á að grípa hér. Umræðan er stundum svo firrt að það þarf háfleygari heilakvarnir en mínar til þess að lýsa henni almennilega. 

Umræður um hverskonar „öfgar“ eru yfirleitt mjög frjóar svo ég taki dæmi. Við sem eru meðlimir í Vantrú erum til dæmis mikið öfgafólk. Öfgarnar sem við leyfum okkur eru þær að andæfa sókn trúfélaga, og þá sérstaklega ríkiskirkjunnar, inn í opinbert rými (sem er ekki það sama og almannarými, ég þarf að taka þetta fram að gefnu tilefni) auk þess sem við reynum að benda á kukl og hindurvitni sem vaða uppi. Greinarnar sem við birtum á vefriti okkar eru oft harðar en við spörum við okkur gífuryrði nema að við teljum tilefni til þeirra. Ég held, nei ég er eiginlega alveg viss um, að það er ekki innihald greinanna sjálft sem stuðar fólk heldur sú staðreynd að við leyfum okkur að tala á sama hátt um trúarbrögð og aðrir tala um pólitík. Þannig ógnum við fyrirbæri sem hefur völd. Og það er ávísun á leiðindi. 

Í gegnum tíðina hefur okkur verið lýst sem þröngsýnum, fáfróðum og skilningslausum. Við höfum verið sögð hreinlega heimsk og varla þess virði að orðum sé í okkur eytt, svo að ég haldi mig bara við dæmi sem eru innan við tveggja vikna gömul. Auk þess höfum við fengið að heyra að við séum níðingar sem ekkert gott látum af okkur leiða. 

Það sem er magnaðast er að þeir sem lýsa okkur svona líta á okkur sem öfgafólkið en sig sem hófsama. 

Undanfarna daga hefur átt sér stað alveg stórkostleg umræða um annað öfgafólk. Tveim konum blöskraði að fyrrverandi ráðherra og sendiherra sem misnotaði aðstöðu sína sem starfsmaður utanríkisþjónustunnar og skrifaði barnungri frænku sinni klámfengin bréf væri ráðin sem gestalesari við Háskóla Íslands. Þessar konur eru femínistar og þannig samkvæmt skilgreiningu öfgafólk. Og þeir leyfðu sér að skrifa hreinlega grein á internetið, INTERNETIÐ!, þar sem þær veltu fyrir sér réttmæti þess að þessi einstaklingur væri ráðin sem gestafyrirlesari við HÍ. Þær fóru ekki fram á að hann yrði rekinn en kröfðu háskólann svara. 

Ingimar Karl Helgason skrifaði í gær grein þar sem hann tók m.a. saman hluti sem látnir hafa verið falla í umræðunni sem skapaðist í kjölfar greinar kvennanna tveggja:

Orð og setningar sem hafa komið fram í þessari umfjöllun eru t.d. „brennuvargar“, „ofstækislið“, „geðveiki“, „hugleysi“, „brot á mannréttindum“, „öfgafullur minnihluti“, „litlar þrýstisellur“, „vaða uppi með látum“, „kúgun“, „hálar brautir“, „Berufsverbot“, „hótanir kynjafræðinga“, „linnulaus klögumál“, „ef einhver öskrar nógu hátt“, „ofstækisfullur sértrúarsöfnuður“, „rangar og vondar hugmyndir“, „pólitískur rétttrúnaður“, „talíbanar“, „refsing“, „heift“.

Konurnar hafa einnig verið kallaðar grimmir femínistar og þær hafa verið sagðar haldnar kvalalosta, gægjufíkn og yfirdrifnum hefndarþorsta. 

En munið samt að þær eru öfgafólkið í þessu máli. Af því að þær eru að rugga bátnum. Og eins og ég hef fengið að kynnast eftir að ég gekk í Vantrú þá má það ekki. Það eru sjálfkrafa öfgar. Öfugt við það að líkja fólki við nasista og talibana. 

Að pota í rassgöt á landi eða á sjó

Dómurinn yfir kynferðisglæpamönnunum sem misþyrmdu 13 ára barni um borð í skipi hefur vakið talsverða athygli og hneykslun. Skiljanlega. Það sem átti sér stað um borð í skipinu var hræðilegt. Maður getur ekki annað en fundið til með barninu sem var fast um borð í skipi með kvölurum sínum í fleiri daga. Það eru aðstæður sem maður óskar engum.

Eitt af því sem mennirnir gerðu var að pota í endaþarm drengsins með fingrum og öðrum hlutum. Í allavega eitt skiptið fór fingur inn í endaþarm drengsins skv. atvikalýsingu.

Nú vill svo til að fyrr á árinu féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur þar sem maður var dæmdur fyrir að stinga tveimur fingrum í endaþarm konu þar sem hún var að pissa á Austurvelli.

Skipverjarnir fengu skilorðsbundna dóma í 45 daga (tveir þeirra), 60 daga og þrjá mánuði. Maðurinn á Austurvelli fékk 18 mánaða óskilorðsbundna refsingu.

Vandamálið er það að skipverjarnir voru ákærðir fyrir að beita kynferðislegri áreitni með lostugu athæfi sem særði blygðunarkennd en sá á Austurvelli var ákærður fyrir nauðgun. Samt er erfitt að sjá að brot skipverjana hafi verið annars eðlis, hvað þá vægari. Þeir voru auk þess að brjóta gegn barni. Saksóknarinn í því máli skuldar útskýringar á því hvað lá að baki ákvörðun um hvað ákært skyldi fyrir.

————————

Yfirlýsing umboðsmanns barna frá því í gær þar sem hann fagnar niðurstöðu dómsins er annað atriði sem kallar á útskýringar. Satt best að segja finnst mér að Margrét María þurfi hreinlega að huga að stöðu sinni eftir þessa yfirlýsingu.

Dylgjur Vals Arnarssonar

Ég tók fyrst eftir Vali Arnarsyni í umræðum við bloggfærslu fyrir tæpu ári síðan. Mér fannst hann ekki góður málsvari fyrir trúarbrögðin sín þá og sú skoðun mín hefur ekki breyst eftir því sem ég hef séð meira frá honum. Ef bloggfærslan og umræðurnar eru skoðaðar sést að Valur skildi ekki það sem Hjalti Rúnar skrifaði. Og því meira sem reynt var að útskýra fyrir honum því reiðari varð hann, kallaði okkur Vantrúarfólk ósiðlegt og fór að nota þá ömurlega barnalegu taktík að reyna að tala niður til okkar með því að kalla okkur „snúlla“ og annað í þeim dúr. Svona vanstilling er reyndar furðulega algeng í trúmálaumræðum þannig að ég kippti mér svosem lítið upp við þetta. Eitthvað virðumst við Vantrúarfélagar þó hafa lagst á sálina á Vali því að hann hefur ítrekað hnýtt í okkur á leiðinlegan og ómálefnalegan hátt, oft án nokkurs sýnilegs tilefnis. Ég er reyndar fyrir löngu hættur að nenna að lesa það sem Valur skrifar og því missti ég af því að hann sendi mér pillu í athugasemd við bloggfærslu Jóns Magnússonar um nýsamþykktar reglur um samskipti trú- og lífsskoðunarfélaga við skóla í Reykjarvíkurborg. Það var ekki fyrr en ég sá vitnað í Val á annari bloggsíðu að ég áttaði mig á því að hann hefði yfirhöfuð minnst á mig. Þetta var það sem hann hafði að segja:

Það er rétt sem þú segir, tillögurnar eru skýr merki um mjög alvarlega fordóma í garð trúfélaga og lífsskoðanna fólks. Það sem verra er, eru afleiðingarnar sem fáviskugjörningur þessi leiðir af sér. Með þessu móti eiga trúfélög engan málsvarnaraðila innan veggja menntastofnanna og því geta kennarar, eins og Egill Óskarsson og Brynjólfur Þorvarðarson, heilaþvegið börnin okkar með allskonar ranghugmyndarugli um meint innihald Biblíunnar. En eftir því sem ég best veit eru þeir félagar kennarar hér í borg og meðlimir í öfgasamtökunum Vantrú.

Alla jafna skiptir það mig engu máli hvað fólk eins og Valur hefur um mig að segja, fyrir svo utan það að ég sé ekki hverju reglur um samskipti trú- og lífsskoðunarFÉLAGA eiga að breyta um þau áhrif sem kennarar geta haft. Boðun trúar- og lífsskoðana er nú bönnuð í Reykjarvíkurborg, það gildir jafnt um kennara sem presta. Eins og Valur vissi ef hann skildi reglurnar.

Já og svo vinn ég ekki hjá borginni. Ekki frekar en Brynjólfur sem býr yfirhöfuð ekki á Íslandi.

En það sem varð til þess að ég sé mig tilknúinn til að skrifa aðeins um þessi ummæli Vals eru dylgjurnar og aðdróttanirnar sem í þeim felast. Valur er ekki bara að taka einhverja kennara sem hann þekkir sem handahófskennt dæmi. Hann nefnir tvo trúlausa kennara og bætir því svo við, til að það fari ekkert á milli mála hvers konar hætta blasir nú við eftir að reglurnar voru samþykktar, að við séum meðlimir í „öfgasamtökunum“ Vantrú.

Getur þú, kæri lesandi, ímyndað þér hversu illa það kæmi sér fyrir mig ef foreldri barns á leikskólanum sem ég vinn á læsi þessi orð Vals og héldi jafnvel að þarna væri á ferðinni málsmetandi maður? Að það væri einhver ástæða fyrir þessum dylgjum hans? Að þetta væri raunverulega hætta?

Ég hef ýmsar skoðanir og ég aðhyllist hina og þessa hugmyndafræðina. Ég er trúlaus, ég vil aðskilja ríki og kirkju, ég er hægri sinnaður, ég skil ekki þörfina á heildstæðri endurskoðun á stjórnarskránni, ég held með Man Utd, ég er HK-ingur og ég er hitt og þetta.

Þegar ég er í vinnunni þá er ég hins vegar fyrst og fremst leikskólakennari og sem slíkur þá boða ég ekki mínar prívat og persónulegu skoðanir. Ekki lífs- og trúarskoðanir mínar, ekki pólitískar skoðanir mínar, ekki skoðanir mínar á íþróttafélaginu Breiðablik. Það er ekki mitt hlutverk heldur hlutverk fjölskyldunnar.

Sem er einmitt það sem reglurnar sem verið var að samþykkja í borginni snúast um. Ég hef stutt þessar reglur af því að ég lít svo á að boðun trúar- og lífsskoðana eigi að vera á hendi fjölskyldu en ekki skóla. Það gildir jafnt um mínar skoðanir sem aðrar.

-bætt við kl. 23:08

Valur hefur nú beðist afsökunar á ummælun sínum á bloggi Jóns og í athugasemd hér á þessari síðu. Er hann maður að meiri fyrir vikið.