Greinasafn fyrir flokkinn: Án ábyrgðar

Klukkan og rúðustrikaða fólkið

Ég næ engri tengingu við þessar pælingar um að seinka klukkunni á Íslandi. Eftir því sem ég best sé þá er líklega gáfulegast að vera ekkert að hringla með klukkuna, enda fylgir því bæði vesen og kostnaður, en að hugsa frekar um að breyta því einfaldlega hvenær dagurinn, þetta sem við afmörkum flest með annars vegar því hvenær við þurfum að vakna vegna vinnu/skóla/leikskóla/hvaðeina og hins vegar hvenær formlegri dagskrá okkar lýkur og við getum hætt að græða og farið að grilla. Ég er s.s. á svipaðri línu og Örvitinn.

Mér finnst þessi tillaga, og rökin sem fylgja með í greinagerðinni, lýsa alveg ofboðslega rúðustrikaðri hugsun. Klukkan átta á veturna er dimmt. Það er leiðinlegt að hefja daginn þegar það er svona rosalega dimmt. Þess vegna skulum við færa klukkan átta þannig að það verði minna dimmt.

Rúðustrikaða manninum virðist ekki detta í hug annað en að upphaf kennslu í grunn- framhalds og væntanlega að einhverju leyti líka háskólum sé fastbundin við ákveðna afstöðu vísana á klukkunni. Sama gildir um upphaf hins hefðbundna vinnudags. Þetta gæti allt eins verið náttúrulögmál.

En ef vandamálið er hin hverfula birta hér á landi er þá ekki bara langbest að vera með þessa tíma svolítið á hreyfingu. Að yfir dimmustu mánuðina byrji skóla/vinnudagurinn einfaldlega einum til tveimur tímum seinna en ella? Eða er það of flókið til þess að hægt sé að stjórna því frá Alþingi?

————

En að öllu þessu sögðu, og þrátt fyrir að hafa reynt eins og ég get, þá bara gæti mér ekki verið meira sama um hvort klukkunni verði breytt.

Ótrúlega öflug stjórnarandstaða

Miðað við málflutning ríkisstjórnarinnar stendur stjórnarandstaðan í vegi fyrir allskonar sniðugum og góðum lausnum á þeim vandamálum sem þarf að leysa. Þetta finnst þeim auðvitað hið versta mál. Ömurleg þessi stjórnarandstaða.

Það sem er samt svo merkilegt er hversu miklu öflugri þessi stjórnarandstaða er heldur en þær seinustu á undan. Allavega ef marka má VG og Samfylkingu. Þeir flokkar voru fullkomlega áhrifalausir í stjórnarandstöðu, og bera enga ábyrgð á neinu sem hér gerðist, í næstum tvo áratugi (og merkilegt nokk þá var Samfylkingin líka fullkomlega áhrifalaus og án ábyrgðar á meðan hún sat í ríkisstjórn).

Það er svo annað mál að núverandi ríkisstjórn kvartar yfir því að stjórnarandstaðan hafi engar lausnir. Því var einmitt aldrei haldið fram um t.d. Vinstri Græna á meðan á þeirra eyðimerkurgöngu stóð.

Svona er pólitíkin á Íslandi merkileg.

Iphone og annað dót

Ég á ekki Apple/Mac tölvu og hef aldrei átt. Ég á heldur ekki Ipod. Og fyrr gerist ég styrktaraðili Sjöunda dags aðventista en að ég eyði mínum eigin pening í Iphone á hátt í 150.000. kr.

Þetta er ekki bara af því að mér finnst þetta hipp og kúl hype í kringum Apple seinustu ár ákaflega kjánalegt, þó að það sé reyndar alveg næg ástæða. Mér hefur bara aldrei fundist vörurnar frá þessu fyrirtæki það góðar að verðið á þeim, ömurleg þjónusta og varahlutir og jaðartæki sem kosta álíka mikið og bílavarahlutir  séu ásættanlegur fórnarkostnaður.

Ég hef átt nokkrar PC tölvur og alltaf hafa þær verið alveg nógu góðar fyrir það sem ég þurfti að gera. Ég hef átt mp3 spilara frá Creative sem var bara svona líka fínn og kostaði innan við þriðjung af því sem ódýrasta týpa af Ipod kostaði á þeim tíma. Hann var auk þess með SD kortum sem þýddi að ég gat skipt út minninu í honum eftir eigin geðþótta. Seinustu tveir símar sem ég hef átt hafa svo líka gegnt hlutverki tónlistarspilara.

Ég fatta alveg græjulosta. Ég þarf að beita sjálfan mig hörðu til þess að fara ekki fram úr mér þegar kemur að myndavélum og dóti þeim tengdum. En þá að því sem þessi færsla átti nú að fjalla um:

Hvað í jörðinni er að gerast í hausnum á þeim sem ætlar að selja Iphone á Íslandi á hærra verði en kostar að fljúga til útlanda og kaupa hann þar? Eru ekki þeir sem á annað borð eru það illa haldnir af græjulosta/Appleblæti að þeir bara ÞURFI að eiga Iphone að þeir myndu borga svona verð fyrir hann löngu búnir að útvega sér svoleiðis græju?

Kvöldið mitt – myndasaga

Þar sem ég var óvænt í þeirri stöðu að vera búin að klára allt það sem ég hafði ætlað mér að gera nokkuð snemma í kvöld ákvað ég að kíkja út og taka nokkrar myndir. Það var bæði kalt og leiðinda vindur á stöku stað þannig að ferðin var kannski ekki jafn fengsæl og ég hafði ætlað mér. Eða sjáum til.

Fór fyrst niður að sjó við Kópavoginn. Ætlaði að taka myndir af tunglinu yfir Arnarnesinu en gekk það eitthvað hálf illa. Svo flaug flugvél yfir:

Flugvél

Þegar ég svo gafst endanlega upp á tunglinu sá ég að rétt hjá mér hafði einhver gleymt hjólinu sínu:

Eftirlitslaust hjól

Þegar þarna var komið við sögu var mér bæði orðið kalt og svo mundi ég að ég þurfti að skreppa í búð. Svo ég gerði það:

Hagkaup

Þegar ég var svo að keyra út úr Garðabænum sá ég að þeir eru búnir að setja upp jólaskrautið svo ég smellti mynd af því líka:

Jólaljós í Garðabæ

Því næst keyrði ég Vífilstaðaleiðina áleiðis inn í Kópavog en ákvað að stoppa hjá hesthúsunum og reyna að ná myndum af einhverju þar. Sá strax friðarkertið hennar Ono og ætlaði að reyna að ná því. Því miður er viewfinderinn í vélinni minni engan vegin nógu góður þegar birtan er lítil þannig að ég var lengi að finna rétta fókus og ramma inn myndirnar. Svo fóru bílarnir að keyra framhjá:

Friðarsúlan og bíllinn

Til að gæta að samkeppnissjónarmiðum stoppaði ég á leiðinni heim líka:

Krónan

Því næst fór ég bara heim. Kaldur en nokkuð sáttur.