Greinasafn fyrir flokkinn: Leikskólinn

SÍS í skrýtnum leik – aftur

Ég fékk í hendurnar leyfisbréf sem leikskólakennari í júní árið 2011. Þá var staðan í kjaramálum leikskólakennara ekkert sérstök. Við vorum í raun tveimur samningum á eftir viðmiðunarstéttum þar sem samningur okkar brann inni í hruninu. Um það má lesa hér. Ég kom beint inn í stétt í kjarabaráttu, stétt sem var á leið í verkfall.

Degi eða tveimur áður en boðað verkfall átti að hefjast náðust samningar. Samningurinn var að ég held ágætur miðað við stöðuna sem var uppi en eitt það mikilvægast í honum var bókun sem í raun staðfesti það að leikskólakennarar ættu að vera á sambærilegum launum og viðmiðunarstéttir – sem eru fyrst og fremst kennarar á öðrum skólastigum.

Nú þremur árum síðar stöndum við aftur í kjarabaráttu. Núna er staðan sú að það er nýbúið að semja við viðmiðunarstéttirnar. Fyrir liggur bókun þar sem viðsemjendur okkar viðurkenndu að við ættum að búa við sambærileg kjör og þær. Samt sem áður virðast samningaviðræður ganga hægt og búið er að boða eins dags verkfall þann 19. júní. Af hverju gengur þetta svona hægt? Hafa viðsemjendur okkar, sveitastjórnir á landinu í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga skipt um skoðun? Ef svo er, er þá ekki svolítið mikilvægt að gert sé grein fyrir því hvaða rök liggja fyrir því?

En það er svo margt skrýtið við þetta ágæta samband sveitarfélaga. Fyrir þremur árum skellti sambandið út furðulegu spili inn í miðjar viðræður (hér og hér). SÍS lagði hreinlega til að sveitarfélög og leikskólastjórar fremdu verkfallsbrot með því að halda leikskólum opnum. Leikskólastjórar voru settir í slæma stöðu og urðu eðlilega ósáttir. Á endanum voru þessi tilmæli dregin til baka.

Í gær gerist það svo að SÍS sendi nánast samhljóðandi tilmæli til leikskólastjóra. Tilmæli sem sambandið dró sjálft til baka fyrir þremur árum. Tilmæli sem sambandið veit að fela að öllum líkindum í för með sér verkfallsbrot. Tilmæli sem stilla leikskólastjórum og öðru starfsfólki leikskóla sem ekki er í FL upp á móti leikskólakennurum.

En það er svosem ekki erfitt að sjá hver tilgangurinn er. Pólitíkusarnir sem stjórna SÍS eru jú akkúrat það, pólitíkusar. Og þetta er í raun bara ósköp hefðbundin pólitík sem snýst um það að hafa áhrif á almenningsálitið.

Sambandið vill fyrst og fremst stilla leikskólakennurum upp á móti börnum og foreldrum. Það vill gefa í skyn að leikskólar geti bara víst starfað þó að leikskólakennarar séu í verkfalli, en að vondu leikskólakennararnir standi í vegi fyrir því. Mér finnst ólíklegt að það verði gengið eftir því að farið verði eftir þessum tilmælum, enda var það líklega aldrei ætlunin. Það er algjört aukaatriði.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga er stjórnað af pólitíkusum. Stjórn þess skipa í dag Halldór Halldórsson, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Björk Vilhelmsdóttir, Guðríður Arnardóttir, Gunnar Einarsson, Elín R. Líndal, Eiríkur Björn Björgvinsson, Gunnlaugur Stefánsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Jórunn Einarsdóttir. Einhverjir af þessum einstaklingum munu fara úr stjórn á næstunni eftir sveitastjórnarkosningarnar en þeir bera í dag ábyrgð á athöfnum Sambandsins.

Það væri mjög áhugavert ef einhver myndi ganga á eftir því að þeir útskýrðu þetta seinasta útspil, og svo auðvitað hvort og þá hvað hafi breyst varðandi leikskólakennara og viðmiðunarstéttir frá árinu 2011.

Að hafa rangt fyrir sér – og finnast það gott

Mér finnst stundum gott að hafa rangt fyrir mér. Ég á alla jafna ekki í miklum vandræðum með að viðurkenna það, sé mér sýnt fram á vitleysu mína með afgerandi hætti, því að mér finnst gott að læra eitthvað nýtt. Og svo er líka gott að hafa rangt fyrir sér þegar maður heldur að hlutirnir séu verri en þeir eru.

Í dag varð ég hugsi yfir þessari frétt. Það á semsagt að fara að bjóða upp á tveggja ára diplómanám í leikskólakennarafræðum vegna skorts á leikskólakennurum. Mér fannst þetta ekki alveg nógu sniðugt. Ég velti því fyrir mér hvað fólk hefði fyrir sér í því að þetta myndi fjölga leikskólakennurum. Mér fannst líka skrýtið að það ætti bara að bjóða upp á diplómanám á leikskólastiginu en ekki öðrum stigum og velti fyrir mér hvort að það skorti á virðingu við fagstéttina leikskólakennara. Og ég fór á Facebook og röflaði eitthvað útaf þessu.

En svo fóru frekari upplýsingar að koma fram. Reynslan af diplómanáminu sem boðið var upp á árin 2000-2005 var sú að nánast allir sem fóru í gegnum það héldu áfram í B.Ed gráðu (og jafnvel lengra). Það verður ekkert slegið af inntökuskilyrðum eða kröfum í náminu að neinu leyti. Þetta er eingöngu hugsað sem fyrsta þrep þeirra sem eru í náminu, þeir fá þá diplómu sem nýtist þeim til launahækkunnar og geta haldið áfram síðar kjósi þeir að hverfa frá námi um tíma. Einn af toppunum á Menntavísindasviðinu í HÍ kom til sögunnar og tók af allan vafa um það að það yrði engin afsláttur gefinn af náminu. Og bent var á skýrslu sem sýndi það sem við í stéttinni vitum svosem alltof vel, ef ekkert verður gert á næstunni verður sá mikli skortur á leikskólakennurum sem ríkir hér á landi óbærilegur eftir óhugnalega stuttan tíma. Ástandið er verra hjá okkur en í grunnskólanum, þó að þar líkt og í framhaldsskólanum þurfi að fara að huga að aðgerðum líka.

Ég tek líka undir það sem kemur fram í fréttinni að best væri ef sveitarfélögin styddu verðandi leikskólakennara í námi. Ég gerði samning við Kópavogsbæ þegar ég hóf mitt B.Ed. nám og varð ekki fyrir neinu tekjutapi þrátt fyrir að missa úr vinnu vegna skólasóknar. Á móti skuldbatt ég mig til þess að vinna hjá bænum í tvö ár eftir útskrift. Gjöf en ekki gjald.

En ég hafði semsagt rangt fyrir mér. Þetta var eitt af þeim skiptum sem það var gott að vera leiðréttur.

Lesskilningur kennara

Í vikunni var fjallað um kjaramál framhaldsskólakennara í fréttum á Stöð 2. Þetta var ágætis umfjöllun sem sýndi hæfa kennara sem þurfa að vinna aukavinnu til þess að hafa nægar tekjur yfir árið. En á twitter sá ég skondinn viðbrögð. Þar velti einn fyrir sér lesskilningi framhaldsskólakennara og getu til þess að meta tölur.

Þetta eru svosem skilaboð sem kennarar hafa heyrt áður. Að þeir hljóti að hafa vitað hvaða laun biðu þeirra þegar þeir ákváðu að fara í nám og hefja kennslu og þar af leiðandi eigi þeir ekki að vera að þessu væli. Og þetta er auðvitað alveg mögnuð vitleysa.

Með þessum rökum er hægt að afgreiða alla kjarabaráttu eins og hún leggur sig. Væntanlega hafa allir einhverja hugmynd um hvaða tekjur bíða þeirra þegar þeir leggja ákveðið fag fyrir sig. Sem betur fer þýðir það ekki að fólk megi ekki krefjast betri kjara. Það er ekkert lögmál að kjör stétta megi aldrei batna.

Árið 2007 skráði ég mig í leikskólakennaranám. Ég hafði auðvitað einhverja hugmynd um tekjurnar sem biðu mín að loknu námi. Ég ákvað ekki að verða leikskólakennari til þess að verða ríkur. Það var ákveðin hugsjón sem skipti mestu máli, ásamt mikilli ánægju af því að vinna með börnum. Mér finnst þetta skemmtilegt og krefjandi starf og sé ekkert eftir því að hafa fetað þessa braut.

En ég áskil mér, þrátt fyrir að vera í þessu af hugsjón, rétt til þess að krefjast betri kjara. Ég skrifaði ekki undir samning um það að vera alltaf á lélegum launum þegar ég fékk leyfisbréfið. Kjarasamningur leikskólakennara rennur út 30. apríl. Við teljum eins og framhaldsskólakennarar að það þurfi að bæta kjör okkar. Mér finnst alveg ótrúlega hæpið að launahækkun upp á 2,8% verði samþykkt og mun sjálfur ekki samþykkja slíkan samning nema eitthvað alveg ótrúlega magnað fylgi með í pakkanum. Ég tel að ég eigi skilið að fá betri laun fyrir vinnuna mína en ég fæ núna.

Jafnvel þó að ég hafi skoðað kjarasamninga leikskólakennara árið 2007.

Sturlaður leikskólakennari skrifar

Það sem menn gera endurspeglar oftar en ekki raunverulegar skoðanir þeirra á mönnum og málefnum betur en það sem menn segja. Líklega eru fáar stéttir sem þetta á betur við um en stjórnmálamenn. Það er nefnilega svolítið þannig að þeir segja það sem þeir halda að viðmælendur sínir vilji heyra. Þess vegna verður maður að skoða hvað þeir gera.

Besti Flokkurinn og Samfylkingin mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þeim þykir leikskólar ekkert sérstaklega merkilegir og leikskólakennarar ekki heldur. Annað verður allavega ekki ráðið ef við sleppum fagurgalanum og skoðum bara hvað þessi meirihluti hefur gert.

Ákveðið var að leggjast í sameiningar á leikskólum, annað hvort við aðra leikskóla eða við grunnskóla. Þetta var gert í trássi við vilja og ráðleggingar fagfólks og foreldra. Vissulega mátti skoða það að sameina einhverjar rekstrareiningar en ekkert tillit var tekið til mismunandi hugmyndafræði og stefnu í leikskólastarfi, né skýran vilja foreldra í sumum tilfellum. Við þessar aðgerðir var leikskólastjórum og aðstoðarleikskólastjórum fækkað, en það er líklega eina millistjórnendastétt borgarinnar þar sem konur eru í meirihluta.

Árangur þessara ákvarðana, sem voru teknar án þess að vitað væri hvað myndi sparast á hverri sameiningu, hefur nú komið berlega í ljós.

Í haust varð nefnilega ljóst að ákveðið hafði verið að taka ekki inn börn fædd árið 2010 á leikskóla borgarinnar. Hver tók þá ákvörðun, hvenær og hvernig faglegar forsendur voru metnar (ef þær voru það yfirhöfuð) hefur ekki komið skýrt fram. Hins vegar liggur fyrir að laus pláss eru á leikskólum borgarinnar fyrir börn fædd árið 2010.

Þegar fjölmiðlar fóru loks að sýna þessu málefni áhuga nú í byrjun vetrar fengu leikskólastjórar í borginni bréf frá borgaryfirvöldum sem sumir túlkuðu sem svo að þeim væri ekki leyfilegt að svara fyrirspurnum fjölmiðla, en ein slík hafði borist á alla leikskólaborgarinnar sama dag og borgin sendi bréfið.

Í dag var svo ákveðið að svipta leikskólakennara í borginni svokölluðu neysluhléi, sem þeir fengu borgað sem 10 yfirvinnutíma á mánuði. Á sínum tíma var þessi greiðsla tekin upp vegna manneklu og álags. Á þriðjudag var sagt að í greinargerð með tillögunni kæmi fram að slíkt ástand væri ekki til staðar í dag. Formaður Félags leikskólakennara benti réttilega á að það er einfaldlega bull.

Þá bregður svo við að í greinargerð sem lögð var fram með tillögunni í dag er ekkert á þetta minnst. Hins vegar er aðgerðin réttlætt með því að neysluhlésgreiðslurnar hafi verið hluti af kröfum leikskólakennara við gerð seinasta kjarasamnings. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi krafa gekk ekki eftir heldur byggjast launahækkanirnar sem leikskólakennarar náðu í gegn á allt öðrum forsendum, eins og þeir sem fjalla um þessi mál ættu auðvitað að vita.

Halli, formaður félags okkar leikskólakennara, segir í yfirlýsingu í dag að leikskólakennarar í Reykjavík séu sturlaðir vegna þessa. Ég held að það sé óhætt að segja að leikskólakennarar almennt á Íslandi séu það líka.

Ekki bara vegna þessa máls heldur vegnar þess virðingarleysis fyrir leikskólum sem sífelldar árásir Samfylkingarinnar og Besta Flokksins í Reykjavík sýna. Þegar gerðir, en ekki orð, meirihlutans í leikskólamálum eru skoðaðar er niðurstaðan ekki góð. Ekki fyrir vini leikskólans í það minnsta.

 

Langt svar við leiðinlegri spurningu um leikskólakennara

Spurt hefur verið: af hverju fórstu í þetta nám vitandi það að launin væru svona léleg?

Svarað er nú: af því að mér fannst starfið áhugavert, námið spennandi og fagheimurinn fullur af skemmtilegum pælingum sem eru í sífelldri þróun. Já og vegna þess að mér finnst gaman að umgangast og að vinna með börnum. Og það gleymdist alveg að segja mér að lág laun væru náttúrulögmál og að þegar ég hóf nám hafi ég fyrirgert rétti mínum til þess að krefjast hærri launa en þeirra sem voru í boði á þeim tíma.

Ég lít ekki svo á, og vil helst ekki að þið gerið það heldur, að ég hafi verði að fórna mér af einhverri góðmennsku. Ég hef einfaldlega brennandi áhuga á þessu starfi og þessum fræðum. Með því fylgir auðvitað að ég vil gera mitt til þess að veita þeim börnum sem ég kynnist í starfinu þá menntun, vinskap og umhyggju sem ég get veitt þeim.

Starfið er gríðarlega gefandi. Það eru kannski launin fyrir „góðmennskuna“. En starfið er líka gríðarlega krefjandi og getur jafnvel á stundum verið slítandi, andlega og líkamlega. Mér finnst ég ekki vera frekur eða furðulegur fyrir að vilja að vinnuveitandi minn greiði mér laun í samræmi við það sem fólk í viðmiðunarstéttum eins og grunnskólakennarar (ég sat nota bena þónokkra áfanga með grunnskólakennurum í mínu námi) fær fyrir sína góðu vinnu.