Greinasafn fyrir flokkinn: Ljósmyndir

Að springa á limminu

Ég er búinn að gefast upp á mynd-á-viku verkefninu. Það kom semsagt í ljós að þegar maður er í fullri vinnu, MA námi, allskonar félagsstörfum og vill líka eiga tíma með kærustu og vinum þá er ekki gott að binda sig við svona verkefni. Vandamálið er svosem ekki að komast í að taka myndirnar, þegar maður er oftast með vél á sér gengur það ekkert illa. Að finna sér tíma til þess að vinna myndirnar og henda þeim á netið gekk hinsvegar ekki vel.

Ég ætla bara frekar að reyna að vera duglegur almennt að taka myndir, og mun örugglega deila eitthvað af þeim hingað.

Mynd á viku – af hverju?

Eins og þeir sem hafa ratað hingað inn eða fylgjast með mér á Facebook og Twitter hafa tekið eftir set ég nú inn eina mynd á viku undir hinu frekar lýsandi nafni ‘Mynd á viku’. Þetta er ákveðið verkefni sem ég setti mér fyrir árið, að taka, vinna og birta eina mynd á viku. Ég hef gert þetta áður, árið 2010.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að gera þetta núna er að mér finnst ég hafa staðnað í ljósmyndun undanfarið. Ég er fastur í einhverju fari sem mér gengur illa að losna úr og finnst ég lítið hafi þróast áfram sem ljósmyndari. Vegna þessa hef ég alls ekki verið nógu duglegur að taka myndir, ef ég undanskil myndir sem ég tek í vinnunni á leikskólanum. Ég hef lítið farið úr húsi með myndavél í þeim eina tilgangi að taka myndir. Ég hef líka ekki verið nógu duglegur að hafa með mér myndavél þó að ég fari eitthvað í öðrum erindagjörðum og latur að taka upp vél í þau skipti sem hún hefur fengið að fljóta með.

Í byrjun árs í fyrra reyndi ég að leysa þetta vandamál með því að kaupa mér myndavél. Ég keypti litla Micro Four Thirds vél frá Olympus með tveimur kit-linsum (14-42 3.5-5.6 og 40-150 4-5.6) og bætti við 17 mm 1.8 linsunni frá Oly.  Þetta er fínasti pakki. Vélin með 14-42mm eða 17 mm linsunum (sú síðarnefnda er oftast á) passar í góðan úlpuvasa ef svo ber undir og þó vélin mætti alveg vera betri á háu ISO (hér er dæmi af tónleikum, þetta sleppur svosem alveg) þá er ég mjög sáttur við hana.

En eins og ég hefði getað sagt mér sjálfur þá gera nýjar græjur mann ekki betri og auka bara áhugan rétt á meðan nýjabrumið er enn til staðar. Þess vegna ákvað ég að „neyða“ sjálfan mig til þess að taka myndir. Ég var að spá í PAD (mynd á dag – photo a day) verkefni en fannst það full mikið verk. Þess vegna varð PAW (mynd á viku – photo a week) fyrir valinu. Ef ég stend mig þá koma 52 myndir út úr þessu. Ég er nokkuð sáttur við heildarútkomuna frá 2010. Auðvitað eru þar myndir sem bera tímaskorti og leti vitni en þar eru líkar myndir þar sem ég ákvað sérstaklega að nota ákveðna tækni við myndatöku eða myndvinnslu og prófa mig þannig áfram. Það sama ætla ég að gera núna. En það besta við 2010 verkefnið var að ég tók alveg heilan helling af myndum yfir allt árið því að ég var svo oft með vél á mér. Ég vona að það sama gerist núna.

Tröllafossar

Um daginn fór ég í smá ferðalag um vesturland. Ég var fyrst og fremst í Húsafelli og nánast nágreni og tók fullt af myndum sem ég er svona smátt og smátt að vinna og henda inn á netið. Hér eru nokkrar úr fyrsta skammti sem er af Tröllafossi en restin af myndunum þaðan er hérna.

Í dag gerðist ég glæpamaður!

Í dag hjálpaði ég til við að fremja lögbrot. Við í Vantrú héldum árlega páskabingóið á Austurvelli í hádeginu, í trássi við hin fáránlegu lög um helgidagafrið.

Eins og Matti bendir á í dag þá snýst þessi viðburður ekki um bingó. Hann snýst ekki heldur um frídaga. Hann snýst um að í lögum á Íslandi í dag er freka og yfirgangur einnar lífsskoðunar leyfður. Af því að trúað kristið fólk heldur upp á þessa daga þá skulum við hin sætta okkur við skerta þjónustu og það að mega flest ekki vinna þó að við fegin vildum. Þetta óréttlæti þrífst í skjóli þess að lúthersk evangelíska trúfélagið er í raun ríkistrúfélag á Íslandi, í trássi við vilja um 75% þjóðarinnar miðað við kannanir. Það er löngu kominn tími til þess að þessir sérhagsmunir verði afnumdir.

Og gerið það nú fyrir mig, ekki spyrja mig hvort að ég vilji þá missa þessa frídaga. Ég treysti einfaldlega stéttarfélögunum til þess að sjá áfram um þau mál eins og þau hafa gert hingað til. Ekki byrja heldur á baulinu um að það sé nú svo notalegt að hafa svona daga öðru hverju þar sem allt er lokað og maður geti bara slappað af. Ég veit ekki með ykkur, en það truflar mína afslöppun aldrei neitt að opið sé í Hagkaup og á listasöfnum, hvað þá að eðlilegar strætisvagnasamgöngur geri mig sturlaðan úr stressi.

En allavega. Ég braut lög í dag. Hér eru myndir af því.

Leikskólarnir í lífi mínu

Í dag er haldið upp á Dag leikskólans á Íslandi. Flestir leikskólar héldu upp á hann á föstudaginn skv. ábendingu frá Félagi Leikskólakennara en einhverjir ákváðu þó að gera það eftir helgi. Leikskólarnir á Héraði ætla t.a.m. að gera sér dagamun á morgun heyrði ég frá stelpu sem er með mér í leikskólakennaranáminu. Ástæðan fyrir því að 6. febrúar varð fyrir valinu sem Dagur leikskólans er sú að þann dag árið 1950 stofnuðu 22 konur sem lokið höfðu námi við Uppeldisskóla Sumargjafar árið 1948 starfsmanna- og verkalýðsfélag sem var vísirinn að Félagi Leikskólakennara.

Uppeldisskóli Sumargjafar varð svo seinna Fóstruskóli Sumargjafar, hann varð svo að Fósturskóla Íslands árið 1973 og þá máttu karlar í læra fagið.  Sá fyrsti útskrifaðist svo 10 árum síðar og mér telst til að ég verði þrítugastiogeitthvað karlinn sem útskrifast með þessa menntun hér á landi. Fósturskólinn rann svo inn í Kennaraskólann sem breyttist svo í Kennaraháskólann. Fyrir stuttu varð svo til Menntavísindasvið HÍ og er gamli KHÍ hluti af því. Sjálfur er ég þó í Háskóla Akureyrar sem varð fyrstu til þess að bjóða upp á b.ed nám í leikskólakennarafræðum á Íslandi.

En nóg af upprifjun á sögu. Því miður halda margir leikskólakennarar upp á Dag leikskólans með þungum huga. Út um allt land standa fyrir sparnaðaraðgerðir sem fyrirsjáanlegt er að komi mismikið niður á faglegu starfi á leikskólum. Einna verst er staðan í Reykjavík eins og hefur varla farið framhjá þeim sem fylgjast með fréttum.

En í tilefni dagsins ákvað ég að búa til smá ljósmyndablogg. Ég fór út og myndaði alla leikskóla sem ég hef komið við í á ævinni, nema reyndar Fögrubrekku en ég átti fyrir fína mynd af henni.

Smáralundur, Hafnarfirði. Þar var ég sem þriggja til sex ára lítill patti. Hafði ekki komið í garðinn í 22 ár og hann hefur mikið breyst, enda stæðust líklega fæst leiktækin sem voru þar nútíma öryggiskröfur.

Hamraborg, Reykjavík. Fyrsti leikskólinn sem ég vann á. September til nóvember 2002. Þessi leikskóli er ansi vel falinn í Grænuhlíð. Ansi stór og fínn garður sem var verið að endurnýja og stækka þegar ég vann þarna.

Álfatún, Kópavogur. Desember 2002 til maí 2003. Skrýtnasta leikskólahúsnæði sem ég hef komið í. Er gamalt þriggja hæða einbýlishús sem fyrrverandi eigendur breyttu í einkaleikskóla. Garðurinn er meira og minna allur ein brekka. Ég var þarna fljótlega eftir að bærinn tók yfir reksturinn og mér skilst að skipulagið innandyra sé orðið betra en það var.

Fagrabrekka, Kópavogur. Eftir að hafa arkað um Kópavog og borið út póst í tæplega hálft ár hóf ég störf á Fögrubrekku í janúar 2005. Ég hef því unnið þar í rétt rúmlega sex ár. Fljótlega eftir að ég byrjaði varð mér ljóst að ég hafði áhuga á leikskólastörfum og hóf að líta á þau sem meira en tímabundið skemmtistarf (því ekki voru það nú launin sem löðuðu mann á leikskólana!). Haustið 2007 byrjaði ég svo í leikskólakennaranáminu í HA.

Bjarmi, Hafnarfirði. Þarna var ég í fjórar vikur í upphafi árs 2009 sem vettvangsnemi. Þetta er einkarekin ungbarnaleikskóli. Ekki stór en ansi skemmtilegur!

Marbakki, Kópavogi. Seinni vettvangsnámsskólinn. Var þarna í góðu yfirlæti í 10 vikur um haustið 2010. Lærði mikið og leið vel.

Og þannig er nú það.

Til hamingju með daginn starfsfólk, foreldrar, velunnarar (á borði, en ekki bara í orði) og síðast en ekki síst börn á leikskólum landsins!