Greinasafn fyrir flokkinn: Óflokkað

Costco og frjálslyndið

Risastórt bandarískt verslunarfyrirtæki sýnir því nú áhuga að opna verslanir á Íslandi. Fyrirtækið vill geta selt lyf, áfengi og innflut kjöt í verslunum sínum hér á landi. Ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka vel í að breyta lögum og jafnvel veita undanþágur svo að það sé hægt.

Nú ætti ég auðvitað að gleðjast yfir því að hugmyndir um aukið frjálsræði í þessum málum fái góðar undirtektir hjá stjórnvöldum, og geri það svosem að einhverju leyti. En þetta er bara svo innilega lýsandi fyrir hentistefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að hugmyndafræði.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður, vísar á fréttina sem ég bendi á hér að ofan með þeim orðum að nú sé góður tími til þess að auka frelsi í viðskiptum. Af hverju fyrst núna? Flokkurinn hans hefur verið í ríkisstjórn í 19 ár af seinustu 23. Það hefur verið nægur tími til þess að leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum og að rýmka löggjöf um innflutning á kjöti. Vilja þingmenn Sjálfstæðisflokksins meina að það hafi bara ekki verið góður tími til þess?

Getur í alvörunni verið að það sé góður tími núna af því að Costco ætlar á móti að kaupa fisk af Íslendingum til þess að selja í verslunum sínum? Eða af því að Costco er svona alvöru, stórt bandarískt fyrirtæki?

Ef einhverjar breytingar (lagabreytingar nota bene, ekki undanþágur) í átt til frjálsræðis verða gerðar þá er það fínt. En mikið ofboðslega finnst mér tilefnið hallærislegt.

Lífið það gengur í hringi

Titill þessarar færslu er sóttur í texta við lag Skálmaldar, Valhöll. Ég trúi því nefnilega, og hef upplifað, að svona er þetta bara. Lífið gengur í hringi. Þegar ég var unglingur sveiaði gamla fólkið sér yfir því sem unga kynslóðin missti sig yfir og í dag horfi ég upp á jafnaldra mína gera það nákvæmlega það sama. Við erum bara orðin svona gömul.

Þegar ég byrjaði í því sem þá hét fyrsti bekkur en heitir í dag annar bekkur var ég nýr pjakkur í Digranesskóla. Sem heitir í dag eftir sameiningu tveggja skóla sem voru innan við 300 metra frá hvorum öðrum Álfhólsskóli. Mér var tekið ágætlega af þessum bekk sem ég lenti í. Alveg eins og þegar ég kom aftur í sjötta bekk eftir tveggja ára búsetu á Akureyri. Þetta voru góðir krakkar og ég held ennþá sambandi við nokkra af þeim og spjalla við hina þegar ég hitti þá á förnum vegi.

En þegar við byrjuðum í öðrum bekk fengum við umsjónarkennara sem var þá tiltölulega nýútskrifaður úr námi. Þetta var ung kona sem hafði augljóslega brennandi áhuga á starfi sínu og kenndi okkur af miklum áhuga og ástríðu. Hún reyndar tengdist bekknum það vel að þegar hún hætti sem umsjónarkennari eftir þriðja árið, þegar ég var fluttur til Akureyrar, þá bauð hún bekknum heim til sín í kveðjuveislu. Sjálfur hitti ég hana svo fyrir tilviljun fyrir norðan þangað sem hún flutti á meðan ég bjó þar.

Líða svo árin og ég er orðinn leikskólakennari og ákveð að skella mér í framhaldsnám. Það var svolítið yfirþyrmandi, að vera mættur í meistarnám í menntavísindum í háskóla og mæta á fyrstu önn í einn af þeim áföngum sem þarf að taka til þess að öðlast gráðuna. Þarna var samansafn af mjög reyndum kennurum af öllum skólastigum sem höfðu frá ýmsu að segja. Mér fannst ég svolítið blautur á bakvið eyrun.

Marserar þá inn í skólastofuna forstöðukona miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Og mér leið strax betur því að ég þekkti hana á augabragði. Þarna var kominn fyrsti kennarinn minn sem ég man eftir, og einn af þeim bestu. Mér fannst svolítið viðeigandi að kennarinn sem tók mér svo vel sem litlum og feimnum strák í sjö ára bekk í Digranesskóla væri nú að kenna mér í meistarnámi í kennslufræðum í háskóla.

Lífið það gengur í hringi.