Greinasafn fyrir flokkinn: Skólamál

SÍS í skrýtnum leik – aftur

Ég fékk í hendurnar leyfisbréf sem leikskólakennari í júní árið 2011. Þá var staðan í kjaramálum leikskólakennara ekkert sérstök. Við vorum í raun tveimur samningum á eftir viðmiðunarstéttum þar sem samningur okkar brann inni í hruninu. Um það má lesa hér. Ég kom beint inn í stétt í kjarabaráttu, stétt sem var á leið í verkfall.

Degi eða tveimur áður en boðað verkfall átti að hefjast náðust samningar. Samningurinn var að ég held ágætur miðað við stöðuna sem var uppi en eitt það mikilvægast í honum var bókun sem í raun staðfesti það að leikskólakennarar ættu að vera á sambærilegum launum og viðmiðunarstéttir – sem eru fyrst og fremst kennarar á öðrum skólastigum.

Nú þremur árum síðar stöndum við aftur í kjarabaráttu. Núna er staðan sú að það er nýbúið að semja við viðmiðunarstéttirnar. Fyrir liggur bókun þar sem viðsemjendur okkar viðurkenndu að við ættum að búa við sambærileg kjör og þær. Samt sem áður virðast samningaviðræður ganga hægt og búið er að boða eins dags verkfall þann 19. júní. Af hverju gengur þetta svona hægt? Hafa viðsemjendur okkar, sveitastjórnir á landinu í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga skipt um skoðun? Ef svo er, er þá ekki svolítið mikilvægt að gert sé grein fyrir því hvaða rök liggja fyrir því?

En það er svo margt skrýtið við þetta ágæta samband sveitarfélaga. Fyrir þremur árum skellti sambandið út furðulegu spili inn í miðjar viðræður (hér og hér). SÍS lagði hreinlega til að sveitarfélög og leikskólastjórar fremdu verkfallsbrot með því að halda leikskólum opnum. Leikskólastjórar voru settir í slæma stöðu og urðu eðlilega ósáttir. Á endanum voru þessi tilmæli dregin til baka.

Í gær gerist það svo að SÍS sendi nánast samhljóðandi tilmæli til leikskólastjóra. Tilmæli sem sambandið dró sjálft til baka fyrir þremur árum. Tilmæli sem sambandið veit að fela að öllum líkindum í för með sér verkfallsbrot. Tilmæli sem stilla leikskólastjórum og öðru starfsfólki leikskóla sem ekki er í FL upp á móti leikskólakennurum.

En það er svosem ekki erfitt að sjá hver tilgangurinn er. Pólitíkusarnir sem stjórna SÍS eru jú akkúrat það, pólitíkusar. Og þetta er í raun bara ósköp hefðbundin pólitík sem snýst um það að hafa áhrif á almenningsálitið.

Sambandið vill fyrst og fremst stilla leikskólakennurum upp á móti börnum og foreldrum. Það vill gefa í skyn að leikskólar geti bara víst starfað þó að leikskólakennarar séu í verkfalli, en að vondu leikskólakennararnir standi í vegi fyrir því. Mér finnst ólíklegt að það verði gengið eftir því að farið verði eftir þessum tilmælum, enda var það líklega aldrei ætlunin. Það er algjört aukaatriði.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga er stjórnað af pólitíkusum. Stjórn þess skipa í dag Halldór Halldórsson, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Björk Vilhelmsdóttir, Guðríður Arnardóttir, Gunnar Einarsson, Elín R. Líndal, Eiríkur Björn Björgvinsson, Gunnlaugur Stefánsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Jórunn Einarsdóttir. Einhverjir af þessum einstaklingum munu fara úr stjórn á næstunni eftir sveitastjórnarkosningarnar en þeir bera í dag ábyrgð á athöfnum Sambandsins.

Það væri mjög áhugavert ef einhver myndi ganga á eftir því að þeir útskýrðu þetta seinasta útspil, og svo auðvitað hvort og þá hvað hafi breyst varðandi leikskólakennara og viðmiðunarstéttir frá árinu 2011.

Pólitíkusarnir og KÍ þingið

Þessa dagana stendur yfir 6. aðalþing Kennarasambands Íslands. Eins og venjan er á svona þingum komu pólitíkusar í heimsókn. Þær heimsóknir voru svolítið spes.

Illugi Gunnarsson er menntamálaráðherra. Það var auðvitað fullkomlega eðlilegt að hann kæmi á KÍ þing og héldi erindi. Það sem var ekki eðlilegt er að hann lét breyta fyrir sig dagskránni þannig að hann talaði fyrstur og rauk svo út. Hann þurfti víst að mæla fyrir málum á þingi. Þetta þýddi það að hefðbundin dagskrá, sem felst í því að formaður KÍ setji þingið eftir tónlistaratriði frá tónlistarnemendum og gestir tali svo á eftir, var rofin. Þetta þýddi líka að Illugi kom sér hjá því að sitja undir góðri og kjarnyrtri opnunarræðu Þórðar Hjaltested, sem menntamálaráðherra hefði haft gott af að hlýða á.

Þingfulltrúar voru ekki mjög glaðir með ráðherrann sinn. Og gleðin jókst ekki beinlínis þegar í ljós kom að málefnin sem hann þurfti að standa fyrir á þingi voru hlutir eins og örnefni. Já, örnefni.

Ræða Illuga var svosem ekkert merkileg. Það var ræða Halldórs Halldórssonar ekki heldur. Halldór talaði líkt og Illugi um mikilvægi sátta og samstöðu. Að við þyrfum að vinna saman að því að bæta menntakerfið okkar. Sem er auðvitað alveg rétt.

Þess vegna var alveg stórmerkilegt að sjá tóninn í auglýsingu Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Við hliðina á stórri mynd af Halldóri var texti þar sem það var m.a. fullyrt að skólakerfið hafði brugðist börnunum okkar en þrátt fyrir það fengi það að hjakka í sama farinu.

Fyrr má nú vera sáttatónninn.

Ég held að yfirgnæfandi meirihluti kennara átti sig á því að skólaþróun er bæði jákvæð og nauðsynleg öllum skólakerfum. Og þó að eflaust mættu einhverjir kennarar vera jákvæðari gagnvart breytingum þá held ég í alvörunni að það muni ekki standa á okkur að taka þátt í þeim og, eins og eðlilegast væri, að vera leiðandi þegar kemur að þeim.

Það verður hinsvegar að viðurkennast að viljinn til þess að standa í breytingum sem ákveðnar eru að ofan minnkar þegar komið er fram við mann á þann hátt sem stjórnmálamenn bæði í sveit og ríki hafa gert. Maður er einhvern veginn ekki til í samstarf við menn sem vilja vera vinir manns einn daginn en segja að maður valdi ekki starfinu sínu þann næsta.

Kennarar á móti breytingum

Algengt viðkvæði í umræðunni um styttingu framhaldsskólans er að kennarar séu bara alltaf á móti öllum breytingum. Að þeir séu hrikalega íhaldssöm stétt sem stendur vörð um staðnað menntakerfi sem ekkert hafi breyst í áraraðir. Ég held að þetta sé tóm vitleysa.

Andstaðan við „tillögurnar“ sem lagðar hafa verið fram núna hafa að mínu viti ekkert með það að gera að kennarar vilji heilt yfir ekki endurskoða námstíma til stúdentsprófs. Tvö atriði skipta þar miklu meira máli. Annars vegar það að það er ekkert fast í hendi varðandi þessar tillögur. Ráðherra hefur slegið úr og í varðandi það hvort að iðnnámið eigi að fylgja með. Hann talaði líka um það fyrr á kjörtímabilinu að skoða þyrfti skólakerfið heildstætt, en ekki endilega að einblína bara á framhaldsskólann. Og það er alveg augljóst að áður en svona nokkuð er ákveðið er gáfulegra að gera mat á skólakerfinu og sjá hverju þarf og er hægt að breyta. Allt þetta hafa kennarar bent á.

Hitt atriðið er svo það að sú taktík að henda styttingunni inn á samningsborðið örfáum klukkutímum fyrir verkfall, eftir langar viðræður, er einfaldlega fáránlegt. Og er einhver í alvörunni hissa á því að stétt sé ekki alveg tilbúin til þess að fá kjarahækkun útfrá þeim forsendum að hækkunin verði til með því að segja upp hluta hennar?

En það er þetta með það að kennarar séu alltaf á móti breytingum. Þeir sem halda þessu fram geta ekki haft mikla þekkingu á skólakerfinu á Íslandi og þeim breytingum sem þar hafa átt sér stað.

Kennaramenntunin sjálf tók miklum breytingum fyrir örfáum árum síðan. Nýjar aðalnámskrár eru samþykktar með nokkra ára millibili. Og ef við skoðum bara framhaldsskólann þá hefur verið hringlað fram og til baka með brautafyrirkomulag og einingakerfið á undanförnum árum.

Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla voru 4-5 brautir í boði í mörgum skólum. Á meðan ég var ennþá í námi var framboðið takmarkað við þrjár brautir. Fyrir nokkrum árum var tekið upp nýtt einingakerfi sem í rauninni gerði reiknilíkanið sem skólarnir notast við til þess að reikna út fjárhag sinn ónýtt. Það á enn eftir að bæta úr því (og hefði kannski verið gáfulegra og ræða það á undan þeim breytingum sem mönnum langar að gera).

Nú og svo er nú ekkert svo langt síðan að skólum var veitt leyfi til þess að ákveða sjálfir hver almennt lengd námstíma til stúdentsprófs er. Tillögur Illuga snúast því í raun um aukna miðstýringu í menntakerfinu.

Ég er algjörlega á því að það þurfi að gera breytingar á íslensku menntakerfi. Reyndar er ég á því að öll menntakerfi eigi alltaf að vera að leita að leiðum til þess að þróa sig áfram. Mér er hinsvegar ekki sama hvaða breytingar eru gerðar og á hvaða forsendum.

Og það að kennarar hafi staðið í vegi fyrir öllum breytingum á íslensku menntakerfi í áratugi er tóm della. Þvert á móti má jafnvel segja að stundum hefðu þeir einmitt betur komið í veg fyrir stefnulaust hringl með ákveðin skólastig af höndum yfirvalda.

Arðgreiðslur úr skólum

Nú berast af því fréttir að Menntaskólinn Hraðbraut muni hugsanlega hefja aftur rekstur. Skólinn var lagður niður í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á rekstrinum og komst að því að greiddur hafði verið út arður sem skólinn stóð í raun ekki undir, að nemendur í honum hafi um árabil verið færri en þjónustusamningur hans við ríkið hafi sagt til um og skólinn því fengið tæpum 200 milljónum hærri framlög frá ríkinu en honum í raun bar og þess að eigandi hans hafi lánað aðilum tengdum sér 50 milljónir af rekstrarfé skólans.

Þarna var semsagt eitthvað skrýtið í gangi en eigandinn hefur fengið jákvæðar móttökur frá núverandi menntamálaráðherra um að hefja rekstur aftur.

En það sem ég hef verið að spá í undanfarið tengist Hraðbraut í sjálfu sér ekki beint, en það eru arðgreiðslur úr rekstri skóla. Nú er það svo að hreinir einkaskólar finnast varla hér á landi, þ.e. skólar sem reka sig algjörlega með skólagjöldum. Nemendum fylgir fé, það hefur verið stefnan hér, og því fá skólar úthlutað opinberu fé til reksturs síns. Samt er það svo að sé rekstrarfélag sjálfstæðs skóla hlutafélag (en ekki t.d. sjálfseignastofnun) þá geta eigendur hans greitt sér arð af rekstrinum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hraðbraut kemur enda fram að arðgreiðslurnar hafi verið í samræmi við lög og þjónustusamning skólans, en að þær hafi hinsvegar ekki staðið undir sér þegar miðað er við að skólinn var að fá greitt of mikið miðað við nemendafjölda.

Finnst fleirum en mér þetta furðulegt? Að ég geti stofnað rekstrarfélag utan um skólahald, fengið úthlutað úr sjóðum sveitarfélags eða ríkis og greitt sjálfum mér arð af því fé? Og áður en einhver fer að tala um að í slíkum skóla væri hægt að innheimta skólagjöld þá vil ég benda á að forsendurnar fyrir því að hægt sé að reka t.d. framhaldsskóla eru einmitt þessi opinberu gjöld. Það er engin að fara að greiða að fullu kostnaðinn við sitt eigið (ólánshæfa) framhaldsskólanám. Hvað þá ef að ofan á það bættist kostnaður svo að eigandi gæti greitt sér arð úr rekstri skólans.

Það er eitt að hreinir einkaskólar geti greitt eigendum sínum arð (umræðan um hvort eðlilegt sé að reka menntastofnanir sem gróðafyrirtæki kemur kannski seinna). En að það sé yfirhöfuð leyfilegt að skólar sem engin rekstrargrundvöllur væri fyrir ef ekki kæmu til greiðslur úr sjóðum sveitarfélaga eða ríkis greiði eigendum arð skil ég engan veginn.