Greinasafn fyrir flokkinn: Skólatengt

Af hverju er ég á leiðinni í verkfall?

Ég skil þetta í alvörunni ekki.

Ég útskrifaðist sem leikskólakennari í vor. Ég er nýorðinn deildarstjóri og er að fara að taka á móti börnum í aðlögun í fyrsta skipti. En ég er einhvern veginn í lausu lofti af því að flest bendir til þess núna að þann 22. ágúst, eftir minna en tvær vikur, leggi ég niður störf í ótilgreindan tíma.

Ef að kröfur okkar leikskólakennara væru ósanngjarnar eða óeðlilegar þá gæti ég skilið það hvernig Samninganefnd Sveitarfélaganna (SS…öhh nei ok, SNS frekar) hefur dregið fæturnar í umræðunum. Þá gæti ég skilið það af hverju það er verið að hrekja stéttina í verkfall. En kröfurnar eru einfaldlega mjög eðlilegar og fullkomlega sanngjarnar.

Kristín Dýrfjörð útskýrir hér vel hver staðan er (önnur fín grein eftir Kristínu er hér). Leikskólakennarar brunnu í raun inni með sinn samning og eru því tveimur samningum á eftir viðmiðunarstéttinni grunnskólakennurum. Það sem stendur umfram í kröfum leikskólakennara sé miðað við aðra samninga sem gerðir hafa verið nýlega er auka 11% hækkun. Áfacebook-síðu Félags Leikskólakennara voru þessi skilaboð sett fram í kvöld (ég geri ráð fyrir að Haraldur F. Gíslason, formaður félagsins hafi sett þau inn):

Einföld krafa
Deilan snýst um 11% leiðréttingu á launum leikskólakennara vegna þess að við drógumst aftur úr viðmiðunarstéttum. Til að setja þessa 11% tölu í samhengi þá er hún ca. 15.000 kr. hækkun á laun leikskólakennara eftir skatt og launatengd gjöld. Það er varla ein ferð í Bónus.

Þetta er svo einfalt og sanngjarnt. Þess vegna skil ég ekki af hverju SNS, sem á endanum gerir það sem sveitarfélögin segir henni að gera, er að hrekja leikskólakennara í verkfall.

Sjálfskaparvíti borgarinnar

Í Mogga í dag er sagt frá því að leikskólakennurum fari nú fækkandi í leikskólum Reykjavíkurborgar. Af hverju ætli það sé nú?

Gæti það verið af því að borgin ákvað að hunsa óánægjuraddirnar sem upp komu vegna illa ígrundaðra niðurskurðaráætlana í leik- og grunnskólum? Að einhverjum hafi blöskrað að faglegi grundvöllurinn hafi verið ein rannsókn, framkvæmd af formanni starfshópsins sem lagði til niðurskurðinn, sem tók ekki til sambærilegra ytri aðstæðna? Að það hafi hleypt illu blóði í fólk að málið var ekki betur ígrundað en það að ekki lá fyrir hvað hver sameining myndi spara? Að það eina sem lagt hafi verið til grundvallar sameiningu skólastofnanna hafi verið landakortið en ekki hvort að þær hafi verið hugmyndafræðilega líkar?

En að þetta hafi verið gert á sama tíma og leikskólakennarar standa í kjaraviðræðum eftir að hafa verið samningslausir frá 2008? Gæti það hafa haft einhver áhrif á langlundargeðið?

Þegar ákvarðanir eru teknar verður að vega og meta hverjar afleiðingarnar geta orðið. Borginni var gert ljóst hverjar afleiðingar þessara aðgerða gætu orðið. Fórnarkostnaðurinn var augljós þeim sem vildu á annað borð vita af honum.

Sú staða sem blasir við borgaryfirvöldum í dag er algjörlega þeim sjálfum að þakka. Verði þeim að góðu.

Nýbakaður leikskólakennari

Nú get ég loksins breytt headernum á síðunni minni. Ég er ekki lengur skeggjaður leikskólakennaranemi heldur skeggjaður leikskólakennari. Útskrifaðist um helgina með 1. einkunn (7.88) frá Háskólanum á Akureyri. Ég get mælt heilshugar með því að fólk stundi fjarnám frá HA. Viðmót kennara og starfsfólks eru til fyrirmyndar og allt hefur staðist eins og stafur á bók varðandi námið.

Varðandi þetta með að ég skilgreini mig hér í header sem skeggjaðan leikskólakennara. Ég er ekkert rosalega upptekinn af því að ég sé karlleikskólakennari. Allavega ekki miðað við marga sem ég ræði við um þetta. Jújú, við erum fáir og jú auðvitað er gott og í raun nauðsynlegt að fólk af báðum kynjum starfi á leikskólum. Ég var hins vegar að mennta mig sem leikskólakennari, ekki sérstaklega sem karlleikskólakennari.

Ég var svo heppinn (eða sniðugur ef út í það er farið) að geta fléttað eitt af mínum helstu áhugamálum við námið í lokaverkefninu mínu. Verkefnið snerist um ljósmyndun í leikskólum og var tvíþætt. Annars vegar var um að ræða fræðilega ritgerð og hins vegar gerði ég kennsluvef. Ritgerðin er ekki enn komin inn á Skemmuna en kennsluvefinn getið þið skoðað hér. Ætlunin er að halda honum við og hyggst ég færa hann yfir á sitt eigið vefsvæði á næstu mánuðum. Að öllum líkindum fylgir þá bloggið mitt með á sama stað.

Það sem tekur við hjá mér er að ég held áfram að vinna á leikskólanum Fögrubrekku. Í haust mun ég taka við hóp af börnum sem flest eru fædd snemma árið 2010. Það er mjög spennandi verkefni. Fyrirkomulagið á leikskólanum Fögrubrekku er þannig að við hópstjórarnir fylgjum barnahópunum upp allan skólaferil þeirra þannig að ég mun ef allt fer að óskum eyða næstu fjórum til fimm árum með þessum börnum sem ég mun kynnast í haust.

Ég ætla einnig í framhaldsnám en ætla að taka mér alveg frí úr skóla fram að áramótum allavega til að ákveða hvaða braut ég feta í áframhaldandi námi.

Svo er ég líka kannski að fara í verkfall í ágúst en ég ákvað að sleppa því að fjalla um kjaramál í þessum pistli. Þau eru svo leiðinleg. En ég er bara glaður og ánægður nýútskrifaður leikskólakennari næstu dagana.

Leikskólinn og virðing pólitíkusa

Ef allt fer að óskum útskrifast ég sem leikskólakennari núna í sumar. Ég er að klára einn bóklegan áfanga auk þess sem ég er að gera lokaverkefni, en í því flétta ég saman ljósmyndaáhuga mínum við leikskólastarfið sem kannski má segja að sé köllun mín. Ég hef gríðarlega gaman af þessu starfi og mikinn áhuga, eins og líklega langflestir sem fara í námið. Enn hefur allavega ekki frést af leikskólakennaranemanum sem skráði sig í námið vegna launana sem það býður upp á að lokinni útskrift.

Stundum held ég að ánægja leikskólakennara með starfið sitt og sú staðreynd að þeim hættir til að setja hagsmuni barnanna ofar sínum eigin sé meðvitað nýtt gegn þeim af opinberum rekstraraðilum leikskóla. Hvaða aðrar ástæður gætu verið fyrir því að launin séu jafn fáránlega lág og þau eru? Af hverju ætla sveitastjórarmenn víðsvegar um landið sér að beita eggvopni niðurskurðar nú í kreppunni á stétt sem fékk ekki að taka þátt í góðærinu af neinu ráði?

Í mesta góðærinu gekk illa að manna flesta leikskóla víðasthvar á landinu. Á hverju hausti bárust fregnir af erfiðleikum í mannahaldi og því að leikskólar þyrftu að biðja foreldra um að halda börnum heima dag og dag ef veikindi voru meðal starfsfólks skólanna. Og áður en nokkrum dettur í hug að snúa veikindum upp á leikskólakennara þá eru þeir sá hópur á leikskólunum sem fæsta veikindadaga tekur.

Leikskólar reiddu sig á ófaglært starfsfólk sem að minni reynslu má skipta í tvo hópa. Annars vegar konur frá fertugu og upp úr sem staldra lengi við á hverjum stað og hins vegar ungt fólk sem annað hvort hefur hætt í menntaskóla eða er nýútskrifað. Fólkið í síðari hópnum getur yfirleitt ekki hugsað sér að ílengjast í leikskólastarfinu, þó að auðvitað gerist það líka. Ég er jú dæmi um það. Ekkert er fjarri mér en að efast um gæði og gjörvileika ófaglærða fólksins á leikskólum. Ég hef verið slíkur sjálfur í sex ár og ég hef unnið og vinn með hreint út sagt frábæru fólki sem ekki er með háskólamenntun í faginu.

En ef að búið væri að leikskólum og leikskólastarfinu af alvöru metnaði frá dyrum opinberra rekstraraðila þá væru skólarnir meira og minna mannaðir af faglærðu fólki og námið sömuleiðis fjölmennara en það er nú. Ég er í Háskólanum á Akureyri í fjarnámi. Ásamt mér munu heilir þrír nemendur útskrifast í sumar. Ef við teljum dagskólafólkið með nær þessi fjöldi e.t.v. upp í 15 nemendur.

Og þvílíka gleðiástandið sem býður okkar eftir útskrift. Afnám afsláttar af dvalargjöldum og annara fríðinda sem teljast til kjarabóta. Ófaglegar sameiningar og fækkun stjórnenda í Reykjavík þar sem ekkert raunverulegt samráð hefur verið haft við fagstéttir og engin veit hvaða áhrif munu hafa. Og launamálin. Já, við munum s.s. gangast undir kjarasamninga sem runnu út fyrir þremur árum. Verði ég ekki orðinn deildarstjóri munu mánaðarlaun mín skv. launatöflu hljóma upp á heilar 247.000 krónur.

———

Vitið þið hvað það versta við þetta allt saman er? Mér finnst alveg hundleiðinlegt að þetta sé það sem er ofan á í fjölmiðlaumræðu um leikskóla. Alveg hreint ömurlegt. Miklu frekar vil ég tala um hversu gaman það er í vinnunni minni. Hvernig það er þegar heill hópur af börnum hrópar nafnið manns í gleði þegar maður mætir eftir smá fjarveru. Hvað það er gaman að fylgjast með börnum að leik. Hláturinn, gleðina, sorgina, reiðina, fyrirgefninguna, sönginn, dansinn, fjörið og vináttuna. Og það mest heillandi og gefandi öllu, að fylgjast með barni öðlast nýja þekkingu og færni. Að sjá þegar „jaaaaaá svona er þetta!“ mómentið ríður yfir. Sigurinn!

En nei. Þökk sé því sem ég get eiginlega ekki kallað neitt annað en virðingarleysi sveitastjórnarmanna landsins þá er fókusinn í umræðunni á neikvæða hluti. Og verður því miður að vera það áfram ef menn neita að vakna.

So it goes.

Uppeldisfræði Jónasar Kristjánssonar

Jónar Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri og núverandi nöldrari skrifar um skokkarann sem gekk í skrokk á barni í Hveragerði. Jónar bíður ekki upp á að vísað sé beint í ákveðnar bloggfærslur frekar en annað sem tilheyrir góðum netsiðum eins og t.d. athugasemdir við greinar (fyndið að maðurinn sem hefur ítekað spáð netmiðlum sigri yfir prentmiðlum nýti sér ekki það helsta sem netmiðlarnir hafa fram yfir hina) þannig að ég tek mér það bessaleyfi að birta bloggið bara í heild sinni hér:

Uppeldi í Hveragerði
Í Hveragerði gerðu krakkar hróp að skokkara. Hann veitti einum þeirra hæfilega ráðningu. Ég legg til, að þorpið fái skokkarann til aðstoðar við siðvæðingu barna. Greinilega er hér dæmi um, að sum börn í Hveragerði fái ekki sæmilegt uppeldi. Það er úti af kortinu, að gerð séu hróp að fólki á almannafæri. Ég efast um, að slíkt þekkist annars staðar í Vestur-Evrópu. Systir mín skokkar í Florida og hefur í þrjátíu ár ekki orðið vör við hróp að skokkurum. Íslenzk börn eru sum hver ótrúlega illa uppdregin eða bara alls ekki. Skrítið, að fyrirsagnir fjölmiðla snúast um ósvífni skokkarans.

Hæfileg ráðning að mati Jónasar er að hávaxinn karlmaður á milli þrítugs og fertugs slái 12 ára barn í andlitið, grípi það kverkataki og keyri niður í jörðina.

Látum ofbeldisdýrkun Jónasar liggja á milli hluta í bili en förum yfir tvö atriði. Það fyrsta snýr að því að Jónas er á því að íslensk börn, eða allavega börn í Hveragerði, séu verr upp alin en önnur börn. Þetta virðist hann byggja á þessu eina atviki. Ég held að þetta sé kjaftæði. Það þarf ekki að lesa t.d. breska fjölmiðla lengi til þess að sjá miklu miklu miklu verri hegðun unglinga gagnvart fullorðnu fólki, allt frá áreiti til hreinna morða. Mér dettur hins vegar ekki í hug að álykta um hegðun breskra ungmenna almennt útfrá því sem ratar í fjölmiðla enda er fréttamat fjölmiðlafólks þegar kemur að börnum ákaflega brenglað.

Hitt atriðið sem mig langar að minnast á er það hvaða ráðningu börnum er veitt með ofbeldi. Nú eru líkamlegar refsingar bannaðar bæði skv. íslenskum lögum og Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem við höfum skuldbundið okkur til að fara eftir. Ein af stærstu ástæðunum fyrir því, fyrir utan auðvitað það að ofbeldi á aldrei að líðast, er sú að ofbeldi og líkamlegar refsingar skila yfirleitt aldrei þeim árangri sem leitast er eftir.

Ekki nema að Jónas vilji virkilega að við framleiðum börn sem búið er að brjóta niður andlega (reynslan af Breiðuvík var auðvitað mjög góð eða hvað?) eða þá börn sem læra að ofbeldi geti verið eðlileg lausn á vandamálum. Fyrir utan að verða líklegri til að beita sjálf ofbeldi geta börn sem verða fyrir ofbeldi orðið undirförul og reyna frekar að ljúga og blekkja til að hylma yfir hegðun sína.

En auðvitað á maður ekki að vera að eyða tíma í nöldrið í Jónasi. Mér bara blöskrar svo oft þessi fornu sjónarmið um að ofbeldi sé það eina sem virki á sum börn. Ég hélt í alvörunni að fólk væri búið að átta sig. Nóg eru nú fordæmin, bara hérna á Íslandi.

Leikskólarnir í lífi mínu

Í dag er haldið upp á Dag leikskólans á Íslandi. Flestir leikskólar héldu upp á hann á föstudaginn skv. ábendingu frá Félagi Leikskólakennara en einhverjir ákváðu þó að gera það eftir helgi. Leikskólarnir á Héraði ætla t.a.m. að gera sér dagamun á morgun heyrði ég frá stelpu sem er með mér í leikskólakennaranáminu. Ástæðan fyrir því að 6. febrúar varð fyrir valinu sem Dagur leikskólans er sú að þann dag árið 1950 stofnuðu 22 konur sem lokið höfðu námi við Uppeldisskóla Sumargjafar árið 1948 starfsmanna- og verkalýðsfélag sem var vísirinn að Félagi Leikskólakennara.

Uppeldisskóli Sumargjafar varð svo seinna Fóstruskóli Sumargjafar, hann varð svo að Fósturskóla Íslands árið 1973 og þá máttu karlar í læra fagið.  Sá fyrsti útskrifaðist svo 10 árum síðar og mér telst til að ég verði þrítugastiogeitthvað karlinn sem útskrifast með þessa menntun hér á landi. Fósturskólinn rann svo inn í Kennaraskólann sem breyttist svo í Kennaraháskólann. Fyrir stuttu varð svo til Menntavísindasvið HÍ og er gamli KHÍ hluti af því. Sjálfur er ég þó í Háskóla Akureyrar sem varð fyrstu til þess að bjóða upp á b.ed nám í leikskólakennarafræðum á Íslandi.

En nóg af upprifjun á sögu. Því miður halda margir leikskólakennarar upp á Dag leikskólans með þungum huga. Út um allt land standa fyrir sparnaðaraðgerðir sem fyrirsjáanlegt er að komi mismikið niður á faglegu starfi á leikskólum. Einna verst er staðan í Reykjavík eins og hefur varla farið framhjá þeim sem fylgjast með fréttum.

En í tilefni dagsins ákvað ég að búa til smá ljósmyndablogg. Ég fór út og myndaði alla leikskóla sem ég hef komið við í á ævinni, nema reyndar Fögrubrekku en ég átti fyrir fína mynd af henni.

Smáralundur, Hafnarfirði. Þar var ég sem þriggja til sex ára lítill patti. Hafði ekki komið í garðinn í 22 ár og hann hefur mikið breyst, enda stæðust líklega fæst leiktækin sem voru þar nútíma öryggiskröfur.

Hamraborg, Reykjavík. Fyrsti leikskólinn sem ég vann á. September til nóvember 2002. Þessi leikskóli er ansi vel falinn í Grænuhlíð. Ansi stór og fínn garður sem var verið að endurnýja og stækka þegar ég vann þarna.

Álfatún, Kópavogur. Desember 2002 til maí 2003. Skrýtnasta leikskólahúsnæði sem ég hef komið í. Er gamalt þriggja hæða einbýlishús sem fyrrverandi eigendur breyttu í einkaleikskóla. Garðurinn er meira og minna allur ein brekka. Ég var þarna fljótlega eftir að bærinn tók yfir reksturinn og mér skilst að skipulagið innandyra sé orðið betra en það var.

Fagrabrekka, Kópavogur. Eftir að hafa arkað um Kópavog og borið út póst í tæplega hálft ár hóf ég störf á Fögrubrekku í janúar 2005. Ég hef því unnið þar í rétt rúmlega sex ár. Fljótlega eftir að ég byrjaði varð mér ljóst að ég hafði áhuga á leikskólastörfum og hóf að líta á þau sem meira en tímabundið skemmtistarf (því ekki voru það nú launin sem löðuðu mann á leikskólana!). Haustið 2007 byrjaði ég svo í leikskólakennaranáminu í HA.

Bjarmi, Hafnarfirði. Þarna var ég í fjórar vikur í upphafi árs 2009 sem vettvangsnemi. Þetta er einkarekin ungbarnaleikskóli. Ekki stór en ansi skemmtilegur!

Marbakki, Kópavogi. Seinni vettvangsnámsskólinn. Var þarna í góðu yfirlæti í 10 vikur um haustið 2010. Lærði mikið og leið vel.

Og þannig er nú það.

Til hamingju með daginn starfsfólk, foreldrar, velunnarar (á borði, en ekki bara í orði) og síðast en ekki síst börn á leikskólum landsins!

Kæra Guðríður – Pressugrein

Ég á aðsenda grein á Pressunni í dag. Ákvað að birta hana hér líka:

Kæri formaður Bæjarráðs Kópavogsbæjar, Guðríður Arnardóttir

Ég ákvað að skrifa þér þetta opna bréf því að ég er svolítið hissa á þér. Nei, ég lýg því reyndar, ég er ekki „svolítið“ hissa. Ég er algjörlega forviða. Mér finnst nefnilega eins og þú haldir að ég og samstarfsfólk mitt séum ekki mjög vel gefin. Ég get fullvissað þig um að það er misskilningur.

Ég vinn á leikskóla í bænum. Og eins og annað starfsfólk leikskóla í Kópavogi varð ég mjög hissa þegar í ljós kom að bærinn ætlaði að leggja niður afsláttinn sem þau okkar sem eru svo heppin að eiga börn fá af dvalargjöldum leikskóla. Einhliða og án samráðs. Svona eins og þegar ákveðið var að bærinn myndi ekki gefa jólagjafir og að sumarlokanir leikskóla 2011 stæðu í fjórar vikur, en um þessar ákvarðanir fréttum við fyrst í gegnum fjölmiðla.

En „afgreiðsla“ þín á erindi leikskólastjóra í bænum vegna afnáms á afslætti á dvalargjöldum er það sem liggur helst á mér. Ég set afgreiðslu innan gæsalappa því að þú tókst þetta mál ekki til umfjöllunar í bæjarráði, var það nokkuð? Ó nei. Þegar kom að því að fjalla um málefni sem hvílir þungt á starfsfólki leikskóla í bænum heyktist þú á því og hengdir þig annars vegar í smáatriði og hins vegar mótsögn.

Smáatriðið er að leikskólastjórar séu skilgreindir sem millistjórnendur. Þannig var hægt að úthýsa þeim sem besta yfirsjón hafa yfir starf leikskóla í bænum án þess að taka mark á athugasemdum þeirra. Vel gert!

Hitt atriðið lýsir ekki mikilli virðingu fyrir starfsfólki leikskóla. Eftir að hafa fengið þau boð að ofan, án þess að geta haft neitt um það að segja, að afslátturinn skyldi afnuminn voru skilaboðin nú þau að ekki væri hægt að fjalla um erindi leikskólastjóra af því að þetta varðaði kjaramál sem bæri að meðhöndla við kjarasamningsborð!

Fyrirgefðu Guðríður en ég bara fæ þetta ekki til að ganga upp í hausnum á mér. Hvernig getur bæjarráð tekið einhliða ákvarðanir um kjarasamningsatriði? Eins og þið gerðuð reyndar í dag, 21. janúar? Mun það sama gerast þegar málið fer fyrir bæjarstjórnina sjálfa?

Ég verð að segja eins og er Guðríður að mér finnst þetta ekki lýsa mikilli virðingu í garð okkar leikskólastarfsfólks. Eins og þú sérð á þessu bréfi mínu og hefur vafalaust heyrt líka í bænum þá ríkir ekki beint mikil hamingja með þessa ákvörðun ykkar eða málsmeðferðina. Við gerum okkur grein fyrir því að niðurskurðar er þörf en það sem við köllum eftir er smá viðleitni í átt til samstarfs. Og samstarfið þarf að byggja á virðingu.

Egill Óskarsson

Leikskólakennaranemi og starfsmaður í leikskólanum Fögrubrekku

Fáránleiki Arnar Bárðar

Um daginn tók ég hér til kostana víðáttubilað greinarkorn eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem birst hafði í mogganum. Þar hafði Kolbrún eftir liggur við hverja einustu rangfærslu og fölsun sem boðberar ríkiskirkjunnar höfðu slett út í umræðuna (PR-taktík?) og bætti heldur í frekar en hitt. Séra Örn Bárður Jónsson er einn af þeim prestum sem mikinn hefur farið vegna hófsamra tillagna Mannréttindaráðs og í honum kristallast sú kenning margra að heiftin í mótbárum ríkiskirkjunnar sé til komin vegna ótta þeirra við að missa sinn stærsta markhóp (og í leiðinni stóra tekjulind) fái hún ekki áframhaldandi óheftan aðganga að leik- og grunnskólum til þess að boða trú og auglýsa tómstundastarf.

Sjónarmið Arnar Bárðar hafa komið fram annars vegar í útvarpsviðtölum (í einu slíku sletti hann því framan í stjórnarmann Siðmenntar undir lok viðtals að húmanismi væri aumasta trú sem til er, af sínum alþekkta kristilega kærleik og siðgæði) og hins vegar í greinum í Fréttablaðinu. Þar hefur Örn skrifast á við Guðmund Inga Markússon, trúarbragðafræðing og foreldri. Hér er fyrsta grein Arnar, hér svar Guðmundar, önnur grein Arnar og svar Guðmunar við henni er linkurinn í fullu nafni hans.

Nú hefur svo Örn Bárður bætt við enn einni greininni en það er ekki að sjá að hann hafi meðtekið neitt í góðum svörum Guðmundar. Þvert á móti færist Örn allur í aukana. Ég var að íhuga það að birta bara valda búta úr grein Arnar án athugasemda því að það er í raun voðalega litlu við málflutning hans að bæta í rauninni, hann dæmir sig alveg sjálfur. En á endanum varð úr að smá kverúlantaröfl fylgir gullmolum Arnar úr hlaði.

Þú spyrð um trúboð og hvar það fari fram. Svar mitt er: Alls staðar. Þess vegna verður ekki sett bann á það enda er skoðanafrelsi í landinu. Við verðum að treysta því á hverri tíð að þeir, sem koma inn í skóla til að kenna eða kynna eitthvað, geri það á fræðilegan og hlutlægan hátt.

Af því að trúboð fer fram allstaðar leggjum við trúarbragða- og kristnifræðukennslu í hendur kennara, ekki presta, imana, goða eða annara hagsmunaaðila trúfélaga. Kynningar eru í fínu lagi sem hluti af kennslu eins og tillögur Mannréttindaráðs benda raunar á. Þetta sér auðvitað hver maður að liggur beint við útfrá orðum Arnar. Nema reyndar Örn sjálfur.

Tilburðir Mannréttindaráðs minna mig á sögur eftir Búlgakov, Kafka og fleiri sem skrifuðu um fáránleikann í tilverunni. Miðstýrt vald sem leggur stein í götu borgaranna og heftir frelsi þeirra er alltaf á villigötum. Alltaf.

Alltaf já. Líka þegar alþingi semur sérstök lög sem leik- og grunnskólum ber að fara eftir. Og væntanlega líka þegar í þessum lögum kemur fram að leik- og grunnskólar eru bundnir af aðalnámskrám sinna skólastiga. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að Örn Bárður aðhylltist einhverskonar frjálshyggju-anarkisma, og tengi slíka hugmyndafræði reyndar ekki við ríkisrekna trúfélagið sem hann sjálfur starfar hjá. Ég sem leikskólastarfsmaður og verðandi kennari er reyndar mjög hrifin af hugmyndinni um sjálfstæði skóla en einhver mörk verða að vera.

Þú spyrð um mörk. Þau liggja um lendur traustsins og hvergi annars staðar nema fólk verði sett í bönd eins og Mannréttindaráð vill t.d. gera með presta. Markmið ráðsins mætti kannski umorða á tæpitungulausan hátt svona: Okkur skal takast að drepa þjóna drottins í dróma. Við ætlum okkur að hindra presta og einangra starf þeirra við kirkjuhúsin ein.

Þvílíkt dómadags væl í prestinum. Ef prestar fá ekki að stunda trúboð sitt í opinberum skólum þá er verið að einangra þá við kirkjurnar og þeir drepnir í dróma. Er þetta boðlegur málflutningur? Má biðja um smá heiðarleika í mónitor?

Þú nefnir dæmi um bænahald í skólum. Það gæti verið samkomulag foreldra þar sem öll börnin í einhverjum bekk eru skírð og öll í sömu kirkjudeild að þau leyfi kennara að hefja kennslu dagsins með bæn.

Það gæti líka verið samkomulag foreldra um að leggja 10 mínútum fyrr af stað í skólann, hittast fyrir utan skólastofuna og biðja saman þar. Af hverju er Erni Bárði svona mikið um að koma bænum og öðrum trúarathöfnum inn í skólastofuna? Af hverju má hún ekki bara vera vettvangur kennslu? Bænir eru auk þess ekki kennsla.

En ég hef heyrt um leikskóla þar sem tíðkast að hafa kyrrðarstundir með íhugun þar sem kenndar eru t.d. yogastellingar. Í mínum huga er það trúboð, austrænt að uppruna. Á að banna slíkt?

Ah. Ok. Þessi gaur.

Markmið Gídeonfélagsins er opinbert. Félagar þess vilja dreifa Nýja testamentinu til sem allra flestra enda er þeim bókin kær og dýrmæt.

Uhh já markmiðið er opinbert og má nálgast á heimasíðu félagsins. Að ávinna menn og konur fyrir Guð. Og dreifing NT í grunnskóla er aðferð til þess. Ég auglýsi aftur eftir heiðarleika.

Að dreifa Kóraninum, Mormónsbók eða ritum Votta Jehóva er alls ekki sambærilegt við dreifingu NT.

Nei, þær bækur tilheyra nefnilega ekki trúnni hans Arnar.

Þú spyrð: „Er það mismunun að allir nema tveir fari í kirkjuferð? Er það rétt, með velferð barnanna í huga, að skilja þau frá hópnum?“

Svar mitt er: Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín“, virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama.

Einmitt. Réttur barna þinna til þess að vera stillt upp við vegg trúarbragða sinna vegna er veigaminni en réttur kirkjunnar til þess að fá að stunda trúarathafnir með skólabörnum á skólatíma. Og það er lykilatriðið í þessu máli. Það er engin að banna neinum að eiga sína trú og rækja hana eins heitt og hann vill. Það er eingöngu farið fram á að slíkt sé ekki gert á vegum menntastofnanna og á skólatíma.

Örn Bárður réttlætir svo þessi mannréttindabrot með því að vísa til þess að í öðrum löndum verði trúfélaga hans að þola hið sama. Við eigum greinilega að hans mati ekki að sýna betra siðferði sem þjóðfélag. Sem er áhugavert.

Ég held að þetta blogg sé orðið nógu langt í bili. Örn Bárður eyðir svo restinni af grein sinni í að pönkast á Mannréttindaráði og ýja að því að Siðmennt hafi tekist að smygla þangað inn félagsmanni sem hafi hneppt aðra meðlimi þess í álög grimms húmanisma og virðingar fyrir mannréttindum. Hann gengur meira að segja svo langt að einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort að umræddur nefndarmaður eigi einhvern rétt að sækja á hendur Erni.

Það er allavega augljóst að Örn sækir innblástur sinn ekki í hinn margboðaða, en lítt stundaða, umburðarlyndiskærleik ríkiskirkjunnar. Hans siðferði á meira skylt við boðskap kirkjunnar aldirnar fyrir Upplýsinguna, sem er kannski sá tími sem margir kirkjunnar menn líta til með söknuði þessa dagana.