Greinasafn fyrir flokkinn: Tæknimál

Minnismiðar (UTN)

Ég rakst á ansi sniðugt forrit um daginn. Ég er þannig að mér finnst rosalega þægilegt að skrifa hitt og þetta niður hjá mér þegar ég er að vesenast í tölvunni og á netinu. Það er svona frekar óþægilegt að nota alltaf ritvinnsluforrit til þess auk þess sem að það er bara hægt að nálgast það sem í þau er skrifað í þeirri tölvu sem skjölin eru vistuð.

Evernote er sniðug lausn á þessu. Þetta virkar þannig að ég get bæði notað þetta sem forrit í tölvunni hjá mér og skrifað niður hina og þessa punkta og jafnvel hent inn myndum og annað og forritið samstillir (syncar) sig svo við svæði sem ég á hjá Evernote á netinu þannig að allt sem ég set þar inn er aðgengilegt í hvaða tölvu sem er svo lengi sem hún er nettengd.

Ég get alveg ímyndað mér að þetta gæti nýst kennurum, er maður ekki alltaf að fá einhverjar hugmyndir og detta inn á einhverjar sniðugar síður sem tengjast starfinu heimavið:)

Iphone og annað dót

Ég á ekki Apple/Mac tölvu og hef aldrei átt. Ég á heldur ekki Ipod. Og fyrr gerist ég styrktaraðili Sjöunda dags aðventista en að ég eyði mínum eigin pening í Iphone á hátt í 150.000. kr.

Þetta er ekki bara af því að mér finnst þetta hipp og kúl hype í kringum Apple seinustu ár ákaflega kjánalegt, þó að það sé reyndar alveg næg ástæða. Mér hefur bara aldrei fundist vörurnar frá þessu fyrirtæki það góðar að verðið á þeim, ömurleg þjónusta og varahlutir og jaðartæki sem kosta álíka mikið og bílavarahlutir  séu ásættanlegur fórnarkostnaður.

Ég hef átt nokkrar PC tölvur og alltaf hafa þær verið alveg nógu góðar fyrir það sem ég þurfti að gera. Ég hef átt mp3 spilara frá Creative sem var bara svona líka fínn og kostaði innan við þriðjung af því sem ódýrasta týpa af Ipod kostaði á þeim tíma. Hann var auk þess með SD kortum sem þýddi að ég gat skipt út minninu í honum eftir eigin geðþótta. Seinustu tveir símar sem ég hef átt hafa svo líka gegnt hlutverki tónlistarspilara.

Ég fatta alveg græjulosta. Ég þarf að beita sjálfan mig hörðu til þess að fara ekki fram úr mér þegar kemur að myndavélum og dóti þeim tengdum. En þá að því sem þessi færsla átti nú að fjalla um:

Hvað í jörðinni er að gerast í hausnum á þeim sem ætlar að selja Iphone á Íslandi á hærra verði en kostar að fljúga til útlanda og kaupa hann þar? Eru ekki þeir sem á annað borð eru það illa haldnir af græjulosta/Appleblæti að þeir bara ÞURFI að eiga Iphone að þeir myndu borga svona verð fyrir hann löngu búnir að útvega sér svoleiðis græju?

Svona nýtt eitthvað

Jæja.  Nýtt blogg. Kveð bloggspottið for gúdd held ég. Var ekki búinn að vera virkur þar lengi enda ekki verið í miklu skrifstuði upp á síðkastið, nema jú fyrir skólann. Ætla að sjá til hvernig þetta þróast hérna. Ætla þetta fyrst og fremst fyrir hugleiðingar, og ekkert endilega neitt sérstaklega langar hugleiðingar. Er annars bara að átta mig á þessu umhverfi. Lofa góðu.