Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Stormur

Í tilefni dagsins. Til að ná mestum áhrifum mæli ég með því að fólk kíki upp á Kjalarnes og öskri þetta út í vindinn þar.

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi´ um foldina fer,
þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér.
Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.

Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð,
með ólgandi blóði þér söng minn ég býð.
Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;
hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.

-Hannes Hafstein

Óþolandi væl í minnimáttar

Nú virðist aðeins hafa lægt í umræðunni um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um trúboð í menntastofnunum. Málið er í ferli og óljóst hvað kemur út úr því öllu saman. En ég hef verið að velta aðeins fyrir mér ákveðnum rökum þeirra sem vilja halda trúboðinu inni í skólum. Nánar tiltekið meirihlutarökunum sem kristallast í þessum orðum Arnar Bárðar Jónssonar:

Svar mitt er: Það hefur alltaf haft kostnað í för með sér að tilheyra minnihlutahópi. Þessi nálgun, „vesalings ég og börnin mín”, virkar ekki sannfærandi. Þú verður bara að kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífsskoðanir minnihlutans. Kristnir menn um allan heim verða að þola hið sama. #

Hvað er raunverulega verið að segja með þessum rökum? Er það ekki augljóst þegar við hugsum málið örlítið?

(mann)Réttindi minnihlutahópa eiga að vega minna en forréttindi meirihlutans.

Þetta finnst mér ekki fallegur hugsanagangur. En kannski erum við nú búinn að finna hið margumrædda kristilega siðgæði.

Að kjósa ekki

Ég er rétt kominn heim eftir að hafa skotist út og kosið. Ekki get ég sagt að það hafi verið fullt út úr dyrum niðri í Smára og fréttir af kjörsókn benda til þess að þetta hafi farið hægt af stað og enn sem komið er allavega ekki aukið hraðann. Ég veit svosem ekki hvað veldur. Ég er alinn upp við það að maður mæti á kjörstað þegar kosningar eru, þó ekki nema bara til þess að stinga auðum miða í kjörkassa. En eftir að ég komst til vits og ára hef ég hins vegar áttað mig á því að það getur alveg fólgist afstaða í því að sniðganga kosningar.

Ef maður tekur orðræðu þeirra sem vilja að eitthvað stórkostlegt komi út úr þessu þingi trúanlega eru þeir sem ekki kjósa annað hvort latir kjánar sem ekki eiga rétt á því að hafa skoðun á þjóðfélagsmálum ef þeir mæti ekki á kjörstað eða þá fulltrúar annarlegra sjónarmiða. Það er eins og þetta fólk  átti sig ekki á því að það eru einfaldlega ekki allir jafn sannfærðir um það þurfti í fyrsta lagi að breyta stjórnarskránni vegna þess sem gerðist fyrir og í hruninu, enda hafa ekki verið færð sterk rök fyrir því. Einnig getur fólk verið í vafa um ágæti fyrirkomulags stjórnlagaþingsins sjálfs, þess að breyta stjórnskipunarlögum í jafn óvenjulegu ástandi og nú ríkir, þess að hafa yfirhöfuð stjórnarskrá eða bara einfaldlega fólksins sem er í framboði.

Það geta s.s. alveg verið til gildar ástæður fyrir því að sitja heima. Þegar ofan á þetta bætist að velja þarf á milli 521 frambjóðenda finnst mér alveg morgunljóst að þeir sem á annað borð efist um ágæti stjórnlagaþings muni fæstir nenna að klóra sig í gegnum þennan hafsjó frambjóðenda.

Ég sjálfur telst til seint til þeirra sem binda miklar vonir við að stjórnlagaþingið og afrakstur þess muni skipta sköpum fyrir framtíðarhorfur þjóðfélagsins. Ég kaus af því að ég tek þátt í öllum kosningum. Mér nýtti mér DV og Sigtið auk græna listanns á Aðskilnaði til þess að finna frambjóðendur og hafði gaman að þessu, einfaldlega af því að ég hef almennt mikinn á huga á samfélagsmálum. Ég bind einnig vonir við að þarna takist allavega að hrinda af stað aðskilnaðarferli lúthers evangelíska trúfélagsins hér á landi við ríkisjötuna.

En að dæma þá úr leik í þjóðfélagsumræðunni sem ekki kjósa finnst mér ekki gáfulegt, hvað þá ef að í ljós kemur að minni en helmingur kosningabærra manna mæti á kjörstað. Þá er einfaldlega hættan á því að spilin snúist við.

383

Ég gæti trúað því að leikskólinn sem ég vinn á sé ekki ósvipaður í fermetrafjölda. Þar eru tæplega 70 börn og rétt rúmlega 20 starfsmenn.

Just saying.

Og af því að ég þarf pottþétt að taka það fram: ég hef enga skoðun á því hvort að um einhverja óráðsíu hafi verið að ræða. Mér hins vegar finnst ekkert að því að fjölmiðlar birti svona upplýsingar um fólk í stöðu Marinós og að hann sé full hörundssár.

Jóhanna dettur í nemendafélagsgírinn

Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur við gagnrýni stjórnarandstöðunnar á þingi í dag ollu mér heiftarlegu nostalgíukasti. Allt í einu fannst mér ég vera kominn aftur í menntaskóla hlustandi á stjórnendur nemendafélags svara gagnrýni.

Í mínum menntaskóla var það nefnilega þannig að allri gagnrýni á störf stjórnar nemendafélagsins var svarað með því að ef þeir sem gagnrýndu gætu bara boðið sig fram sjálfir ef þeir vildu að hlutirnir yrðu gerðir á annan hátt. Stjórnendurnir réðu nefnilega ekki nógu vel við gagnrýni. Vissulega hefði hún oft mátt vera betur sett fram og auðvitað brugðust sumir betur við. Og í dag lít ég til þessa tíma með hálfgerðri eftirþrá, þegar það gat skipt mann alveg ótrúlega miklu máli hvort að haldin væri 2 eða 3 böll á vorönn.

En ég hélt að fólk sem sæktist eftir frama í félagsmálum lærði með árunum að taka gagnrýni. En þessi ragmönun Jóhönnu í dag, manneskju sem hefur verið á þingi frá því áður en ég fæddist (og ég er s.s. orðin nógu gamall til að líta til menntaskólaáranna með eftirsjá), sýnir að það hefur líklega verið enn eitt ofmat mitt á öðru fólki.