Greinasafn fyrir flokkinn: UTN

UTN

Já! Ég þarf víst að láta í mér heyra varðandi Upplýsingatæknina öðru hverju.

Var að klára seinni hlutann af verkefni 2 svona bara af því að ég hafði ekkert betra að gera. Er ennþá aðeins að melta með mér hugmyndir um hvað ég á að gera í verkefni 5. Er nokkurn veginn búinn að móta mér hugmynd um hvernig mig langar að vinna verkefnið en ætlar að gefa mér smá tíma í viðbót að íhuga hvaða viðfangsefni ég ætla að velja mér.

Fyrir þá lesendur sem eru svo óheppnir að vera ekki nemendur í UTN0153 við Háskólann á Akureyri þessa önn þá snerist seinni hluti verkefnis 2 um að skrifa um úttekt einhvers samnemanda á grein um upplýsingatækni í skólastarfi (fyrri hlutinn snerist s.s. um að gera svona úttekt). Í verkefni 5 eigum við að gera myndband, helst fræðandi, um eitthvað viðfangsefni að eigin vali. Þetta er nokkuð frjálst, myndbandið má t.d. vera stop-motion eða samsett af myndum.

Mér finnst lang líklegast að ég noti EOS Utility forritið sem fylgir með EOS myndavélum frá Canon og láti það taka myndir af mér með föstu millibili við að gera eitthvað sem áhorfendur muni hafa gagn, og jafnvel gaman, að. Hvað það verður veit nú engin, vandi er um slíkt að forspá. En eitt er víst! Og svo framvegis.

Minnismiðar (UTN)

Ég rakst á ansi sniðugt forrit um daginn. Ég er þannig að mér finnst rosalega þægilegt að skrifa hitt og þetta niður hjá mér þegar ég er að vesenast í tölvunni og á netinu. Það er svona frekar óþægilegt að nota alltaf ritvinnsluforrit til þess auk þess sem að það er bara hægt að nálgast það sem í þau er skrifað í þeirri tölvu sem skjölin eru vistuð.

Evernote er sniðug lausn á þessu. Þetta virkar þannig að ég get bæði notað þetta sem forrit í tölvunni hjá mér og skrifað niður hina og þessa punkta og jafnvel hent inn myndum og annað og forritið samstillir (syncar) sig svo við svæði sem ég á hjá Evernote á netinu þannig að allt sem ég set þar inn er aðgengilegt í hvaða tölvu sem er svo lengi sem hún er nettengd.

Ég get alveg ímyndað mér að þetta gæti nýst kennurum, er maður ekki alltaf að fá einhverjar hugmyndir og detta inn á einhverjar sniðugar síður sem tengjast starfinu heimavið:)

Myndvinnsla (UTN)

Nú fer að líða að skiladegi fyrir verkefni 3 í UTN áfanganum og því eru kannski einhverjir farnir að huga að verkefni 4. Að öðrum verkefnum ólöstuðum er það verkefnið sem mér leist strax best á, enda snýst það um ljósmyndun og myndvinnslu. Bent er á forritin Gimp og Paint.net og ég get tekið undir að þau eru bæði mjög fín í því sem þau gera.

Svo fín eru þau reyndar, og þá alveg sérstaklega Gimp, að ég fullyrði að fyrir lang flesta ‘venjulega’ notendur eru þau meira en nóg og gera allar hugleiðingar um Photoshop algjörlega óþarfar. Ég sjálfur er tiltölulega nýfarin að nota PS og í rauninni er helsti kosturinn við það umfram hin forritin að með því fylgir innbygður RAW-converter, s.s. forrit sem opnar og leyfir mér að vinna svokallaða RAW-fæla úr myndavélum, en sækja þarf sérstaka viðbót (plug-in) til þess að slíkt sé hægt í Gimp og Paint.net. En þetta er eitthvað sem ég held að flestir notendur þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af.

Ég setti tengla í kennsluefni (tutorials) fyrir bæði Gimp og Paint.net á delicious fyrir ykkur sem eruð með mér í UTN ef þið hafið áhuga. Svo langar mig líka að benda á skemmtilega viðbót fyrir þá sem eru vanir viðmóti Photoshop en vilja prófa Gimp, þetta heitir Gimpshop og breytir viðmóti forritsins þannig að það líkist PS.

Foreldrar á Facebook (UTN)

Áfram rúlla bloggin vegna Upplýsingatækniáfangans.

Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér þessu með leikskólakennara (og jú grunnskólakennara) og foreldra varðandi Facebook. Ég nefndi hér í seinasta UTN bloggi þá hugmynd að hópar/deildir á leikskólum og bekkir í grunnskólum geti verið með lokaða hópa á Facebook en hvað með einka-aðganga kennara? Á maður sem kennari að samþykkja foreldra barna í umsjá manns sem vini á Facebook? Er maður þá ef til vill að fórna einhverju af frelsi sínu til vitleysisgangs utan vinnutíma?

Ég sjálfur er vinur nokkurra foreldra sem eiga börn á mínum vinnustað en í nær öllum tilfellum er þar um að ræða fólk sem ég þekkti fyrir og ef ekki það þá fólk sem ég treysti alveg til að gera greinarmun á vitleysingnum Agli Óskarssyni sem setur inn ótrúlega misgáfulega statusa og er stundum taggaður á djammmyndum og leikskólastarfsmanninum Agli Óskarssyni. En það er til fólk sem á erfitt með að gera greinarmun á kennurum innan og utan vinnustaðar.

Ég man eftir sögu sem kennari í einum áfanga sagði okkur í fyrra. Hún var (eða er jafnvel ennþá, er ekki viss) deildarstjóri á leikskóla. Einn daginn kemur foreldri til hennar svona frekar ósátt. Fjölskyldan bjó í sama húsi og starfsmaður á leikskólanum og um morgunin höfðu þau (foreldrið og barnið) séð starfsmanninn kyssa sambýling sinn innilega í kveðjuskyni (er ekki að tala um eitthvað öfgakennt, bara innilegur koss) og fannst nú ekki alveg í lagi að starfsmaðurinn gerði svona fyrir framan barnið sitt.

Deildarstjórinn útskýrði að kennarar eigi sitt einkalíf í friði og að svo lengi sem hegðun þeirra er ekki gegn lögum eða þeim mun ósiðlegri hefur það engin áhrif á þá í starfi. Auk þess sem að þetta er nú börnum varla skaðlegt að sjá fólk kveðjast innilega. Foreldrið tók þessum rökum og viðurkenndi að auðvitað væri þetta nú allt í lagi. En þetta er svona dæmi um að sumir gera kröfur til okkar sem störfum með börnum sem ganga lengra en bara það að standa okkur vel í vinnunni. Og það sem ég er aðallega að hugsa er hvort Facebook geti skapað einhver vandræði með það.

Hvað segja félagar mínir í UTN? Og aðrir?

Meira um Twitter (UTN)

Rakst hér á aðra síðu sem útskýrir Twitter og kynnir helstu viðbætur og möguleika sem hægt er að bæta við til að gera notkunina betri og skilvirkari.  Hvet þá lesendur mína sem eru með mér í Upplýsingartækninni að kynna sér þetta:)

Einhverjum fannst við nú þurfa að skrá okkur í og vinna í nógu mörgum mismunandi fyrirbærum þó að þetta bættist nú ekki við. Það er kannski eitthvað til í því en ég held að við sem erum að mennta okkur sem kennara verðum að hafa tvennt í huga: a) Þessi forrit og netfyrirbæri eru í dag og verða enn frekar í náinni framtíð stór hluti af daglegu lífi nemenda okkar. Kannski í minna mæli eftir því yngri sem þeir eru (ég sé nú kannski ekki alveg fyrir mér að verða með mörg börn úr leikskólahópunum mínum sem vini á Facebook eða fylgjendur á Twitter) en við getum alveg gert ráð fyrir því að þeir séu að einhverju leyti meðvitaðir um þetta. Í hópnum mínum á leikskólanum eru fimm ára gömul börn. Þau vita mörg hver hvað Facebook er þó að þau séu ekki skráð þar inn. Sum fá meira að segja að spila leiki í gegnum FB! b) Við sem kennarar getum án nokkurs vafa nýtt okkur þessi tæki til margra hluta. Ég hef nú þegar minnst á að hægt sé að nýta þau sem samskiptavettvang og til þess að benda kollegum á fróðlegt efni sem við sjáum á netinu. Annar hlutur sem hægt er að nefna er að bekkir í grunnskólum og hópar á leikskólum geta stofnað grúppur á Facebook sem foreldrar einir hefðu aðgang að. Þar væri bæði hægt að setja inn upplýsingar um hitt og þetta úr daglega starfinu auk þess sem þar væri kominn samskiptavettvangur fyrir foreldra.

Mér finnst allavega mjög gaman að hugsa um þessa hluti og reyna að sjá hvernig hægt er að nýta sér þá möguleika sem netið býður upp á í dag í kennarastarfinu:)

Twitter (UTN)

Hafði ákveðið að skrifa smá grein um Twitter en sá svo grein frá Þórarni Hjálmarssyni þar sem hann lýsir þessu betur en ég hefði gert.

Ég held að kennarar geti vel nýtt sér Twitter, og þá sérstaklega til að deila greinum og öðrum fróðleik sem þeir rekast á á netinu.

Þið finnið mig á Twitter hérna.

Skólablogg (UTN)

Á þessari önn verð ég í áfanga um Upplýsingatækni í skólastarfi. Vegna hans þarf ég að vera með blogg og þar sem ég er með þetta líka fína blogg hérna þá verður það bara samnýtt. Þannig að reglulega koma inn pistlar um upplýsingatækni tengdir áfanganum og mun ég setja þá í sérstakan flokk sem heitir UTN, auk þess sem ég merki það í titli.

Ég veit ekki hvort þið sem lesið þetta beint á Facebook sjáið þessar skilgreiningar þar inni en það er ekki mitt vandamál.

Og hananú!