Hvað hef ég verið að lesa?

Það er langt síðan ég hef skrifað um bækur á þessari síðu. Hef líka verið að lesa afskaplega lítið í vetur.

Í haust las ég Bókasafnslögguna eftir Stephen King. Fannst að ég yrði nú eiginlega að lesa hana fyrst ég væri í þessu námi. Bókin var alveg ágæt en ekki jafn skelfileg og ég bjóst við. Þess má geta í leiðinni að þetta er fyrsta Stephen King bókin sem hef lesið.
Það er alltaf gaman að sjá hvaða mynd rithöfundar draga fram af bókavörðum/bókasafnsfræðingum og í Bókasafnslöggunni var það ekkert sérstaklega fögur mynd…en frk. Lortz var nú samt nokkuð kúl 🙂

Ég fékk tvær íslenskar harmævisögur í jólagjöf, sem sagt Lindu og Ruth. Mjög keimlíkar sögur, helsti munurinn sá að Ruth á börn en ekki Linda. Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst gaman að lesa svona bækur en ég er alveg á þeirri skoðun að hvorug þessara bóka hefði samt átt að koma út núna, þær voru ekki tímabærar. Lok beggja bókanna er vorið 2002 og það er bara mjög stutt síðan, það er ekkert hægt að sjá neitt í skýru ljósi sem gerðist þá. Þær hefðu örugglega skrifað um þessa atburði á allt annan hátt eftir 10 ár. En alveg fínar bækur, mæli með þeim við þá sem hafa gaman af svona bókmenntum.

Eftir jólin las ég bók sem fékk í jólagjöf árið 1997, það var Óskaslóðin eftir Kristjón Kormák Guðjónsson. Ágæt bók sem fjallar um strák sem er í dópinu í Reykjavík. Fannst hálfskrýtið þegar ég las hana núna að ég hefði bara verið 14 ára þegar ég las hana fyrst.

Núna er ég að lesa Föruneyti hringsins eftir Tolkien, er enn sem komið er bara búin að lesa fyrsta kaflann en ég vona að ég endist í að klára hana og hinar 2 líka.

Nóg af bókum í bili…