Mínar síður:

Gamalt:

Theme:


20. desember 2004

JÓLApróf

Flokkað sem: Skólinn — Eygló @ 17:46

Ég er að fara í próf á morgun. Ég er hálfþunglynd yfir því. Mér finnst það mjög súrt að þurfa að vera að læra fyrir próf 20. desember. Eiginlega finnst mér Vopnafjörður, jólin og Svíþjóð vera hluti af einhverri fjarlægri draumsýn.

Mér er eiginlega bara orðið alveg sama um þetta próf, það fer aldrei verr en svo að ég þarf að lesa þetta aftur í ágúst og það er sem betur fer fjarlæg framtíð.

Jæja, það eru víst ekki nema 22 tímar í að þjáningum mínum ljúki. Best að vera duglegur við að þjást…

(Úff, talandi um lúxusvandamál!!!)

8. desember 2004

Harði diskurinn

Flokkað sem: Skólinn — Eygló @ 00:39

Ég óttast það að harði diskurinn í mér brenni yfir. Allavega er ýmissa líkamlegra einkenna farið að gæta…vona að andlegu einkenni fari ekkert að láta á sér kræla fyrr en eftir hádegi á morgun.

7. desember 2004

Barbieþátturinn

Flokkað sem: Sjónvarp — Eygló @ 18:00

Viltu gjöra svo vel að skila handklæðinu og sloppnum, þetta er úr setti!

Jibbý, sá uppáhaldsþáttinn minn af Baðkari til Betlehem.

5. desember 2004

Jólin og áramótin

Flokkað sem: Fjölskyldan — Eygló @ 01:17

Bráðum koma blessuð jólin og ég fer að hlakka til!

Ég get varla beðið eftir 22. desember…því þá flýg og heim í heiðadalinn. Það verður alveg svaðalega ljúft þó ég stoppi stutt í þetta sinn. Ég hlakka mest til að hitta mömmu og pabba, ömmu og afa og Ástu. En ég hlakka líka mikið til að sjá litlu hvolpana. Og svo hlakka ég auðvitað til að skreyta jólatréð, borða smákökur, möndlugraut, rjúpur, ís, hangikjöt og konfekt, opna pakka, lesa, fara í jólaboð og spila. Svo vona ég að það verði gott veður svo ég geti verið svolítið úti og farið í sund.

En það er ekki nóg með að ég sé að fara heim um jólin. Ég er líka að fara til Svíþjóðar um áramótin! Það verður örugglega mjög huggulegt. Veit svo sem ekkert hvernig sænsk áramót fara fram, en það kemur í ljós. Hlakka allavega mikið til að hitta Önnu og Haval.

Varð bara að koma þessu frá mér…því að ég get víst ekki verið að hugsa mikið um þetta, prófin koma nebblega fyrst….

Friends

Flokkað sem: Tónlist — Eygló @ 01:06

Áðan sendi ég SMS á Popptívi til að fá spilað lag. Það var lagið Friends með Scooter sem er frá 1995. Jibbý skibbý…hef nebblega aldrei séð myndbandið þrátt fyrir þráláta aðdáun mína á laginu.

2. desember 2004

Nátthrafn

Flokkað sem: Persónulegt — Eygló @ 02:50

Ég er nátthrafn!

Það er alveg merkilegt að þegar ég kemst í þá stöðu að ráða tíma mínum sjálf eins og t.d. á próftíð og í fríum þá dett ég alltaf í nátthrafninn. Þá er sama þó ég ætli snemma að sofa, það endar með því að ég sofna ekki fyrr en að ganga þrjú. Og þó ég ætli að vakna snemma þá sef ég til 12 minnst. Auðvitað með undantekningum 😉

Stundum byrjar „vinnudagurinn“ hjá mér ekki fyrr 10 á kvöldin og þá næ ég oftast góðri törn til klukkan 4 um nóttina.
Líklegast myndi henta mér best að sofa frá 4-12. Eiga svo quality-time með fjölskyldu og vinum og sinna hinu og þessu milli 12 og 8 og vinna svo milli 8 og 4.

Ég er að hugsa um að verða skáld…

We know woowoo

Flokkað sem: Tónlist — Eygló @ 01:06

Það er ótrúlegt hvað maður getur heyrt vitlaust.

Í laginu „Do they know it´s Christmas“ með Band Aid í enda lagsins syngja þau öll í kór. Mér fannst þau alltaf syngja „We know woowoo“. En þau syngja í raun „Feed the world“.
Ég hef semsagt verið að söngla þetta vitlaust í 19 ár. Ég er viss um að ég var byrjuð að söngla með laginu þegar ég var 2 ára því þetta er uppáhalds-útlenska-jólalagið mitt. Allavega það sem kemur mér í mesta jólastemmningu.

Grátbroslegt

Flokkað sem: Persónulegt — Eygló @ 00:22

Ég lenti áðan í grátbroslegum aðstæðum.

Við Óli fórum í 10 ára afmæli Þjóðarbókhlöðunnar. Þar var mikið af prúðbúnu fólki og ávörp og skemmtiatriði á dagskránni. Dagskráin byrjaði á því að tveir menn spiluðu saman, annar á saxófón og hinn á orgel eða hljómborð (svona er ég nú vel að mér í tónlist). Enginn söngur. Þegar þeir byrja að spila segir maðurinn við hliðina á okkur: „Þetta er nú bara eins og í kirkju“ og Óli segir á móti: „Í jarðarför jafnvel.“ Ég þekkti ekki lagið en það var frekar rólegt og alvarlegt.

Svo byrja þeir á næsta lagi og ég hugsa með mér: „Jæja, ætli þetta verði nú ekki eitthvað meira djollí“ En í þetta sinn þekkti ég lagið. Þetta var Draumalandið. Það er jarðarfararlagIÐ! Lagið sem ég á svo erfitt með að heyra því að það minnir mig bara á Guðmar og Ingu. Ég átti því gríðarerfitt með að höndla þetta. Það láku svona eins og tvö tár en ég brosti líka allan tímann og þegar laginu lauk fékk ég næstum því hláturkast hvort sem það var nú af taugaveiklun eða því sem Óli hafði sagt þegar þeir voru að byrja að spila.

…því þar er allt sem ann ég, þar er mitt Draumaland.