Leikhús og djamm

Fór að sjá Carmen í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Hún var ekkert spes. Ekki alslæm þó. En þetta var falleg umgjörð um lítið efni. Söngurinn var líka ekkert spes…sem er slæmt því þetta er söngleikur. Ég lét það meira að segja eftir mér að dotta í smástund.

Svo fór ég í partý til Oddnýjar og Dísu. Þar sá Hildur um veitingar, súkkulaðiköku og ávaxtafondú. Mjög gott. Ég reyndi að drekka hvítvínið mitt en það var voðalega vont. Fór einmitt í Vínbúðina í gær til að kaupa uppáhaldshvítvínið mitt sem mér hefur alltaf fundist bragðgott og veita góð áhrif en ég get svarið að þetta var bara skemmt. Nema ég sé komin með ofnæmi fyrir hvítvíni (líklegt!).
Ég prófaði Singstar. Var ekkert góð eins og við var að búast en þetta var samt gaman.

Svo var haldið í þennan blessaða bæ. Fórum á Hressó og hittum þar fólk sem ég þekkti einu sinni. Dönsuðum slatta, sem var gaman þangað til að það kom ógeðslega löng rispa af leiðinlegum lögum. Svo bætti ekki úr skák að strákur datt á mig þannig að bjórglasið sem ég hélt á lenti í tönnunum á mér og braut smá horn af annarri framtönninni (sést lítið en er mjög óþægilegt) og megnið af bjórnum fór yfir mig. Þar sem að ég er frekar hvatvís þegar ég er á troðnu dansgólfi gerði ég mér lítið fyrir og skutlaði restinni af bjórnum yfir strákinn sem datt á mig (held allavega það hafi verið hann). Svo fór ég nú bara heim fljótlega eftir það. Skil ekki hvernig fólk meikar bæinn lengur en til fjögur. Kannski að einhverjir hafi gaman af því að vera þarna 😉

Dagurinn í dag hefur svo verið algjör letidagur. Bara búin að vera að hanga og lesa, glápa á TV, tala í símann og þvo þvott. Ágætt bara. Stefni að því að afreka eitthvað á morgun.