Helgin

Helgin hjá mér var mjög góð.

Hélt ljómandi gott stelpupartý hérna heima á föstudagskvöldið. Var með opinn bar (þar sem áfengi á það til að safnast upp hjá mér) en annaðhvort var magnið svo mikið eða stelpurnar svo penar að ég sé fram á að geta haldið mörg partý áður en áfengið klárast. En það er svosem ekkert nema jákvætt enda stendur til að endurtaka þetta við tækifæri 🙂 Eftir mikið spjall og drykkju var svo haldið á Hressingarskálann (hvenær skyldi ég ná að djamma annarsstaðar en á Hressó?).

Á laugardaginn hafði ég það svo bara náðugt heima. Um kvöldið hélt ég svo í pizzu- og evróvisjónpartý til Guðrúnar og Friðbjörns (vina Svenna bró og Hrannar). Þar var Hrönn mágkona og fleiri úr árgangi ’77 úr Nesskóla (t.d. tveir mjög öflugir bloggarar). Evróvisjónið var hæfilega hallærislegt eins og venjulega en þær Ólína og Lilja Fanney fengu þó meiri athygli en söngstjörnurnar…enda kunnu þær mun fleiri partýtrix en evróvisjónliðið 🙂

Sunnudagurinn var svo voða rólegur. Skruppum aðeins í Smáralind og eyddum næstum engum peningum. Svo hitti ég Hrönn á Culiacan og við fengum okkur mexíkanskan. Um kvöldið horfði ég á Allir litir hafsins eru kaldir (missti ég af einhverju eða kom einhver skýring á titlinum) og fannst þetta bara ljómandi góð þáttaröð. Svo gerði ég mér lítið fyrir og tók til í öllum fatahirslum heimilisins og baðskápunum. Það var ljómandi skemmtilegt og auðvitað komst ég að því að ég á fullt af fötum!