Í sveitinni

Þá er ég komin í sveitina. Flaug hingað á föstudaginn í ágætis flugveðri. Þegar ég lenti á Vopnafirði brá mér samt pínu, það var allt á kafi í snjó! Það er búinn að vera skítakuldi og snjókoma alla helgina og mér skilst að það sé síst að batna. Ekki alveg nógu hagstætt að þurfa að hafa allt féð inni með lömbin í marga daga og jafnvel vikur. En það er samt alltaf gaman að sauðburði.

Ég geng alltaf í barndóm þegar ég kem í sveitina. Um þessar mundir er ég 4 ára ef marka má bókaúrvalið á náttborðinu; Pönnukökutertan, Margrét litla er lasin, Við sem vinnum verkin og Smjattpattarnir fara á ströndina og halda veislu. Dró fram nokkrar vel valdar barnabækur úr hillunni og allar hafði ég fengið að gjöf þegar ég var 4 ára (allar vandlega merktar með nafninu mínu, þeim sem gaf, tilefninu og árinu), nema Smjattpattana þá átti Svenni bró. Yndislegt að lesa þessar bækur aftur.