Árið 2006

Árið 2006 er senn á enda. Þetta ár fór bara nokkuð vel með mig, svona megnið af því allavega. Það byrjaði í Grýtubakka 18 með Óla, Önnu Steinu og Ásgeiri og það endar á Rauðhólum með mömmu og pabba. Það voru engir stórir áfangar í lífi mínu á þessu ári (enda bæði ný íbúð og háskólaútskrift á síðasta ári) en samt var það viðburðaríkt.

Hápunktar ársins voru tvær utanlandsferðir. Við Óli fórum saman til Skotlands seinnipartinn í apríl. Vorum bæði í Glasgow og Edinborg og fórum einnig út á land í Skotlandi og skoðuðum m.a. Loch Ness. Þetta var yndisleg ferð og við áttum góða daga. Ég fór svo með þjóðfræðinemum til Svíþjóðar í byrjun ágúst. Fyrst vorum við í nokkra daga í Stokkhólmi en héldum svo til Gotlands. Það var líka yndisleg ferð með skemmtilegu fólki sem var gaman að kynnast betur.
Vonandi fer ég fljótt aftur bæði til Skotlands og Svíþjóðar.

Ég var nokkuð dugleg við að fara austur á land þetta árið. Fyrst fór ég til Norðfjarðar í febrúar yfir helgi m.a. til að skoða nýrisið hús Svenna bróður og Hrannar. Svo fór ég á Vopnafjörð í sauðburð í lok maí. Kom aftur í júlí á Vopnafjörð og fékk þá að fara í smá heyskap sem mér fannst afskaplega gaman, fór líka á ball í Miklagarði og hafði gaman af. Í lok ágúst féll elsku Unnur frænka frá og ég fór austur á Norðfjörð til að vera við jarðarförina hennar. Náði í leiðinni að hitta ættingjana og fara í berjamó, en það hafði ég ekki gert í mörg ár (fara í berjamó semsagt). Og er nú aftur á Vopnafirði í langri jólaheimsókn.

Það var mikil gleði í lok júlí þegar Svenni bróðir tilkynnti mér að ég væri að verða föðursystir. Hrönn mágkona á von á sér undir lok janúar. Þá verð ég virðuleg uppáhaldsfrænka, geri ég ráð fyrir 🙂

Nú er að ljúka fyrsta heila árinu sem ég er vinnandi manneskja. Ég er að vinna hjá Borgarbókasafninu og kann því yfirleitt vel. Mér líkar svo vel að vera „bara“ að vinna að ég hætti í námi í Opinberri stjórnsýslu sem ég byrjaði á í haust. Mér finnst ágætt að hafa kvöldin og helgar lausar fyrir það sem mig langar mest að gera þá og þegar.

Ég fékk stjörnusjónauka í afmælisgjöf og notaði hann töluvert síðasta vetur og vor. Hef ekki enn komið mér út með hann í haust en er alltaf að lesa mér til og kíkja í Almanakið sem er biblía þeirra sem hafa áhuga á gangi himintunglanna. Heimurinn er stórkostlegur.

Ég varð formlegur meðlimur í Vantrú á árinu og fór að stunda samkomur þess félagsskapar. Í nóvember var ég kosin í stjórn félagsins og er þar virðulegur meðstjórnandi. Þetta er skemmtilegur félagsskapur með fallegar hugsjónir.

Í nóvember gerðist ég líka svo fræg að ganga í stjórnmálaflokk. Vinstri-græn urðu að sjálfssögðu fyrir valinu. Í byrjun desember tók ég svo þátt í því að velja fólk til að sitja á lista fyrir næstu Alþingiskosningar. Go Katrín, Auður og Steinunn 🙂

Árið átti líka sína lágpunkta en ætli ég fari nokkuð nánar út í það hér.

Það sem stendur upp úr er allt fólkið sem deildi árinu 2006 með mér. Vinir, ættingjar, vinnufélagar og kunningjar. Þið eruð frábær og ég hlakka til að hitta ykkur öll á nýju ári.

Vonandi ber árið 2007 eitthvað gott og skemmtilegt með sér fyrir okkur öll.

Gleðilegt nýtt ár!
…takk fyrir það gamla 🙂