Helgin

Þá er helgin að baki. Virkilega skemmtileg en voðalega er ég samt eitthvað þreytt.

Borðuðum með Svenna, Hrönn, Frey og Bryndísi á fimmtudagskvöldið. Mjög gaman að hitta þau og Freyr var svo tillitsamur að brosa til mín 🙂

Fór á ráðstefnu í tilefni 50 ára afmælis kennslu í bókasafns- og upplýsingafræði á Íslandi á föstudaginn. Margir skemmtilegir fyrirlestrar og skemmtilegt spjall í öllum löngu tengslanetshléunum.

Fór í vísindaferð í Framsóknarflokkinn á seinnipartinn á föstudaginn. Það var ljómandi skemmtilegt og hvítvínið rann svo sannarlega ljúflega (og hratt) niður. Það voru líflegar umræður og Jónína Bjartmarz staðfesti að Framsókn er ekkert að fara að halla sér til vinstri í vor og heyrðist mér á öllu að Framsókn vildi helst taka upp slagorð Sjallanna; Stétt með stétt. En þetta var virkilega skemmtilegt, enda er ég mikil áhugamanneskja um pólitískar umræður (og hvítvín).

Svo var hátíðarkvöldverður með bókasafns- og upplýsingafræðingum. Þriggja rétta máltíð á Hótel Sögu í góðum félagsskap (og meira hvítvín!).

Náði í ömmu og Ástu Hönnu á flugvöllinn um hádegi á laugardaginn. Borðuðum í Norræna húsinu ásamt Svenna og Frey (sem var reyndar nýbúinn að fá sinn hádegisverð). Þær voru að sjá Frey í fyrsta sinn.

Í gærkvöldi var matarboð hjá Halla bókasafns- og upplýsingafræðingi. Þar var ég í þeirri skemmtilegu stöðu að vera eina stelpan með fjórum karlkyns bókasafns- og upplýsingafræðingum (Nilli hefur reyndar engan rétt á bera þennan fallega titil en starfar samt sem slíkur). Það eru ca. jafnmargir karlmenn og voru á hátíðarkvöldverðinum á föstudaginn, nema hvað þar voru líka 75 konur! Því miður komst Hjördís ekki en vonandi getur klíkan hist öll í einu fljótlega. En hvað um það þetta var þriggja rétta máltíð sem er einhver sú besta sem ég hef fengið lengi (Hótel Saga átti aldrei sjens í þessa máltíð) og hvítvín og rauðvín eins og maður gat í sig látið. Frábært kvöld í góðum félagsskap. Er ekki bara málið að stofna matarklúbb? (og borða alltaf hjá Halla 😉 )

Í dag fór ég með ömmu í hádegismat í Bakarameistarann og svo í Kringluna. Keyptum ekkert nema Biblíu. Svo var haldið á Langholtsveginn til Gullu. Alltaf gaman að koma þangað. Amma var semsagt „au-pair“ hjá Gullu árið 1952 og pabbi bjó hjá henni einn vetur ca. 1973.

Kvöldið fór svo bara í afslöppun og tiltekt.

Vinnuvikan er framundan.