Ný ríkisstjórn

Jæja, þá erum við búin að fá nýja ríkisstjórn.

Ég hef áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bæði menntamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið á sinni könnu. Ég er ein af þeim sem tel að allir eigi rétt á menntun og heilbrigðisþjónustu. Ég óttast að ef áform Sjálfstæðisflokksins um frekari einkavæðingu innan þessara málaflokka nái fram að ganga hafi sumir meiri rétt en aðrir.

Mér finnst Guðlaugur Þór ekkert hafa að gera í heilbrigðisráðuneytið. Illskrárri kostur hefði verið Ásta Möller. Hún hefur að minnsta kosti þekkingu og áhuga á þessum málaflokki. Guðlaugur Þór hefur bara áhuga á völdum.

Það er skandall að Björn Bjarnason sé enn við völd í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hvað þarf til að koma þessum manni frá? Fer hann ekki að komast á ellilaun? Enn meiri skandall er að hér sé yfirhöfuð kirkjumálaráðuneyti.

Geir er vinalegur en ekki traustsins verður.

Mér finnst það ekki byrja gæfulega fyrir landbúnaðarmálin hjá þessari ríkisstjórn. Fyrsta skrefið til að leggja niður íslenskan landbúnað felst í því að sameina landbúnaðarráðuneytið við sjávarútvegsráðuneytið.

Ég hefði viljað sjá fjármálaráðuneytið fara yfir til Samfylkingar.

Ágúst Ólafur er ekki metin að verðleikum innan síns flokks. Nú ætlar Ingibjörg bara að vera í útlöndum og láta Ágúst Ólaf sjá um skítverkin fyrir sig, samt verður hann bara varaformaður áfram.

Ég er ánægð að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur í félagsmálaráðuneytinu aftur. Held að hún eigi eftir að gera góði hluti þar.

Ég veit ekki hvað mér að finnast um að búið sé að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í tvennt. Vonandi standa þeir við að styðja við sprotafyrirtæki. Vonandi þýðir þetta ekki að áliðnaðurinn komi til með að verða svo viðamikill á næstu árum að sérstakan ráðherra þurfi til að halda utan um hann.

Þórunn verður vonandi betri í umhverfisráðuneytinu en Jónína og Siv.

Ég er ánægð með að fá Kristján L. Möller í samgönguráðuneytið. Enn ánægðari var ég með að sjá Alla oddvita og Óla langa taka Kristján á eintal í beinni útsendingu aðeins örfáum mínútum eftir að tilkynnt var að hann yrði samgöngumálaráðherra. Vonandi þýðir það að hans fyrsta verk verði að klára veginn til Vopnafjarðar og bora gat í gegnum Hellisheiði.

Það olli mér vonbrigðum að Sjálfstæðisflokkurinn yki ekki hlut kvenna í ríkisstjórn en það kom þó ekkert sérstaklega á óvart. Virðist vera merkilega erfitt að finna hæfar konur innan þess flokks. Mér finnst það alltaf jafn niðurlægjandi fyrir aumingja ungu sjálfstæðiskonurnar þegar þær koma fram og segjast bara vilja sjá hæfasta einstaklinginn fá embættið. Við ungar vinstri grænar viljum það líka, en af einhverjum ástæðum eru miklu fleiri hæfar konur innan okkar raða, tilviljun?