Gengi og gjaldeyrir

Hvað þýðir það þegar eitt pund kostar 390 krónur, ein dönsk króna kostar 40 krónur og ein evra kostar 300 krónur samkvæmt erlendum mörkuðum? Sjá t.d. Forbes. Virkar þetta þannig að ferðamenn sem koma til landsins eru að borga fyrir vörur á þessu erlenda gengi? Gengið sem Seðlabanki Íslands gefur út er u.þ.b. helmingi lægra. Lifum við bara inní einhverri sápukúlu sem er á leiðinni að springa? Ég er reyndar orðin svo dofin að mér finnst bara fínt að danska krónan sé 20 krónur miðað við SÍ, og kannski væri bara fínt ef það væri raunvirði.

Hvenær komumst við út úr þessari gjaldeyriskreppu? Er eitthvað að gerast sem getur hjálpað okkur? Rússar eru voða vinalegir og bjóða í kaffi en hvað fáum við út úr því? Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er tilbúin að hjálpa okkur eitthvað, en hve mikið og hvaða skilyrði verða sett fyrir þeirri hjálp? Einhversstaðar heyrði ég líka að sú hjálp dygði ekki til. Fyrir viku síðan fékk ég alveg í magann yfir þeim orðrómi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þyrfti að koma okkur til bjargar. Núna er það löngu orðin staðreynd að það er verið að ræða við þá. Hvað þolum við þessa gjaldeyriskreppu lengi?

Ég er ekki farin að finna fyrir efnahagsástandinu á eigin skinni. Við Óli höfum bæði vinnu og höfum nóg að bíta og brenna…ennþá. Það er þessi lúmska óvissa í loftinu sem er að plaga mig. En inná milli tek ég smá Heri á þetta – Mér er skítsama!