Ég sakna Íslands

„Þú verður komin tilbaka eftir ár.“

Þetta sagði nágranni minn við mig, daginn sem ég sagði honum að ég væri að flytja til Noregs. Nú af hverju heldurðu það? Spurði ég.

Því Noregur er ekkert betri. Fólk er með draumóra og áttar sig svo á því að þetta er ekkert betra en Ísland og kemur heim með skottið á milli lappanna.

Það er rétt. Noregur er ekkert betri með sína heilbrigðisþjónustu, skólakerfi, laun eða sól. Varð að minnast á sólina þar sem veðrið hefur líka vissulega sín áhrif á því af hverju ég kýs að vera hérna frekar en á Íslandi.

Það er alltaf jafn einkennilegt að búa í landi þar sem ég get leigt húsnæði í lengri tíma án þess að hafa áhyggjur, og þó ég yrði að finna mér nýja íbúð þá er það ekkert mál. Nóg af húsnæði i boði; og á viðráðanlegu verði. Niðurgreiddar tannréttingar sonar míns, ókeypis tannlækningar fyrir börnin mín og niðurgreidd tannlæknaþjónusta fyrir sjálfa mig vegna sjálfsofnæmissjúkdóm. Nei það er rétt, ég hefði það örugglega betra á Íslandi.

Ég sakna Íslands. Ég sakna þess ótrúlega að fá ekki heimilislækni og þurfa því að bíða tímunum saman á læknavaktinni ef börnin mín eða ég urðu veik. Ég sakna þess mjög að borga himinháa húsaleigu og missa húsnæðið því það varð selt ár hvert. Ég sakna þess líka að komast ekki til tannlæknis því ég hafði ekki efni á því.

Það var ótrúlega skemmtilegt að vinna fulla vinnu en samt ekki ná endum saman. Ég þarf þó ekki að sakna verðbólgunnar. Því ég fæ að njóta hennar til fulls vegna námslána, sem betur fer er ég þess heiðurs aðnjótandi að borga námslánin mín margfalt tilbaka og með útreikningum LÍN í dag verð ég búin að greiða þau niður þegar ég er 81 árs. Það er náttúrulega bara dásamlega skemmtilegt! Mikið betra en hérna í Noregi þar sem hluti námslánana breytist í styrk og þau hækka ekki ár hvert, Norðmenn gætu nú alveg tekið okkur Íslendinga til fyrirmyndar. Enda erum við best. Líka fallegust.

Ég heimsótti Ísland síðastliðinn Janúar og fékk deja vu. Ekkert hefur breyst. Þetta var eins og að ferðast 5 ár tilbaka. Ríkisstjórnin er ennþá rugluð, fjármálin eru ennþá hræðileg, fólk er húsnæðislaust eða þeir sem eru nógu heppnnir geta búið með foreldrum/ættingjum; hinir þurfa að éta það sem úti frýs, heilbrigðiskerfið gefur mér hroll og veðrið er hræðilegt (varð að hafa veðrið með aftur, við urðum nefnilega veðurteppt í Hveragerði í 5 tíma).

Nei minn kæri nágranni, ég kem ekki aftur „heim“ og kom ekki heldur heim eftir ár.

5 ár – 1/8 2013

Í dag eru liðin akkúrat 5 ár síðan ég flutti til Kristiansand. 1. Ágúst 2013.

Tíminn er í raun og veru svo ótrúlega afstæður. Mér finnst eins og það séu ár og aldir síðan ég var búsett á Íslandi, næstum svo langt að ég man varla eftir því. Stjarnfræðilega langt. En það eru bara 5 ár. Á þessum 5 árum hefur lífið  breyst svo mikið að þetta hljóta að vera 15 ár en ekki 5.

Ég veit þetta er klisja, en sönn klisja. Hvar voruð þið fyrir 5 árum? Hver voru plönin ykkar?

Fyrir 5 árum ákvað ég (var algjörlega handivss um) að mín biði eitthvað meira i Noregi. Ég vissi ekki hvað en ég var bara handviss, ég fann það í öllum líkamanum að mér var ekki ætlað að vera á Íslandi. Ég gat ekki útskýrt það öðruvísi en að ég var bara viss. Út var mér ætlað. Ég var með allt planað, ekkert fór þó sem planað sem sýnir manni bara að það er ekki hægt að plana lífið, lífið bara gerist.

Þú getur haft plan sem þú reynir að fara eftir, en það eru svo margar breytur sem þurfa að standast til að planið haldi sér. Litið tilbaka þá fór bókstaflega ekkert eftir mínu plani. Mjög hamingjusöm í dag þó, sýnir mér líka hversu gott það er stundum bara að draga djúpt andann og læra að dansa í rigningunni.

Hvar ætli við verðum 1/8 2023?

 

Long time no see – og Vegan Baka uppskrift!

Já. Ég hef ekki skrifað hérna inn i meira en tvö ár. Það er merkilegt hversu mikið lífið getur breyst á tveimur árum. Síðasta færsla var um að ég upplifði mig týnda. Það skemmtilega við það er að fyrir um það bil 5 vikum síðan sagði ég einmitt við unnusta minn að í fyrsta sinn í lífinu þá upplif’ði ég mig ekki týnda, það væri komin einhvers konar ró inní mér sem ég hef aldrei upplifað áður. Einhvers konar innri ró sem er eiginlega bara dásamleg. 26. Júní kom og fór eins og allir aðrir dagar ársins án þess að hafa nein áhrif á mig. Merkilegt hvað lífið getur verið breytilegt.

En þessi færsla átti ekki að vera um það. Heldur ætlaði ég að skrifa um mat og næringu, og setja inn uppskrift af bestu vegan böku sem ég hef smakkað. Ég var ein af þeim sem sagði; „Vegan? Ég? Nei það gæti ég aldrei. Ég elska kjöt alltof mikið.“

Í alvöru? Hvernig er hægt að vera svona blindur? Ég bara skil ekkert í mér fyrir að hafa ekki gert þetta fyrr. Sem betur fer leið allavega ekki lengri tími en þetta.

En hér kemur þetta. Besta vegan baka sem ég hef smakkað og ótrúlega einföld. Það eru tveir Vegan bloggarar i uppáhaldi hjá mér. Það eru The Minimalist Baker  og Veganmisjonen   Þessi baka er uppskrift frá Veganmisjonen og má finna hér ég fylgdi uppskriftinni með botn og svo hrærunni með kjúklingabaunamjöl (gram flour) og matreiðslurjóma frá Oatly. En svo er nefnilega hægt að fylla með því sem maður vill. Best er að byrja á því að forhita ofninn til 225 gráður.

Botn:
140g venjulegt hveiti
1/2 tsk salt
50g vegan smjör
1/2 dl vegan matreiðslurjómi (t.d. frá Oatly)

Aðferð:
Blandið öllu saman i eina skál og hnoðið í dag. Fletjið út í form (þarft ekki að spreyja formið eða setja olíu).

Hræran (hún er fljótandi en stífnar við bakstur, alveg eins og eggjahræra!):
2 dl kalt vatn
1 dl vegan matreiðslurjómi
130 g kjúklingabaunamjöl (e. gram flour)
1 msk lauk krydd
1 msk grænmetisteningur (ég notaði fljótandi)
1 tsk þurrkuð basilíka

Aðferð:
Öllu hrært saman og hellt ofan í bökuna.

Fylling:
Það er hérna sem þið getið bara sett i akkúrat það sem ykkur lystir. Ég fyllti mína böku með
1/2 Zucchini (kúrbít) skorin í teninga
1 gulrót skræld niður
2 stórum sveppum niðurskornum
1 radísu
1 skalottlauk
2 msk af niðurskornum vorlauk

Svo er bara að setja bökuna inn í ofn í 20 mínútur við 225 gráður og VOILA!

Hægt er að finna mig á instagram undir nafninu freyjabua þar sem ég set gjarna inn myndir af mat ásamt uppskrift af og til 🙂

Eilífðarbaráttan og skömmin

Ég hef skrifað frekar opinskátt um mína reynslu, tilfinningar og innri baráttu. Ég hef meðvitað ákveðið að vera hreinskilin um erfiðleika mína í lífinu og þá sérstaklega þá tilfinningu að vera alltaf leitandi. Að finna mig ekki í heiminum. Það er líklegast það sem ég hef strögglað mest með gegnum tíðina. Vita ekki hvað ég vil, vita ekki hvert ég stefni og eiga erfitt með að finnast ég eiga heima einhvers staðar.

Þetta eru hlutir sem ég pæli mikið í, hugsa af hverju ég upplifi mig svona týnda. Eins hugsa ég að það hljóti að vera fleiri eins og ég. Ég get ekki verið ein svona leitandi í heiminum. Kannski er þetta hluti af því að vera manneskja? Að vera alltaf leitandi?

Ég met lífið mitt og almennt reyni ég að vera jákvæð. Ég þakka fyrir það sem ég hef og á, lít á björtu hliðarnar og veit að þrátt fyrir erfiðleika þá koma bjartari tímar. En mig langar til að upplifa mig einhvers staðar heima.

Fleira fólk en maður getur ímyndað sér strögglar í lífinu, finnst það erfitt og líður illa. Samt er alltaf jafn erfitt að stíga fram og segja; ég er ein af þeim. Inni í manni hvíslar rödd að maður eigi að vera hamingjusamari, gleyma fortíðinni, halda áfram og innst inni langar manni ekkert frekar en að geta slökkt á þessum parti heilans í manni sem rifjar stöðugt upp fortíðina, slökkva á martröðunum, losa sig við þessar sársaukafullu minningar eða læra að lifa í friði við þær. Geta sætt sig við það sem maður fær ekki breytt og halda áfram. Samviskubitið nagar mann fyrir að geta ekki haldið áfram og leyft sér að vera hamingjusamur, að vera ekki nógu góður, að vera með of miklar kröfur eða að upplifa sig ekki nógu gott foreldri því maður svífur ekki um á bleiku skýi alla daga. Að leyfa fortíðinni að ná tökum á sér, aftur, staðinn fyrir að halda raunverulega áfram.

Ég á mjög erfitt með að viðurkenna að geta ekki sagt skilið við fortíðina, því mig langar að vera nógu sterk til að halda áfram án hennar og ríf sjálfa mig niður fyrir að geta það ekki. Að geta ekki leyft sjálfri mér að líða vel, trúa því innilega að ég eigi gott skilið og fara eftir því sem lætur mér líða vel. Nú mögulega er ég að opinbera alltof mikið, þetta er víst ekki lokuð dagbók, þetta blogg. En kannski með að opinbera hugsanir mínar, þá erfiðleika sem ég ströggla við enn í dag þrátt fyrir mikla sjálfsvinnu þá sjá fleiri í sömu sporum að þeir eru ekki einir. Ég er að reyna að hætta að skammast mín.

Áfallastreituröskun er erfið kvíðaröskun. Hún heldur taugahaldi í mann árum saman, jafnvel áratugum saman. Dagarnir eru misjafnir. Góðir dagar koma þar sem maður sefur og líður ágætlega, síðan koma vondir dagar. Dagar þar sem maður er hræddur og á nálum allan daginn og veit ekki einu sinni almennilega af hverju, dagar sem líða eins og eilífð því enginn er svefninn heldur.

Ég átti að byrja í meðferð við minni áfallastreituröskun í byrjun nóvember. Þriðja skiptið sem ég reyni að losa mig undan þessu. Ég mætti ekki. Ég gat ekki byrjað. Ég gat ekki hugsað mér að setjast niður með ókunnugum aðila og segja frá í smáatriðum hvað gerðist. Ég skammast mín ennþá í dag. Ég veit að skömmin er ekki mín, það er ekki mitt að skammast mín, en ég skammast mín kannski ekki svo mikið fyrir atburðinn. Ég skammast mín meira fyrir viðbrögð mín við honum, hegðun mína eftir hann. Ég skammast mín fyrir drykkjuna á unglingsárum, sjálfsniðurrifið og hvernig ég leyfði öðrum að koma fram við mig því mér var sama. Enn í dag hef ég þá löngun að hafa verið heilbrigður unglingur, ekki vandræðastelpan sem fólk horfði hornauga. Stelpan sem svaf hjá alltof mörgum, stelpan sem var alltof ögrandi klædd og of drukkin, þetta ung. Stelpan sem byrjaði að reykja varla komin á unglingsár, stelpan sem var í sambandi með fullorðnum manni 14 ára gömul.

Fólk reyndi að hjálpa manni á þessum tíma, sjálfstortímingin var bara svo sterk að maður barðist um á hæl og hnakka gegn hverjum þeim sem rétti manni hjálparhönd. Ég ströggla enn í dag við að taka á móti góðmennsku í minn garð. Ég verð skeptísk, býr eitthvað undir? Að læra að treysta fólki upp á nýtt, að opna sig og segja öðrum frá hræðslum sínum er hrikalega erfitt. Maður ýtir fólki frá sér að fyrra bragði til að þurfa aldrei að takast á við það að fólk mögulega geti farið. Enn undir niðri kraumar löngun, löngun til að treysta fólki, löngun til að leyfa sér að vera hamingjusamur og að fyrirgefa sjálfum sér. Fyrirgefa sér fyrir að koma illa fram við sjálfan sig, því ég gat ekki annað á þeim tíma.

En meðan maður heldur áfram að vinna í sér þá kemur þetta á endanum. Mér langar til að geta opnað mig fyrir öðru fólki, hleypa fólki að mér og treysta að það vilji mér ekki illt. Það tekur tíma en þó maður taki það í hænuskrefum þá kemst maður á áfangastað fyrir rest. Mikilvægast er að taka skrefið.

„Tip toe if you must, but take the step.“

Litið tilbaka

Að horfa tilbaka gegnum árið, 12 mánuðir, 365 dagar, 8760 klukkustundir. Ég hef virkilega blendnar tilfinningar gagnvart þessu ári. Það var án efa erfiðasta ár sem ég hef gengið í gegnum. Ég skildi við manninn minn til 11 ára, í þeim skilnaði missti ég besta vin minn. Það gerist óhjákvæmilega þegar skilnaður verður. Ég hefði bara aldrei geta ímyndað áhrifin sem það hefði raunverulega á mig að ganga í gegnum skilnað. Það er ólýsanlegt. Árið var bókstaflega súrsætt. Ég held ég hafi aldrei upplifað mig jafn týnda í heiminum.

„Góðir hlutir gerast hægt.“ Ég held að það sé satt, því að núna upp úr miðjum nóvember, byrjun desember þá finn ég fótfestuna koma. Ég er að finna jafnvægi í lífinu, sem einstaklingur og persóna. Ég hef náð að setja mér niður markmið fyrir þetta ár og tekið einhverja stefnu. Ég tel að árið 2016 eigi eftir að verða gott ár. Ég skrifaði færslu í ágúst sem ég hef ekki haft kjarkinn í að birta ennþá svo í staðinn fyrir að skrifa mikið um árið mitt þá ákvað ég að birta hana.

Á deiti með Svarthöfða

Að byrja að deita aftur eftir skilnað getur verið ansi flókið á tíðum. Eftir tæplega 11 ára sambúð þá er deitlífið ekki beint spennandi. Mér þykir ekkert sérstaklega gaman að deita, mér finnst fylgja því of mikil óvissa og stress. Maður er ekki alveg viss hvað maður á að segja og svo kemur kvíði hvort þetta gangi upp eða ekki. Ég fann ágætt spakmæli sem mér finnst eiga vel við mig þegar kemur að deitlífi og að kynnast einhverjum nýjum; „You know that tingly little feeling you get when you like someone? That‘s common sense leaving your body.“

Þetta finnst mér lýsa mjög vel hvað mér finnst um að byrja að deita. Þú verður hálfvitlaus og hugsar ekki rökrétt. Þú horfir framhjá göllum sem annars færu hrikalega í taugarnar á þér og sérð hlutina ekki í réttu ljósi. Ég er ekki mikil tilfinningavera, mér leiðast almennt tilfinningar þannig lagað og finnst ekkert þægilegt að vera hrifin af einhverjum. Það kemur að sjálfsögðu frá minni áfallastreituröskun en mér líkar meira hlutir sem eru borðleggjandi, þess vegna líkar mér til dæmis virkilega vel við stærðfræði. Þar eru bara formúlur sem þú fyllir í og svona eru hlutirnar bara, það er svart eða hvítt, rétt eða rangt. Mér líkar ekki við öll þessi gráu svæði. Svona fyrir utan hvað fólk virðist almennt eiga erfitt með að segja hreint út hvað það meinar eða hvað það vill. Tilfinningalokað fólk sem fer framhjá næstum hverri einustu spurningu í staðinn fyrir að segja hreint út hvernig því líður. Hrikalega leiðist mér það.

En að deitinu mínu. Það er upplifun sem ég gleymi aldrei. Hann leigir með vini sínum í miðbænum en á sjálfur íbúð sem hann leigir út. Við höfðum verið að spjalla svolítið saman í nokkrar vikur og svo kemur að því að við ákveðum að fara í bíó saman. Ég hlakka til kvöldsins, fyrsta skipti sem ég færi í bíó síðan ég flutti til Noregs og þar að auki vorum við að fara að sjá Mission Impossible 5, en ég er mikill aðdáandi MI myndanna og hef séð þær allar mörgu sinnum. Svo tilhlökkunin var þó nokkur, við gætum farið í bíó og átt gott kvöld.

Þegar ég mæti til hans upp úr hálf átta (bíóið byrjaði hálf tíu) þá hringi ég bjöllunni en fæ ekkert svar, svo ég hringi aftur og þá svarar vinur hans og samleigjandi og segir mér að hann sé í sturtu. Ég segi bara allt í lagi, ég bíði bara. Hann spyr mig þá á móti hvort ég lofi að vera góð við hann ef hann hleypi mér inn. Ég svara bara já og hugsa með mér að þetta sé nú svolítið furðulegt en vinur hans á það til að vera svolítið furðulegur svo ég kippi mér ekkert mikið upp við þetta. Svo loksins hleypir hann mér inn og ég sest inn í stofu. Þá spyr vinurinn hvort ég vilji sjá eitthvað frá Íslandi, ég segi bara já svo hann fer inn á Youtube og setur á myndband þar sem eru kenndir algengir frasar á íslensku. Meðan sit ég þarna í sófanum og stari á manninn reyna að tala íslensku við sjónvarpið sitt og veit ekki alveg hvað ég á af mér að gera. 10 mínútum seinna kemur deitið mitt úr sturtu og labbar inn í stofu. Þá horfir vinur hans á hann og segir; „ahh flottur bolur,“ og stekkur á hann. Þeir lenda í gamnislagá gólfinu meðan ég horfi stóreyg á þá úr sófanum og hugsa með mér hvern fjandinn gangi eiginlega á. Nokkru seinna druslast þeir af gólfinu og ég reyni að ákveða hvort ég eigi að hlæja eða gráta, eða hreinlega hlaupa út með það sama. Litið tilbaka hefði ég líklegast átt að velja síðastnefnda kostinn.

Við sitjum svo og spjöllum í sófanum þangað til það er kominn tími til að labba í bíóið. Ég hugsa með mér að kvöldið geti nú varla versnað eftir þennan slag og furðulega klukkutíma samtal og vona að myndin verði að minnsta kosti góð. En mikið skjátlaðist mér.

Við komum í bíóið og eftir að ég fer og kaupi mér gos og smá nammi þá stöndum við við innganginn og bíðum eftir að hleypt verði inn í salinn. Þegar 3 mínútur eru í að hleypt verði inn, snýr hann sér að mér og segir; „Mér langar heim, það er of mikið af fólki hérna,“ ég horfi á hann hissa og ekki alveg viss hvort hann sé að grínast eða hvort hann hafi fengið þungt höfuðhögg fyrr um daginn. Enda hegðunin gjörsamlega úr takti við alla framkomu sem hann hafði sýnt áður. Spyr hvort honum sé alvara, myndin sé að byrja og við búin að ná í miðana okkar. Hann segir bara neinei allt í góðu. Svo er hleypt inn og við setjumst niður.

Þá tekur ekki mikið betra við þar sem maðurinn iðaði þvílíkt í sætinu sínu og gat ekki verið kjurr. Ég hugsaði með mér að þetta væri örlítið eins og að vera með barn við hliðina á sér. Hann skipti um stöðu margoft og gat ekki ákveðið hvar hann hafði hendurnar, hann krosslagði þær, setti þær svo niður á hnén og var svo statt og stöðugt að fikta með bíómiðana okkar í fanginu á sér. Ég reyndi að leiða hjá mér þessa undarlegu hegðun mannsins og einbeita mér að myndinni, sem var ekkert sérstaklega auðvelt fyrir ADHD einstakling með bókstaflega lifandi skopparakringlu við hliðina á sér.

Ég vonaði að hann myndi lagast eftir því sem liði á myndina en þegar myndin var rúmlega hálfnuð og í miðju hasaratriði þá lítur hann á mig og segir; „Ég vil fara heim.“ Heim? í miðri mynd? Svo ég segi við hann svipaða setningu og ég hef þurft að segja við börnin mín í hvert sinn sem við höfum farið í bíó; „Við getum ekki farið heim núna, myndin er rúmlega hálfnuð, við ætlum að klára myndina.“ Hann horfir á mig, samþykkir það en tekur svo fyrir munninn og nefið á sér með báðum höndum og byrjar að anda eins og Svarthöfði!! Þá var mér nú allri lokið, færði mig örlítið frá manninum og krosslagði hendur. Hugsaði svo með mér að vonandi heyrðu ekki of margir í Svarthöfða andandi við hliðina á mér og ef svo væri að fólk héldi ekki að ég væri með honum. Fyrir vikið virtist myndin vera óendanlega lengi að líða, skoppara Svarthöfði við hliðina á mér hélt uppteknum hætti þangað til myndinni lauk. Ég vissi að myndin væri tveir tímar en mér leið virkilega eins og ég hefði setið í bíósalnum í 5 tíma þegar myndin loksins kláraðist.

Ljósin kvikna og ég lít á manninn og sé að hann er með hvít pappírssnifsi yfir allri kjöltunni, frá miðjum bol og niður að hnjám. Ég horfi stóreyg á hann og spyr hvað hann hafi verið að gera? Nú honum leiddist svo hann reif bíómiðana okkar í frumeindir í fangið á sér. Ég hef ekki þorað aftur á bíódeit eftir þetta fyrsta (og mögulega eina) skipti, held mig fast við vinkonur mínar til að fara í bíó með, það er líklegast öruggasti valkosturinn.

Allt eða ekkert – svart eða hvítt

„I‘m starting to think I will never know better“

Ég var ofvirkur krakki, ég var líka mjög hvatvísur krakki. Ég ólst upp í það að vera ofvirkur fullorðinn og hvatvís fullorðinn. ADHD hverfur ekki, það breytist örlítið með aldrinum en hvatvísin, kvíðinn, depurðin og eirðarleysið er eitthvað sem er órjúfanlegur hluti af mínu ADHD. Hef verið svona svo lengi sem ég man eftir mér. Ég á það líka til að vera óhemju kærulaus, sem einstaka sinnum getur verið góður eiginleiki en oftar en ekki á það til að koma mér í vandræði.

Eirðarleysi og að leiðast er eitthvað sem ég þarf að takast á við daglega, mér leiðist hrikalega auðveldlega og á það til að gera alls konar gloríur þegar ég er eirðarlaus því mér þykir lífið of tilbreytingalaust og hálfleiðinlegt. Ég sæki í alls konar spennu og á mjög erfitt með að una við rólegheit og rútínu. Þó það sé að sjálfsögðu það besta sem ég gæti gert fyrir sjálfa mig. Þá komum við að spakmælinu sem ég skrifaði efst.

Þegar rútínan og rólegheitin eru að drepa mig þá á ég það til að gera eitthvað sem hleypir smá fútti í lífið, hvort sem það er hreinlega að byrja að rífast við einhvern eða bara fara út að skemmta mér. Þá kemur þetta spakmæli í hausinn á mér daginn eftir og ég hugsa með mér að kannski sé þetta eitthvað sem ég mun aldrei fullorðnast upp í. Ég hélt alltaf fyrst að þetta kæmi að sjálfu sér. Eitthvað sem maður myndi læra þegar maður yrði eldri, svona eins og maður verður vissulega ábyrgðarfyllri eftir því sem árin líða. En að stjórna eirðarleysinu hefur einhvern veginn farið ofan garðs og neðan.

Það versta við að leiðast auðveldlega er hversu auðveldlega ég get líka hreinlega dottið út úr samtölum sem mér finnast óáhugaverð, jafnvel þótt samtölin séu ekkert sérstaklega óáhugaverð þannig þá er ég kannski bara illa fókuseruð þann daginn. Þá er ég kannski að tala við manneskjuna, hún stendur þarna beint fyrir framan mig og ég er að horfa á hana. En ég er ekki að hugsa um það sem hún er að segja. Nei ég er að hugsa um lagið sem ég heyrði áðan, eða kannski hvaða mat ég ætti að elda í kvöldmatinn, hvort ég hafi munað eftir því að setja þvottavélina af stað eða að velta fyrir mér hvort þvotturinn hafi legið í vélinni í einn dag eða tvo.

Ég hef oft heyrt að þetta sé bara skortur á sjálfstjórn og dónaskapur en eins mikið og ég hef reynt að einbeita mér gegnum óáhugaverðar samræður þá breytist það ekkert. Áður en ég veit af er hugurinn kominn á flug og ég er farin út í geim. Ég á nefnilega líka mjög auðvelt með að láta mig dagdreyma, það er ekkert vandamál. Ég get setið heilu og hálfu dagana og hugsað, svo lengi sem ég hef tónlist þá er ég góð. Að liggja upp í sófa með góða tónlist, tölvuna í fanginu og skrifa bara um lífið og tilveruna er eitthvað sem ég eyði dágóðum tíma í að gera líka. Ef ég er ekki að hugsa það, þá er ég að skrifa það, eða að hugsa um að skrifa það.

Að hafa ADHD er samt allt annað en auðvelt, þetta hefur hreinlega áhrif á allt í mínu lífi. Ég hef engan milliveg, annað hvort er það allt eða ekkert. Annað hvort líkar mér við einhvern eða ég þoli viðkomandi ekki. Annað hvort hef ég áhuga eða ekki.

„Utterly obbessed/uninterested.“

Það lýsir þessu ágætlega, annað hvort hef ég gríðarlega mikinn áhuga á því sem ég geri eða engan. Ég elska að lesa, meðan ég get varla komist í gegnum heila bíómynd. Hún þarf að vera gríðarlega áhugaverð til að ég sé ekki að fikta í símanum mínum á meðan henni stendur eða taka mér pásur á korters fresti til að reyna að koma mér í gegnum alla myndina. Einu sinni tók það mig fjóra daga að komast í gegnum 90 mínútna bíómynd. Hún var ekki leiðinleg, þetta var gamanmynd sem ég gat vel hlegið að. En ég hreinlega gat ekki setið gegnum hana alla í einu. Ég byrjaði alltaf og svo bara gat ég ekki meira. Ég sónaði bara út í eitthvað allt annað og fékk hausverk. En ef ég dett inn í bók þá er eins gott að ég hafi engin plön allan daginn né daginn eftir, því hana legg ég ekki frá mér fyrr en hún er búin.

„Reading gives us a place to go when we have to stay where we are.“

Svo satt. Ég elska að lesa, þvílík dásemd að geta horfið í heim bóka þar sem veröldin er allt önnur en hér. Þar sem allt getur skeð og þú kynnist karakterum sem eru áhugaverðari en allt lífið þitt til samans. Góð bók er gulli betri. Versta er að hjá mörgum einstaklingum með ADHD þá er ómögulegt að einbeita sér ef eitthvað er að. Það er þessi þráhyggja. Þessi leitun eftir stöðugri örvun og kvíðinn sem kemur í kjölfarið ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þrátt fyrir að hvatvísin og eirðarleysið spili yfirleitt stóran hlut í að koma öllu úr jafnvægi. Þetta getur verið ótrúlegt sjálfskaparvíti. Þér leiðist svo þú gerir eitthvað til að fá líf í hlutina, það endar á einhvern veg svo þú verður kvíðinn í kjölfarið og getur ekki einbeitt þér að neinu öðru. Hugarheimur manneskju með ADHD er hreinlega ekki eins og hugarheimur manneskju án ADHD. En fáfræðin um ADHD er einnig mikil líka. Það virðast allir halda að þetta snúist bara um að vera gleymin eða utan við sig. Það eru minnstu vandamálin mín, ég er vissulega mjög gleymin og get gleymt heilu samtölunum, læknistímum og jafnvel foreldrafundum ef ég passa mig ekki á því að láta símann minn minna mig á það daglega í nokkra daga og nokkrum sinnum sama daginn og fundurinn á sér stað. En þetta eru samt sem áður ekki stór vandamál miðað við hvernig ADHD hefur áhrif á daglegt líf og skipulag einstaklingsins sem er með það.

Það er ekki til alltof mikið af upplýsingum um fullorðna með ADHD. Það sem er vitað fyrir víst er hins vegar að einstaklingar með ADHD eru mun líklegri en aðrir til að lenda í fangelsi, missa ökuskírteinið sitt eða þróa með sér fíkn. Þetta er því dagleg barátta fyrir alla sem hafa ADHD. Þetta snýst sjaldan um það að vera utan við sig eða gleyma daglegum hlutum, heldur er svo miklu flóknara en það.

Áfram heldur þöggunin

Lögreglustjóri Vestmannaeyja leggur til þöggun kynferðisafbrota sem, miðað við síðustu ár, verða á Þjóðhátíð. Á hverri einustu Þjóðhátíð síðastliðin ár hafa komið upp kynferðisbrotamál svo að öllum líkindum munu þau einnig verða í ár.

Af hverju leggur lögreglustjórinn þetta til? Jú vegna þess sem hún segir að ef sagt verði frá málunum í fjölmiðlum muni það verða fórnarlömbunum þungbært. Ég myndi ætla að afbrotið sjálft muni verða fórnarlömbunum þungbært, þögn fjölmiðla og samfélagsins er hins vegar ennþá þungbærri. Ef þetta mun verða eftir mun þögn fjölmiðla og samfélagsins um brotin ekki hjálpa til við skömmina sem fórnarlambið upplifir. Undanfarna mánuði hafa konur Íslands risið upp og rofið þögnina. Við munum ekki þegja, við erum hættar að skammast okkar fyrir ofbeldið sem við urðum fyrir því þetta var ekki okkur að kenna. Kynferðisofbeldi er aldrei fórnarlambinu að kenna, aldrei. Ekki undir neinum kringumstæðum. Það skiptir ekki máli hvernig við erum klæddar, hvað við segjum eða við hvern við tölum. Við megum segja það sem við viljum, við megum klæða okkur eins og við viljum, það gefur engum leyfi til að nauðga okkur.

Druslugangan var síðastliðna helgi, þar stóðu konur, menn og börn saman og sögðu að þetta væri ekki liðið. Fjölmiðlar bera ábyrgð. Þeir bera þá ábyrgð að segja frá. Við erum búnar að segja að við viljum ekki þögn, við ætlum ekki að bera skömmina. Við ætlum að skila henni þangað sem hún á heima, hjá gerandanum.

Á hvað treysta kynferðisafbrotamenn? Jú þeir treysta á þögnina. Þeir treysta á að samfélagið þaggi málin niður. Þeir treysta á að fórnarlömbum sé ekki trúað, þeir treysta á að þær segi ekki frá í ótta um að verða ekki trúað eða að þær verði útskúfaðar úr samfélaginu. Það sem gerðist þegar #þöggun og #konurtala byrjaði var að fleiri og fleiri konur sáu hversu margar höfðu lent í samskonar ofbeldi. Þær upplifðu stuðningin frá samfélaginu þegar þær stóðu upp og sögðu frá ofbeldinu. Fleiri þúsund manns skiptu um prófíl mynd á facebook og það var hreint út sagt ótrúlegt að upplifa samstöðuna frá fólki. Þetta veitir stuðning, það veitir þolendum stuðning að sjá að aðrir hafi upplifað samskonar ofbeldi og að samfélagið mótmæli þessum brotum. Við erum komin með nóg. Við samþykkjum ekki þetta samfélagsmein sem kynferðisofbeldi er. Að tala opinskátt um það og segja frá er stærsti liðurinn í því að uppræta þetta ofbeldi. Að þagga það niður mun hafa þær afleiðingar að það mun blómstra.

Ég vona að fjölmiðlar Íslands standi saman um það að pressa á lögregluyfirvöld í Vestmannaeyjum að segja satt og rétt frá því sem gerist á hátíðina. Það er ekki í lagi að þagga niður kynferðisafbrot. Það hefur aldrei verið í lagi að gera það. Ég vona að lögreglustjóri sjái að sér í þessum þöggunartilburðum sínum og sjái hag þolenda fyrir brjósti. Við eigum að standa saman og með #þöggun og #konurtala hafa konur Íslands sýnt samstöðu í því að brjóta niður þessa hefð sem það er að þagga niður kynferðisafbrot. Við berum ekki harm okkar í hljóði heldur segjum við frá.

Að verða fyrir kynferðisafbroti er hræðilega erfitt EN það er erfiðara að bera skömmina og þögnina sem kemur í kjölfarið.

Fortíðarflótti

Meira og minna allt mitt líf hef ég verið leitandi. Leitandi eftir einhvers konar innri frið sem virðist hvergi vera finnanlegur. Eftirköst kynferðisofbeldis geta svo sannarlega verið langvarandi og í mínu tilfelli er það svo. Ég hef alltaf beðið eftir að þetta lagist, að ég nái að halda algjörlega áfram en samt situr þetta fast í manni. Ég hef oftast upplifað mig hálf týnda í lífinu, ég hef vissa hluti á hreinu en meira og minna líður bara tíminn og ég veit ekki enn í dag hvað ég vil nákvæmlega út úr lífinu. Ég eyddi svo löngum tíma á unglingsárum þess fullviss að það yrði ekkert úr mínu lífi að ég planaði ekki neitt. Lífið hélt bara áfram og maður gerði sitt besta í hverju því sem maður tók sér fyrir hendur. Sem gekk svo misjafnlega.

Að reyna að útskýra líðan sína fyrir fólki sem stendur ekki í sömu sporum er næstum ómögulegt því maður kemur þessu ekki í orð. Ég get ekki útskýrt. Ég er bara týnd og ég er leitandi. Ég veit ekki hvað ég vil og ég veit ekki hvert ég stefni. Maður myndi ætla að þegar maður nálgast þrítugt óðfluga að maður hefði tekið einhverja stefnu, hefði fundið einhverja ró innra með sér eða vissi hvað maður vildi og þó það væri ekki niðurneglt að maður hefði að minnsta kosti glætu um það. En ég hef eytt lífinu í að flýja fortíðina. Gleyma vondum minningum og halda áfram en það virkar ekki. Að bæla niður vondar minningar veldur því að maður bælir niður þær góðu líka og man ég hreinlega bara ekkert eftir þremur árum í mínu lífi. Árunum á milli 13 og 16 ára. Þau eru týnd, gleymd og grafin.

Búsett í Noregi gefur mér þann kost að fólk hérna veit ekkert um mig, það veit ekki mína fortíð og það veit ekki hver ég er. Það er samt ekkert endilega jákvætt því eins félagslynd og opin ég er, þá hleypi ég engum að mér. Ég held öllum í vissri fjarlægð því ef fólk er ekki of nákomið mér þá getur það ekki sært mig og ég er dauðhrædd við að vera særð. En það hefur þann ókost í för með sér að maður tengist heldur aldrei raunverulega neinum. En minn stærsti fylgikvilli áfallastreituröskunar er tilfinningadofi. Ég finn ekki fyrir miklum tilfinningum og ég á gríðarlega erfitt með að tengjast öðrum og eins mikið og ég hef reynt að sjá það í jákvæðu ljósi þá er það samt ekki jákvætt. Það er ekki gott að geta ekki tengst öðru fólki á eðlilegan máta. Það er heldur ekki gott að geta ekki leyft sér að finna eðlilegar tilfinningar, hvort sem þær eru góðar eða slæmar.

Ég reyni almennt að vera bjartsýn og jákvæð á lífið. Það hefur vissulega heilmikið upp á að bjóða. En þrátt fyrir jákvæðni og bjartsýni þá upplifi ég mig týnda. Í dag eftir skilnaðinn er ég ennþá týndari. Þrátt fyrir að vera sátt við það uppgjör þá var afleiðingin af því samt sem áður sú að ég stóð uppi ennþá týndari. Ég hafði aldrei verið ein. Það er eitthvað sem ég er ennþá að læra. Ég er að sjálfsögðu ekki alein, ég hef börnin mín og fyrir það er ég þakklát. Þau gefa mér meira heldur en nokkuð annað í lífinu.

Að setjast niður og skrifa frá sér hugsanir er líklega það besta sem ég geri. Ég hef aldrei verið alltof flink að koma hugsunum mínum frá mér í orðum en að skrifa þær niður er einhvern veginn auðveldara. Kemur einhverri reglu á óregluna í hausnum á manni.

Það er fyndið hvað sum lög geta haft mikil áhrif á mann. Enn í dag hlusta ég alltaf á lagið „Rise up“ með Beyonce ef ég verð niðurdregin. Það gefur mér ákveðin kraft. Muna að lífið hefur upp á meira að bjóða heldur en ég sé akkúrat núna. Það er ekkert ómögulegt og maður getur alltaf haldið áfram. Bara að muna að bíða, það munu koma betri tímar.

Þetta er að öllum líkindum sú allra neikvæðasta bloggfærsla sem ég hef ritað en standandi í þeim sporum sem ég stend í dag þá er þetta eina sem ég kem frá mér. Kannski einn daginn mun ég svífa um á bleiku skýi og skrifa frá mér jákvæðan bloggpistil. Kannski, mögulega einn daginn. En í dag, þá tek ég bara einn dag í einu. Reyni að muna að ekkert er endanlegt og það koma betri tímar. Kannski einn daginn losna ég við mína áfallastreituröskun og get leyft mér að upplifa allar þær tilfinningar sem lífið hefur upp á að bjóða og hætt að vera hrædd við að hleypa fólki að mér. Hætt að vera leitandi og finn mína leið. Það er alltaf von.

5 ástæður fyrir því að mér líkar betur við Sviss en Noreg

Ég eyddi tíu dögum í Sviss og segi það enn og aftur, ég kom heim. Ég fann mig í Sviss. Þvílíkur dýrðarstaður sem verður heimsóttur minnst einu sinni á ári þangað til ég vinn í lottói og get flutt þangað. Nú líkar mér almennt betur við Noreg en Ísland; en mér líkar enn betur við Sviss. Nú hef ég bara skoðað brotabrot af heiminum, kannski mun ég finna mig einhvers staðar annars staðar líka, Ítalía verður heimsótt á næsta ári, kannski kem ég heim þar líka. Aldrei að vita. En eins og staðan er núna, þá er það Sviss sem vinnur. Ég eyddi þessum tíu dögum í bæ sem heitir La Chaux-de-Fonds, ótrúlega kósý fjallabær í 1000m hæð.

1. Vinalegheit
Nú er ég týpískur Norðurlandabúi, köld og fráhrindandi. Tilhugsunin um að einhver myndi kyssa mig hæ og bæ þótti mér hálf fáránleg ef satt skal segja. Hvað þá þrisvar sinnum í hvert sinn. Eiginlega bara út í hött. En þegar á hólminn var komið var þetta ótrúlega vinalegt hreinlega. Það var eitthvað við það að heilsa fólki svona innilega, það gaf mér góða tilfinningu. Eitthvað sem ég bjóst aldrei við.

2. Góðar almenningssamgöngur
Ég bý í um 90 þúsund manna bæ í Noregi, ég var í 38 þúsund manna bæ í Sviss. Samt voru almenningssamgöngurnar þar miklu betri! Bæði hvað varðar strætó og lestar. Strætó gengur á 10 mínútna fresti um allan bæ svo þú þarft aldrei að bíða lengi, svo fara lestarnar að sjálfsögðu út um allt og ekkert mál að ferðast með þeim hvert sem þú vilt.

3. Úrval veitingastaða
Ég væri ekki ég ef ég myndi ekki minnast á matinn. En úrval alls konar veitingastaða í þessum litla bæ var frábært! Miklu betra heldur en nokkurn tíma hérna í Kristiansand og verðið var mun betra líka, sem kom mér kannski mest á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að maturinn er miklu dýrari í Sviss en Noregi og því hálf ótrúlegt hvað verðið á veitingastöðum var lægra heldur en í Noregi.

4. Lifandi tónlist og skemmtanalíf
Það var lifandi tónlist út um allt öll kvöld hreinlega. Ég hef aldrei farið svona mikið út á kvöldin, enda var ég án barna, en það var alltaf hægt að fara út og hlusta á lifandi tónlist á mismunandi stöðum. Þó að ég og mágur minn höfum haldið góðri tryggð við einn bar meira og minna að þá var samt nóg úrval. Einnig er mikið um alls konar hátíðir og fórum við á svokallað Promo Festival sem var haldið í bæ sem var í 10 mínútna fjarlægð, Le Locle. Festivalið náði yfir þrjár langar götur og voru þúsundir manns að skemmta sér. Þetta var ótrúleg upplifun. Í sama bæ er rokkhátíð í ágúst og þykir þetta vera mjög vanalegt að halda svona hátíðir. Virkilega skemmtileg menning.

5. Náttúran
Náttúrudýrðin í Sviss er hreinlega engu lík. Ég gat gleymt mér í að stara í kringum mig hvert sem ég fór. Risastór fjöll voru græn alla leið, það var ótrúlegt að sjá.

Uppgötva heiminn upp á nýtt

Nú fyrir nokkrum mánuðum skildi ég við maka minn til margra ára. Maður sem ég hafði verið með frá því að ég var unglingur. Svo ég þekkti í raun ekki lífið án hans. Ég hafði aldrei verið fullorðin án þess að hafa hann mér við hlið. Breytingin var í raun stærri en ég gerði mér grein fyrir.

Nú ætla ég mér ekki að fara út í ástæður skilnaðarins og mun aldrei gera það opinberlega heldur. En ég ætla að skrifa um mína upplifun hvernig það er að uppgötva heiminn alein aftur. Það er í raun stórundarlegt fyrirbæri að verða allt í einu einhleyp eftir margra ára sambúð og rússibaninn er slíkur að ég hefði einhvern veginn aldrei gert mér almennilega grein fyrir öllum tilfinningaskalanum sem maður fer í gegnum. Þetta er í raun kannski svolítið eins og að missa vitið í örlitla stund. Það finnst mér lýsa þessu best.

Ég las grein um daginn þar sem var sagt að maður ætti að óska fólki til hamingju sem er að skilja. Ég er enn að melta það hvort ég sé sammála því. Ég veit það hreinlega ekki. Ástæðurnar geta verið svo margar en auðvitað vona allir sem standa í þessum sporum að ákvörðunin hafi verið rétt, nú sé maður kannski að stíga sín fyrstu skref í átt að sannri hamingju -hver svo sem hún er.

Ég nýtti tækifærið og ferðaðist bæði til Þýskalands og Sviss. Ég get með sönnu sagt að ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun minni. Ég hef alltaf óskað mér þess að ferðast, gat látið það rætast núna í fyrsta sinn. Það var dásamlegt og mjög hollt að prufa að ferðast til annarra landa. Ég fór einungis ein, heimsótti vin minn og konuna hans í Þýskalandi og systir mína, mág og börn í Sviss. Menningin er allt öðruvísi en maður á að venjast og ef satt skal segja þá fannst mér ég allt í einu vera komin heim þegar ég kom til Sviss. Það eru allir svo afslappaðir og umhverfið er dásamlegt. Þetta er staður sem ég get séð mig fyrir mér búa á.

En aftur að skilnaðinum. Fyrstu vikurnar eru ennþá í hálfgerðri móðu. Ég var í raun heppin og tveim vikum eftir skilnaðinn ferðaðist ég til Íslands. Það hjálpaði vissulega til að dreifa huganum. En svo tók alvara lífsins við og maður þurfti að koma heim, skipta innbúinu og enn í dag á ég ekkert sjónvarp. Ég sakna þess svo sem ekki svo mikið, ég á aðra hluti í staðinn og vonandi bý ég við þann lúxus einn daginn að geta keypt mér sjónvarp.

En það sem mér fannst kannski erfiðast að kyngja var einveran á kvöldin. Vaninn að hafa alltaf félaga sér við hlið á hverju kvöldi var erfiðastur til að brjóta fannst mér og fyrstu vikurnar á eftir hlóð ég líklegast símann minn 3x á hverjum degi, því ég gerði ekkert nema að tala í símann til að dreifa huganum. Halda mér upptekinni við eitthvað svo ég fyndi ekki fyrir einverunni. Síðan þakka ég góðum vinum kærlega fyrir félagsskapinn í gegnum erfiða tíma og í þessum breytingum þá eignaðist ég eina af mínum bestu vinkonum líka. Ég hef oft lesið það og heyrt að þegar þú virkilega þarft á vinum að halda þá verður ólíklegasta fólk þér til staðar og það er svo sannarlega satt. í gegnum mína erfiðleika endurnýjaði ég vinskap við dásamlega stelpu sem ég fer ekki í gegnum daginn án þess að tala við.

Það er einkennilegt hvað lífið getur breyst gríðarlega með einni ákvörðun. Ég hef eytt síðastliðnum mánuðum í að reyna að finna út hver ég er, skilja hvað ég vil sem einstaklingur og reyna að átta mig á hvað ég raunverulega vil út úr lífinu. Ég ákvað að háskólanám væri ekki fyrir mig, mér leiðist það. Ég veit ekki alveg hvað ég vil gera í lífinu en sótti um nám í snyrtifræði. Það finnst mér virka spennandi. Ég vil ekki vera búsett á Íslandi, svo mikið veit ég, ég vil ferðast um heiminn, ég vil upplifa eitthvað nýtt á hverju ári en umfram allt vil ég muna að njóta lífsins.

Furðulegasta við allt þetta tímabil var það að ég lokaðist alveg. Ég gat ekki skrifað stakt orð. Ég hef sest niður oftar en ég hef tölu á og reynt að koma frá mér einhverju sem gæti líkst heilli setningu en; ekkert. Ég var gjörsamlega tóm. Mér finnst, sérstaklega eftir sumarfríið mitt, að ég sé að ná einhverjum áttum. Ég er að ná einhverri fótfestu aftur. Því ákvað ég að skrifa þetta niður. Kannski það sé byrjunin, byrjunin að ná að skrifa aftur.

Þangað til næst…