Af hverju tíminn er það dýrmætasta sem ég á

Það eru flestir vissir um að við höfum flutt því við vildum meiri peninga. Það er auðvitað rétt en samt ekki. Við fluttum fyrst og fremst vegna þess að við vildum tíma. Einhver sagði „Tíminn er peningar“ en ég myndi frekar segja „Tíminn er allt“. Að eiga tíma er það dýrmætasta sem ég á. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu hversu ljúft það er, að eiga tíma. Ég ólst ekki upp við ríkidæmi og þarf þess ekki. Ég þarf ekki að eiga milljónir inná banka en ég vil eiga mat í ísskápnum. Þeir sem þekktu vel til okkar, þeir vissu að Óli vann yfirleitt aldrei undir 16 tímum á dag og stundum sáum við hann ekki dögum saman, það var þegar hann þurfti að keyra útá land og svaf svo í bílnum. Hann fór stundum á mánudagsmorgnum og kom svo heim aðfararnótt laugardags. Það er ekki fjölskyldulíf. Mér hefði verið sama þótt við hefðum átt milljónir inná banka, ég hefði samt ekki viljað búa á Íslandi.

Ég vil ekki búa í landi sem krefst þess að maður þurfi að vinna myrkranna á milli til að sjá fyrir sér. Ég vil heldur ekki búa í landi sem krefst þess að maður mennti sig til að geta séð fyrir sér. Maðurinn minn elskar að keyra, það er í raun ótrúlegt að fylgjast með því, ég hef aldrei hitt neinn sem hefur jafn mikla ástríðu fyrir vinnunni sinni og það er alveg frábært. En það er ekki eðlilegt að geta ekki unnið eðlilegan vinnutíma og fengið mannsæmandi laun í staðinn. Nú höfum við búið hérna í að verða hálft ár og maðurinn minn hefur aldrei misst úr kvöldmat, aldrei. Það finnst mér ótrúleg staðreynd! Þar sem ég gat yfirleitt talið það á fingrum annarrar handar hversu oft hann náði að vera í kvöldmat yfir mánuðinn á Íslandi.

Þegar maður er að stofna fjölskyldu og koma börnunum upp, þá er ofsalega erfitt að standa einn, en samt ekki einn. Ég var alltaf ein, en auðvitað var ég ekki ein, ég var gift, ég átti mann, hann bara gat aldrei verið heima því einhvern veginn þurftum við að borða. Í mesta einmanaleikanum keypti ég mér hund, besta hund í heimi samt og stytti hún mér stundum þegar ég sat heima og lét mér leiðast á kvöldin. Það er rosalega lýjandi að vinna og vinna og vinna og sjá aldrei fyrir endann á myrkrinu. Sama hversu mikið er unnið þá kemst maður aldrei uppúr bévítans hjólfarinu.

Í fyrsta sinn þá förum við fjölskyldan í skógarferðir um helgar, við förum útum allt og við kveikjum varðeld inni í skóg og grillum okkur pulsur, við erum alltaf að upplifa einhver ævintýri sem við gátum ekki upplifað á Íslandi vegna tímaskorts. Þess vegna elska ég Noreg. Ég eignaðist engar milljónir, enda var það ekki planið með flutningnum, en ég eignaðist tíma, ég eignaðist ótrúlega mikinn tíma og ég vissi ekki hversu ótrúlega verðmætt það var fyrr en ég eignaðist það. Tíminn er það sem ég mun aldrei láta frá mér aftur.

Það ótrúlega við þetta allt saman er það að það breyttist ekkert þannig lagað við að flytja. Maðurinn minn vinnur enn við keyrslu, ég er enn í fullu háskólanámi, Mikael í grunnskóla og Kristín og Óliver í leikskóla. En hér eru allir komnir heim milli 15-17 á daginn og álagið á fjölskylduna er búið að minnka lygilega mikið. Það sem mér fannst kannski mest sorglegt er að sjá hvernig álagið hafði farið með krakkana mína og þá sérstaklega Mikael. Álag fer ekki vel í ADHD einstaklinga og þá sérstaklega ekki börn og hans líðan hefur tekið ótrúlegum framförum hérna enda er samfélagið ekki á 150km hraða. Ef ég ætti að lýsa þessu á einhvern hátt þá líður mér svolítið eins og ég hafi farið 15 ár aftur í tímann á Íslandi. Þar sem búðir voru ekki opnar allar sólarhringinn hingað og þangað og allt opið, alltaf, alla daga vikunnar. Það er mjög ljúft að allt sé lokað á sunnudögum, mér þykir það ótrúlega gott bara, enda sér maður það að fjölskyldur nýta sunnudaga í fjölskyldutíma og fara út og gera eitthvað saman.

Ég segi allavega að fyrir fjölskyldur er Noregur stórkostlegt land.

Skóli fyrir alla (eða bara svo lengi sem þú ert flinkur í bóklegum fögum..)

Í dag var fyrsti skóladagurinn minn eftir jólafrí. Ég er bara þó nokkuð spennt fyrir þessu misseri, það er þægilega sett upp. Ég verð einungis í tveimur áföngum í einu og mun taka þrjá áfanga í heildina, 1 langan og tvo stutta. Því verður fyrsta lokaprófið mitt í byrjun mars en meðan samkomulagið er svona þá er ég alltaf í fríi á mánudögum, sem er eiginlega best í heimi því ég er engin mánudagsmanneskja og alltaf gott að eiga einn dag í fríi eftir helgi.

En fyrsti fyrirlesturinn í morgun var nokkuð áhugaverður og kom upp þessi mynd

mennt

 

ég hef alltaf verið frekar hrifin af þessari mynd, það hlægilega við hana var það að hún var þó nokkuð merkingarlaus í ljósi þess að kennarinn sníður áfangann þannig að öll verkefni gilda ekkert (en þarf að skila þeim til að fá próftökurétt) en í lok áfangans er 4 tíma skriflegt próf sem vegur 100%, svo einungis þeir sem eru sterkastir í prófum en ekki verkefnum munu njóta góðs af. En ég ætlaði samt ekki að ræða það. Þessi mynd fær mig alltaf til að hugsa um Mikael minn og hversu kössóttu samfélagi við búum í. Hér áður fyrr var gríðarlega vel metið að vera menntaður, iðnmenntun var ekkert sérstaklega vel metin og var það nú ekki menntun einu sinni fyrr en svolitlu seinna, en fína fólkið gekk í skóla þar sem það lærði viðskiptafræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og þess háttar fög.

Samfélagið er enn ótrúlega litað af þessum viðhorfum, að það að vera vel lesinn er miklu betra heldur en að vera góður í íþróttum. Þú ert á einhvern hátt betri ef þú ert góður í stærðfræði heldur en ef þú ert góður í smíði. Við sjáum þetta líka í skólum þar sem foreldrar fá ætíð tiltal ef barnið á erfitt í bóklegum fögum en ég veit ekki til þess að foreldrar barna sem eru lélegir í smíði, saumum eða íþróttum fái eitthvað sérstakt tiltal þar né að börnin séu send í aukakennslu svo þau verði nú aðeins betri. Jafnvel þó það liggi nú bara alls ekkert inná áhugasviði barnanna né hæfileika þeirra.

Ég hef ætíð átt auðvelt með að læra, hef lesið mér til skemmtunar síðan ég var krakki og var alltaf betri í stærðfræði heldur en saumum. Ég þurfti ekkert sérstaklega að leggja mig fram til að vera með þeim hæstu í bekknum heldur í grunnskóla, það bara einhvern veginn var þannig svo ég hafði ekkert sérstakan skilning á þeim sem áttu erfitt með að læra, ég skildi það í raun ekki hvernig það væri bara ekki hægt að kunna þetta. Fyrir mér var þetta nefnilega bara mjög einfalt.

Svo þegar kom að því að byrja að kenna syni mínum stafina þá taldi ég ekki eiga mjög erfitt verk fyrir höndum, ég byrjaði á því að kaupa púslmottu á gólfið í herberginu hjá honum þegar hann var 3ja ára svo hann hefði stafina fyrir framan sig og þá líka auðvelt að benda honum á og segja honum hvaða stafi hann „ætti“. Eftir heilt ár þá mundi  barnið 2 stafi eða svo en ég hugsaði að þetta hlyti að koma fyrir 6 ára og hafði litlar áhyggjur, las fyrir hann á hverju kvöldi og benti honum á stafina og leyfði honum að prufa sjálfur.

Í lok 1. bekkjar þá kunni hann um það bil helming stafrófsins. Fyrir mér var þetta orðið hálf óskiljanlegt. Um miðjan 2. bekk var hann greindur með ADHD og í kjölfar lyfjagjafar byrjaði skólinn að verða aðeins auðveldari fyrir hann og varð hann jákvæðari og átti einnig auðveldara með að eignast vini. „Nú hlýtur þetta að koma“ hugsaði ég. Í lok 2. bekkjar þá las hann milli 25-30 orð á mínútu. Þetta var orðið frekar þreytt og leiddist honum svo svakalega að lesa og var þetta hálfgerð kvöð á barninu. En alltaf fannst honum jafn gaman þegar ég las fyrir hann og lásum við bækurnar Óvættaför saman. Ég reyndi að hvetja hann áfram og fara öðruvísi leiðir en ekkert gekk, hann bara  m u n d i ekki stafina sama hvað við gerðum og var ég orðin hálf ráðalaus. 3. bekkur kom og fór hann í aukakennslu í lestri og íslensku og í lok 3. bekkjar þá las hann milli 40-50 orð á mínútu.

Í 4. bekk fengum við að vita að hann væri með dyslexiu og opnuðust þar smá dyr á skilning hvað væri í gangi. Það sem mér finnst kannski verst við þetta allt saman er í raun skilningsleysi skólakerfisins á þessu. Ef hann væri líkamlega fatlaður, t.d. með einn fótinn styttri en hinn, þá myndi enginn ætlast til þess að hann myndi hlaupa jafn hratt og aðrir og hvað þá setja hann í aukahlaup svo hann myndi nú ná upp hraða. Þetta er samt gert með lestur og virðist engin hugsa útí þau neikvæðu áhrif á barnið, þegar það er sett í aukakennslu í því sem gengur verst í, aðaláhersla skólans er á það sem er erfiðast og auðvitað verður upplifunin neikvæð. Ef ég þyrfti stattt og stöðugt að gera eitthvað sem væri mér gríðarlega erfitt og þyrfti að gera meira af því en samnemendur mínir þá verður upplifunin neikvæð, en það er nákvæmlega núll skilningur fyrir þessu í skólakerfinu. Leiðin er þröng og hún er einföld: Það skulu allir vera góðir í bóklegum fögum, óháð fórnarkostnaði.

Á þessari leið hans gegnum grunnskólann hefur eitt gleymst. Það er að hann er ofboðslega flinkur í öllum grófhreyfingum. Hann fær alltaf 10 í íþróttum og hlaupum og toppumsögn í verk- og listgreinum. Hann elskar að elda, baka, smíða, sauma og gera eitthvað með höndunum. Allt sem hann skapar, hvort sem það er með mat eða við, er hann flinkur með. En að setjast niður og horfa á tölur á blaði eða stafi á bara ekki við hann. En það þykir bara ekki merkilegt að vera sterkur í verk- og listgreinum eða góður í íþróttum. Ég get svo svarið það að ef hans styrkleikar væru í bóklegum fögum og erfiðleikar í list- og verkgreinum, þá hefði varla verið minnst á það innan skólans. Það er enn ótrúlegt snobb í samfélaginu gagnvart bóklegri menntun en einhvern tíma þarf að rísa upp og reyna að jafna þessa hluti, það skal enginn segja mér að sonur minn sé ekki jafn gáfaður og barn sem les 200 atkvæði á mínútu eða kann 10x töfluna utan að. Hans gáfur liggja bara á öðrum sviðum. Í dag er þetta viðurkennt og þekkt, jafnvel kennt í skóla, af hverju er ekki farið eftir þessu þá líka?