Að hafa hugrekkið til að lifa lífinu

Titillinn segir í raun allt sem segja þarf. Þetta virðist vera einfalt en flestir kannast við það að það krefst ótrúlegs hugrekkis að þora að lifa lífinu til fulls. Flest sitjum við í viðjum vanans og lifum öruggu lífi. Við erum flest hrædd við breytingar og hvað þær fela í sér. Mörg erum við óhamingjusöm í okkar fasta lífi en okkur vantar hugrekkið sem krefst þess að breyta til. Hvað ef? Er hugsun sem fær mörg okkar til að sleppa því að breyta til og halda áfram að lifa lífinu eins og það er, án þess að breyta til og taka áhættuna.

Eitt af mínum uppáhalds lögum sem fær mig yfirleitt til að fá sting í magann og næstum tár í augun er lagið „Rise up“ eftir Beyoncé, þetta er titillag myndarinnar Epic sem er líka stórskemmtileg teiknimynd. Þetta lag hefur einstaklega fallegan boðskap og virkar alltaf hvetjandi á mig. Minnir mig á að lífið hefur meira að bjóða en það sem við sjáum bara dagsdaglega og að vera óhræddur að fara á eftir draumunum sínum, sama hversu neikvæðir aðrir í kringum mann eru. Draumurinn er þinn, ekki annarra.

Versti óvinur manns er yfirleitt maður sjálfur. Ég á það til að tala mig niður, þegar ég gleymi því hver ég er, hvað ég hef gert og hvað ég hef afrekað í mínu lífi. Ég átti mína drauma, drauma sem einungis fáir trúðu á, flestir töldu mig vera bara uppí skýjunum, svona lagað gengi lífið ekki fyrir sig. En það sem enginn má gleyma er að það getur enginn sagt hvernig lífið gengur fyrir sig. Ég ákvað að líf mitt myndi ganga svona fyrir sig, alveg óháð því hvað aðrir sögðu, þetta var ekki þeirra draumur, þetta var minn draumur.

En í þessu stórkostlega lagi sem ég hlusta reglulega á og gleðst í leiðinni yfir því hversu langt ég er komin í eigin draumi er að standa með sjálfum sér, rísa upp og berjast fyrir sínu. Það getur enginn sagt að þetta sé ekki hægt, það er kannski ekki hægt á nákvæmlega þessari stundu og flestir draumar taka tíma en þetta eru allt lítil skref og mörg lítil skref búa til eitt stórt og í þá átt liggur draumurinn. Hann tekur tíma en meðan maður stefnir þangað þá kemst maður á endanum, aðalmálið er að gefast ekki upp, að stoppa ekki á miðri leið og að hlusta ekki á þær raddir sem trúa ekki á drauminn. Það þarf enginn að trúa á hann nema maður sjálfur, það er það eina sem þarf.

Í þessu lagi segir nefnilega einnig að maður eigi ekki að vera hræddur um að fórna því öllu og ég er sammála þeim boðskap. Flest allt í lífi okkar eru veraldlegir hlutir sem, þegar allt kemur til alls, skipta ekki máli. En flest erum við skíthrædd við að losa okkur við þá, við höldum fast í hluti sem skipta í raun og veru ekki máli fyrir okkur og erum óhamingjusöm á meðan. Við flýjum okkar raunverulegu hamingju meðan við eltum uppi það sem skiptir ekki máli. Ég er ekkert saklaus þarna frekar en nokkur annar þar sem mig dreymir iðulega um veraldlega hluti, stórt hús, nýjan bíl, nýja tölvu, meiri pening. En þó ég ætti þetta þá væri það ekki það sem myndi skapa mína hamingju, hún kemur innanfrá. Hún kemur frá umhverfinu sem ég skapa mér, fólkinu sem ég vel í kringum mig og fjölskyldunni minni. Ég væri ekki hamingjusamari í einbýlishúsi heldur en trjákofa ef ég hefði ekki fjölskylduna í kringum mig.

Nú hvet ég alla mína lesendur (sem eru vonandi fleiri en bara ég 🙂 ) til að muna eftir sínu sönnu draumum og ekki að vera hræddir að fara eftir þeim, munið eftir fólkinu sem skiptir raunverulega máli í ykkar lífi og haldið þeim nærri, það er fólkið sem þið viljið hafa þegar á reynir og rísið upp og berjist!

-Freyja

Kvenhatrið sem enginn kannast við

Ég er búin að vera mjög hugsi yfir fréttum síðastliðna daga og kannski enn meira hugsi hvort ég eigi að skrifa eitthvað um það. Því það virðist sem að næstum hver einasta kona sem stígur fram og talar um kvenhatandi samfélag sé orðin að skotskífu fólks sem finnst ekkkert að því að koma illa fram við fólk og kalla það ljótum nöfnum. Fyrir utan auðvitað að halda því fram að þetta er náttúrulega bara hugarburður, það er ekkert kvenhatandi samfélag, það er ekki til kvenhatur, allir eiga þessir menn mæður og elska þær -svo auðvitað elska þeir allar konur líka, þetta er nefnilega allt bara djók sko.

En ótrúlega hugrökk kona steig fram í vikunni og lét ekki bjóða sér kvenhatandi „grín“ sem virðist tröllríða samfélaginu ár eftir ár. Það sorglega við þetta er að þetta er ekki nýtt af nálinni í Morfís, heldur gerðist þetta líka fyrir nokkrum árum þegar ung kona varð fyrir því að birt var af henni mynd léttklæddri og gert lítið úr henni í miðri keppni. Það ótrúlega við þessi tvö dæmi er að sami þjálfari er bakvið þessi tvö lið. Tvö lið sem fara áfram með kvenhatri í von um að vinna. Lúgalegt og lélegt.

Dæmin virðast samt sem áður endalaus en enginn kannast við kvenhatandi samfélag, það er nefnilega ekki til. Það er til húmorslaust samfélag. Það eru til forréttindafemínistar sem geta ekki tekið djóki en það eru ekki til kvenhatandi karlmenn, hvað þá kvenmenn. Nú hugsa margir að núna sé ég augljóslega kona sem hatar karlmenn, talandi svona illa um þá í færslunni minni en það er nú ekki málið. Ég tala mun frekar um samfélagsmein heldur en nokkurn tíma einstaklingsmein. Þetta er nefnilega mein á samfélaginu, þessi sátt og viðurkenning sem virðist gegnum gangandi. Það ætlaði allt að fara yfir um þegar átti að setja kynjakvóta í Gettu Betur. Það var nefnilega óþarfi með öllu, ég birti því hér hluta af ritgerð sem ég skrifaði þegar ég sat námskeiðið Kynjafræði við HÍ vorið 2013.

Stefán Pálsson skrifaði grein á knúz.is sem bar heitið „Hvernig Gettu Betur eyðilagði daginn“ um spurningakeppnina Gettu Betur. Stefán keppti sjálfur í Gettu Betur í liði MR árið 1995 og fóru þeir með sigur af hólmi, einnig hefur hann samið spurningar fyrir keppnina. Stefán velti nefnilega upp þeim punkti að í keppnisliðum ársins væru 23 strákar að keppa en einungis ein stelpa. Sagði hann það vera slæmt sjónvarpsefni og sagði lausnina fólgna í kynjakvóta. Fjölmiðlaumfjöllun og umfjöllun samfélagsmiðla á borð við ummælakerfi dv.is loguðu í nokkra daga vegna ummæla hans,  dæmi um ummæli þar voru „Já og svo þarf að sjá til þess að þær vinni líka“ og  „Ég vill kvóta á kynjakvóta“ og „Er maðurinn ekki að grínast??“  þetta voru týpísk viðbrögð almennings við þessari umræðu um kynjakvóta á Gettu Betur.

Fyrir utan kvenfjandsamlega fordæmingu almennings þá var einnig dregið upp að ástæðan fyrir skorti kvenna í Gettu Betur væri vegna þess að konur væru í eðli sínu hlédrægari, ástæðan fyrir því að þær vildu ekki keppa væri vegna þess að þær væru bara ekki fyrir framapot, þær væru feimnar og jafnvel að þær væru bara ekki jafn vel gefnar og strákarnir. Ástæðan gat ekki verið sú að það vantaði fyrirmyndir, hvatning skóla og kennara er meiri til stráka og nefnir Stefán í grein sinni stofnun þess sem hann kallar „Spurningaliðsklíkan“, hún gengur útá það að hópur sex til átta stráka æfðu sig undir Gettu Betur eins og þetta væri íþróttakeppni, fleiri skólar öpuðu þetta upp eftir þeim og blasir vandamálið beint við þar, þetta voru strákahópar. Það voru engar stelpur í þessum hópum. Það er örugglega mjög erfitt að vera eina stelpan sem keppir í Gettu Betur því það muna allir eftir þér, því þú ert sú eina, það verður meira tekið eftir mistökum þínum, því það er enginn annar af þínu kyni. Strákarnir hverfa í fjöldann, það er álag að vera einn af sínu kyni.

Þetta er það sem kom fyrir stelpurnar í Morfís líka. Þær voru teknar til hliðar af öðrum keppendum og þær teknar algjörlega fyrir, þar á meðal hreinlega með kynbundnu ofbeldi. Af hverju voru þessir keppendur ekki stoppaðir? Hvar var fólkið sem átti að grípa inní þegar það var augljóslega farið svo langt yfir strikið? Er samfélagið svo samdauna þessu að enginn áttar sig á hversu rangt þetta er fyrr en fórnarlambið sjálft stendur upp og segir „þetta var ljótt og mér sárnaði“?

Þetta eru ekki einu dæmin því miður, heldur virðist þetta vera gegnum gangandi í öllum samfélagsstigum og mun þetta ekki lagast nema með því að allir segi stopp, hingað og ekki lengra!  Við viljum ekki búa í svona samfélagi. Ég vil að dóttir mín sjái það sem skemmtilegan kost að fara í svona keppnir, án þess að eiga það á hættu að verða tekin fyrir og lenda í kynbundnu ofbeldi fyrir vikið.

-Freyja