Á morgun er 13. mars

og þann dag verður haldið „Million Women March for Endometriosis“  og í tilefni af þeim degi skrifaði ég þessa grein í Kvennablaðið.

Þar sem talið er að 5-10% kvenna þjáist af endómetríósu þá hvet ég alla til að kynna sér þennan sjúkdóm þar sem allar líkur eru á að þú þekkir einhvern sem er að þjást. Mikið af fræðiefni er að finna á síðunni endo.is sem eru félagasamtök kvenna á Íslandi með endómetríósu. Þetta þykir lítt geðslegur sjúkdómur enda beintengdur við blæðingar og túrverki og þykir ekki fínt að tala um það en það gerir sjúkdóminn nákvæmlega ekkert auðveldari. Hann er krónískur og mjög sársaukafullur.

Það er alltaf frekar erfitt að vera svona „óhuggulega“ sjúkdóma, sérstaklega ef maður er það óheppin að þetta leggist á þarmana, ekki er það nú geðslegra að tala um. En einhvers staðar verður að opna umræðuna og þetta er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta kemur mikið í köstum hjá mér, ég hef lent í því að fá risa blóðfylltar blöðrur sem þekja eggjastokkana hjá mér, þegar þær springa þá blæðir inná eggjastokkinn og það veldur gríðarlegum kvölum. Einnig hefur þetta farið í kviðarholið hjá mér og blætt þar. Ég hef farið á svo miklar blæðingar að það blæðir í gegnum allt í methraða, í fötin, rúmið og rúmfötin. Vaknað upp á floti og varla staðið í fæturna af verkjum. Er stöðugt haldin járnleysi og fólk stendur svo og starir á mann þegar maður reynir að útskýra hvað er að, fyrir utan hversu ógeðfellt fólki finnst að maður segi þeim það, enda er þetta ekkert fínn sjúkdómur.

En hægt er að lesa greinina mína til að kynna sér þetta betur og einnig hvet ég alla að fara inná endo.is og kynna sér efnið það.

Í öðrum fréttum fékk ég frekar leiðinlegar fréttir frá lækninum mínum á mánudaginn. En ég hef verið að glíma við mikil veikindi núna í svolítinn tíma og fór í alls konar blóðprufur í síðustu viku, góðu fréttirnar eru þær að skjaldkirtillinn í mér er við frábæra heilsu! Kólesterólið í toppstandi og allt kemur svaka vel út, nema lifrin kom ekkert alltof vel út en það var vegna þess að ég er með einkirningasótt! Bæði lifrin í mér og miltað eru bólgið og veldur það vondum einkennum, ég er með um 10kg af bjúg eða álíka og mikla magaverki vegna miltans. En einkirningasótt veldur einnig gríðarlegri þreytu og orkuleysi sem hefur einmitt einkennt mig undanfarna viku ásamt ljósfælni og hreinlega krónískum höfuðverk. Meðgöngutími sjúkdómsins er mjög langur en ég get verið veik í um 6-8 vikur og jafnvel lengur þar sem hann leggst yfirleitt verr á mann eftir því sem maður er eldri og ekki algengt að maður fái hann eftir 25 ára. Ég er því bara í því að fá sjúkdóma sem ég á ekkert að fá, gamalmenna- og ungmennasjúkdóma, vonandi bara að ég bæti ekki fleirum við núna.

Sem betur fer á ég afskaplega skilningsríka og góða kennara og fæ ég því að skila hópvinnuverkefni ein og undanþágu vegna skyldumætingar í tíma núna en verð þess í stað í sambandi við kennarann minn gegnum e-mail. Svona getur maður nú verið heppin þrátt fyrir allt 🙂

En ég læt þetta duga í bili, þar sem ég sé fram á rúmlegu næstu vikurnar verð ég örugglega duglegri að skrifa.

-Freyja

Vonbrigði vikunnar

Eiga klárlega Stígamót. En ég las frétt inná visir.is þá sem þær leituðu eftir karlmanni til að starfa hjá þeim. Þetta er tekið úr fréttinni http://visir.is/stigamotakonur-leita-karls-med-skegg/article/2014140309286

„Já, við viljum fá góðan karl í lið með okkur. Helst með skegg og allt svo þetta sé augljóslega maður. Og, þá kannski til að undirstrika vinnu okkar með körlum. Allra hluta vegna viljum við hafa val um að fólk geti farið til karls þegar það kemur til okkar. Og ekki síst vil ég hafa karl við hliðina á mér, eða geta sent karl með fræðslu út í skóla og út í samfélagið vegna þess að kynferðisofbeldi er fyrst og fremst karlavandamál.“

Til að lýsa betur hversu mikil vonbrigði mín eru ákvað ég að svissa kynjum í þessu.

„Já, við viljum fá góða konu í lið með okkur. Helst með stór brjóst og allt svo þetta sé augljóslega kona. Og, þá kannski til að undirstrika vinnu okkar með konum. Allra hluta vegna viljum við hafa val um að fólk geti farið til konu þegar það kemur til okkar. Og ekki síst vil ég hafa konu við hliðina á mér, eða geta sent konu með fræðslu út í skóla og út í samfélagið vegna þess að uppeldisvandamál er fyrst og fremst konuvandamál“

Já takk fyrir. Kynferðisofbeldi er vandamál okkar allra, þetta er samfélagsmein sem varðar okkur öll, kalla ekkert frekar en konur. Þetta er akkúrat hluti af þeim fordómum sem karlmenn verða fyrir, hversu margir karlmenn stíga fram og segja frá því að kona hafi nauðgað þeim? Næstum því enginn því það er gert grín að því. Í Dagvaktinni var kona sem nauðgaði manni, það var bara djók, fólk hló, ég veit ekki hversu mikið fólk hefði hlegið ef þessu hefði verið snúið við. Er þetta ekki hluti vandans? Hluti af því að karlmenn stíga mun sjaldnar fram heldur en konur og segja frá ofbeldinu sem þeir lentu í?

Í fréttinni segir einnig að 18% þeirra sem leita til Stígamóta séu karlmenn, hvað ætli þessi tala hafi verið há fyrir 15 árum? Og halda einhverjir að vandamálið sé nýtt? Ég held nefnilega að þetta sé mjög stórt vandamál og að alltof margir karlmenn -eins og konur- verði fyrir kynferðisofbeldi en þeir eru mun ólíklegri en konurnar til að stíga fram með vandann því þetta er ekki tekið alvarlega í samfélaginu og hvað þá þegar að það birtast svona fréttir.

Skammarlegt.

-Freyja

Writer’s block

Hún er að hrjá mig. Það er svo margt sem mig langar til að segja en næ einhvern veginn ekki að setjast niður og einbeita mér nógu mikið til að koma orðunum rétt frá mér.

Langar því bara að segja ykkur frá verðinu hérna á algengum vörum, því þegar við ákváðum að flytja þá hef ég varla tölu á því hve margir sögðu mér að Noregur væri SVAKALEGA dýrt land og sagði mér svo frá ofurháu verði á hálfs líters kóki og svo sígarettupakka. Eitthvað sem mér gæti ekki verið meira sama um þar sem ég hvorki reyki né drekk kók. En það er samt alveg satt, hálfs líters kók er sjúklega dýrt, sígarettur eru það líka og mér er ennþá alveg sama, bara gott að þetta sé dýrt, þetta er nefnilega líka dýrt fyrir heilbrigðiskerfið.

En allavega þá tel ég matarkostnað okkar fjölskyldunnar hafa minnkað ef eitthvað er síðan við fluttum og því ætla ég setja inn hér algengar vörur sem við kaupum og verðin á þeim, ég nota svo reiknivélina inná landsbankinn.is til að breyta norskum krónum yfir í íslenskar. Ef þessar upphæðir eru svo settar sem prósenta af tímalaununum hans Óla þá er þetta náttúrulega hálfgert djók miðað við hvernig þetta var á Íslandi. En allavega, hér koma nokkur verðdæmi:

Heill, ferskur (ófrosinn) kjúklingur: 38 kr/kg = 717kr

6 epli (svona fersk og góð, svipuð og pink lady, ég er frekar snobbuð á eplin mín enda borða ég minnst eitt á dag) : 20 kr=  377kr

500 gr ferskur (ófrosinn) lax án roðs og skorinn í fjóra 125gr bita: 53 kr = 1000 kr

1 kg af frosnum þorsk í bitum, roð og beinlaus: 50 kr = 943 kr

680 gr af ferskum (ófrosnum) kjúklingabringum, yfirleitt 4 bringur í pakka: 69 kr = 1302kr

Heill brauðhleifur (sem við setjum sjálf í brauðvél sem sker, frekar gróft og nýbakað): 24kr = 453kr

1,75L mjólk: 25 kr = 472kr

500gr vínber: 29kr = 547kr

400gr svínahakk ferskt og ófrosið: 18kr = 339kr

400gr nautahakk fersk og ófrosið: 38kr = 717kr

400gr kjúklingahakk ferskt og ófrosið: 25kr = 472kr

1 kg af Norwegian osti (sá ostur sem við kaupum alltaf): 85kr/kg = 1604kr

Set kannski inn fleiri vörur en ég vildi setja þetta inn því alltaf fengum við að heyra um hinn rándýra Noreg og það er bara smá kaldhæðni fólgin í því að það kostaði mig miklu meira að kaupa inn á Þórshöfn á Langanesi í fyrrasumar, þegar ég var í heimsókn hjá móður minni áður en ég flutti til Noregs, heldur en það kostar mig að kaupa inn hér í Noregi 😉

-Freyja