Af hverju ég hata…

…frasann „konur eru konum verstar“.

Þetta er hið allra mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt og er þá af mörgu að taka! En allir sem mögulega hafa látið þessa hörmulegu setningu frá sér, hættið því! Þetta er ömurlegt setning, svo ótrúlega hálfvitalegt þótt víða væri leitað.

Nú skal ég útskýra betur af hverju ég hata þessa setningu. Konum eru ekki konum verstar, fólk er fólki verst. Þarna, fín setning.

Ég er næstum bara ótrúlega hrifin af því hversu vel mér tókst að útskýra þetta í stuttum (fáum) orðum, en bara næstum, svo nú ætla ég að útskýra þetta í fleiri (kannski löngum) orðum.

Í mínu lífi (því persónuleg dæmi eru mitt uppáhald og „frábær“ í rökum, en hvað um það, aftur að því sem skiptir máli), í mínu lífi, hafa þær konur sem ég hef kynnst klárlega verið mér bestar, minn versti sársauki í mínu lífi kemur ekki frá konum, það fólk sem ég treysti hvað mest eru í meirihluta konur, konur sem ég veit að myndu ætíð vera til staðar fyrir mig sama hvað, myndu ekki dæma mig fyrir mistök mín og myndu gefa mér faðmlag þegar ég þyrfti á að halda (líka skell á hnakkann ef ég þyrfti á því að halda líka..). Svo konur eru frábærar, stórkostlega skemmtilegar verur sem hafa svoleiðis langt því frá verið mér verstar í mínu lífi og það er varla að ég sjái fyrir mér aðstæður í mínu lífi þar sem setning gæti átt við.

Nei sorry, slíkar aðstæður eru ekki til, þá gildir setningin „fólk er fólki verst“ við og legg ég til að við leggjum hina, ömurlega setningu niður og tökum upp þessa.

Allavega í versta falli, ekki nota hina, hún er leiðinleg, karlrembuleg setning.

Þangað til næst!

Freyja

Í nafni femínisma

Margir, bæði konur og karlar, leyfa sér að gagnrýna útlit annarra, klæðaburð og þá kannski sérstaklega skorti á honum, villt og galið. Gagnrýnin er hvorki uppbyggjandi né gagnleg og því algjörlega óþarfi. Oft er hún meira að segja bara hrikalega dónaleg og langt því frá nokkuð femínísk.

Þykir það meðal annars mjög eðlilegt að gagnrýna skort á fötum kvenmanna og segja þar af leiðandi að þær séu augljóslega fórnarlömb klámvæðingarinnar. Þetta þykir mér ekkert nema argasti dónaskapur, því augljóslega er kona ekki fær um að velja sér föt (já eða ekki föt!) nema þá að vera undir áhrifum. Það var skrifaður gríðarlega góður pistill á vísir.is um daginn sem bar heitið „Meira klám fyrir mig takk!“ og hann var svo skemmtilega sannur. Konur geta aldrei unnið. Ef þær eru án fata þá er það vegna þess að þær eru undir stjórn karlmanna, nú ef þær eru huldar fötum frá toppi til táar þá eru þær líka á valdi karlmanna. Já leyfum þessu að setjast.

Já nei ég skil ennþá ekkert í þessu.

Lengi vel þá var ég þeim sammála sem töluðu sem mest gegn skorti á fötum. Ég var svo sem ekki orðin fullorðin heldur og svolítið óhörnuð en rökin þótti mér „meika fullt sens“. Þangað til ég hugsaði að öll erum við nú misjöfn. Það er bara alls ekkert víst að allar konur vilji vera vel klæddar, sumar vilja kannski ekki vera í neinu og þá er það hreinlega rangt að stíga fram og reyna að taka völdin af þeirri konu með því að segja að hún hafi bara ekki getað tekið þessa ákvörðun sjálf og ef hún tók hana sjálf þá er það einungis vegna þess að hún er undir áhrifum klámvæðingarinnar og að hennar (ó)fataval sé rangt. Þetta er bara ekki í lagi. Aldrei.

Ég vil eiga kostinn á því að velja mér mín föt, nú eða velja að vilja ekki vera í fötum, eða mjög litlum fötum, kannski vil ég bara vera í ljótum fötum? En fyrst og fremst, vil ég eiga valið, án þess að eiga það í hættu að völdin séu tekin af mér og færð í hendur karlmanna allt í einu, því ég klæddi mig á þann hátt að það þóknaðist ekki vissum hluta, nú hver fer þá með völdin?

Fyrst og fremst finnst mér vanta virðingu fyrir vali kvenna, því nú fyrst höfum við raunverulegt val, hvort sem heldur er á fatavali, menntun eða öðru (best að taka það fram að ég er hér að ræða íslenskar konur þar sem er einna mesta jafnrétti í heiminum).

Að öðru þá vil ég ræða gagnrýni á útlit kvenna, sem er gríðarlega mikið einnig. Kona sem hugsar vel um útlitið er oft álitin heimsk, sem er svo gríðarleg firra að ég hef aldrei náð upp í það, hvernig getur verið samasem merki þarna á milli? Kona sem er mjó fær gagnrýni á það að hún sé horuð og að karlmenn vilji „alvöru“ konur (ég fæ sömu gagnrýni á hundinn minn, ég get svo svarið það, hún er nefnilega af smáhundategund), kona sem er of feit fær gagnrýni á að enginn vilji hana, kona sem stundar mikla líkamsrækt fær gagnrýni á að konur eigi ekki að hafa mikla vöðva ef hún vill ekki líta út fyrir að vera karlmaður.

Eftir síðustu grein mína sá ég komment á hana þar sem var sagt orðrétt „Skil bara ekki orðið þessa fitness keppni, horaðar brúnku barbídúkkur á sviði.“ og ég hef verið gríðarlega hugsi eftir þessa setningu, hún sló mig einhvern veginn svo útaf laginu. En svona er ég augljóslega barnaleg, mér þykir bara svo bilað að segja svona um annað fólk að mér dettur varla til hugar að annað fólk gerir það. En hvað á þetta að þýða? Við ættum öll að hugsa svolítið um það hvort orð okkar séu nauðsynleg, af hverju segjum við suma hluti? Það er ágætt að hugsa þetta sem svo, ef þú hefur ekkert gott að segja, segðu þá ekki neitt. Þetta meina ég á útlit annarra. Það að konur vilji keppa í fitness hlýtur að vera leyfilegt án þess að fólk segi niðrandi hluti um þeirra útlit. Ég er ekki hrifin af öllu útliti, ekkert frekar en neinn annar, en ég skrifa ekki niðrandi hluti um útlit annarra gjörsamlega að óþörfu, orð særa og maður á ekki að særa fólk að óþörfu.

Að gagnrýna er allt annar hlutur, ég segja eitthvað um útlit annarra er allt í lagi upp að vissu marki, en þú setur ekki eitthvað frá þér sem er einungis ætlað að vera niðrandi, það er ljótt.

Nú vona ég, að þessi pistill fái einhverja til að velta svolítið fyrir sér að orð hafa ábyrgð og stundum á það bara við að fæst orð bera minnsta ábyrgð.

-Freyja

Fellow sykurfíklar

Ég heiti Freyja og ég er sykurfíkill. Fyrir 15 mánuðum hætti ég að reykja (Húrra fyrir mér!) en það gekk ekki betur en svo að ég skipti út einni fíkn fyrir aðra, ég hætti að reykja og í staðinn fyrir sígarettur þá tróð ég bara uppí mig smá nammi.. það skaðar ekki? Er það nokkuð?

Owell einum 17kg seinna (sem gera um það bil 1.1kg á mánuði!!) þá er ég bara ekki alveg sammála þeirri upprunalegu hugsun minni að það að fá mér nammi skaði ekki neitt. Að díla við sykurfíkn er á einhvern hátt bara svo miklu erfiðari heldur en að díla við sígarettufíkn, ég hætti  bara að kaupa sígarettur og þá voru þær ekki til á heimilinu, það fannst mér nokkuð einfalt! En nú á ég börn sem heimta laugardagsnammi, mann sem elskar nammi líka og bróðir sem heldur uppá sama súkkulaði og ég. Svo núna þá er ég og heilinn í mér í stöðugum rökræðum, all day long.

Heili: Eitt nammi skaðar ekki
Ég: Jú það er mánudagur
Heili: En þú borðaðir lítinn morgunmat svo í raun „áttu inni“ nokkrar auka kaloríur
Ég: Aha! Sniðug lausn, ég á það í raun inni… nammnammnamm

Ég ætlaði mér að hætta að blogga í smástund, meðan ég væri að taka til hjá mér, koma sjálfri mér í jafnvægi og klára fyrsta árið í skólanum en hugsaði svo með mér að ég hef bara of mikið að segja til að geta sleppt því að henda hugsunum niður á blað, líklegast það besta við ofvirkni, ofvirkur heili með 150þúsund hugsanir á dag, það er nauðsynlegt að skrifa nokkrar þeirra niður svo ég gleymi þessu ekki öllu! 😀

Í dag eru þrír dagar í fyrsta prófið mitt. Í tilefni af því fór ég í ræktina og ætlaði svo að læra, svo hafði ég bara eitthvað svo mikið að segja að ég ákvað að blogga, er það ekki málið? Kærkomin frestunarárátta þar sem ég finn mér ætíð eitthvað stórmerkilegt og nauðsynlegt að gera rétt fyrir próf svo ég þurfi nú örugglega ekki að lesa aaaalveg strax, ekki fyrr en ég er farin að ofanda úr stressi korter í próf og bölva sjálfri mér í sand og ösku fyrir að vera ekki skipulagðari… kannast einhver við þetta? 😉

En ástæða bloggfærslunnar í dag er sú að ég er að taka sjálfa mig í gegn, bókstaflega. Ég setti markið gríðarlega hátt í þetta skiptið eins og vanalega, er ekki þekkt fyrir að fara meðalveginn né þann auðveldasta, ekkert skemmtilegt við það, svo ég er byrjuð í keppnisþjálfun fyrir Bikini Fitness. Ég ætla mér að stíga á svið í apríl 2015 á Osló Grand Prix, það verður gaman að sjá hvort mér tekst þetta en hvað sem verður þá verður ferðalagið skemmtilegt og þá er nauðsynlegt að hafa stað til að geta hent hugsunum sínum niður. Ég ætla að fara úr því að vera nammifíkill sem er 17kg of þung og yfir í bikini fitness keppanda á einu ári og þá er nauðsynlegt að geta skrifað niður hvernig manni líður. Í það minnsta á þetta örugglega eftir að verða dramtískt, skemmtilegt og mögulega hræðilegt á tímum 😉

-Freyja

Að vanta trúna

Í dag þá bara hef ég hana ekki. Ég er að reyna að muna hversu langt ég er komin en finnst ég bara standa í lausu lofti. Það er óþægileg tilfinning.

Það hefur mikið gengið á í mínu lífi undanfarna mánuði, ég er búin að vera mikið veik og þegar það gerist þá er erfitt að rísa aftur á fæturna. Ég er búin að vera frekar döpur en er að rísa upp úr því -held ég. En stundum, þá vantar manni bara að finna að einhver sé þarna til staðar að hjálpa manni upp ef maður hrasar, oft þarf ekki meir. Einhver, einhvers staðar, er þarna og hefur trú á manni. Hvetur mann áfram þegar maður trúir ekki sjálfur.

Ég er ekki sú manneskja sem geislar af sjálfstrausti, ég hef aldrei haft neitt sérstaklega mikið af því og yfirleitt dregið í efa allar mínar ákvarðanir. Ég hef eina manneskju til að hringja í sem getur alltaf hent mér af stað aftur og það er mamma mín, besta kona í heimi. Ég veit ég er ekki ein, það er fullt af fólki sem stendur í sömu sporum og ég. Kannski þess vegna sem ég ákvað að skrifa þetta blogg. Ég er að reyna að standa í fæturna aftur og vantar að muna hversu langt ég er komin.

Allir hafa líklegast heyrt sögur af því af hverju á ekki að hitta ókunnuga af netinu, sérstaklega ekki börn eða unglingar. Flestir hafa heyrt hryllingssögur. Ég er ein slík saga og enn í dag, berst ég við mína drauga fortíðar og reyni eftir fremsta megni að henda þeim í burtu, flesta daga gengur það líka ágætlega.

Ég var 12 ára og kynntist honum á irkinu, hann sagðist vera unglingsstrákur. Ég fór og hitti hann, hann var ekki unglingsstrákur, alveg langt því frá. Hann var þrítugur maður og ekki nóg með það, heldur átti hann þrítugsafmæli daginn sem hann ákvað að hitta mig.  Hann nauðgaði mér. Enn situr í mér hvort ég hafi verið einhvers konar afmælisgjöf. Ég hef alltaf átt erfitt með þetta. Ég hefði ekki átt að
-Fara og hitta hann
Ég hefði átt að
-Hlaupa í burtu þegar ég sá að hann var ekki unglingsstrákur
-Segja eitthvað
-Neita að koma með honum
-Gera eitthvað, bara eitthvað
-Segja einhverjum frá strax
-Ekki ljúga um þetta

Ég veit í dag að það er ekkert sem ég hefði átt að gera en ég sit samt uppi með þetta öðru hverju og spyr sjálfa mig aftur og aftur, af hverju sagði ég ekkert? Af hverju leitaði ég ekki hjálpar strax? Af hverju leyfði ég þessu að gerast?

Ég veit betur en þessar spurningar ásækja mig enn í dag, alltof mörgum árum seinna. Því ákvað ég að kasta þessu frá mér, ég þarf að losna við þetta, ég veit að þessar spurningar eru ekki réttar. Enn í dag, þá skammast ég mín, ég er alltaf að reyna að vera sterk, láta ekki á mér sjá en inni í mér, þá er ég bara ég, ég með hálfbrotna sjálfsímynd og skort á trú.

Einu og hálfu ári seinna þá sagði ég frá, ég sagði hjúkrunarfræðing í skólanum frá og hún hjálpaði mér, góð kona. Þetta komst upp, maðurinn var ákærður af ríkissaksóknara, hann var dæmdur líka. En ekki fyrir nauðgun. Nei, hann var dæmdur fyrir gáleysi. Gáleysið að „sofa hjá“ 12 ára barni, þrítugur maðurinn. Í dag hefði hann verið dæmdur fyrir nauðgun vegna nýrra laga en þetta situr í mér líka. Dómskerfið brást mér, það sagði að ég hefði viljað þetta. Ég vildi þetta ekki.

Núna hafandi skrifað þetta niður þá líður mér betur. Ég veit ég kemst yfir þetta, ég geri það alltaf. En það er gott að minna sjálfan sig á, hversu langt maður er komin í eigin baráttu, það er enginn þarna úti sem getur brotið mann niður.

-Freyja

Halló heimur?

Ég er hér og enn á lífi, einkirningasóttin drap mig ekki ótrúlegt en satt. En ég hef verið að reyna að ná upp náminu hjá mér aftur, veitir ekki af þar sem ég missti af næstum því öllum fyrirlestrum vetrarins og einungis 20 dagar í fyrsta prófið mitt.
Norðmenn eru ótrúlega skemmtilegir, sérstaklega kennarinn minn sem fannst það afbragðshugmynd að hafa prófið heimapróf, en ekki bara heimapróf, neinei þetta er 16 DAGA heimapróf svo ég býst við 150bls í word eða eitthvað álíka. Best að taka nógu marga daga svo við nemendurnir getum pottþétt  verið úttauguð eftirá, hressandi!  En svona til að bæta við þetta þá fannst henni það líka frábær hugmynd að hafa þetta HÓPpróf, hvað er það? Hver hefur hóppróf? og ekki bara hóppróf, neinei heldur 16 daga hóppróf! Hún er pottþétt að gera félagstilraun, það getur bara ekki annað verið. Ótrúlegt fyrirkomulag.

Hér er komið vor, yfirleitt yfir 10° hiti og bara gott veður, næstum eins og Ísland á sumrin og ég er búin að geta farið út í sólbað, ég elska þetta. Í dag er ég á leiðinni í foreldraviðtal, þau eru yfirleitt áhugaverð, ég fæ spurningar og upplýsingar eins og: „heimanámið búið að vera svolítið erfitt?“ „já hann hefur ekki getað einbeitt sér mikið undanfarið..“ „það hafa komið upp erfiðleikar“

og allt þetta kemur hvorki mér né kennaranum á óvart og eitthvað sem við vissum fyrir en einhvern veginn verður að segja mér þetta aftur, bara svona svo ég gleymi þessu nú örugglega ekki. Ég verð þó að hrósa skólanum hérna fyrir hans framlag til að gera skólagöngu sonar míns auðveldari. Það er bara eitthvað svo dásamlegt við það að þeim þyki sjálfsagt að hleypa syni mínum útúr kennslustundum og að vera með smíðakennara skólans og húsverðinum líka, þar bralla þeir ýmislegt saman, hann fær hjálp í félagsfærni, spjall og að smíða og vera úti að laga og betrumbæta ýmsa hluti. Þeir gerðu þetta svo náttúrulega að aldrei hefur neinn sett neitt útá þetta, hvorki sonur minn né aðrir nemendur og hann er svo hamingjusamur.

Að fá það viðurkennt án þess að þurfa að berjast fyrir þessu var svo mikill léttir að ég held að fæstir nái að átta sig á því, að skólinn viðurkenni veikleika sonar míns án þess að ég þurfi að útskýra hvert einasta smáatriði og án þess að ég þurfi að segja þeim að ég geri mitt besta er líka mjög gott. Það er ótrúlega upplífgandi að upplifa í fyrsta sinn einstaklingsmiðað skólakerfi þar sem sonur minn fær heimanám við hæfi -án þess að ég þurfi að berjast fyrir því, kennslu við hæfi og að allir nálgist hann á þeim forsendum sem hann þarf. Kröfurnar eru komnar á það level sem hann ræður við og við sjáum ótrúlegan mun, hann er hamingjusamari og heimilislífið er auðveldara, hann er í fyrsta sinn að upplifa sig á góðan hátt í skóla sem er tilbúinn að taka á móti honum eins og hann er en ekki að reyna að umbreyta honum í eitthvað sem hann getur aldrei orðið.

Íslenskt skólakerfi gefur sig út fyrir að vera einstaklingsmiðað en einhvern veginn varð ég aldrei vör við það, nema að það hafi falist í því að láta son minn sitja einan hliðina á kennaranum svo það sé auðveldara að láta hann læra nákvæmlega sama efni og samnemendur (sem eyðileggur strax hugtakið „einstaklingsmiðað“), láta hann fá nákvæmlega sama heimanám og gera nákvæmlega sömu kröfur á hann og samnemendur. Nú ef hann stóð ekki undir þessum kröfum þá fengum við foreldrar tiltal enda augljóslega ekki að standa okkur í því að gera son okkar nákvæmlega eins og normið og því best að tala okkur aðeins til.  Ég áttaði mig ekki á því hversu ótrúlega þreytt ég var á neikvæðum foreldraviðtölum fyrr en ég losnaði við þau, það er eitthvað furðulegt við að kvíða foreldraviðtölum, ég vissi alveg hvað ég myndi heyra og ef satt skal segja þá nennti ég hreinlega ekki að hlusta á þetta lengur, að hafa kennara sem hafði augljóslega engan skilning á raunverulegum erfiðleikum barnsins var hörmung. Þó vil ég taka það fram að í tæplega tvo vetur hafði sonur minn ofsalega góðan kennara, kennara sem hafði fullan skilning á hans erfiðleikum en það er takmarkað sem kennarar geta gert þegar skólakerfið er ekki einstaklingsmiðað, hún gerði þó sitt allra, allra besta og fyrir það erum við þakklát, það auðveldaði hlutina til muna.

Barátta okkur við skólakerfið á Íslandi var þó erfiðara en þetta, við fengum nefnilega eitt af hið frægu símtölum frá kennara sem biðja foreldra um að hringja börnin sín inn veik í samræmdu prófin. Það sem kannski ekki margir vita er að það er nákvæmlega ekkert mál að fá undanþágu frá samræmdum prófum ef raunveruleg ástæða þykir til (sem sonur minn féll samt ekki undir, því nauðsynlegt að ég sjálf myndi hringja hann inn veikan), ég ráðfærði mig við lækni sonar míns, fyrrv. kennara hans og svo mat ég þetta að sjálfsögðu sjálf líka og allir voru sammála um að það væri ekki því til fyrirstöðu að sonur minn tæki prófin, það væri nú þegar gengið í gegn að hann yrði í sérstofu með aukaaðstoð. En það dugði nú samt ekki til, við hjónin þurftum bókstaflega að berjast fyrir þeim sjálfsagða rétti sonar okkar að mæta í prófið. Okkur var meira að segja sagt að ef við myndum láta hann taka prófin þá myndi hann „upplifa sig heimskan“ þetta er orðrétt frá sérkennara.

Það er ekkert grín að vera foreldri og standa í stappi við skólakerfið á Íslandi, að þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum rétti barnsins síns og vera gert lítið úr frá kennara sem við áttum svo að eiga í eðlilegum samskiptum við eftir þetta. Það er næstum ómögulegt og í okkar tilfelli var það það. Við létum veturinn líða enda lítið hægt að gera en ekki gátum við leitað til kennarans, foreldraviðtöl voru með stórum bleikum fíl sem fyllti herbergið og allt var yfirborðskennt og hálf asnalegt í alla staði. Það er því ótrúlegur léttir að mæta í viðtal þar sem ég veit að kennarinn hefur skilning á aðstæðum, að vita að við höfum sameiginlega hag barnsins fyrir brjósti og að allir séu af vilja gerðir til að gera skólugöngu barnsins sem ánægjulegasta.

Fyrir þetta er ég svo þakklát og fegin. Og í fyrsta sinn í lengri tíma þá sé ég raunverulega von fyrir son minn að eiga ánægjulega skólagöngu og góða framtíð, þar sem honum er tekið, nákvæmlega eins og hann er.

-Freyja