Foreldrasamviskubitið

Almennt þykir mér gott að skrifa, hef gert það síðan ég var barn að skrifa frá mér tilfinningar og hugsanir vegna þess að þá þykir mér ég ná að flokka, stjórna og skilja betur hvernig mér líður og hvað mér finnst. Oftast er þetta eitthvað sem liggur á mér og næ ekki alveg utan um og er ekki alveg viss hvernig mér líður, þá að skrifa hlutina niður hjálpar mér að átta mig betur á stöðunni. Ég mæli í raun með þessu fyrir flesta, þetta er mjög gott. En viðfangsefni dagsins hjá mér er foreldrasamviskubit. Ég held ég geti fullyrt að flestir foreldrar hafi upplifað það. Ég upplifi þetta samviskubit nokkuð reglulega vegna elsta barnsins míns.

Tvö yngri börnin mín eru tiltölulega auðveld börn, þau eru þægileg og gegna bara, það er mjög sjaldan sem ég þarf að segja nokkuð við þau svo samviskubitið nær sjaldnast til þeirra en þá kemur að elsta barninu mínu. Frumburðinum sem er að verða 11 ára gamall í haust.

Nú vil ég ítreka það að sonur minn er stórkostlegur strákur með risastórt hjarta og myndi aldrei gera flugumein. Að því sögðu get ég sagt að hann er einnig með ADHD, hefur sýnt kvíðaeinkenni, var greindur með ODD 7 ára gamall og er að fara í aðra greiningu núna hér úti þar sem er rökstuddur grunur að hann sé á einhverfurófi.

Ég held ég upplifi foreldrasamviskubit vegna sonar míns nokkrum sinnum í viku, það er þegar þolinmæði mín er á þrotum eftir 150 spurningar um næstum sama efnið því hann skilur það ekki almennilega eða þegar það tekur yfir klukkutíma að fá hann til að gera sig kláran fyrir skólann. Þegar ég þarf að segja hlutina 5x bara til að bíða í hálftíma eftir að hann geri hlutina. Nú hugsa líklegast margir einnig að ég sé ekki nógu ströng eða ég eigi bara að láta hann gera hlutina, við það fólk vil ég segja að prufa fyrst að eiga og ala upp barn með svona margvísleg vandamál áður en það gagnrýnir og gefur uppeldisráð. Ég hef hlustað á ráð frá sérfræðingum, geðlæknum, sálfræðingum og heilu teymunum sem sérhæfir sig í þessum hlutum og fer eftir þeirra ráðum, ég er ekki að gera bara eitthvað útí loftið.

En einhvern veginn upplifir maður samt vonbrigði yfir því að hafa ekki endalausa þolinmæði, að hafa ekki orkuna í að svara endalausum spurningum og sitja betur á sér. Einnig er þetta ekki auðveldara þegar hann er í eirðarleysi og gerir lítið annað en að bögga yngri systkini sín og hleypa öllu uppí háaloft því honum leiðist.

Að fá samviskubit fyrir að vera mannlegur er ekki eðlilegt en samt finnst manni að maður eigi að gera betur, svara í fallegri tón, hafa meiri þolinmæði, meiri skilning, meiri tíma. Listinn gæti haldið áfram út í hið óendanlega og líklegast flestir foreldrar sem upplifa hugsanir sem þessar einhvern tíma á leiðinni. En ég vildi skrifa um þetta í dag því við erum byrjuð í sumarfríi. Ég elska að komast í frí en frí fyrir sum börn þýðir bara rútínuleysi, það er ekki alltaf gott, sonur minn þyrfti að hafa plan frá morgni til kvölds og það er ekki hægt á sumrin.

Svo það reynir verulega á þolinmæði mína þessa dagna, ég er afskaplega glöð ef ég næ að klára fyrsta kaffibollann áður en ég þarf að stilla til friðar eða svara 50 spurningar um hvernig við ætlum að skipuleggja daginn þar sem þarf næstum að hafa mínúturnar klárar fyrir hvert einasta verkefni og því skrifa ég þetta niður, það hefur enginn endalausa þolinmæði og það er eðlilegt að verða þreyttur einstaka daga.

Svo í dag, eru ekki nema 47 dagar eftir af rútínuleysi og ég og margir aðrir foreldrar, teljum niður dagana… í ljúft rútínulíf!

Þangað til næst!

Follow up

Nú í dag eru rétt rúmar 7 vikur síðan ég hóf átakið mitt og tók sjálfa mig algjörlega í gegn frá a til ö. Ég ákvað að setja rétt aðeins niður hvernig mér gengur. Fyrstu 2-3 vikurnar voru eiginlega auðveldastar, maður er ennþá svo spenntur fyrir nýjum lífsstíl að allt er skemmtilegt, það er það, að halda áfram eftir að nýja brumið er farið af sem þetta verður raunverulega erfitt.

Ég held ég sé búin að fara í gegnum nokkurn veginn allan tilfinningaskalann en yfirleitt er ég mjög jákvæð og næ að halda mér á beinu brautinni. Það sem gerir þetta auðveldara er að sjálfsögðu það að finna hversu hraustari ég er orðin, ég get farið í langa göngutúra, skokkað og hjólað án nokkurra vandamála en ég var hreinlega með þol á við veikt gamalmenni áður en ég tók mig á. Einnig er skemmtilegt að finna hvað maður styrkist við þetta og að geta þyngt lóðin í ræktinni og taka betur á því.

Ég ákvað að opinbera tölurnar mínar núna í von um að gefa mér örlítið meira búst til að halda áfram, ég á enn langt í land til að ná mínum markmiðum en mun komast þangað, það sem er mikilvægast er að láta hausinn fylgja með og vera jákvæður.

Ég mæli mig á 6 stöðum, yfir miðja upphandleggi, brjóst, mitti, rass (við lífbein), læri og kálfa og ég mæli þar sem ég er breiðust yfir kálfana og lærin. Fyrri talan er síðan 28. apríl og sú seinni tekin í dag 18. júní.

Upphandleggur hægri: 33.5cm – 30cm
Upphandleggur vinstri: 30cm – 29cm
Brjóst: 96cm – 91cm
Mitti: 78.5cm – 69cm
Rass: 108cm – 99cm
Læri hægri: 70cm – 64cm
Læri vinstri: 69.5cm – 63cm
Kálfi hægri: 41.5cm – 39cm
Kálfi vinstri: 41cm – 38.5cm

Svo í heildina er ég búin að missa 48.5cm og er gríðarlega ánægð með árangur minn. Þetta lak af mér ótrúlega hratt, núna sl.3 vikur hef ég ekki misst svo marga centimetra en hef hins vegar mótast þeim mun meira og því nauðsynlegt að taka myndir líka svo maður sjái mun á þeim líka þegar fer að hægjast á kg og centimetra missi.

En seinna meir mun ég birta fyrir og eftir myndir, ég er ekki tilbúin í það strax en mun gera það seinna.

En þangað til næst.