Af hverju ég vorkenni ekki

Það hefur verið örlítið í umræðunni að kenna í brjósti um kynferðisbrotamenn en best að taka það fram að betra er að lesa umræðuna í heild sinni inná facebook síðu Haukar þar sem DV fjallar einungis bara um brotabrot af því, en ég kann hreinlega ekki við að linka beint á facebook síðu annarra og því linka ég frekar inná DV. Þessar umræður og umfjallanir hafa vakið mig til umhugsunar og hér eru mínar vangaveltur.

Nú geng ég út frá því að flestir sem nauðga eru eitthvað skertir. Það nauðgar enginn heilbrigð manneskja, ekki frekar en að heilbrigð manneskja labbi út og myrði næsta mann. Það er eitthvað mikið að þeim sem nauðga, hvort sem um ræðir einhvers konar siðblindu, tímabundna geðveiki eða annað. Það er bara á hreinu að heilbrigð manneskja er ekki nauðgari.

Nú get ég bara ekki séð þörfina fyrir því að vorkenna þessu fólki, það þarf ekki á minni vorkunn að halda. Það er bara allt í góðu að líða illa eftir að hafa brotið svona alvarlega á annarri manneskju og ég skil hreinlega ekki þessa þörf til að fyrirgefa og vorkenna. Fullorðið fólk verður bara að axla ábyrgð á sínum gjörðum og stundum er glæpurinn það alvarlegur að þú átt enga vorkunn skilið -heldur enga fyrirgefningu, að minnsta kosti ekki frá þolenda ofbeldisins. Það að mamma þín, pabbi, systkini eða nánustu fyrirgefa þér er bara allt annað mál.

Þegar ég er komin inná þetta ætla ég einnig að nefna mína meiningu á fyrirgefningu. Ég fyrirgef ekki kynferðisbrotamönnum, ég mun ekki og hef ekki fyrirgefið nauðgurum mínum og sé nákvæmlega ekkert að því. Ég þarf ekki að fyrirgefa þeim til að halda áfram með mitt líf, sem betur fer eru þeir ekki hluti af mínu lífi og munu heldur ekki vera það. Málið með fyrirgefningu er að ég mun fyrirgefa börnunum mínum fyrir að brjóta uppáhalds myndina mína eða vini mínum fyrir að klessa bílinn minn og þar fram eftir götunum. Þá er það fyrirgefið, gleymt og grafið og allt er í lagi. Það er aldrei í lagi að nauðga. Það er ekki í lagi að hafa nauðgað fyrir 10 árum. Það mun heldur aldrei vera í lagi. Tíminn læknar heldur ekki öll sár en þegar tíminn líður þá lærir maður að lifa í sátt. Ég sætti mig við mína fortíð og held áfram.

Að ná sáttum er frekar langt og erfitt ferli. Það tekur tíma að sætta sig við svona erfiðan hlut en ég þarf ekki að fyrirgefa til að sætta mig við þá staðreynd að á mér var brotið og að ég get ekki breytt fortíðinni. Æðruleysi er mikilvægt til að sættast við fortíðina og sætta sig við hluti sem maður getur ekki breytt. Ég get ekki farið aftur í tímann og breytt því sem kom fyrir mig en ég get haldið áfram og lifað mínu lífi eins vel og ég get, í sátt við sjálfa mig. Ég gerði eins vel og ég gat og ég er sátt við minn hlut, ég er ekki reið lengur en ég hef ekki fyrirgefið og mun ekki gera.

Mér þykir mikilvægt að koma þessum punkti inn. Það þurfa ekki allir að fyrirgefa til að halda áfram með lífið og vera sáttir og hamingjusamir í sínu lífi, þessi eilífa krafa um að þú getir ekki lifað hamingjusömu lífi nema að fyrirgefa er ekki sanngjörn, hún er í raun heftandi fyrir þá sem geta eða vilja ekki fyrirgefa. Lífið er ekki svart/hvítt og margir lifa hamingjusömu lífi án þess að fyrirgefa brotamönnum sínum, þeir sem finnst það vera nauðsyn að fyrirgefa geta gert það, en mega þá vel sleppa því að halda því fram að við hin sem kjósum að gera það ekki burðumst með reiði og óhamingjusemi allt okkar líf.

Nú er líklegast til fullt af fólki sem horfir á fyrirgefningu með allt öðrum augum en ég og það er allt í góðu, en þegar kemur að svona glæpum þá er mikilvægt að hafa það í huga að fólk tekur misjafnlega á sínum málum, það er ekki til ein rétt leið fyrir alla. Þolendur kynferðisofbeldis hafa að öllum líkindum hundrað leiðir til að díla við sína erfiðleika og það að segja að ein leið sé sú rétta en hin ekki er hreinlega vanvirðing við alla þá sem velja sér aðra leið.

Þangað til næst!

Morgunverður!

Ég á einstaklega erfitt með að finna mér hollan morgunmat sem mér langar til að borða. Ég vakna yfirleitt með furðulegar langanir svona eins og löngun í kvöldmatinn kvöldið áður eða að mig langi til að elda mér eitthvað. Síst af öllu langar mér í hafragraut eða morgunkorn, svo þetta hefur verið eilítið vesen dag frá degi að halda sig á beinu brautinni og borða eitthvað á morgnanna sem er bæði hollt og ég hef lyst á!

Oftast hef ég borðað Weetabix sem ég set út á mjólk sem hef ég blandað með súkkulaðipróteini en ég á líka afskaplega erfitt með að finna mér prótein sem ég hef lyst á að borða þar sem það er allt meira og minna vont finnst mér, en oftast hef ég bara pínt þessu ofan í mig enda er nauðsynlegt að byrja daginn vel svo maður nái að halda blóðsykrinum í jafnvægi yfir daginn og líða vel. Ef ég passa ekki morgunmatinn fæ ég líka svakaleg cravings í alls konar óhollustu síðar um daginn og þar sem ég er ekki með mestu sjálfstjórn í heimi þá er best að reyna að halda öllu kerfinu í jafnvægi bara og sleppa við svoleiðis sveiflur.

En undanfarið hef ég fengið algjörlega meira en nóg af Weetabixi enda takmarkað hversu lengi maður getur borðað eins morgunmat dag eftir dag eftir dag…. án þess að gefast hreinlega bara upp á þessu og demba sér beint aftur í óhollustuna! En ég hef verið að leita mér að einhverju sem ég get borðað á morgnanna sem ég hef lyst á og heldur mér góðri í svolítinn tíma, eitthvað sem er einfalt og fljótlegt að gera þar sem ég er ekki líkleg til stórræða á morgnanna heldur! En ég fann mér dásamlega einfaldan, hollan og góðan morgunmat og prufaði í morgun. Það sem ég valdi mér voru heimagerðar próteinpönnukökur. Eins og áður sagði þá er ég sælkeri og því nauðsynlegt að borða eitthvað sem mér þykir gott því annars gefst ég bara upp.

En aftur að pönnukökunum. Þegar ég nenni að baka eitthvað þá verður það að vera einfalt, athyglisbresturinn minn veldur því að ég gefst upp að lesa langar uppskriftir og nenni ómögulega að baka eitthvað sem er svona flókið og með innihaldsefni sem þarf að fara í 15 búðir til að kaupa, nú eða panta það sérstaklega af einhverri síðu því það fæst ekki annars staðar… en allavega, pönnukökurnar! Ég fann um það bil 150 uppskriftir en nennti að gera fæstar, of flóknar fyrir morgunFreyju svo ég ákvað að búa bara til eitthvað einfalt og útkoman varð hreint út sagt bara fín! Þannig nýi morgunmaturinn minn eru próteinpönnukökur og hér er uppskriftin mín, einfalt, fljótlegt og þægilegt!

2 egg

2 msk próteinduft (ég nota með súkkulaði og toffy bragði)

1 stappaður banani

2 msk haframjöl

Allt hrært vel saman og svo er bara að steikja sér pönnukökur á pönnunni og borða eintómar eða setja ósætaða sultu eða ber eða hnetusmjör á. Í raun alveg valfrítt hvað maður gerir! Ég nota jarðarberjasultu sem inniheldur engan sykur, hún er ofsalega góð.

Ég varð að minnsta kosti himinlifandi að finna mér morgunmat sem mér fannst góður og mæli alveg með að prufa þetta fyrir þá sem eiga erfitt með finna sér góðan morgunmat 🙂

En þangað til næst!
Freyja

Að grípa tækifærin

Ég veit ekki hvort ég hef sagt ykkur það en Pollýanna er mamma mín, bókstaflega. Ég á bjartsýnustu manneskju í heimi sem mömmu, þar að auki á ég bestu mömmu í heimi, svona til að koma því frá líka, enginn vafi á því.

Pabbi minn dó þremur mánuðum áður en ég fæddist, nánar tiltekið þann 21. maí árið 1986, þá var bróðir minn 18 mánaða, systir mín varð 7 ára í september það ár og ég átti eftir að fæðast, en gerði það að lokum þann 8. september sama ár. Svo ég ólst upp föðurlaus. Lengi vel vissi ég ekki til hvers pabbar væru og átti meira að segja eftir að spyrja mömmu að því, hvað pabbar gerðu eiginlega. En fyrir mér, þá vantaði mig aldrei pabba, ég átti mömmu sem gat allt, sannkallaða ofurhetjumömmu, ég á hana ennþá og vona að ég muni eiga hana í svo miklu fleiri ár í viðbót, hún er nefnilega ein mikilvægasta manneskja í mínu lífi. Hún er líka mín helsta fyrirmynd. Ef mér tekst að gera mömmu mína stolta er ég búin að ná öllu sem ég ætlaði mér.

En ég skrifa þetta vegna þess að það er einna mikilvægst fyrir alla að vera bjartsýnir og að sjá tækifærin í höfnuninni sem lífið gefur okkur. Árið 2010, var ég 23ja ára gömul, 3ja barna móðir sem var atvinnulaus. Ég var ekki búin með stúdent og satt að segja svolítið týnd í lífinu, ég var kannski ekki í neinu rugli en ég vissi ekki hvaða veg ég átti að fara eða hvort ég ætti yfir höfuð einhvern veg. Samkvæmt öllum staðalímyndum átti ég að vera vonlaus. Ungar, margra barna mæður eru sjaldnast sýndar í jákvæðu ljósi og það er erfitt að standa upp gegn staðalímyndum, því fordómarnir leynast víða. Það er erfitt að vera ungur og reyna að sýna heiminum að maður vill einungis standa sig í lífinu, fyrir sjálfan sig og börnin sín. Sem betur fer átti ég fólk sem trúði á mig, sem vissi að ég átti mér framtíð og sem þekkti mig nógu vel til að vita að ég setti börnin mín í fyrsta sæti. Á fremsta bekk sat mamma mín, sem alltaf hefur haft trú á mér, sem ég heyrði segja við kennarana mína þegar ég var barn að vegna þess að ég hefði munninn á réttum stað þá kæmist ég langt. Að ég ætti bjarta framtíð.

Að verða atvinnulaus eftir fæðingarorlof var eitt það besta sem skeði fyrir mig, ég var send á námskeið gegnum vinnumálastofnun og vegna þess að ég lauk því með lofi fékk ég námssamning gegnum vinnumálastofnun að fara gegnum menntastoðir hjá Mími. Þar með opnaðist mín framtíð.

Því með því að hefja nám í menntastoðum vissi ég að ef ég myndi ljúka því þá gæti ég komist inní Keili og lokið þar háskólabrú og þar með væru mér allir vegir færir. Ég spýtti því í lófana og einsetti mér að ljúka menntastoðum með góðri einkunn og tókst það, því ég útskrifaðist þaðan með 8.9 í meðaleinkunn og komin með inngöngu í verk- og raunvísindadeild Keilis. Það var í janúar 2011 sem ég útskrifaðist og hóf nám í Keili. Mikil vinna síðustu mánuði hafði svo sannarlega skilað sínu því ég var að upplifa allt sem mig dreymdi um.

Í mars 2011 var haft samband við mig frá Eflingu þar sem ég var beðin að fara yfir sögu mína á ráðstefnu verkalýðsfélagana sem ég þáði með þökkum. Ég hélt ræðu fyrir 100 manns og ég held ég hafi aldrei verið jafn stolt af mér og á þessu augnabliki því einhvern vegin, á einu ári, hafði lífið tekið þvílíka U-beygju að ég hefði aldrei getað giskað á að ég myndi standa í þessum sporum, svona stuttu eftir að hafa orðið atvinnulaus. Í apríl, mánuðinum á eftir hafði Efling samband við mig aftur og bað mig um viðtal sem birtist í maí tölublaði og ég tel að þetta sé ein mesta viðurkenning sem ég hef fengið á mínum árangri. Allt erfiðið var til einhvers. Ég var á leið minni til betra lífs og fólk tók eftir því, ég gerði eitthvað. Kannski, með heppni, hafði ég áhrif á einhvern, kannski fékk ég einhvern til að verða bjartsýnni á eigið líf eins og mamma gat alltaf fengið mig til að  verða bjartsýnni á mitt líf.

Á leið minni til betra lífs hef ég vissulega skipt um skoðun, breytt plönun, skipt um nám og drauma í leiðinni. Að læra íþróttafræði var ekki einu sinni á blaði þegar ég hóf nám að nýju árið 2010 en á einhvern hátt hef ég endað hérna og tel mig vera á rétta braut, ég hef virkilega ánægju af náminu mínu og það er það sem skiptir höfuðmáli. Maður verður að velja eftir vilja og engu öðru, því annars er ekki hægt að endast í því, lífið er of stutt til að eyða því í vitleysu. Ég vona allavega að þessi pistill, geti kannski haft jákvæð áhrif á aðra, það verður að grípa tækifærin þegar þau gefast og fara eftir draumum sínum, alveg óháð því hversu ólíklegir aðrir segja draumana vera.

Þangað til næst!
-Freyja