Ég stend með læknum

og ég vildi bara koma því frá.

Almenningur á að standa þétt við bakið á læknum. Laun þeirra, álag og vinnuaðstæður eru með öllu óásættanlegar. Það þýðir ekki að laun annarra stétta eða vinnuaðstæður séu í lagi en þær eru ekki til umræðu núna, laun á Íslandi eru yfir höfuð of lág en það er ekki það sem er verið að berjast fyrir akkúrat núna. Ég hvet allar stéttir á Íslandi til að berjast fyrir betri kjörum, ekkert er eðlilegt í dag miðað við hvað það kostar að framfæra sér á Íslandi.

En að horfa uppá ríkisstjórnina reyna að snúa almenningsáliti gegn læknum er hreint út sagt viðurstyggilegt. Þarna koma fram ráðherrar með égveitekkihvaðmarga aðstoðarmenn sjálfir og geta ekki samið við lækna sem vinna við ömurlegar aðstæður og undirmannaðir allan sólarhringinn. Í staðinn stíga þeir fram og reyna að fá almenning til að snúast gegn þeim. Þetta er ógeðslegt.

Nú bý ég í landi með heilbrigðiskerfi sem virkar, reyndar bý ég við sósíalískt heilbrigðiskerfi sem hefur vissulega sína kosti og galla, það pirrar mig vissulega oft að geta ekki pantað sjálf tíma hjá þeim læknum sem ég vil mæta hjá, eins og t.d. kvensjúkdómalæknis. En það er umfram allt mikilvægast að búa við tryggt heilbrigðiskerfi, ég og fjölskyldan mín búum við greiðan aðgang að lækninum okkar og getum leitað þangað til að fá aðstoð og beiðni til sérfræðings ef þarf.

Í þessu ljósi má líka nefna að hér er lyfja- og lækniskostnaður tekinn saman, svo þegar ég var búin að greiða 2105kr norskar, sem gera samkvæmt landsbankinn.is í dag 36.003kr íslenskar fæ ég svokallað fríkort. Eftir það fæ ég öll lyf sem eru með bláresept, sem eru öll nauðsynleg lyf (þ.m.t. ofnæmislyfin mín), og alla læknisþjónustu ókeypis, ég þarf ekki að borga eitthvað lágmark heldur þarf ég einungis að sýna kortið og borga ekki krónu.

Nú vilja ef til vill margir segja að sjálfsögðu er þetta öðruvísi hérna, Noregur er ríkt land og allt það EN ég borga aðeins hærri skatta, hér eru auðlindir í eigu almennings og hér er forgangsraðað í ÞÁGU almennings, EKKI örfárra ríkisrassa! Ísland og íslendingar hafa fullt tækifæri til að bjóða uppá gott heilbrigðiskerfi með samkeppnishæfum launum og góðu starfsumhverfi, þetta er spurning um að nýta auðlindir þjóðarinnar í þágu almennings en ekki örfárra einstaklinga og forgangsraða!

En ég endurtek það aftur, ég stend með læknum, starfsumhverfi sem þeir búa við í dag er ekki neinum bjóðandi.

-Freyja

Áramótauppgjör

Í dag er 29. desember og einungis tveir dagar eftir af árinu. Það fylgir því alltaf viss sorgartilfinning að kveðja nýtt ár, ég verð alltaf örlítið döpur við öll áramót, ég er ekki viss hvort það sé vegna þess að á nýju ári hefst nýr kafli eða hvort það sé pressan að maður á alltaf að gera betur. Á áramótunum áttu að strengja heit, þú ætlar að verða jákvæðari, duglegri í skólanum, léttast, komast í betra form, drekka minna, hætta að reykja, eyða meiri tíma með fjölskyldunni og listinn gæti haldið endalaust áfram.

Auðvitað verður enginn að strengja áramótaheit en þetta liggur í loftinu, hverju ætlarðu að breyta á næsta ári og hvað ætlarðu að gera betur? Verða besta útgáfan af þér?

Hvað þýðir það að vera besta útgáfan af sjálfum sér? Er maður það einhvern tíma?

Öll ár eru viðburðarík, í lok hvers árs horfi ég tilbaka og hugsa, vá hvað það skeði mikið á þessu ári, en það er ekkert nýtt. Það eru 12 mánuðir í hverju ári og því viðbúið að það gerist heill hellingur.

Ég hef vissan kvíðahnút yfir nýju ári, ég er að taka nýja stefnu og draumur sem hefur blundað í mér lengi er aðeins að koma upp á yfirborðið, ég fann von og ég rígheld í hana. Ég ætla að eyða næsta ári í að færa mig nær draumnum mínum, ég hef von og ég hef trú að ég geti uppfyllt hann.

En í lok ársins horfi ég tilbaka og þó vissulega séu alltaf viðburðir sem maður sér eftir og hugsar að önnur viðbrögð hefðu verið heppilegri eða betri þá breytir maður ekki því liðna. En á hverju ári eru líka viðburðir sem maður er stoltur af, sáttur við sinn hlut og einhvers staðar kom maður sjálfum sér á óvart. Eins erfitt og árið hefur verið á stundum þá hefur það verið jafn gott á öðrum. Súrsætt ár.

En gleðilegt nýtt ár til ykkar allra, ég ætla að setja mér áramótaheit, það verður ekki það að létta mig, komast í betra form eða borða hollari mat. Ég ætla heldur ekki að vera besta útgáfan af mér því það er bara ein útgáfa hvort sem er. Ég ætla að halda áfram að láta mig dreyma og ég ætla að reyna að láta drauma mína rætast, alveg sama hversu fjarlægir þeir eru.

-Freyja

Máttur bókarinnar

Ég hlakka alltaf mest til jólanna þar sem ég veit að þá get ég átt ótrúlegar góðar stundir með bók í hönd. Eða réttara sagt, með kindil í hönd. Mikilvægustu eign mína.

Ég þarf ekki á neinu að halda ef ég hef góða bók, ég tala ekki í símann, ég kíki ekki á netið og ég hef ekki opnað tölvuna mína síðan 22. desember, svona til að gera þetta einfalt, ég verð örugglega svakalega leiðinleg manneskja sem talar ekki við neinn. Reyndar hef ég netið í símanum mínum en það hefur ekki verið notað sérstaklega mikið, aðallega til að deila einstaka jólamyndum.

En síðan 22. desember hef ég verið að lesa Divergent bækurnar, réttara sagt byrjaði ég á fyrstu bókinni -Divergent, las svo bók númer tvö -Insurgent og að lokum bók númer þrjú -Allegiant. Ég sá nefnilega myndina, Divergent, í nóvember og hugsaði með mér að þetta gæti ekki bara verið mynd, hún minnti mig á Hunger Games, þetta eru keimlíkar sögur að mörgu leyti en samt ekki alveg. Svo ég ákvað að leita að myndinni og upplýsingum og sá að ég hafði rétt fyrir mér! Þetta voru að sjálfsögðu bækur, svo ég náði í þær á kindilinn minn og beið spennt eftir jólafríi.

Nú hef ég gleypt þessar bækur í mig bókstaflega, lesið þær allar þrjár á fjórum dögum en sit eftir frekar vonsvikin. Þegar ég las Hunger Games bækurnar þá var það eins, ég las þær allar í einu en ég varð þó ekki vonsvikin með endinn, hann var kannski örlítið fyrirsjáanlegur en þessi, ég get ekki útskýrt það, viss tómleiki varð til við endann á bókinni. En þær eru góðar.

Næstu bækur sem ég ætla að byrja á er Maze Runner, alveg eins og Divergent er þetta mynd sem ég sá í nóvember, hugsaði það sama og fann út það nákvæmlega sama. Sumar myndir eru þess háttar að þú situr eftir og sérð að þetta getur ekki bara verið mynd, þetta hlýtur að vera bók. Bækur eru, og munu alltaf vera, betri.

Að lesa góða bók er ótrúlegt, fyrir einhvern sem ekki hefur gaman af bókalestri hljómar þetta líklegast einkennilega, en bækur geta búið til heim, svo lifandi að þú getur næstum snert hann. Þú veist öll smáatriði, ekkert er ósvarað og karakterinn verður lifandi fyrir sjónum þér eins og manneskja.

En þar sem ég hef nýlokið lestrinum á þessum bókum er ekki seinna vænna en að byrja á þeim næstu, eftir allt, þá hef ég ekki endalaust jólafrí og eins gott að nýta það vel!

-Freyja

Jólagleði trúleysingjans

Ég er búin að vera svo hugsi yfir allri þessari ljótu umræðu sem hefur átt sér stað á netmiðlum undanfarið. Ég elska jólin, mér finnst þetta alveg stórkostlegur tími. Tími barnanna minna, tíminn þar sem þau telja niður dagana allan desember fram að aðfangadag, þar sem þau búa sér til jólagjafalista og svo skreytum við saman, bökum piparkökur, byggjum piparkökuhús og allt er skreytt í öllum regnbogans litum. Þetta er svo stórkostlega skemmtilegur fjölskyldutími sem ég nýt til ystu æsar með börnunum mínum.

Eitt skyggði þó á gleði mína og byrjaði ég að vera reið, þangað til kunningi minn henti mér niður á jörðina aftur og minnti mig á jákvæðnina. En það er þessi leiðinlega umræða sem hefur átt sér stað á netmiðlum. Börnin mín fara í kirkju með skólanum, ég er ekki hrifin     -þau vita ekki af því- en aldrei myndi ég viljandi láta skilja börnin mín ein eftir. En það er líka vegna þess að ég er trúlaus, trú skiptir ekki máli í mínu lífi, hún er ekki partur af því og því líkar mér heldur ekki að það sé verið að boða trú í skóla barnanna minna en ég get hummað það af mér. Hins vegar er til fullt af fólki með aðra trú en kristni þar sem trúin spilar stóra rullu í þeirra lífi, vegna þess fara börnin þeirra ekki í kirkju. Börnin tilheyra minnihlutahópum og eru jaðarsett í skólanum.

Þetta eitt og sér eyðileggur næstum jólagleðina hjá mér. Ég á virkilega bágt með að vita af því að börn eru pikkuð út eftir trú í opinberum skólum og flokkuð þar niður, sum, yfirleitt örfá, eru svo skilin eftir í skólanum meðan aðrir fara í kirku. Þetta er sárt og þetta er ljótt.

Jólin eiga að vera tími barnanna, þetta á að vera tími fjölskyldunnar og þetta á að vera tími náungakærleiks. Hvort sem við erum bleik, hvít, brún, gul, rauð eða fjólublá, eða trúlaus, kristin, múslimar, búddha trúar eða alls konar trúar, það skiptir ekki máli. Við erum öll manneskjur af holdi og blóði, öll berum við tilfinningar og allt eru þetta börn sem ganga í leik- og grunnskólana okkar. Börn eiga aldrei -undir nokkrum kringumstæðum- skilið að vera mismunað.

Foreldrar eiga að sjá um trúarinnrætingu hjá sínum börnum, af hverju ekki að virkja foreldrastarf innan kirkjunnar? Skipuleggja huggulegar aðventustundir hvern sunnudag fram að jólum fyrir börn og foreldra? Möguleikarnir eru endalausir ef einungis viljinn er fyrir hendi.

En ég ætla allavega að njóta jólanna, í faðmi fjölskyldunnar og þakka fyrir hvað ég hef verið heppin í mínu lífi, með stórkostleg börn, góða fjölskyldu, fallegt heimili og gott líf. Það eru sönn forréttindi að búa við það.

Þið hin, njótið jólanna á ykkar hátt, með ykkar hefðum og hafið það gott.

-Freyja

Týnda sálin og eilífðarstúdentinn

Einhvern tíma sagði maðurinn minn við mig að ég væri fullkomið dæmi um manneskju með ADHD í háskóla, flakkandi á milli brauta í hvert einasta skipti viss um að þarna væri námið komið! Draumurinn að rætast og ég var handviss… –þetta- vildi ég læra!

Verst að þetta var meðal annars tæknifræði þar sem ég kláraði vor- og sumarönn, rafmagnsverkfræði þar sem ég kláraði haustönn, félagsfræði þar sem ég kláraði vorönn og svo að lokum lýðheilsufræði þar sem ég hef lokið hálfri BA gráðu.

Síðan fyllist ég námsleiða, þetta er ekki það sem ég vil læra, ég vil læra næsta þetta. Maðurinn minn kinkar eins skilningsríkt kolli og hann mögulega getur þegar næsta þetta kemur upp og vonar að það sé síðasta þetta sem ég tek mér fyrir hendur.

Hálfnuð í mínu námi ákveð ég að þetta er ekki það sem ég vil læra og fann mér næsta þetta. Hef samband við háskólann og sæki um, þetta er það sem ég vil gera. Þetta er draumurinn.

Fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri í fjarnámi varð fyrir valinu og bíð ég spennt eftir því að hefja nám, vonandi að þetta sé minn raunverulegi draumur.

Ef ekki, þá get ég kannski sameinað þetta í endann í eina Bachelor in Bullshit gráðu, með áherslu á næstum allar deildir háskólans.

-Freyja

Jafnréttið byrjar í leikskólanum

Nú hef ég áður skrifað um hinn stórkostlega grunnskóla sem eldri börnin mín tvö ganga í og taldi ég því tímabært að skrifa um hinn dásamlega leikskóla sem örverpið er á.

Leikskólinn heitir Hokus Pokus og er stúdentaleikskóli rekinn af Studentsamskipnaden i Agder (SIA) og er leikskólinn svokallaður jafnréttisleikskóli. Það er næstum jafnt kynjahlutfall af starfsmönnum (40% starfsmanna karlmenn) og á deild sonar míns (elstu deild leikskólans) er deildarstjórinn karlmaður, svo eru þrír leikskólastarfsmenn, allt menntaðir leikskólakennarar, ein kona og tveir karlmenn. Svo á deild örverpisins starfa fleiri karlmenn en konur. Mikið er lagt upp úr jafnrétti á leikskólanum og það er tíðrætt.

Hverri viku er tileinkað þema, það hefur verið brunavarnaþema þar sem þau fræddust um eldvarnir, slökkviliðsstarfsmenn, viðbrögð í eldsvoða og að lokum heimsótt slökkvistöðinn sjálf. En í síðustu viku var jafnrétti þema vikunnar.

Í jafnréttisvikunni var rætt um jafnrétti, hvort það sé munur á því hvernig stelpur og strákar leika, hvort strákar megi leika með dúkkur og stelpur með kaptein sabeltann og svo framvegis. Varla að ég þurfi að taka það fram en geri það til öryggis. Áherslan er að sjálfsögðu sú allir geta leikið með hvaða leikföng sem er og að leikföng eru fyrir alla óháð kyni, sem og er rætt um liti og föt.

Fimmtudagur er svokallaður innidagur, þar sem til ca. 14 á daginn er leikið inni, meðal annars sett upp brúðuleikhús, búin til listaverk og þess háttar. Í jafnréttisvikunni var sett upp SPA stofa, þar sem börnin fengu að nudda hvort annað, svo var slökunarstöð þar sem þau fengu gúrku á augun og allir fóru í slökun í vissan tíma og einnig var í boði að fá naglalakk og „manicure“ og þar lagt áherslan á að strákar jafnt sem stelpur hafa gaman af þess konar dekri og að gera sig fína með naglalökkum, það er ekki einbundið við stelpur og mætti örverpið heim með silfurlitað naglalakk á annarri hendi og rautt á hinni. Hæstánægður með daginn.

En málið er að þetta er hárrétt. Jafnréttið á að byrja á leikskólanum. Það er erfitt að segja börnum frá því að kynin eru jöfn þegar einungis konur starfa á leikskólanum, en ekki bara á leikskólanum heldur einnig í grunnskólum, þar vantar stráka fyrirmynd, því samkvæmt Félagi Grunnskólakennara í janúar 2013 voru meðlimir þar 80% konur og 20% karlmenn.

Jafnréttiskennsla verður að hefjast snemma til að bera góðan árangur. Það er erfiðara að ætla að byrja þegar samfélagið hefur þegar mótað einstaklinginn í 14-15 ár og samfélagið er mjög kynjaskipt, það er ekki jafnrétti þar og við ölumst upp við það, á endanum teljum við það norm nema við byrjum strax að tala gegn því. Það þarf að velta þessu upp strax svo allir séu meðvitaðir, það þarf líka að gera stráka meðvitaða um það að það sé allt í lagi líða illa og gráta, það á ekki að harka allt af sér. Þetta hefur nefnilega meiri líkamlegar afleiðingar fyrir karlmenn heldur en kvenmenn. Karlmenn lifa skemur, þeir leita síður til læknis og sjálfsmorðstíðni karla er mun hærra heldur en kvenna.

Jafnrétti snertir okkur öll og gerir heiminn betri, það skiptir ekki máli hvort um sé að ræða konur eða karla.

-Freyja-