Getulaus héraðsdómur

Dómur héraðsdóms Norðurlands sem er hægt að lesa styttan í þessari frétt, er í raun ekki einstakur fyrir að refsa varla kynferðisafbrotamönnum heldur líka að allt í einu þarf að teljast sannað að brotamaðurinn viti aldur stúlkunnar til að dæmt sé eftir settum lögum. Nú er ekki einungis nóg að vera undir 15 ára, heldur þarftu að sannfæra brotamann þinn um það líka áður en hann brýtur á þér og geta sannað það eftirá.

Stórkostlegt. Þetta er svoleiðis fyrir neðan allar hellur að ég er orðlaus. Hvernig er það með barnaklám? Þarf líka að sanna það þar að þú vitir að einstaklingarnir séu undir 18 ára og hvernig fer slík sönnun fram? Eða á þetta einungis bara við manneskjur sem þú ræðst beint á?

Þurfa því stúlkur undir 15 ára núna að passa sig á því að garga strax og einhver ræðst á þær aldur sinn svo það sé dæmt að lögum? Eða nei afsakið, þær þurfa náttúrulega að sanna það eftirá að þær hafi virkilega sannfært brotamanninn um það áður en hann braut á þeim.

Óþolandi.

Af vanhæfum foreldrum

Í dag birtist frétt inná pressan.is um  hina 14 ára gömlu Snædísi sem hefur lent í virkilega grimmu og ljótu einelti. Það tekur á hvern einasta mann að lesa svona hryllingssögur, ég get ekki ímyndað mér hvernig er að upplifa þær á eigin skinni. Þessi stelpa er sannkölluð hetja að stíga fram og segja frá. Það er líka oft eina vopnið í baráttunni gegn grimmum krökkum og vanhæfum foreldrum þeirra.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur að einelti er foreldravandamál, enda kemur það skýrt fram þarna í greininni að foreldrar gerandana eru gjörsamlega geldir þegar kemur að því að aga börnin eða grípa inní algjörlega óásættanlega hegðun krakkana. Þeir líta í hina áttina og segja að börnin þeirra gera ekki svona nokkuð.

Er ekki nokkuð ljóst að þarna er um að ræða barnaverndarmál? Foreldrar sem geta ekki agað börnin sín og axlað þá ábyrgð sem þeim fylgir eru augljóslega vanhæfir. Allir foreldrar sem hafa hint af hæfni í farteskinu myndu taka hart á því ef börnin þeirra yrðu uppvís að einelti. Það segir sig sjálft.

Næsta skref ætti því væntanlega að vera að tilkynna foreldrana til réttra yfirvalda fyrir að bregðast skyldu sinni með öllu.

En til Snædísar og allra fórnarlamba eineltis vil ég segja; Unglingsárin eru sem betur fer ekki besti partur lífsins. Lífið er stærra, betra og meira heldur en það sem gerist þar. Haldið áfram, það hefur enginn rétt á því að segja að þið eigið ekki að halda áfram, þið hafið fullan rétt og þið eigið líka fullan rétt á að lifa ofbeldislausu lífi. Það er heill her fólks sem stendur við bakið á ykkur og fordæmir ofbeldið sem þið verðið fyrir og vonandi verður fundin viðeigandi lausn, fyrr heldur en síðar!

-Freyja

Vanhæfni Sigmundar

Sigmundur Davíð heldur því fram að lekar úr íslenskri stjórnsýslu um persónuhagi fólks séu algengir og því þykir honum einkennilegt hversu stórt lekamálið svokallaða var. Það að Sigmundur sjái ekki eitthvað að því að leka persónulegum málefnum, trúnaðargögnum, út úr íslenskum ráðuneytum segir allt sem segja þarf um vanhæfni hans.

Það að íslendingar tóku allt í einu við sér og ákváðu að stjórnvöld kæmust ekki upp með það að leka trúnaðargögnum um einstaklinga í fjölmiðla er jákvætt. Það hversu stórt lekamálið var, er ekkert nema jákvætt því loksins í fyrsta sinn þurftu ráðamenn að taka ábyrgð á gjörðum sínum! Við skulum ekkert ræða hversu litlar afleiðingar þetta hafði fyrir viðkomandi einstaklinga því þeir dómar sem féllu voru hlægilegir og alls ekki nægilega þungir. Fyrir utan fáránleg viðtöl sem fylgdu á eftir.

En að reyna að réttlæta það að leka trúnaðargögnum um einstaklinga út úr íslenskum ráðuneytum með því að þetta sé algengt og því ekkert mál, hræðir mig. Það bókstaflega hræðir mig að þessi maður sé einn valdamesti maður þjóðarinnar.

-Freyja