Áfram heldur þöggunin

Lögreglustjóri Vestmannaeyja leggur til þöggun kynferðisafbrota sem, miðað við síðustu ár, verða á Þjóðhátíð. Á hverri einustu Þjóðhátíð síðastliðin ár hafa komið upp kynferðisbrotamál svo að öllum líkindum munu þau einnig verða í ár.

Af hverju leggur lögreglustjórinn þetta til? Jú vegna þess sem hún segir að ef sagt verði frá málunum í fjölmiðlum muni það verða fórnarlömbunum þungbært. Ég myndi ætla að afbrotið sjálft muni verða fórnarlömbunum þungbært, þögn fjölmiðla og samfélagsins er hins vegar ennþá þungbærri. Ef þetta mun verða eftir mun þögn fjölmiðla og samfélagsins um brotin ekki hjálpa til við skömmina sem fórnarlambið upplifir. Undanfarna mánuði hafa konur Íslands risið upp og rofið þögnina. Við munum ekki þegja, við erum hættar að skammast okkar fyrir ofbeldið sem við urðum fyrir því þetta var ekki okkur að kenna. Kynferðisofbeldi er aldrei fórnarlambinu að kenna, aldrei. Ekki undir neinum kringumstæðum. Það skiptir ekki máli hvernig við erum klæddar, hvað við segjum eða við hvern við tölum. Við megum segja það sem við viljum, við megum klæða okkur eins og við viljum, það gefur engum leyfi til að nauðga okkur.

Druslugangan var síðastliðna helgi, þar stóðu konur, menn og börn saman og sögðu að þetta væri ekki liðið. Fjölmiðlar bera ábyrgð. Þeir bera þá ábyrgð að segja frá. Við erum búnar að segja að við viljum ekki þögn, við ætlum ekki að bera skömmina. Við ætlum að skila henni þangað sem hún á heima, hjá gerandanum.

Á hvað treysta kynferðisafbrotamenn? Jú þeir treysta á þögnina. Þeir treysta á að samfélagið þaggi málin niður. Þeir treysta á að fórnarlömbum sé ekki trúað, þeir treysta á að þær segi ekki frá í ótta um að verða ekki trúað eða að þær verði útskúfaðar úr samfélaginu. Það sem gerðist þegar #þöggun og #konurtala byrjaði var að fleiri og fleiri konur sáu hversu margar höfðu lent í samskonar ofbeldi. Þær upplifðu stuðningin frá samfélaginu þegar þær stóðu upp og sögðu frá ofbeldinu. Fleiri þúsund manns skiptu um prófíl mynd á facebook og það var hreint út sagt ótrúlegt að upplifa samstöðuna frá fólki. Þetta veitir stuðning, það veitir þolendum stuðning að sjá að aðrir hafi upplifað samskonar ofbeldi og að samfélagið mótmæli þessum brotum. Við erum komin með nóg. Við samþykkjum ekki þetta samfélagsmein sem kynferðisofbeldi er. Að tala opinskátt um það og segja frá er stærsti liðurinn í því að uppræta þetta ofbeldi. Að þagga það niður mun hafa þær afleiðingar að það mun blómstra.

Ég vona að fjölmiðlar Íslands standi saman um það að pressa á lögregluyfirvöld í Vestmannaeyjum að segja satt og rétt frá því sem gerist á hátíðina. Það er ekki í lagi að þagga niður kynferðisafbrot. Það hefur aldrei verið í lagi að gera það. Ég vona að lögreglustjóri sjái að sér í þessum þöggunartilburðum sínum og sjái hag þolenda fyrir brjósti. Við eigum að standa saman og með #þöggun og #konurtala hafa konur Íslands sýnt samstöðu í því að brjóta niður þessa hefð sem það er að þagga niður kynferðisafbrot. Við berum ekki harm okkar í hljóði heldur segjum við frá.

Að verða fyrir kynferðisafbroti er hræðilega erfitt EN það er erfiðara að bera skömmina og þögnina sem kemur í kjölfarið.

Fortíðarflótti

Meira og minna allt mitt líf hef ég verið leitandi. Leitandi eftir einhvers konar innri frið sem virðist hvergi vera finnanlegur. Eftirköst kynferðisofbeldis geta svo sannarlega verið langvarandi og í mínu tilfelli er það svo. Ég hef alltaf beðið eftir að þetta lagist, að ég nái að halda algjörlega áfram en samt situr þetta fast í manni. Ég hef oftast upplifað mig hálf týnda í lífinu, ég hef vissa hluti á hreinu en meira og minna líður bara tíminn og ég veit ekki enn í dag hvað ég vil nákvæmlega út úr lífinu. Ég eyddi svo löngum tíma á unglingsárum þess fullviss að það yrði ekkert úr mínu lífi að ég planaði ekki neitt. Lífið hélt bara áfram og maður gerði sitt besta í hverju því sem maður tók sér fyrir hendur. Sem gekk svo misjafnlega.

Að reyna að útskýra líðan sína fyrir fólki sem stendur ekki í sömu sporum er næstum ómögulegt því maður kemur þessu ekki í orð. Ég get ekki útskýrt. Ég er bara týnd og ég er leitandi. Ég veit ekki hvað ég vil og ég veit ekki hvert ég stefni. Maður myndi ætla að þegar maður nálgast þrítugt óðfluga að maður hefði tekið einhverja stefnu, hefði fundið einhverja ró innra með sér eða vissi hvað maður vildi og þó það væri ekki niðurneglt að maður hefði að minnsta kosti glætu um það. En ég hef eytt lífinu í að flýja fortíðina. Gleyma vondum minningum og halda áfram en það virkar ekki. Að bæla niður vondar minningar veldur því að maður bælir niður þær góðu líka og man ég hreinlega bara ekkert eftir þremur árum í mínu lífi. Árunum á milli 13 og 16 ára. Þau eru týnd, gleymd og grafin.

Búsett í Noregi gefur mér þann kost að fólk hérna veit ekkert um mig, það veit ekki mína fortíð og það veit ekki hver ég er. Það er samt ekkert endilega jákvætt því eins félagslynd og opin ég er, þá hleypi ég engum að mér. Ég held öllum í vissri fjarlægð því ef fólk er ekki of nákomið mér þá getur það ekki sært mig og ég er dauðhrædd við að vera særð. En það hefur þann ókost í för með sér að maður tengist heldur aldrei raunverulega neinum. En minn stærsti fylgikvilli áfallastreituröskunar er tilfinningadofi. Ég finn ekki fyrir miklum tilfinningum og ég á gríðarlega erfitt með að tengjast öðrum og eins mikið og ég hef reynt að sjá það í jákvæðu ljósi þá er það samt ekki jákvætt. Það er ekki gott að geta ekki tengst öðru fólki á eðlilegan máta. Það er heldur ekki gott að geta ekki leyft sér að finna eðlilegar tilfinningar, hvort sem þær eru góðar eða slæmar.

Ég reyni almennt að vera bjartsýn og jákvæð á lífið. Það hefur vissulega heilmikið upp á að bjóða. En þrátt fyrir jákvæðni og bjartsýni þá upplifi ég mig týnda. Í dag eftir skilnaðinn er ég ennþá týndari. Þrátt fyrir að vera sátt við það uppgjör þá var afleiðingin af því samt sem áður sú að ég stóð uppi ennþá týndari. Ég hafði aldrei verið ein. Það er eitthvað sem ég er ennþá að læra. Ég er að sjálfsögðu ekki alein, ég hef börnin mín og fyrir það er ég þakklát. Þau gefa mér meira heldur en nokkuð annað í lífinu.

Að setjast niður og skrifa frá sér hugsanir er líklega það besta sem ég geri. Ég hef aldrei verið alltof flink að koma hugsunum mínum frá mér í orðum en að skrifa þær niður er einhvern veginn auðveldara. Kemur einhverri reglu á óregluna í hausnum á manni.

Það er fyndið hvað sum lög geta haft mikil áhrif á mann. Enn í dag hlusta ég alltaf á lagið „Rise up“ með Beyonce ef ég verð niðurdregin. Það gefur mér ákveðin kraft. Muna að lífið hefur upp á meira að bjóða heldur en ég sé akkúrat núna. Það er ekkert ómögulegt og maður getur alltaf haldið áfram. Bara að muna að bíða, það munu koma betri tímar.

Þetta er að öllum líkindum sú allra neikvæðasta bloggfærsla sem ég hef ritað en standandi í þeim sporum sem ég stend í dag þá er þetta eina sem ég kem frá mér. Kannski einn daginn mun ég svífa um á bleiku skýi og skrifa frá mér jákvæðan bloggpistil. Kannski, mögulega einn daginn. En í dag, þá tek ég bara einn dag í einu. Reyni að muna að ekkert er endanlegt og það koma betri tímar. Kannski einn daginn losna ég við mína áfallastreituröskun og get leyft mér að upplifa allar þær tilfinningar sem lífið hefur upp á að bjóða og hætt að vera hrædd við að hleypa fólki að mér. Hætt að vera leitandi og finn mína leið. Það er alltaf von.

5 ástæður fyrir því að mér líkar betur við Sviss en Noreg

Ég eyddi tíu dögum í Sviss og segi það enn og aftur, ég kom heim. Ég fann mig í Sviss. Þvílíkur dýrðarstaður sem verður heimsóttur minnst einu sinni á ári þangað til ég vinn í lottói og get flutt þangað. Nú líkar mér almennt betur við Noreg en Ísland; en mér líkar enn betur við Sviss. Nú hef ég bara skoðað brotabrot af heiminum, kannski mun ég finna mig einhvers staðar annars staðar líka, Ítalía verður heimsótt á næsta ári, kannski kem ég heim þar líka. Aldrei að vita. En eins og staðan er núna, þá er það Sviss sem vinnur. Ég eyddi þessum tíu dögum í bæ sem heitir La Chaux-de-Fonds, ótrúlega kósý fjallabær í 1000m hæð.

1. Vinalegheit
Nú er ég týpískur Norðurlandabúi, köld og fráhrindandi. Tilhugsunin um að einhver myndi kyssa mig hæ og bæ þótti mér hálf fáránleg ef satt skal segja. Hvað þá þrisvar sinnum í hvert sinn. Eiginlega bara út í hött. En þegar á hólminn var komið var þetta ótrúlega vinalegt hreinlega. Það var eitthvað við það að heilsa fólki svona innilega, það gaf mér góða tilfinningu. Eitthvað sem ég bjóst aldrei við.

2. Góðar almenningssamgöngur
Ég bý í um 90 þúsund manna bæ í Noregi, ég var í 38 þúsund manna bæ í Sviss. Samt voru almenningssamgöngurnar þar miklu betri! Bæði hvað varðar strætó og lestar. Strætó gengur á 10 mínútna fresti um allan bæ svo þú þarft aldrei að bíða lengi, svo fara lestarnar að sjálfsögðu út um allt og ekkert mál að ferðast með þeim hvert sem þú vilt.

3. Úrval veitingastaða
Ég væri ekki ég ef ég myndi ekki minnast á matinn. En úrval alls konar veitingastaða í þessum litla bæ var frábært! Miklu betra heldur en nokkurn tíma hérna í Kristiansand og verðið var mun betra líka, sem kom mér kannski mest á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að maturinn er miklu dýrari í Sviss en Noregi og því hálf ótrúlegt hvað verðið á veitingastöðum var lægra heldur en í Noregi.

4. Lifandi tónlist og skemmtanalíf
Það var lifandi tónlist út um allt öll kvöld hreinlega. Ég hef aldrei farið svona mikið út á kvöldin, enda var ég án barna, en það var alltaf hægt að fara út og hlusta á lifandi tónlist á mismunandi stöðum. Þó að ég og mágur minn höfum haldið góðri tryggð við einn bar meira og minna að þá var samt nóg úrval. Einnig er mikið um alls konar hátíðir og fórum við á svokallað Promo Festival sem var haldið í bæ sem var í 10 mínútna fjarlægð, Le Locle. Festivalið náði yfir þrjár langar götur og voru þúsundir manns að skemmta sér. Þetta var ótrúleg upplifun. Í sama bæ er rokkhátíð í ágúst og þykir þetta vera mjög vanalegt að halda svona hátíðir. Virkilega skemmtileg menning.

5. Náttúran
Náttúrudýrðin í Sviss er hreinlega engu lík. Ég gat gleymt mér í að stara í kringum mig hvert sem ég fór. Risastór fjöll voru græn alla leið, það var ótrúlegt að sjá.

Uppgötva heiminn upp á nýtt

Nú fyrir nokkrum mánuðum skildi ég við maka minn til margra ára. Maður sem ég hafði verið með frá því að ég var unglingur. Svo ég þekkti í raun ekki lífið án hans. Ég hafði aldrei verið fullorðin án þess að hafa hann mér við hlið. Breytingin var í raun stærri en ég gerði mér grein fyrir.

Nú ætla ég mér ekki að fara út í ástæður skilnaðarins og mun aldrei gera það opinberlega heldur. En ég ætla að skrifa um mína upplifun hvernig það er að uppgötva heiminn alein aftur. Það er í raun stórundarlegt fyrirbæri að verða allt í einu einhleyp eftir margra ára sambúð og rússibaninn er slíkur að ég hefði einhvern veginn aldrei gert mér almennilega grein fyrir öllum tilfinningaskalanum sem maður fer í gegnum. Þetta er í raun kannski svolítið eins og að missa vitið í örlitla stund. Það finnst mér lýsa þessu best.

Ég las grein um daginn þar sem var sagt að maður ætti að óska fólki til hamingju sem er að skilja. Ég er enn að melta það hvort ég sé sammála því. Ég veit það hreinlega ekki. Ástæðurnar geta verið svo margar en auðvitað vona allir sem standa í þessum sporum að ákvörðunin hafi verið rétt, nú sé maður kannski að stíga sín fyrstu skref í átt að sannri hamingju -hver svo sem hún er.

Ég nýtti tækifærið og ferðaðist bæði til Þýskalands og Sviss. Ég get með sönnu sagt að ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun minni. Ég hef alltaf óskað mér þess að ferðast, gat látið það rætast núna í fyrsta sinn. Það var dásamlegt og mjög hollt að prufa að ferðast til annarra landa. Ég fór einungis ein, heimsótti vin minn og konuna hans í Þýskalandi og systir mína, mág og börn í Sviss. Menningin er allt öðruvísi en maður á að venjast og ef satt skal segja þá fannst mér ég allt í einu vera komin heim þegar ég kom til Sviss. Það eru allir svo afslappaðir og umhverfið er dásamlegt. Þetta er staður sem ég get séð mig fyrir mér búa á.

En aftur að skilnaðinum. Fyrstu vikurnar eru ennþá í hálfgerðri móðu. Ég var í raun heppin og tveim vikum eftir skilnaðinn ferðaðist ég til Íslands. Það hjálpaði vissulega til að dreifa huganum. En svo tók alvara lífsins við og maður þurfti að koma heim, skipta innbúinu og enn í dag á ég ekkert sjónvarp. Ég sakna þess svo sem ekki svo mikið, ég á aðra hluti í staðinn og vonandi bý ég við þann lúxus einn daginn að geta keypt mér sjónvarp.

En það sem mér fannst kannski erfiðast að kyngja var einveran á kvöldin. Vaninn að hafa alltaf félaga sér við hlið á hverju kvöldi var erfiðastur til að brjóta fannst mér og fyrstu vikurnar á eftir hlóð ég líklegast símann minn 3x á hverjum degi, því ég gerði ekkert nema að tala í símann til að dreifa huganum. Halda mér upptekinni við eitthvað svo ég fyndi ekki fyrir einverunni. Síðan þakka ég góðum vinum kærlega fyrir félagsskapinn í gegnum erfiða tíma og í þessum breytingum þá eignaðist ég eina af mínum bestu vinkonum líka. Ég hef oft lesið það og heyrt að þegar þú virkilega þarft á vinum að halda þá verður ólíklegasta fólk þér til staðar og það er svo sannarlega satt. í gegnum mína erfiðleika endurnýjaði ég vinskap við dásamlega stelpu sem ég fer ekki í gegnum daginn án þess að tala við.

Það er einkennilegt hvað lífið getur breyst gríðarlega með einni ákvörðun. Ég hef eytt síðastliðnum mánuðum í að reyna að finna út hver ég er, skilja hvað ég vil sem einstaklingur og reyna að átta mig á hvað ég raunverulega vil út úr lífinu. Ég ákvað að háskólanám væri ekki fyrir mig, mér leiðist það. Ég veit ekki alveg hvað ég vil gera í lífinu en sótti um nám í snyrtifræði. Það finnst mér virka spennandi. Ég vil ekki vera búsett á Íslandi, svo mikið veit ég, ég vil ferðast um heiminn, ég vil upplifa eitthvað nýtt á hverju ári en umfram allt vil ég muna að njóta lífsins.

Furðulegasta við allt þetta tímabil var það að ég lokaðist alveg. Ég gat ekki skrifað stakt orð. Ég hef sest niður oftar en ég hef tölu á og reynt að koma frá mér einhverju sem gæti líkst heilli setningu en; ekkert. Ég var gjörsamlega tóm. Mér finnst, sérstaklega eftir sumarfríið mitt, að ég sé að ná einhverjum áttum. Ég er að ná einhverri fótfestu aftur. Því ákvað ég að skrifa þetta niður. Kannski það sé byrjunin, byrjunin að ná að skrifa aftur.

Þangað til næst…