Eilífðarbaráttan og skömmin

Ég hef skrifað frekar opinskátt um mína reynslu, tilfinningar og innri baráttu. Ég hef meðvitað ákveðið að vera hreinskilin um erfiðleika mína í lífinu og þá sérstaklega þá tilfinningu að vera alltaf leitandi. Að finna mig ekki í heiminum. Það er líklegast það sem ég hef strögglað mest með gegnum tíðina. Vita ekki hvað ég vil, vita ekki hvert ég stefni og eiga erfitt með að finnast ég eiga heima einhvers staðar.

Þetta eru hlutir sem ég pæli mikið í, hugsa af hverju ég upplifi mig svona týnda. Eins hugsa ég að það hljóti að vera fleiri eins og ég. Ég get ekki verið ein svona leitandi í heiminum. Kannski er þetta hluti af því að vera manneskja? Að vera alltaf leitandi?

Ég met lífið mitt og almennt reyni ég að vera jákvæð. Ég þakka fyrir það sem ég hef og á, lít á björtu hliðarnar og veit að þrátt fyrir erfiðleika þá koma bjartari tímar. En mig langar til að upplifa mig einhvers staðar heima.

Fleira fólk en maður getur ímyndað sér strögglar í lífinu, finnst það erfitt og líður illa. Samt er alltaf jafn erfitt að stíga fram og segja; ég er ein af þeim. Inni í manni hvíslar rödd að maður eigi að vera hamingjusamari, gleyma fortíðinni, halda áfram og innst inni langar manni ekkert frekar en að geta slökkt á þessum parti heilans í manni sem rifjar stöðugt upp fortíðina, slökkva á martröðunum, losa sig við þessar sársaukafullu minningar eða læra að lifa í friði við þær. Geta sætt sig við það sem maður fær ekki breytt og halda áfram. Samviskubitið nagar mann fyrir að geta ekki haldið áfram og leyft sér að vera hamingjusamur, að vera ekki nógu góður, að vera með of miklar kröfur eða að upplifa sig ekki nógu gott foreldri því maður svífur ekki um á bleiku skýi alla daga. Að leyfa fortíðinni að ná tökum á sér, aftur, staðinn fyrir að halda raunverulega áfram.

Ég á mjög erfitt með að viðurkenna að geta ekki sagt skilið við fortíðina, því mig langar að vera nógu sterk til að halda áfram án hennar og ríf sjálfa mig niður fyrir að geta það ekki. Að geta ekki leyft sjálfri mér að líða vel, trúa því innilega að ég eigi gott skilið og fara eftir því sem lætur mér líða vel. Nú mögulega er ég að opinbera alltof mikið, þetta er víst ekki lokuð dagbók, þetta blogg. En kannski með að opinbera hugsanir mínar, þá erfiðleika sem ég ströggla við enn í dag þrátt fyrir mikla sjálfsvinnu þá sjá fleiri í sömu sporum að þeir eru ekki einir. Ég er að reyna að hætta að skammast mín.

Áfallastreituröskun er erfið kvíðaröskun. Hún heldur taugahaldi í mann árum saman, jafnvel áratugum saman. Dagarnir eru misjafnir. Góðir dagar koma þar sem maður sefur og líður ágætlega, síðan koma vondir dagar. Dagar þar sem maður er hræddur og á nálum allan daginn og veit ekki einu sinni almennilega af hverju, dagar sem líða eins og eilífð því enginn er svefninn heldur.

Ég átti að byrja í meðferð við minni áfallastreituröskun í byrjun nóvember. Þriðja skiptið sem ég reyni að losa mig undan þessu. Ég mætti ekki. Ég gat ekki byrjað. Ég gat ekki hugsað mér að setjast niður með ókunnugum aðila og segja frá í smáatriðum hvað gerðist. Ég skammast mín ennþá í dag. Ég veit að skömmin er ekki mín, það er ekki mitt að skammast mín, en ég skammast mín kannski ekki svo mikið fyrir atburðinn. Ég skammast mín meira fyrir viðbrögð mín við honum, hegðun mína eftir hann. Ég skammast mín fyrir drykkjuna á unglingsárum, sjálfsniðurrifið og hvernig ég leyfði öðrum að koma fram við mig því mér var sama. Enn í dag hef ég þá löngun að hafa verið heilbrigður unglingur, ekki vandræðastelpan sem fólk horfði hornauga. Stelpan sem svaf hjá alltof mörgum, stelpan sem var alltof ögrandi klædd og of drukkin, þetta ung. Stelpan sem byrjaði að reykja varla komin á unglingsár, stelpan sem var í sambandi með fullorðnum manni 14 ára gömul.

Fólk reyndi að hjálpa manni á þessum tíma, sjálfstortímingin var bara svo sterk að maður barðist um á hæl og hnakka gegn hverjum þeim sem rétti manni hjálparhönd. Ég ströggla enn í dag við að taka á móti góðmennsku í minn garð. Ég verð skeptísk, býr eitthvað undir? Að læra að treysta fólki upp á nýtt, að opna sig og segja öðrum frá hræðslum sínum er hrikalega erfitt. Maður ýtir fólki frá sér að fyrra bragði til að þurfa aldrei að takast á við það að fólk mögulega geti farið. Enn undir niðri kraumar löngun, löngun til að treysta fólki, löngun til að leyfa sér að vera hamingjusamur og að fyrirgefa sjálfum sér. Fyrirgefa sér fyrir að koma illa fram við sjálfan sig, því ég gat ekki annað á þeim tíma.

En meðan maður heldur áfram að vinna í sér þá kemur þetta á endanum. Mér langar til að geta opnað mig fyrir öðru fólki, hleypa fólki að mér og treysta að það vilji mér ekki illt. Það tekur tíma en þó maður taki það í hænuskrefum þá kemst maður á áfangastað fyrir rest. Mikilvægast er að taka skrefið.

„Tip toe if you must, but take the step.“

Litið tilbaka

Að horfa tilbaka gegnum árið, 12 mánuðir, 365 dagar, 8760 klukkustundir. Ég hef virkilega blendnar tilfinningar gagnvart þessu ári. Það var án efa erfiðasta ár sem ég hef gengið í gegnum. Ég skildi við manninn minn til 11 ára, í þeim skilnaði missti ég besta vin minn. Það gerist óhjákvæmilega þegar skilnaður verður. Ég hefði bara aldrei geta ímyndað áhrifin sem það hefði raunverulega á mig að ganga í gegnum skilnað. Það er ólýsanlegt. Árið var bókstaflega súrsætt. Ég held ég hafi aldrei upplifað mig jafn týnda í heiminum.

„Góðir hlutir gerast hægt.“ Ég held að það sé satt, því að núna upp úr miðjum nóvember, byrjun desember þá finn ég fótfestuna koma. Ég er að finna jafnvægi í lífinu, sem einstaklingur og persóna. Ég hef náð að setja mér niður markmið fyrir þetta ár og tekið einhverja stefnu. Ég tel að árið 2016 eigi eftir að verða gott ár. Ég skrifaði færslu í ágúst sem ég hef ekki haft kjarkinn í að birta ennþá svo í staðinn fyrir að skrifa mikið um árið mitt þá ákvað ég að birta hana.

Á deiti með Svarthöfða

Að byrja að deita aftur eftir skilnað getur verið ansi flókið á tíðum. Eftir tæplega 11 ára sambúð þá er deitlífið ekki beint spennandi. Mér þykir ekkert sérstaklega gaman að deita, mér finnst fylgja því of mikil óvissa og stress. Maður er ekki alveg viss hvað maður á að segja og svo kemur kvíði hvort þetta gangi upp eða ekki. Ég fann ágætt spakmæli sem mér finnst eiga vel við mig þegar kemur að deitlífi og að kynnast einhverjum nýjum; „You know that tingly little feeling you get when you like someone? That‘s common sense leaving your body.“

Þetta finnst mér lýsa mjög vel hvað mér finnst um að byrja að deita. Þú verður hálfvitlaus og hugsar ekki rökrétt. Þú horfir framhjá göllum sem annars færu hrikalega í taugarnar á þér og sérð hlutina ekki í réttu ljósi. Ég er ekki mikil tilfinningavera, mér leiðast almennt tilfinningar þannig lagað og finnst ekkert þægilegt að vera hrifin af einhverjum. Það kemur að sjálfsögðu frá minni áfallastreituröskun en mér líkar meira hlutir sem eru borðleggjandi, þess vegna líkar mér til dæmis virkilega vel við stærðfræði. Þar eru bara formúlur sem þú fyllir í og svona eru hlutirnar bara, það er svart eða hvítt, rétt eða rangt. Mér líkar ekki við öll þessi gráu svæði. Svona fyrir utan hvað fólk virðist almennt eiga erfitt með að segja hreint út hvað það meinar eða hvað það vill. Tilfinningalokað fólk sem fer framhjá næstum hverri einustu spurningu í staðinn fyrir að segja hreint út hvernig því líður. Hrikalega leiðist mér það.

En að deitinu mínu. Það er upplifun sem ég gleymi aldrei. Hann leigir með vini sínum í miðbænum en á sjálfur íbúð sem hann leigir út. Við höfðum verið að spjalla svolítið saman í nokkrar vikur og svo kemur að því að við ákveðum að fara í bíó saman. Ég hlakka til kvöldsins, fyrsta skipti sem ég færi í bíó síðan ég flutti til Noregs og þar að auki vorum við að fara að sjá Mission Impossible 5, en ég er mikill aðdáandi MI myndanna og hef séð þær allar mörgu sinnum. Svo tilhlökkunin var þó nokkur, við gætum farið í bíó og átt gott kvöld.

Þegar ég mæti til hans upp úr hálf átta (bíóið byrjaði hálf tíu) þá hringi ég bjöllunni en fæ ekkert svar, svo ég hringi aftur og þá svarar vinur hans og samleigjandi og segir mér að hann sé í sturtu. Ég segi bara allt í lagi, ég bíði bara. Hann spyr mig þá á móti hvort ég lofi að vera góð við hann ef hann hleypi mér inn. Ég svara bara já og hugsa með mér að þetta sé nú svolítið furðulegt en vinur hans á það til að vera svolítið furðulegur svo ég kippi mér ekkert mikið upp við þetta. Svo loksins hleypir hann mér inn og ég sest inn í stofu. Þá spyr vinurinn hvort ég vilji sjá eitthvað frá Íslandi, ég segi bara já svo hann fer inn á Youtube og setur á myndband þar sem eru kenndir algengir frasar á íslensku. Meðan sit ég þarna í sófanum og stari á manninn reyna að tala íslensku við sjónvarpið sitt og veit ekki alveg hvað ég á af mér að gera. 10 mínútum seinna kemur deitið mitt úr sturtu og labbar inn í stofu. Þá horfir vinur hans á hann og segir; „ahh flottur bolur,“ og stekkur á hann. Þeir lenda í gamnislagá gólfinu meðan ég horfi stóreyg á þá úr sófanum og hugsa með mér hvern fjandinn gangi eiginlega á. Nokkru seinna druslast þeir af gólfinu og ég reyni að ákveða hvort ég eigi að hlæja eða gráta, eða hreinlega hlaupa út með það sama. Litið tilbaka hefði ég líklegast átt að velja síðastnefnda kostinn.

Við sitjum svo og spjöllum í sófanum þangað til það er kominn tími til að labba í bíóið. Ég hugsa með mér að kvöldið geti nú varla versnað eftir þennan slag og furðulega klukkutíma samtal og vona að myndin verði að minnsta kosti góð. En mikið skjátlaðist mér.

Við komum í bíóið og eftir að ég fer og kaupi mér gos og smá nammi þá stöndum við við innganginn og bíðum eftir að hleypt verði inn í salinn. Þegar 3 mínútur eru í að hleypt verði inn, snýr hann sér að mér og segir; „Mér langar heim, það er of mikið af fólki hérna,“ ég horfi á hann hissa og ekki alveg viss hvort hann sé að grínast eða hvort hann hafi fengið þungt höfuðhögg fyrr um daginn. Enda hegðunin gjörsamlega úr takti við alla framkomu sem hann hafði sýnt áður. Spyr hvort honum sé alvara, myndin sé að byrja og við búin að ná í miðana okkar. Hann segir bara neinei allt í góðu. Svo er hleypt inn og við setjumst niður.

Þá tekur ekki mikið betra við þar sem maðurinn iðaði þvílíkt í sætinu sínu og gat ekki verið kjurr. Ég hugsaði með mér að þetta væri örlítið eins og að vera með barn við hliðina á sér. Hann skipti um stöðu margoft og gat ekki ákveðið hvar hann hafði hendurnar, hann krosslagði þær, setti þær svo niður á hnén og var svo statt og stöðugt að fikta með bíómiðana okkar í fanginu á sér. Ég reyndi að leiða hjá mér þessa undarlegu hegðun mannsins og einbeita mér að myndinni, sem var ekkert sérstaklega auðvelt fyrir ADHD einstakling með bókstaflega lifandi skopparakringlu við hliðina á sér.

Ég vonaði að hann myndi lagast eftir því sem liði á myndina en þegar myndin var rúmlega hálfnuð og í miðju hasaratriði þá lítur hann á mig og segir; „Ég vil fara heim.“ Heim? í miðri mynd? Svo ég segi við hann svipaða setningu og ég hef þurft að segja við börnin mín í hvert sinn sem við höfum farið í bíó; „Við getum ekki farið heim núna, myndin er rúmlega hálfnuð, við ætlum að klára myndina.“ Hann horfir á mig, samþykkir það en tekur svo fyrir munninn og nefið á sér með báðum höndum og byrjar að anda eins og Svarthöfði!! Þá var mér nú allri lokið, færði mig örlítið frá manninum og krosslagði hendur. Hugsaði svo með mér að vonandi heyrðu ekki of margir í Svarthöfða andandi við hliðina á mér og ef svo væri að fólk héldi ekki að ég væri með honum. Fyrir vikið virtist myndin vera óendanlega lengi að líða, skoppara Svarthöfði við hliðina á mér hélt uppteknum hætti þangað til myndinni lauk. Ég vissi að myndin væri tveir tímar en mér leið virkilega eins og ég hefði setið í bíósalnum í 5 tíma þegar myndin loksins kláraðist.

Ljósin kvikna og ég lít á manninn og sé að hann er með hvít pappírssnifsi yfir allri kjöltunni, frá miðjum bol og niður að hnjám. Ég horfi stóreyg á hann og spyr hvað hann hafi verið að gera? Nú honum leiddist svo hann reif bíómiðana okkar í frumeindir í fangið á sér. Ég hef ekki þorað aftur á bíódeit eftir þetta fyrsta (og mögulega eina) skipti, held mig fast við vinkonur mínar til að fara í bíó með, það er líklegast öruggasti valkosturinn.