Sungið og leikið í Grafarvogskirkju

Endalaus söngur og spilerí í Grafarvogskirkju þessa dagana. Hrefna söng á jólatónleikum með barnakór kirkjunnar á sunnudaginn var og lék á blokkflautu á jólatónleikum tónlistarskólans á mánudeginum. Barnakórinn sló þvílíkt í gegn að hann var fenginn til að syngja í „Ísland í bítið“ í morgun, í beinni úr Grafarvogskirkju. Fjölskyldan rifin á lappir fyrir allar aldir. Annað kvöld fer frúin með tengdamömmu á Gospelkór Oslóar. Og á sunnudeginum syngur Hrefna við messu.

Aðalmálið er samt auðvitað tónleikarnir í kvöld: Kórinn minn syngur Messías eftir Handel og Magnificat eftir Bach í einu helmössuðu aðventuprógrammi. Þetta verður rosalegt. Rosalegt.

Bragðið af jólunum

Sit við tölvuna og hlusta á blessaðan spilastokkinn. Slembileikurinn skellir á mig „What can I give him“ með henni Mahalíu Jackson heillinni og yfir mig steypist bragðið af jólunum: Rjúkandi heitt og ilmandi soðið brauð með rennandi smjöri og spikfeitri hangikjetsflís. Svo strax oní það kemur Föndurstund með Baggalúti.

Jólin eru greinilega að koma.