Taktu þátt í skehntilegri getraun!

Mig langar að stæla bloggara dauðans svona einusinni. Það hlýtur að vera í lagi. Hann getur þá jafnvel spreytt sig á þessu sjálfur sér til gamans, ef hann skyldi væflast hingað.

Spurningin  er sumsé, hvað er það sem tengir saman eftirtalda fimm einstaklinga (í engri sérstakri röð):

  • Dr. Mohammed Mosaddeq (Fyrrum forsætisráðherra Írans)
  • Othniel Charles Marsh (Steingervingafræðingur og óforskömmuður)
  • Kim Phuc (Fórnarlamb og nútímaíkon)
  • Dweezil Zappa (Gítarleikari og afsprengi)
  • Frank Rijkaard (Tuðrusparkari og eitthvað svona yfir)

Svar telst ekki fullgilt nema rökstuðningur fylgi hverri tengingu. Svindlið að vild.

Það eru engin verðlaun eða neitt. Mér fannst bara svo gaman að taka þetta saman að ég varð að deila því með öðrum. Ef ég nenni og ef viðkomandi vill skal ég bæta honum í þetta óskaplega hálfkaraða tenglasafn hér til hliðar. Og hverjum öðrum sem spreytir sig, þessvegna.

The life and times of baby Jessica

Senn verða liðin tuttugu ár frá því hún Jessica litla datt oní gat. Svona líður tíminn.

Lesið viðtalið. Aaaaah. En sætt.

Ég er búinn að gleyma hvar ég var þegar ég frétti að það væri hvítvoðungur fastur í brunni þarna fyrir vestan. Og í því uppgötva ég mér til ánægju að ég er líka búinn að gleyma hvar ég var þegar ég frétti að dómari væri búinn að ákveða að fleygja Paris Hilton aftur öfugri í grjótið. Sennilega bara þar sem ég er akkúrat núna – að taka mér pásu til að komast að því hvað er efst á baugi í heimsmálunum í dag. Sem er auðvitað þetta helst. Ekkert annað að gerast. Nema ég sé að nýi kærastinn hennar Jennifer Aniston eyddi nóttinni heima hjá henni.

Það er rosalegt maður.

Rosalegt.