Skömm og smekkleysa

Mörgum hefur brugðið ónotalega við nýjustu auglýsingu Vodafone, þar sem hið sígilda ævintýri um Búkollu er notað til að auglýsa svok. „þjónustuver.“ Bóndasonur hringir í 1414 til að fá aðstoð við að finna „beljuna“ (eins og hún er svo snautlega kölluð) og til að sleppa undan tröllkonunni.

Óhætt mun að fullyrða, að annað eins rugl og lágkúra hefur ekki sést um langa hríð í íslenskum fjölmiðlum, og eru menn þó ýmsu vanir á þeim vettvangi.

Nú skal vaðið inn á sjálfan þjóðsagnaarfinn, helgasta dóm Íslendinga, og hann hagnýttur í þágu markaðsvæðingar og græðgi.

Markaðsöflin eru sífellt að færa sig upp á skaftið og þeim virðist fátt heilagt.

Það er Víkingur nokkur Kristjánsson sem fer með hlutverk bóndasonar. Víkingi og hans kumpánum í „leikfélaginu“ Vesturporti hefur mjög verið hampað um skeið og flest talið gott og gilt, sem frá þeim kæmi. Ekki vil ég gera því skóna, að hann vilji með auglýsingunni vísvitandi særa þjóðarvitund fólks, en eitthvað hefur honum þarna brugðist bogalistin. E.t.v. flokkast þetta undir taktleysi.

Athyglisverðastur er þó þáttur Vodafone, sem er framleiðandi auglýsingarinnar. Fram hefur komið, að farið var alla leið til miðbæjar Reykjavíkur til að taka auglýsinguna upp, svo mikið hefur verið lagt í að gera hana sem veglegast úr garði.

Gaman væri, ef Vodafone vildi upplýsa, hvað auglýsingin hefur kostað.

Vafalaust hefur Vodafone góð efni á slíku miðað við allan þann hagnað, sem fyrirtækið sýnir af viðskiptum við landsmenn. Vodafone, sem til skamms tíma kallaðist „Og Vodafone,“ er nú eftir nafnbreytinguna komið í hendur gráðugra peningastráka, sem maka krókinn og reyna með öllum ráðum að hámarka gróðann. Forganga Vodafone í þessu máli er fyrirtækinu lítt til sóma og kann að draga dilk á eftir sér. Vodafone og Víkingur ættu að biðja þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu og sjá til þess, að auglýsing þessi verði tekin úr umferð.

En því miður er hér angi af stærra vandamáli. Við erum að horfa upp á minnkandi tilfinningu fólks fyrir því sem þjóðlegt er. Þess gætir á ýmsum sviðum, m.a. hvað snertir íslenska frídaga. Ekki er lengra síðan en á bóndadaginn á liðnum vetri, að fram fór á Rás 2 kosning um „Kynþokkafyllsta mann Íslands“, og þótti mörgum sá dagur ekki smekklega valinn fyrir það tilefni.

Hvað segir svona viðhorf okkur? Aldagamlir hátíðisdagar eru stöðugt á undanhaldi fyrir markaðsöflunum. Farið er að auglýsa dansleiki að kveldi bóndadags, einnig aðfaranótt sumardagsins fyrsta, nokkuð sem engum hefði dottið í hug fyrir nokkrum áratugum. Gleymum ekki, að ef við töpum lotningunni fyrir hinu þjóðlega, þá er hætta á ferðum. Þá verður fátt eða ekkert þjóðlegt og þá verður líka allt leyfilegt, jafnt í matargerð sem klæðaburði. Er ekki farið að örla á þeirri þróun á Íslandi?

Hvers megum við vænta, ef auglýsing eins og sú, sem hér hefur verið gerð að umræðuefni, verður látin óátalin? Hvað verður næst á vegi græðginnar? Hvað af þjóðararfinum sleppur ósaurgað? Veltum slíkum spurningum fyrir okkur.

Kannski á þetta eftir allt saman að vera bara sniðugt, eitthvað til að brosa að í hversdagsleikanum. Bóndasonur að tala í farsíma, nota sér nýjustu tækni. Vafalaust finnst einhverjum hugmyndin góð og auglýsingin flott og ekki ástæða til að gera veður út af slíku.

En er eitthvað flott við söguna af Búkollu og að nota hana sem gamansögu með þessum hætti í þágu gráðugra peningamanna? Að mínum dómi er það smekkleysa og skömm. Og best gæti ég trúað, að meirihluti þjóðarinnar sé í hjarta sínu sammála.

Höfundur er líffræðingur í Grafarvogi.

Taktu þátt í skehntilegri könnun um sifjaspell!

Við hjónin vorum að tala saman í gærkvöldi. Og, eins og oft vill verða þegar fólk tekur upp léttara hjal saman, þá barst talið að sifjaspellum. Reyndar út frá móðurmálssjónarhorninu: við vorum ekki alveg sammála um það hvaða skilningur væri lagður í orðið dags daglega. „Það þarf að gera skoðanakönnun,“ sagði konan mín. Svo ég ákvað að ég skyldi bara gera það, á tölvuöld.

(hér hleyp ég yfir kaflann þar sem ég hringdi í foreldra mína og fékk þá til að vera óháða álitsgjafa í málinu)

En spurningin sem þarf að svara er afar einföld. Þetta snýst ekki um orðabókarskilgreininguna: um hana er ekki deilt. Þetta er spurning um málskilning og henni má svara með einföldu eða nei:

Samkvæmt þínum málskilningi, felur orðið sifjaspell sjálfkrafa í sér að um sé að ræða kynferðislega valdbeitingu eins aðila yfir öðrum?

Ef þú ert að lesa þetta, þá bið ég þig lengstra orða að svara hér að neðan – ég á ekki von á að það stórt úrtak slæðist hér inn að ég megi við því að missa af neinum.

„Hafið mig afsakaðan meðan ég kyssi þennan náunga…“

Hlusta á Bobbie Gentry syngja „I’ll Never Fall in Love Again:“

What do you get when you kiss a guy
You get enough germs to catch pneumonia
After you do, he’ll never bone ya…

Finnst þetta eitthvað grunsamlegt fyrir listasmell frá ofanverðum sjöunda áratug liðinnar aldar. Fletti því upp og jú, mikið rétt, hún er víst að kvarta yfir því að kauði hringi aldrei í hana, en er ekki að barma sér yfir skorti á beintengingu við hann.

Ojæja…

Freaky Realistic!

Um þetta leyti í gær fékk ég eina dægurflugu úr fortíðinni á heilann. Það tók mig dálitla stund að koma henni fyrir mig: „Leonard Nimoy“ með næntís-poppgrúppunni Freaky Realistic.

Hvað í ósköpunum varð eiginlega af þeim? hugsaði ég þá. Og komst að því að þar er stórt spurt, því Freaky Realistic virðist hafa verið allsendis óþekkt band um allan heim, nema hér heima á Íslandi. Væntanlega vegna tónleikanna sem strákarnir í Freaky Realistic héldu hérna með krökkunum í Bubbleflies, eflaust sællar minningar þeirra sem þar voru.

En það er vandrótað í rangölum internetsins um þetta kúríó: Ekkert þjónvarp og ekki neitt. Þeir sem vilja geta samt farið á netsvæði djöfulsins og rifjað upp ljúf kynni við Leonard Nimoy, að ógleymdum Skapaknapanum.

„This is no time to fuck up…“

Það er skemmtileg persónuleg lífsreynslusaga í Mogganum í morgun, skrifuð af ágætum pilti sem reyndi sig vansöngva á æfingu hjá kórnum mínum á þriðjudagskvöldið var. Honum var hálfgerð vorkunn að vera fleygt svona strax útí djúpu laugina: Við erum að æfa Jólakantötu Honeggers og Gloriu eftir Poulenc fyrir jólatónleikana í desember. Ég get vel trúað að hafi komið dálítið á hann, blessaðan. En vona að hann þori þó að koma aftur.

Og megi hann skrifa sem oftast um reynsluna – ég væri til í að lesa… svona… „raunveruleika-“ greinabálk um það hvernig er að vera óreyndur söngmaður að syngja krefjandi tónlist í ráðsettum kór. Paris Hilton fyrir okkur rauðhálsana.

Eða kannski svona… …Ernest Hemingway… (æ mig auman) …að lýsa lífinu í skotgröfunum. Kannski dáldið utanaðfrá, en samt á staðnum.

Eða kannski er ég bara svona hrifinn af þessu fyrir plöggið…

Taktu þátt í skehntilegri getraun!

Það var svo gaman að púsla þessu saman síðast að ég bara verð að reyna mig við þetta aftur. Þessi á að vera aðeins snúnari en sú fyrri (hún var alltof létt, eftir á að hyggja). En þetta á samt ekki að þurfa að valda neinum vandræðum að ráði.

Sumsé: Hvað er það sem tengir þessi fimm saman? Lausnin felst í einu orði, en að sjálfsögðu þarf að útskýra tengingarnar fyrir hvert og eitt þeirra. Þær eru ekki alveg eins auð-wikiaðar og síðast.

Lillian Hellman, leikskáld
Dannii Minogue, söngkona og þúsundþjalasmiður
Cate Blanchett, leikkona
Leslie Nielsen, leikari
Bragi Ólafsson, ljóðskáld og rithöfundur

Verðlaun þau sömu og síðast – ef ég nenni.

Birt á því sem mér virðist eins mánaðar ártíð Ármanns Jakobssonar á tölvuöld.

Nokkrir punktar

  • Ég er fúlskeggjaður.
  • Fjögurra ára dóttur minni tókst það í gær sem ég afrekaði ekki sjálfur fyrr en ég var kominn fram á þriðja áratuginn: Að stífla klósettið. Án nokkurra hjálpartækja.
  • Ég er svooo stoltur af henni.
  • Vitiði, mér finnst nýja strætókerfið ekkert svo voðalegt.
  • Nema það fer dálítið í mig að geta ekki séð hvað ég er lengi að komast á staðinn lengur.
  • Og nú mun látið á reyna.

„If you lived here you’d be home now and suicidal“

Nei djóg. Alltaf gaman að vera til. Bara dáldið önnum kafið stundum. Les: Viðþolslaust síðan um miðbik síðasta vetrar.

En ég hálfpartinn missti vitið þarna á tímabili. Gullæði er líka hugarástand, ekki bara samfélagslegt fyrirbæri.

Sjá pönnufyllina, skyldirðu nenna því.

Allavega, þetta leið hjá. Og ég held að hausinn á mér sé á réttari stað núna en hann hefur verið svo mánuðum skiptir.

Svo, gaman aððessu.

Sú elsta er sjö ára akkúrat í dag. Tíminn flýgur: það eru nákvæmlega sex ár og sex dagar síðan hún tók fyrstu skrefin, sællar minningar. Ég myndi óska henni til hamingju ef hún vissi af mér hérna.

Og svo mun eflaust verða fyrr en varir: Hún er að verða fluglæs, bæði á kolefnis- og sílikonflögurnar.

P.S til annarra truflaðra einstaklinga og yfirhöfuð þeirra sem blogga í WP: Hvernig í horngrýtinu sleppur maður undan því að bendillinn fari í leitarham þegar maður slær inn íslenska broddstafi? Þetta. Er mjög. Pirrandi.