Kjaftæði, tár og frelsi

Hvað í anskotanum á það eiginlega að fyrirstilla að í hvurt einasta skipti sem hitnar í kolunum í Valhöll, þá koðnar öll vitleysan niður í innantómt mas um það hvur sagði hvað og hvur sá ekki hvaða ómerkilega snýtubréfssnepil á einhverju tveggja eða þriggja manna tali, hvort sem það var í lokuðu vinnuherbergi í Breiðholtinu eða hótelherbergi í Lundúnum?! Hvunnlax dómadags mafíósastælar eru þetta eiginlega?!!! Gett tú gripps viþþ itt, elskurnar: Ási og Pétur voru áratugum á undan sinni samtíð þegar þeir bentu á að Sjálfstæðisflokkurinn er stærstu glæpasamtök sem starfa á Íslandi. Það er óbreytt enn þann dag í dag, núna tuttugu árum síðar, þrátt fyrir einkurja litháska vonnabí búðahnuplara og dópfylltar skútur í kyrrlátum krummaskuðum útá landi.

(Þess má geta að meðan þeir Bjarni og Villi kömmuðust í bakherberginu við þriðja mann serveruðu kvenkyns flugþjónar þeim viskí, vindla og vínber í boði Icelandair og Glitnis undir spjallinu.)

Meðal annarra orða, og heldur tjillaðri: Ég held að Björn Ingi sé lélegur leikari.

Ekki misskilja. Ég er sannfærður um að hann, eins og allir alvöru stjórnmálamenn, er ágætlega góður í að ljúga blákalt gegnum tennurnar á sér og halda fullkomnu pókersmetti á meðan. En ég trúi því ekki að það sé partur af daglegu reppertoríi, hvorki hans né nokkurs annars í íslenskri pólitík, að geta kreist út krókódílatár meðan steinhjartað slær í brjóstinu uppá tíu í einkunn fyrir leikræna túlkun.

Var Ingibjörg kannski bara að gera sér upp hjartaáfall í beinni?

Var Davíð kannski bara að plata okkur með þessari aðkenningu að krabbameini, akkúrat þegar spjótin stóðu hvað hvassast á honum?

(hummm…)

Mér hefur einhvernveginn alltaf fundist að ég ætti að taka öllu sem hann Bingi pjakkurinn segir með hnífsoddi af salti (eða þaðan af meira). Það er hægt að ljúga hverju sem er og vera ábúðarfullur og ábyrgur tilsýndar. Eða brosandi og glaðvær (stræk ðatt, Halldór Ásgrímsson). En að klökkna í púlti? Það er mun erfiðara að feika en það lítur út fyrir (sem gerir afrekið þess virðingarverðara, ef ég hef rangt fyrir mér).

Ég veit ekki í hvaða stöðu Björn Ingi var í síðustu viku. Það eru allir að reyna að segja mér hver sú staða var. Ég trúi engum þeirra – ekki svo langt sem þeir vilja. En hver sem hún var, þá fannst mér greinilegt að þetta var staða sem hann óskaði sér ekki að vera í. Þarna var maður sem hafði orðið að taka erfiðar ákvarðanir, og sært þá sem stóðu honum nærri í framhjáhlaupinu. Og hann sýtti það.

Nema þetta sé eitthvað sem er kennt í stjórnmálaskóla Félags Ungra Framsóknarmanna. Ég veit það ekki. Eggert, er það kannski svoleiðis?

Neeeh…

Út úr skápnum

Það eru nokkrir punktar sem hafa verið að brjótast í mér um þjóð- og heimsmálin síðustu vikur og mánuði (já, eins og alltaf svo tímanlega í umræðunni…) og sem ég held ég verði bara að játa upp á mig, þótt einhverjir þeirra geti kannski talist þvert á karakter.

 • Ég er ekki frægur talsmaður harðari refsinga. En ég er bara hreint afskaplega ánægður með miðbæjaraðgerðir Reykjavíkurlöggunnar. Um að gera að hirða peningana af þessum sóðum – fólk lærir mun meira af því en að vera stungið í grjótið.
 • Í framhaldi af því: Þegar ég sé siðlausu subbuna í bílnum fyrir framan mig skrúfa niður rúðuna til að fleygja Cult-dósinni sinni á malbikið hugsa ég: „Þennan mætti sko aldeilis alveg rukka um tíu bláa Brynjólfa. Lágmark.“
 • Mér finnst Friðarsúlan ódjissla flott. Hún rúlar.
 • Ég hef aldrei haft mikið álit á Birni Inga Hrafnssyni. Ég hélt lengi vel að það gæti ekki orðið minna. En ég verð að játa að það hefur aukist töluvert síðustu vikuna.
 • Ég á voðalega erfitt með að heillast af Kiljunni. Ég hef reynt, en hún bara… … …ég nenni því ekki. Alltaf þegar ég kveiki finnst mér hann Egill bara vera að sýna einhver myndbrot úr kalda stríðinu.
 • En mér fannst Dr. Who þættirnir æðislegir. Þeir fáu sem ég sá. Í alvörunni. Æðislegir.

Hreintungufasismi fyrir víðerekomne – orð dagsins

Þessutan er ég með smá curiosa fyrir þá sem orðnir eru leiðir á öllu þessu tali um fákeppni á Íslandi í dag: Ég var að blaða í orðabók mér til skemmtunar í gær (einusinni sem oftar) þegar ég alltíeinu rak augun í orð sem skapaði hugrenningatengsl við annað orð sem ekki var til:

Orð dagsins er samokun.

Eða réttara sagt, sem ég hélt að væri ekki til, eða ekki í þeirri merkingu sem ég ljáði því. Svo kannaði ég málið nánar (les: gúglaði) og komst að því að þetta orð hefur verið til í þessari merkingu í að minnsta kosti tuttugu ár: Sjá dagblaðsgrein.

Erettekki merkilegt.

IgNóbel! Shkehntilegt! Ússlidd!

Þá er búið að veita IgNóbelinn í ár. Verðlaunin eru sem hér segir:

 • Læknisfræði: Fyrir rannsóknir á aukaverkunum sverðagleypinga.
 • Eðlisfræði: Fyrir rannsóknir á því hvers vegna og hvernig lök krumpast (þessir hafa væntanlega þurft að sofa á því).
 • Líffræði: Fyrir detaljeraða alhliða úttekt á dýralífi og gróðurfari rúmdýna (næsta skref verður að kryfja til mergjar áhrifin af því hversu krumpuð lökin eru).
 • Efnafræði: Fyrir aðferð sem vinnur vanillubragð úr kúamykju (þess má geta að búið er að setja á markað nýja ístegund til heiðurs þessari þörfu uppfinningu).
 • Málfræði: Fyrir að sýna fram á að rottur geta ekki greint á milli japönsku sem töluð er afturábak og hollensku sem töluð er afturábak.
 • Bókmenntir: Fyrir rannsóknir á þeim fjölmörgu vandræðum sem ákveðni greinirinn „The“ veldur þeim sem ætla sér að raða titlum í stafrófsröð.
 • Friðarverðlaunin: Veitt bandaríska flughernum fyrir rannsóknir og þróun á hinni svokölluðu „hommasprengju,“ sem átti að láta óvinahermennina fá áhuga á að búa til ást, frekar en stríð.
 • Næringarfræði: Fyrir rannsóknir á því hversu lengi fólk étur uppúr botnlausri súpuskál.
 • Hagfræði: Fyrir þjófanet. Nei, ekki eins og þessi litháísku sem allir eru að fríkha úth yfir, heldur meira eins og Markúsarnetið, nema fyrir bankaræningja. Svona eins og í teiknimyndunum.
 • Ferðamálafræði: Fyrir þá uppgötvun að stinningarlyfið Viagra dregur úr flugþreytu hamstra.

Þeir sem vilja fræðast nánar geta litið við hjá Annálum Ólíkindalegra Rannsókna (það gæti gengið dálítið hægt akkúrat þennan morguninn). Þaðan er hægt að nálgast frumrannsóknirnar, sem oft eru hreinn skemmtilestur (fyrir þá sem þann veginn eru innréttaðir).

ÚRSLIT! SKEHNTILEGT! SIFJASPELL!

Jæja, nú er þetta komið út í hálfgerða vitleysu.

Í dálítilli könnun sem undirritaður framkvæmdi á málskilningi Íslendinga á orðinu sifjaspell tóku þátt 25 manns. Af þeim sögðust 3 afdráttarlaust taka sem gefið að sifjaspelli fylgdi valdbeiting, 18 sögðu svo ekki þurfa að vera samkvæmt sínum málskilningi, og 4 virtust vita mismikið í sinn haus með það hvað þeim fyndist um spurninguna. Af 3 þeirra mátti þó skilja að fyrstu viðbrögð þeirra væru að svara spurningunni játandi. Í fjórða tilvikinu var gerður greinarmunur á andlegu og líkamlegu ofbeldi – sem virðist reyndar taka sem gefið að til þurfi að koma ofbeldi af einhverju tagi.

Þessar spekúlasjónir mínar komu upphaflega til af því að við hjónin vorum að ræða það hvort hugmyndin um ofbeldi í órjúfanlegum tengslum við sifjaspell hefði síast inn í almenna málvitund og væri orðin að meirihlutaviðhorfi meðal þjóðarinnar. Því neitaði ég að trúa og var í framhaldinu manaður til að gera könnun á málinu.

Og því erum við hér.

Ef einungis eru teknir þeir sem tóku eindregna afstöðu (3 já vs. 18 nei), þá má fullyrða að marktækur meirihluti (P = 0.0006) þeirra Íslendinga sem vafra um þennan hluta bloggheima tekur ekki sem gefið að sifjaspell þurfi að fela í sér kynferðislega valdbeitingu. Jafnvel þótt – í ljósi þess sem áður var rakið – vafaatkvæðin séu öll flokkuð með jáunum (=> 7 já vs. 18 nei) telst meirihlutinn samt marktækur (P=0.03). Og er það vel – mér léttir ögn fyrir hönd íslenskrar tungu.

Ég er reyndar ekki sannfærður um að niðurstaðan hefði orðið í þessa veruna ef spurningin hefði verið borin upp á moggablogginu, hvað þá á spjallþræði á barnalandi.

Þeim sem svöruðu spurningunni játandi þakka ég hreinskilnina. Ég vil ekki ætla þeim að vita ekki hvað orðið þýðir, heldur frekar að þeir hafi smitast af því sama og konan mín – að taka því þegjandi sem sjálfsögðum hlut þegar hávær minnihluti hertekur góð og gild orð og ljær þeim nýja merkingu með þeim afleiðingum að sú fyrri á á hættu að standa uppi sem hortittur: hugtak sem búið er að svipta orðinu sem lýsir því.

Ekki merkingarlaust orð, heldur orðlaus merking.

E.t.v. mætti kalla þetta vangefnissýki: þar sem vangefinn er sennilega með skírari dæmum í seinni tíð um orð sem hafa verið svipt merkingu sinni án þess að eiga það endilega skilið. En betri dæmi óskast.

Þeim sem hinsvegar standa á því fastar en fótunum að jú! víst! sifjaspell sé alltaf kynferðislegt ofbeldi! vil ég bara benda á að fletta orðinu upp í orðabók. Og þeir mega þá alveg tékka á orðinu niðrun í leiðinni.

Góðar stundir.