Fyndið grín

Fyrir þremur árum gekk Hrefna í gegnum skeið þar sem hún uppdigtaði ýmsar mismunandi útgáfur af tómatur-sem-labbaði-yfir-götu brandaranum. Þær náðu hámarki í metafýsísku meistaraverki sem ég bloggaði um sællar minningar. Svo hætti hún á toppnum.

Það hefur farið minna fyrir þessu skeiði hjá Unu systur hennar. En upp úr eins manns hljóði sagði hún okkur þó brandara um daginn sem jafnast fyllilega á við þennan sem hlekkt var á að ofan:

„Einu sinni voru tveir bananar.

Svo fór einn yfir götuna og þá kom bíll og keyrði yfir hann.

Svo fór hinn yfir götuna og þá kom annar bíll og keyrði yfir hann.“

Pönsjin gerast ekki öllu súbbversífari en þetta.

Opið bloggbréf til Þráins Bertelssonar

Ji hvað allir voru æstir þarna í fyrradag. Hinir mætustu menn hingað og þangað kepptust við að útmála skoðanir sínar á málunum (undirritaður ekki undanskilinn).  En sumum þótti mér nú heldurbetur mælast hugsunarlausar en öðrum. Sérstaklega þótti mér sem Þráinn Bertelsson hefði mátt stilla hug sinn ögn betur en hann tók að úthrópa sig á tölvuöld.

(og gírar þá mælandi sig niður um persónu)

Merkilegt Þráinn, að núna, nákvæmlega tveimur sólarhringum síðar, hafa 44 skilið eftir skilaboð við þessa færslu þína, og ekki einn einasti þeirra sýnist mér hafa skammað þig fyrir þá glórulausu fordóma sem þú sýnir í garð geðsjúkra:

„Það er kominn tími til að Alþingi skipi sérstaka rannsóknarnefnd sem rannsakar hin geðveikislegu viðbrögð við mótmælaaðgerðum trukkabílstjóra. […] Ég mótmæli því að hafa lengur yfir mér hernaðardýrkandi dómsmálaráðherra með geðvillta ofbeldisseggi í sinni þjónustu. Aðrir en geðvillingar beita varnarlaust fólk ekki ofbeldi.“ (áherslubreytingar mínar)

Mér blöskrar að lesa þetta Þráinn.

Mér. Hreinlega. Blöskrar.

Ég tek sem gefið að þessi orð hafir þú sjálfur skrifað í eigin stundargeðshræringu – að þú hafir ekki meint þetta í alvörunni. En ummælin eru engu að síður til minnkunar þeim sem mælti.

Svo það sé á tæru: Geðsjúkt fólk er upp til hópa mestu friðsemdargrey sem fæst gera flugu mein. Og lokasetning færslu þinnar er svo himinhrópandi röng að maður veit ekki einusinni hvort skal hlæja eða gráta: Það þarf enga geðsýki (geðvillu?!) til að beita varnarlaust fólk ofbeldi. Bara vænan kokteil af siðblindu, hroka, mannfyrirlitningu, skeytingarleysi og sjálfbirgingshætti, hrært útí stjórnlausa reiði eftir smekk. Eða þessvegna bara fullkomlega yfirvegaðan, einlægan ásetning.

Fullt af fólki beitir varnarlausa meðborgara sína ofbeldi. Sumt í vímuæði, sumt vegna skorts á alminlegu uppeldi, sumt af því að það er bara í vinnunni. Í langfæstum tilvikum hafa geðsjúkdómar nokkuð með málið að gera. Ef þú vilt væna lögregluna um illmennsku, gerræði, heigulshátt, jú-neim-itt, þá skaltu bara gera það, takkfyrir. Ekki draga inn í myndina hugsunarlausa fordóma gegn hópi fólks sem má alveg við því að losna undan þeim, takk fyrir.

Að lokum: Það getur komið fyrir hvern sem er að láta útúr sér einhverja vitleysu í augnabliks æsingi og hugsunarleysi. En það er ekki þar með sagt að það eigi ekki að skammast sín fyrir það (spurðu bara Láru Ómarsdóttur).

Æ skammastuðín Þráinn.

Sveiðér bara.

Fótmæli!

Ég vil lýsa yfir ánægju minni með „óeirðirnar“ í gær. Mikið sem mér fannst þær flottar.

Það gerist alltof sjaldan hér á landi að mótmæli nái að komast yfir þann þröskuld sundurþykkju og megnrar óánægju að uppúr sjóði eins og gerðist í gær. Það var undantekningin frá þeirri reglu sem íslensk mótmæli fylgja nánast alltaf.

Í stað reglu: óregla.

Eins og Bubbi sagði: „Hversvegna eru / lögóregla / til að fela / hitt og þetta…“

Húrra. Í alvöru.

Fulltrúar lögóreglu og annarra yfirvalda kepptust við það hvur um annan þveran að koma fram í fjölmiðlum og benda á að mótmælendur væru fyrir löngu „búnir að koma sínum málstað á framfæri“ og því væri sorglegt að sjá svona farið.

En kommon, það er akkúrat málið: Fólk er orðið hundleitt á að sjá málstað sínum „komið á framfæri“ og svo búið, farið bara heim og leggið ykkur. Farið að horfa á Lost eða Desperate Housewives eða eitthvað.

Þarna fór fólk sem var búið að fá nóg af því að „koma málstað sínum á framfæri.“ Það vildi fá viðbrögð! það vildi sjá hreyfingu! það sætti sig ekki við að vera sent heim án þess að það sæi eitthvað gerast! Niður með auðvaldið! Fokk ðö pólís!

Það finnst mér aðdáunarvert. Fyrir því klappa ég:

Klapp. Klapp. Klapp.

En mér finnst þessi málstaður hinsvegar nauðaómerkilegur. Ég ætla rétt að vona að sem fyrst standi einhver upp og segi trukkabílstjórunum að éta bara það sem úti frýs: Það er engin ástæða til að reyna að snúa niður eldsneytisverð á Íslandi með einhverslags ríkisstyrktu handafli. Mér hrýs hugur við því að reglur um hvíldartíma vöruflutningabílstjóra verði rýmkaðar í þá veru sem þeir krefjast.

Þegar ég keyri næst norður til Akureyrar með konuna mína og börnin þrjú innanborðs vil ég geta treyst því að undir stýri á átjánhjóla flutningabílnum sem mætir mér sitji úthvíldur maður.

En uppþotin þóttu mér æðislegar fréttir. Ég vona að sem fyrst verði mótmælt hér á landi aftur af sama eldmóði. Og þá helst einhverju sem manni finnst skipta máli.

Ballardískur fílingur

Ég er í alveg rosalega ballardískum fíling þessa dagana. Jákvætt fídbakk milli þess hvernig ég sé hlutina í kringum mig og bókanna sem ég er að lesa.

Um daginn var ég í strætó að lesa Crash. Í sætinu fyrir framan mig voru tvær táningsstúlkur að tala um vin sinn sem ku hafa keyrt á vegg á 100 km hraða/klst (heyrðist mér á þeim). Í Ártúnshöfðanum fór öll umferð í hægagang: bílarnir siluðust framhjá bifreiðavöllunum við Húsgagnahöllina. Boglína dregin af hreinsuðum útblæstri og nöglum sem gæla við tjörustein. Svo sáum við skýringuna þegar við mjökuðumst yfir Gullinbrú: Í skjóli blikkandi blárra ljósa á eyjunni milli akstursstefna stóðu sjúkraflutningamenn yfir feitlaginni miðaldra húsmóður sem sat sem fastast undir stýri í bláum Volvó með krumpaða vélarhlíf. Hinumegin við okkur var risavaxinn ruslagámur í vegkantinum; böggull sem virtist hafa dottið úr pósttösku risavaxins bréfbera. Mér stóð.

Í morgun lagði ég bílnum á efri hæð bílastæðahússins sem stendur undir brúnni á flaggskipi íslenskra erfðarannsókna. Í polli á bílastæðinu spígsporuðu tveir tjaldar. Þeir flugu kvakandi burt þegar Pajerojeppi malaði inn heimreiðina.

Annars er svarið fundið Magnús: Egill Helgason er R.R. Ég held að það sé alveg málið. Það er reyndar blíding obvíös um leið og maður stoppar til að pæla í því. Veistu um einhvern sem getur hjálpað mér með fótósjopp?

Annað í fréttum: mér hefur verið bent á að það verði aukasýning á hinu ágæta Hugleikriti, 39 ½ vika, á föstudagskvöldið kemur. Fagni því allir góðir menn.

Æ-pot, náttúrulegt val og evróvisjón (eða ekki)

Ég hélt í tæpan sólarhring að ég væri búinn að týna iPodinum mínum – mundi síðast eftir að hafa stungið honum í úlpuna mína heima hjá tengdó á laugardaginn var og síðan var eins og jörðin hefði gleypt hann. Svo benti frúin mér á hann í morgun þar sem hann lá á bakvið kaffivélina inni í eldhúsi.

Stundum óttast ég að það sé ekki í lagi með hausinn á mér. Eins gott að ég er að fara að láta skanna á mér heilann.

Yfir að allt öðru: Þeir sem hafa

  1. átt erfitt með að skilja hvað í ósköpunum málið er með þessa þróunarkenningu
  2. talið sig skilja bara alveg nógu vel hvað hún er þessi þróunarkenning, takk fyrir
  3. tíma til og gaman af að lesa vel skrifað og skemmtilegt Pop-Sci

ættu endilega að tékka á mjög fróðlegum greinaflokki hjá krökkunum á New Scientist um akkúrat þetta. Þeir sem vilja endilega sitja fastir í skotgröfum síns eigin Drottinsblessaða misskilnings og útúrsnúninga geta sosum alveg tékkað á þessu líka (þótt stundum verði maður kannski bara að horfast í augu við að það eru til stöku glataðar sálir þarna úti).

Annars hefur mig langað til þess undanfarnar vikur (ef ekki mánuði) að slá þessu bara öllu upp í kæruleysi og bresta á með djeðveiku evróvisjónmaraþoni næsta mánuðinn. Kannski ég geri það bara – síðan getur varla versnað frá því sem hún hefur verið síðustu mánuði.

Oooog kannski ekki.

Gott og vel

Jæja, nóg af þessu.

Sumsé, ég er að fara að hætta í vinnunni sem ég hef sinnt til næstum tíu ára. Það eru spennandi tímar framundan. Það stefnir í að karakterinn í blogginu breytist þegar líður á sumarið og verði meira tepokar fyrir þá sem heima sitja.

Í staðinn fyrir varla neitt neitt megnið af tímanum, eins og það er búið að vera upp á síðkastið.

Annað í fréttum: Ég fór í fínt leikhús í kvöld: 39 1/2 vika hjá Hugleik. Sú sýning er ei meir. En ég skemmti mér konunglega.

Svo var ég á Tregawöttunum  í dag. Í andvana fæddri tilraun að reyna að starta illskiljanlegustu ritdeilu internetsins. Eða eitthvað. Tékkið á því.

Eftirmæli

Leitt þótti mér að heyra um refaskytturnar tvær sem létust uppi á Auðkúluheiði. Og þess frekar þegar nöfn þeirra voru birt og ég áttaði mig á að þetta voru fyrrum vinnufélagar mínir.

Eða svonaaa…

Hann Flosi réði mig í handlang hjá sér fyrir réttum tuttugu árum. Hann var múrarameistari og sá um að múra innan nýbyggingu Héraðshælisins á Blönduósi. Þetta var í lok sumars; Einar í Vísi hafði ekki áhuga á kröftum (óeiginlegrar merkingar) mínum til sumarvinnu lengur en út ágúst og Menntaskólinn átti ekki að hefjast fyrr en mánuði síðar. Svo fimm vikur í september munstraði hann Flosi mig í sekkjaburð og steypuhræringar. Hann var snaggaralegur og ákveðinn í fasi, skarpleitur, dökkur yfirlitum og hvass til augna. Aldrei lá honum styggðaryrði til mín þótt eflaust hefði hann getað tínt eitthvað til þess einhvern tíma.

Einar vann með honum – við vorum þrír í þessu, karlarnir. Þá þegar var hann orðinn goðsögn í lifanda lífi fyrir skytteríið. Ekki styttist sú saga með árunum – þeir sem vilja geta flett því upp sem Unnur Jökulsdóttir skrifaði um hann í bók sína, Íslendingar. Þau eru mörg verri en það, eftirmælin.