Opið bloggbréf til Þráins Bertelssonar

Ji hvað allir voru æstir þarna í fyrradag. Hinir mætustu menn hingað og þangað kepptust við að útmála skoðanir sínar á málunum (undirritaður ekki undanskilinn).  En sumum þótti mér nú heldurbetur mælast hugsunarlausar en öðrum. Sérstaklega þótti mér sem Þráinn Bertelsson hefði mátt stilla hug sinn ögn betur en hann tók að úthrópa sig á tölvuöld.

(og gírar þá mælandi sig niður um persónu)

Merkilegt Þráinn, að núna, nákvæmlega tveimur sólarhringum síðar, hafa 44 skilið eftir skilaboð við þessa færslu þína, og ekki einn einasti þeirra sýnist mér hafa skammað þig fyrir þá glórulausu fordóma sem þú sýnir í garð geðsjúkra:

„Það er kominn tími til að Alþingi skipi sérstaka rannsóknarnefnd sem rannsakar hin geðveikislegu viðbrögð við mótmælaaðgerðum trukkabílstjóra. […] Ég mótmæli því að hafa lengur yfir mér hernaðardýrkandi dómsmálaráðherra með geðvillta ofbeldisseggi í sinni þjónustu. Aðrir en geðvillingar beita varnarlaust fólk ekki ofbeldi.“ (áherslubreytingar mínar)

Mér blöskrar að lesa þetta Þráinn.

Mér. Hreinlega. Blöskrar.

Ég tek sem gefið að þessi orð hafir þú sjálfur skrifað í eigin stundargeðshræringu – að þú hafir ekki meint þetta í alvörunni. En ummælin eru engu að síður til minnkunar þeim sem mælti.

Svo það sé á tæru: Geðsjúkt fólk er upp til hópa mestu friðsemdargrey sem fæst gera flugu mein. Og lokasetning færslu þinnar er svo himinhrópandi röng að maður veit ekki einusinni hvort skal hlæja eða gráta: Það þarf enga geðsýki (geðvillu?!) til að beita varnarlaust fólk ofbeldi. Bara vænan kokteil af siðblindu, hroka, mannfyrirlitningu, skeytingarleysi og sjálfbirgingshætti, hrært útí stjórnlausa reiði eftir smekk. Eða þessvegna bara fullkomlega yfirvegaðan, einlægan ásetning.

Fullt af fólki beitir varnarlausa meðborgara sína ofbeldi. Sumt í vímuæði, sumt vegna skorts á alminlegu uppeldi, sumt af því að það er bara í vinnunni. Í langfæstum tilvikum hafa geðsjúkdómar nokkuð með málið að gera. Ef þú vilt væna lögregluna um illmennsku, gerræði, heigulshátt, jú-neim-itt, þá skaltu bara gera það, takkfyrir. Ekki draga inn í myndina hugsunarlausa fordóma gegn hópi fólks sem má alveg við því að losna undan þeim, takk fyrir.

Að lokum: Það getur komið fyrir hvern sem er að láta útúr sér einhverja vitleysu í augnabliks æsingi og hugsunarleysi. En það er ekki þar með sagt að það eigi ekki að skammast sín fyrir það (spurðu bara Láru Ómarsdóttur).

Æ skammastuðín Þráinn.

Sveiðér bara.