Óvænt meðmæli og grobb

Ekki átti ég von á að ég ætti nokkru sinni eftir að geta sagt þetta, en ég geri það þó nú af dýpstu hjartans sannfæringu:

Ég mæli með því að fólk lesi Símaskrána. Það er skemmtileg lesning.

– – –

Vil annars láta vita af því að í morgun fór ég í fyrsta sinn á línuskautana sem ég keypti mér í vikunni. Og er enn óbrotinn. Og meiraðsegja ekkert aumur í rassinum. Svo blóm og kransar eru vinsamlegast afþökkuð.

Óhræsis strákar

Ég er glaður í dag. Það hefur mikið að gera með að ég er að hlusta á nýja SigurRósarlagið. Þeir sem enn hafa ekki sótt sér það ættu að drífa sig.

– – –

Annars er ég búinn að vera heima núna í rétt rúma viku. Það er ljúft líf, reyndar. Ég hef ekki orðið eins geðveikur af einverunni og ég hálftíhvoru óttaðist.

Í gærmorgun bakaði ég bananaköku.

– – –

Já sumsé, ég er kominn í launalaust leyfi frá mínum gamla vinnustað. Viðskilnaðurinn var geðþekkur og ekki algjör: Eftir rúman mánuð fer ég út til Danmerkur og verð þar í fjóra mánuði til að taka þátt í samstarfsverkefni ÍE og þarlendra í Hróarskeldu.

Nei, ég ætla ekki á festivalið. Það verður einmitt rétt nýbúið þegar ég mæti á staðinn.

– – –

En já, þetta blogg verður eflaust mjög tepokablandað eftir flutninga.

Sem verður framför frá því sem það hefur verið uppá síðkastið, frómt frá sagt.

Tíðindasmíði

Annars er ég dálítið undrandi á því að enn hefur engin grein skyldi birtast á Kistunni um Norðlingaholt og Láru Ómars út frá póstmódernískum pælingum um skildagafrest og fjölmiðla sem meyjarhaftið á raunveruleikanum. En það kom jú eitthvað í Lesbók sem leið í staðinn.