Vírað

Dagarnir líða við störf. Einn og hálfur tími í lest á morgnana. Einn og hálfur tími í lest á kvöldin. Matur í kantínunni í hádeginu. Brauðbollur með spægipylsu og niðursoðnum makríl í túmat á kvöldin. Parker Lewis, Jeremy Clarkson og ammríska útgáfan af Skrifstofunni. Lesið fyrir svefninn. Hringt heim umþaðbil daglega. Skæpað með hléum.

– – –

Í síðustu viku átti Logi tveggja ára afmæli. Ég fylgdist með gegnum internetið. Sem er annað en hægt er að segja um endurkomu handboltastrákanna – ég lét hana alveg fram hjá mér fara.

– – –

En ég mætti samt á úrslitaleikinn á Café Blasen. Maður lifandi hvað það er sjoppuleg búlla. En stemmingin var ánægjuleg.

– – –

Er með iPodinn á uppstokkun í lestinni meðan ég les sitthvað (þessa dagana Yacoubian-bygginguna milli vísindapappíra og Nýheðsavísa). Fannst skrýtin tilviljun þegar fyrst kom tónleikaútgáfan af „Kick in the Eye“ með Bauhaus (frá lokatónleikunum í París), og svo strax á eftir singuls-útgáfan af sama lagi. Og strax þar á eftir LP-útgáfa sama lags af Mask. Svo kom sitthvað annað, eitthvað með Hun-Huur Tu, „Kid from Red Bank“ með Count Basie, „King of New York“ með FLC. Eitthvað fleira.

Þá fór þetta að verða dálítið skuggalegt. Fyrst var dembt á mig „King Volcano“ með Bauhaus, stúdíóútgáfunni. Svo kom „King Volcano,“ tónleikaútgáfan. Þá kom „Kingdom’s Coming“ með sömu hljómsveit, stúdíóútgáfan. Og það segir sig sjálft hvaða lag kom þar strax á eftir. Í tónleikaútgáfu.

Ég tek fram að það eru eitthvað tæplega sexþúsund lög á æpoddinum mínum.

Ég hef ekki ennþá þorað að hlusta lengra. Er tæknidraugurinn að reyna að segja mér eitthvað?

– – –

Gekk um daginn alveg upp að búðinni „Vindlar Faraós“ og uppgötvaði að þar er höndlað með teiknimyndasögur og hlutverkaleiki.

Segir sig sosum sjálft, svona eftirá að hyggja.