Nauðungarsalan á FIH

Humm.

Nú hef ég, finnst mér, minna vit en meðalmaðurinn á atburðum síðustu daga.

Þess vegna finnst mér að einhver hljóti að geta útskýrt fyrir mér eftirfarandi í einföldu máli:

Fyrir óratíma (dvs næstumþví viku) kom í íslenskum fréttum að íslenska ríkið veitti Kaupþingi lán gegn veði í FIH bankanum í Danmörku.

Nú sá ég í tíufréttum TV2 í gær að verið er að leita hófanna með nauðungarsölu á FIH. Vonast er til að fáist umþabil 7 milljarðar DKK, eða um einn milljarður evra. Ef selst á því verði, þá er það vel yfir þeim 500 milljónum evra sem komu við sögu í lánasamningnum. En allt sýnist mér þetta vera próspektíft.

Þessi frétt virðist ekki enn hafa heyrt til tíðinda uppi á Íslandi, amk ekki hjá vefmiðlunum.

Ég þykist vita að þetta sé til komið vegna yfirtökunnar á Kaupþingi í kjölfar aðgerða breskra yfirvalda gegn íslenskri bankastarfsemi. Ef ég skil þetta rétt (endilega leiðréttið mig ef mér skjátlast).

En það sem ég veit ekki en vil fá að vita sem íslenskur fréttaneytandi, ríkisborgari og skattgreiðandi: Hvernig kemur þetta við þann gjörning sem að ofan var nefndur milli ríkisins og Kaupþings? Er búið að veita Kaupþingi lánið eða var þetta meira svona… hvað er það kallað á fjármáli… „viljayfirlýsing?“ Er ríkið búið að leysa til sín veðið? Hver á FIH í dag?

Ég spyr af því að ég veit það ekki. Og mig langar til að vita það.