Nepja og einhvunnlags ókennd

Hann var napur í morgun, vindurinn þegar ég fór með yngri börnin á leikskólann.

Á leið heim aftur var eins og allur litur úr umhverfinu. Enn ekki nema örmjó kóngablá rönd út við sjóndeildarhringinn. Það ískraði í leikskólahliðinu þegar ég opnaði það og vindurinn söng eins og þeremín í ljósastaurunum. Eitt andartak leið mér eins og ég væri staddur í vísindaskáldskaparmynd frá sjötta áratug síðustu aldar. Átti allteins von á að sjá risavaxna kónguló koma kjagandi inn götuna.

Ekki skrýtið að ég skyldi svo hafa farið að láta tékka á mér hausinn.

Um vekjaraklukkur, snooze-takka og þjóðfélagsástand

Mér finnst vekjaraklukkur vera mikil þarfaþing. Ein af merkustu uppfinningum og mestu framfaraskrefum mannkyns. En snooze-takkinn finnst mér aftur á móti vera óttalega gagnslaus uppfinning. Flest erum við undir þá sök seld að þurfa að koma okkur á fætur fyrir ákveðinn tíma flesta morgna. Það þarf að vekja börnin og koma þeim á ról, snyrta sig til og sinna öðrum morgunverkum, sjá til þess að allir fái morgunverð, gefa gæludýrunum ef einhver eru áður en haldið er til vinnu eða í skóla, leikskóla eða til dagmömmu. Öðru hvoru megin við upphaf unglingsáranna er börnunum svo falið að sjá um þetta sjálf. Þau fá sína eigin vekjaraklukku. Með eigin snooze-takka.

Ég man þetta sjálfur frá mínum eigin unglingsárum. Það kom fyrir að gripið var til snooze-takkans. Að kúrað var dálitla stund enn. Bara tíííu mínútur í viðbót. Það var blundað dálitla stund, jafnvel svifið um sinn inn í draumalandið, svo hringdi vekjaraklukkan aftur og í svefnrofunum var maður ekki alveg viss hvort maður væri að vakna eða sofna. Svo það var ýtt aftur á snooze-takkann. Bara einu sinni enn. Bara að kúra í pínustund í viðbót. Svo allt í einu var hrokkið upp við það að hálfur morgunninn var liðinn, skólinn löngu byrjaður og allt í óttalegu volli. Kannski jafnvel stöðupróf eða maður var tæpur á mætingu fyrir og námsferlinum stefnt í óþarfa tvísýnu. Seint og um síðir staðið í skólastofugættinni og stunið upp: „Fyrirgefið, ég svaf yfir mig. Ég gleymdi mér á snooze-takkanum.“

Þetta gerðist að vísu ekki oft. Ég komst einhvern veginn aldrei upp á lag með að temja mér þetta almennilega. Hef ekki notað þessa græju áratugum saman. En það eru einhverjir sem geta greinilega ekki án hennar verið. Það bara hlýtur að vera, fyrst hún er alltaf hönnuð inn í vekjarann.

En til hvers í ósköpunum? Hvaða gagn er af snooze-tökkum? Sá sem er vansvefta hefur gott af að sofa lengur, og það heilum svefni, ekki rumskandi á tíu mínútna fresti. Vekjaranum er ætlað að hringja til þess að láta vita af því að nú þurfi að fara á fætur: Ef hægt er að kúra tíu mínútum lengur, þá er mesta gagnið að vakna bara tíu mínútum síðar og drífa sig þá á fætur (þetta er meir að segja vísindalega sannað: ég las það í fyrirsögn á internetinu). Og ef það er ekki tími til að kúra, þá gerir snooze-takkinn ekkert nema ógagn.

Nóg um það.

Þessa dagana eru erfiðir tímar. Yfir íslenskar fjölskyldur hafa dunið áföll af, mér liggur við að segja, áður óþekktum stærðargráðum. Þegar þetta er ritað (í endaðan október 2008) er ekki nema hluti af áfallinu kominn fram. Enn er nánast ekkert farið að brjóta til mergjar hvað gerðist, hvernig það gat gerst og af hverju í ósköpunum því var leyft að gerast. Hvernig sú staða kom upp að því var leyft að gerast. Í mér ólgar reiði út í marga þá aðila sem hafa verið í fréttum af því hvernig fór. Ég áfellist líka sjálfan mig. Ekki fyrir það að ég hafi djammað of villt í íslenska lánapartíinu (þvert á móti – við hjónin tókum bæði með okkur þær lexíur frá æskuárunum að lifa ekki um efni fram og reyna alltaf að hafa borð fyrir báru), heldur yfir því að ég skyldi hafa leyft því að gerast að landi mínu og framtíð þess var allt að því stolið undan nefinu á mér. Það er sú tilfinning sem ég ber í brjósti.

Ég ber kvíðboga fyrir framtíðinni. Ég kvíði því, sem þriggja barna faðir, ekki aðeins hvernig persónulegir hagir mínir og konunnar minnar munu þróast á allra næstu árum, heldur einnig og ekki síður að hve miklu leyti skuldir okkar kynslóðar koma til með að lenda á herðum barna okkar. Jafnvel barnabarna. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af uppvexti barna minna og aðbúnaði allra næstu árin (þau eru tveggja, fimm og átta ára þegar þetta er ritað). Við foreldrar þeirra eigum það sameiginlegt að hafa alist upp á heimilum þar sem neita þurfti sér um ýmis þægindi og jafnvel þannig að „oft var brauðið skorið smátt,“ eins og skáldið sagði. Og það var fínt. Það var margt alveg hreint æðislegt við að vaxa þannig úr grasi. Hamingja æskunnar verður ekki metin út frá lánsfjárábyrgð eða mæld í gengisvísitölum.

En ég geri mér ljóst að þeir dagar munu koma þegar börnin mín, þá komin til vits og ára, munu staldra við og spyrja mig þeirra spurninga sem ég spyr mig sjálfur í dag: Hvernig gátum við foreldrar þeirra leyft þessu að gerast? Og ég veit ekki hvort svörin verði neitt skárri en þegar maður stóð skömmustulegur í skólastofugættinni forðum daga:

„Fyrirgefðu, barnið mitt. Við sváfum yfir okkur. Við gleymdum okkur á snooze-takkanum.“

(Birtist í nýútkomnu tímariti Barna og menningar, sem ég hvet alla áhugamenn um börn, og, ööh, menningu, að kynna sér og gerast áskrifendur með því að smella á bornogmenning hjá gmail.com. Við hjónin erum alvarlega að pæla í því, fyrir okkar leyti.)

Eftir daginn í gær

Við áttum yndislegan dag í gær, á degi stórustu tungu í heimi (ég bara verð að mjólka þetta).  Við fengum hálft hundrað af góðum gestum, þaraf stóran slatta af ættingjum sem ég hafði ekki séð svo alltof alltof lengi og þótti svo gott að skyldu koma.

Og auðvitað á það við alla sem komu.

Dagurinn þaráður var ljómandi góður líka: Við drösluðum okkur loksins niður á Austurvöll. Við munum ekki geta mætt um næstu helgi en stefnum þess í stað á þá þarnæstu.

Nema undur og stórmerki gerist.

Dagurinn í dag var kannski svona heldur síðri fyrir okkur bæði. En samt ekki til að barma sér um of, þannig að ég læt gott heita.

Enn hefur enginn boðið sig fram til að sjá um köttinn. Ég er farinn að halda ég hafi fært kosti hennar einum um of í stílinn…

Þessi læða er ekki með öllum mjalla

Fyrir ellefu árum fengum við fyrsta afkvæmið á heimilið: lítinn gráan kettling. Svo óx hann og varð að fullvaxinni læðu. Reyndar ekki svo stórri, en samt. Fljótt kom í ljós að það var eitthvað verulega mikið að henni í skapinu. Við sættum okkur við það og elskuðum hana eins og hún var, með öllum hennar kostum og kenjum. Áður en fyrsta barnið kom á heimilið óttuðumst við dálítið hvernig hún brygðist við því, en merkilegt nokk, þá skánaði hún töluvert við það.

Hún hefur samt aldrei verið auðveld í sambúð. Satt best að segja þá er hún geðveik. Klínískt geðveik. Hún hefur reyndar mildast töluvert í skapinu með árunum og hverju nýju barni á heimilinu, en hún er samt enn sérlunduð og útaf fyrir sig. Hún skemmir húsgögn. Einn af fáum kostum hennar er að hún er létt á fóðrum. Þótt hún noti hvern matmálstíma til að lýsa yfir að hún sé því ósammála.

Ég hef rakið nokkrar sögur af henni í bloggi áður. Eins og hér, hér og hér.

Hér er topp fimm listinn yfir það sem hún hatar, í sívaxandi mæli:

5. Pestin (altso, allt sem fylgir á eftir hatar hún meira)
4. Knús og gælur
3. Gervallt mannkyn, og þá sérstaklega börn
2. Ryksugur
1. Allir aðrir kettir í heiminum

Nú er svo komið að sér fram á búferlaflutninga hjá fjölskyldunni. Strax uppúr áramótum. Og við ætlum ekki að hafa hana með okkur. Svo ef það er einhver sem gæti hugsað sér að fá hana inn á heimilið hjá sér, annað hvort til frambúðar eða til þeirra tveggja ára sem við ætlum okkur að vera í útlöndum, þá má viðkomandi annað hvort nefna það í kommentum hér fyrir aftan eða senda mér tölvupóst (hjorvarpez hjá gmailnum). Annars endar hún á Kattholti. Og þá meina ég að hún Endar. Á Kattholti.

Hér er mynd af henni í óvenju lítt drápsóða skapinu sínu:

Madditt

Hún heitir Madditt. Ekki samt eins og hún gegni nafninu.

Einhvunnlags heimkoma

Að snúa aftur í dag var mjög… athyglisvert.

Það var ljóst strax og stigið var út úr flugvélinni að landið sem ég var kominn til var ekki sama land og ég kom til að heimsækja í endaðan september, fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Þá var landgangurinn veggfóðraður með auglýsingaspjöldum frá Glitni, Landsbanka og Kaupþingi. Yfirstílfærðum, pródúseruðum auglýsingum með hrífandi slagorðum um Ísland sem traustan félaga ferðalangsins á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði. Nú voru þau öll horfin. Enn allt fullt af auglýsingaspjöldum, meiraðsegja stöku spjald frá Exista, Alfesca og öðrum kantspilurum úr leiknum sem blásinn var af eftir að allir höfðu verið reknir útaf. En aðallega frá aðilum undirstöðuatvinnuveganna. Tildæmis í ferðaþjónustu og útivistarfatnaði.

Þessi öskrandi fjarvera hlægði mig, einhverra hluta vegna. Þetta var ekki Þórðargleði. Meira út í hreinræktaða kaldhæðni.

Það var ekki fyrr en ég var búinn að fylla kerruna í fríhöfninni og sækja töskurnar á færibandið að ég sá eitt lítið veggspjald á leiðinni út: Einfaldir hvítir stafir á eintóna dimmbláum fleti: „Welcome.“ Og neðst niðri í hægra horninu var falið lógóið og undirskriftin, hálfpartinn eins og hvorttveggja skammaðist sín fyrir að vera þarna: „Landsbanki.“

– – –

Íslendingar virðast smámsaman vera að læra tvær mótsagnakenndar lexíur: auðmýkt og uppreisn. Auðmýkt fyrir sjálfum sér og uppreisn gegn þeim sem segja þér að sitja og standa. Og þær hvárartveggju mjög þarfar.

– – –

Börnin komin í ró. Ég söng fyrir strákinn.

Frúin er í partíi með vinnufélögunum: Hún hefur svo sannarlega unnið sér inn fyrir því.

Hún kemur heim á eftir.

Senn slekk ég á tölvunni. Skelli mér kannski í sturtu og skola af mér ferðarykið.

Ég er hamingjusamur. Það er gott að vera kominn heim.

Mig grunar að ég eigi eftir að skora í nótt.

Frelsi

Mikið líður mér vel akkúrat núna.

Ég var rétt áðan að klára niðurlagsfundinn eftir dvöl mína hér í Danmörku. Allir sáttir, eftir að hnýta nokkra lausa spotta á morgun, svo pakkað saman og eftir nákvæmlega tvo sólarhringa verð ég einhversstaðar yfir færeyskri fiskveiðilögsögu.

Af því tilefni hlekkja ég á þetta þjónvarp hérna. Tilvalið til að halda uppá kosningar, koma sér í gott skap, fá nostalgíu- eða aumingjakast, eða bara til að losna við kreppulög af heilanum á sér.

– – –

Meðal annarra orða: Brynjalilla benti mér á að sjóbaðabærinn heitir Bjerred. Sjóbaðið sjálft á sér ágæta heimasíðu. Hvatt er til öldrykkju, en notkun sundfata bönnuð að viðurlögðum refsingum. Sumsé: toppstaður.