Landráð

„Hristu hana aðeins,“ sagði annar pjakkurinn við hinn, þar sem þeir góndu á tvö skriðkvikindi sem þeir höfðu fangað í krukku. „Sjáum hvort þau ráðist ekki hvort á annað.“

Þarf ég að segja meira? Mér finnst að ég ætti ekki að þurfa þess. Leggðu snöggvast á minnið hvernig þú ræður í þetta. Ég kem aftur að þessu seinna.

– – –

Mér hefur fundist eins og ég þyrfti að segja eitthvað yfir Icesave-málunum. En það er bara svo ómögulegt að koma inn í þetta einhvernveginn, héðan utanað. Inn í hitann og kófið.

Landráð!, er hrópað innan úr kösinni. Þjóðníð! Kvislingar!

Og um hverja? Bræðum það aðeins með okkur í hljóði.

Ég kem aftur að þessu seinna.

– – –

Eitt hefur legið ljóst fyrir alveg síðan síðasta haust: Við munum aldrei aftur hafa það eins gott og við höfðum það. Og mér finnst það reyndar gott, útaf fyrir sig. Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það.

Ég endurtek: Við höfðum það aldrei eins gott og við höfðum það.

Og núorðið er annað ekki hægt en að horfast í augu við eftirfarandi: Sama hvað verður gert, hvort sem Icesave samningarnir verða samþykktir eða ekki, með eða án fyrirvara, þá mun fyrirsjáanleg framtíð lands og þjóðar verða, fyrir allan praktískan samanburð við nýliðna tíma, ömurleg. Þetta er ekki svartagall, þetta er staðreynd. Að ætla eitthvað annað er að berja höfðinu við steininn. Það er kominn tími til að vakna og finna lyktina af forhúðarostinum.

– – –

Bara svo það sé á tæru: Ég er reiður. Ég er alveghreint bandhoppandi brjálaður. En þetta er ekki sú heiftþrungna, stefnulausa reiði sem fyllti svo marga (þarámeðal mig) síðasta október, og svo aftur í janúar.

Einusinni fyrir óramörgum árum var ég að keyra frá Hólum í Hjaltadal niður á Sauðárkrók seint um kvöld. Ég var með bílfylli af krökkum á svipuðu reki og ég og við ætluðum aðeins að skreppa niður í Ábæ fyrir lokun. Stúlkan sú sem ég elskaði þá sat í farþegasætinu.

Ég var enn að gefa inn upp að einbreiðu brúnni sem lá yfir Víðinesána á blindhæðinni rétt utan við Hólastað þegar ég sá að það var ekki allt með felldu; það var eitthvað í veginum. Þegar ég gerði mér ljóst að þetta var kindarskrokkur sem lá á miðju brúargólfinu var orðið of seint að negla á bremsurnar, en það var ekkert annað að gera. Mér tókst að stýra með vælandi dekkjum og öskrandi farþegum á milli brúarstólpanna, fann skepnuna skella á hægra framhjólinu og dragast undir bílnum útá brúarendann hinumegin áður en hún losnaði aftur. Svo námum við staðar.

Í þögninni á eftir gerði ég mér nokkra hluti ljósa:

  1. Ég var ekki fyrstur til að keyra yfir kindina.
  2. Sá sem var á undan mér hafði skilið hræið eftir þarna og ekið í burtu.
  3. Kindin var enn uppi á miðjum veginum.

Og nötrandi af adrenalínsjokki og hamslausri bræði yfir hugsunarleysi þess sem fór á undan mér rauk ég út, þreif um lappirnar á skepnunni þar sem hún lá í malbikinu með iðrin úti, dró hana út í kant og fleygði upp fyrir veg af meira afli en ég átti til.

Þetta var ömurlegt verk. En ég varð að gera það. Það varð bara andskotakornið að gera þetta.

Eitthvað þessu lík er sú reiði sem fyllir mig í dag.

– – –

Það verður andskotakornið að gera þetta. Þannig blasir þetta við mér. Og mér sýnist úr fjarlægð sem þeim röddum fari fjölgandi sem segja það sama. Þetta er spurningin um að gera eins og maður hefur lofað, að gera það sem maður er skuldbundinn (bókstaflega) til að gera. Þetta snýst um að halda í einhvern snefil af sjálfsvirðingu, ef ekki virðingu annarra.

Heiður. Er ekki talað um eitthvað svoleiðis í Íslendingasögunum?

– – –

Ha? Hvað segirðu? Hljómar þetta einsog eitthvað útúr Bjarti í Sumarhúsum? Ég er bara alveg sammála því. Þetta eru 600 1800 milljarðar (and counting) sem þessi Bjartur sem við erum þarf að „sá í akur óvinar síns,“ ef allt er talið. Og ég er, satt best að segja, ekki sannfærður um að við höfum efni á þessu. Og ef svo er, þá verður bara að horfast í augu við það.

Só bí itt.

Kannski mun þetta sliga okkur öll í gröfina. Kannski endar þetta með því að íslenska þjóðarbúið verður tekið uppí skuld. Kannski munum við neyðast til að ganga Noregskonungi á hönd. Eða Englandsdrottningu.

(og ég minni á: óháð því hvort samningurinn verður samþykktur eða ekki).

Við gætum verið með dauða íslensks lands, þjóðar og tungu í spilunum.

Þetta er ekki svartagall. Þetta er raunverulegur möguleiki í stöðunni.

Kannski ekki stór. En til staðar.

En nota bene: Það er þá ekki atburðarás sem er hrundið af stað með samþykkt eða höfnun Icesave-samninganna. Það er ekki einusinni atburðarás sem hófst með hruninu í október síðastliðnum. Þetta er eitthvað sem fór af stað enn fyrr en það.

– – –

Ojæja. Ef ekki vill betur til, þá hefur þjóðin hér allavega sitt tækifæri til að deyja hetjudauða, frekar en sem lítilsvirtur svíðingur og varmenni meðal þjóða. Það er mín persónulega afstaða.

Hetjudauði. Er ekki talað um eitthvað svoleiðis í Íslendingasögunum? Einhvernveginn finnst mér þeir sem sóttu hvað grimmast í arfinn síðustu árin hafa náð að leiða þetta hugtak þægilega hjá sér.

– – –

Að lokum: Manstu eftir pjökkunum tveimur í upphafinu? Reyndirðu að ráða í táknmyndina?

Ef þú settir Breta og Hollendinga í hlutverk þeirra ertu fallinn á myndmálsprófinu. Líka ef þú settir Steingrím J, Samfylkinguna, InDefence-hópinn eða hvern annan þann sem af sinni eigin ósérplægni vill reyna að gera það skásta sem mögulegt er úr þeirri ómögulegu stöðu sem upp er komin.

En hverja þá? Af hverra völdum erum við lokuð hérna ofaní til að kljást hvert við annað? Saka hvert annað um kvislingshátt og þjóðníð?

Þeir standa þarna enn og skemmta sér við að hrista krukkuna.

Hvern ætlar þú að kalla landráðamann í dag?

Þér ég ann

Dálítið merkilegur dagur sem þetta var í dag. Við hjónin áttum tíu ára brúðkaupsafmæli.

– – –

Við eigum margt saman. Og þrennt það yndislegasta er náttúrulega hjá okkur hérna úti í Tübingen, sofandi inní rúmum þegar þetta er ritað.

(Einsog reyndar frúin, ef útí það er farið.)

En eitt sem við höfum einhvernveginn aldrei átt er „lagið okkar,“ þetta eina lag sem nútímagoðsögur segja að pör eigi sér og tengi þau saman gegnum það sem enginn skilur nema þau. Það bara einhvernveginn vill þannig til, þótt við höfum bæði yfirmáta gaman af tónlist.

Reyndar ekki alltaf þeirri sömu.

En það var heldur ekki þannig sem það byrjaði. Ekki með lagi. Þá væri tónlistin okkar sándtrakkið úr Pulp Fiction.

– – –

Fyrir tæpu ári síðan var ég einn úti í Danmörku meðan frúin var ein uppi á skerinu með ómegðina í fjóra mánuði. Þá var það einhvern eftirmiðdaginn að ég vafraði meðfram veggjakrotsskreyttum járnbrautarteinunum sem liggja gegnum Hróarskeldu. Sennilega á leið í bíó, á Batmanmyndina eða eitthvað. Þá kom hann Haukur til mín gegnum iPodinn með þessa perlu sem ég hafði aldrei tekið eftir áður, en hef aldrei síðan getað hugsað um eða hlustað á öðruvísi en að verða hugsað til konunnar minnar.

Árný mín, einhverndaginn langar mig að syngja þetta til þín. Bara verst að ég mun aldrei geta gert það jafnvel og hann Haukur:

Við munum alltaf eiga okkur París

eða ég, það er að segja.

– – –

Já og gleðilega þjóðhátíð, áður en ég gleymi því. Ég fór í „Helvítis fokking fokk“ bolinn sem frúin gaf mér í afmælisgjöf í tilefni dagsins. Var í honum fram að kvöldmat, þegar ég sullaði yfir hann heilli dobíu af hollenskri sósu og soði af þýskum aspargusi.

Týpískt.

– – –

En já, París. Ég var búinn að búa mig undir að finnast hún ekkert spes, að þetta stæði ekki undir öllu hæpinu. En ég verð að segja að hún stóð fyllilega undir því, fyrir mína parta.

Ég var þarna ekki nema tvær nætur, frá sunnudagskvöldi til þriðjudagsmorguns, og á fundi allan mánudaginn, þannig að ég hafði ekki nema þrjá fjóra tíma á mánudagskvöldinu til að skoða mig um. Hótelin tvö, þar sem ég gisti og þar sem ég fundaði, voru bæði í grennd við Champs Elysées, svo ég kynntist sæmilega svona tveggja kílómetra kafla af breiðstrætinu.

Fór uppí Sigurbogann. Stóð í kortér dáleiddur við Place Charles de Gaulle Étoile og furðaði mig á hvernig í ósköpunum svona furðuverk gæti virkað. Skil vel að frönsk tryggingafyrirtæki skuli hafa sérstaka klásúlu í bílatryggingunum sínum fyrir óhöpp sem verða þar.

– – –

(Ég held uppteknum hætti með það að vera ekkert að flýta mér að blogga um hlutina – ég var þarna fyrir einni og hálfri viku.)

– – –

Tók eftir því ofan af toppi Sigurbogans að Eiffelturninn var innan göngufæris. Og varð þá náttúrulega að ganga þangað yfir, fyrst maður var þarna. Ég fór reyndar ekkert upp í hann (það var orðið svo framorðið) en ég stóð dolfallinn og dáðist að verkinu. Og meðan ég býsnaðist yfir dýrðinni stakk ég heyrnartólunum í hlustirnar á mér og blastaði þetta úr iPodinum:

Fjórum sinnum í röð, frekar en þrisvar.

Það dró ekki úr upplifuninni.

– – –

En til Parísar ætla ég pottþétt að fara aftur seinna.

Og þá með frúnni.

Krakkarnir mega gera eitthvað annað á meðan.

Með fingurinn í rassgatinu

Til að fyrirbyggja misskilning: þetta er ekki blogg um framgang rannsókna á bankahruninu.

– – –

Allt frá barnæsku hef ég verið dálítið heillaður af risaeðlum. Eru það ekki flestir, að minnsta kosti á sínum yngri árum? Þessar skepnur sem áttu jörðina í næstum 200 milljón ár og hurfu svo, nánast eins og hendi væri veifað.

(Reyndar ekki alveg rétt, þetta með að þær hafi átt jörðina. Eða allavega umdeilanlegt. Ég hef séð færð fyrir því sterk rök að ef maður lítur kalt á málin þá sé til dæmis núna ekki öld mannsins. Eða spendýranna. Ekki einusinni öld skordýranna, þótt það sé reyndar heldur nær lagi („The majority of Terrans were six-legged“ var upphafið á góðri bók). Vitur maður sannfærði mig um að það sé nokk sama hvaða hlutlæga mælistika sé lögð á það, þá sé og hafi alltaf verið öld bakteríanna. En það er önnur saga.)

En risaeðlur. Ég hef alltaf verið svag fyrir þeim.

Svo það var gaman hjá okkur núna um helgina, þegar við fórum á Urwelt Museum Hauff í nágrenndarbænum Holzmaden og skoðuðum steingervinga af risaeðlum, ammónítum og forsögulegum sæliljum, svo eitthvað sé nefnt.

Holzmaden er við rætur Schwäbísku Albanna (ekki Alpanna, svo það sé á tæru), þarsem á miðlífsöld var fjöruborð … bíðum nú við … Pangaeu, minnir mig. Svo þar er heil dobía af steingerðum dýra- og jurtaleifum frá þeim tíma (sérstaklega af fiskieðlum, ammónítum og öðrum grunnsæviskvikindum) og kjörinn staður fyrir safn af þessu tagi. Ljómandi góða útlistun af heimsókninni má sjá í bloggi frúarinnar frá í gær.

En mig langar til að segja frá því þegar við sátum úti í garðinum við safnið (sem var mestmegnis gróinn barrtrjám og Ginkgo biloba fyrir verísimilítet) og ég horfði á risaeðlulíkönin, eða stytturnar, sem voru þarna allt í kringum okkur, og ég tók eftir að líkönin voru „anatómískt réttari“ en ég hef áður átt að venjast. Og alltíeinu áttaði ég mig á því að það var partur af anatómíunni sem maður hafði ekkert séð pælt í áður í þessum venjulega Pop-Sci risaeðlulitteratúr. Allir vita að risaeðlur þurftu að éta eitthvað: Sumar voru grasbítar, aðrar kjötætur og enn aðrar voru alætur. En hvergi minnst á að auðvitað þurftu þær að míga og skíta rétt eins og dýrin í dag. Og hvergi hef ég séð gert ráð fyrir því í þeim myndum og líkönum sem ég hef séð af þeim.

Fyrr en í gær.

Og mér fannst það svo merkilegt að ég mátti til með að láta taka mynd af mér við það tækifæri. Og hana gullfallega, verð ég að segja:

Mjög merkileg uppgötvun
Mjög merk uppgötvun

– – –

Annars er bloggfall hjá frúnni: hún er farin dauðþreytt í rúmið eftir daginn. Auk þess sem það gerðist ekkert markvert í dag. Nema þvottavélar.

Um tilgangsleysi allra hluta

Blogg á feisbúkköld: Þegar hugmyndirnar eru orðnar of margar í einu til að nota sem status updates.

– – –

Ég sá einn vin minn rétt í þessu stinga uppá að kalla það Fasbók. Og þótti ekki algalið. Sjálfur hef ég reyndar lengi verið skotinn í að kalla það Trýnu.

– – –

En degi maraþonfundahalda er lokið.  Merkilegt hvernig – þrátt fyrir besta vilja og frammistöðu – maður getur fengið þessa feik-itt-till-jú-meik-itt tilfinningu fyrir sjálfum sér, bara við það eitt að eyða deginum í samræður við fólk sem er betur gefið en maður sjálfur.

– – –

(og vil ég þó meina að ég sé ekki alvitlaus)

– – –

Fann gúrmei-matvöruverslun í verslanakjarnanum þar sem ráðstefnan er haldin sú sem ég er ekki á, heldur bara á fundum sem haldnir voru í tengslum við hana. Notaði tækifærið og gerði stórinnkaup til heimilisins: Dijon sinnep, Lyle’s Golden Syrup og Sharwood’s Korma (hvorttveggja a.m.k. illfáanlegt í Tübingen), mandarínuconfiture og þær bestu ferskjur sem ég hef nokkrusinni bragðað. Að minnsta kosti sú fyrsta þeirra. Hinar tvær geymi ég mér í morgunmat í fyrramálið, áður en ég brenni út á Charles de Gaulle fyrir allar aldir.

– – –

Það helltist yfir mig voða skrýtin tilfinning þegar öll fundahöldin voru búin: mér leið eins og ég hefði ekki borðað neitt að ráði í heilan sólarhring. Sem ég áttaði mig á að var vegna þess að ég hafði varla borðað neitt að ráði síðasta sólarhringinn, fyrir utan morgunmat í morgun og ómælt magn af kaffi. Svo ég hoppaði inná sushistað við hliðina á gúrmeiversluninni og skellti mér á hóptilboðssushibakka með misosúpu. Sem ég hafði aldrei bragðað áður (súpuna þ.e.a.s.) og þótti jafnvel betri en ég hafði brynjað mig fyrir.

– – –

Núna ætla ég hinsvegar að skella mér uppá Sigurbogann.

– – –

Í ljósi þess hve vel gekk í gær ætti ég að gera meira af því að láta færslurnar mínar heita í höfuðið á nafntoguðum bloggum. Sjáum hvernig gengur með þessa.

Bloggið um veginn

Að stjórna bloggi er eins og að sjóða litla fiska.

– – –

Frúin kom heim á mánudaginn var. Þá var liðin helgi þar sem við feðgin afrekuðum það helst að skreppa í skoðunartúr út til Baggersee, þangað sem við munum ábyggilega fara með sundföt seinna í sumar þegar verður óþægilega heitt í veðri. En um helgina var bara ósköp þægilega íslenskur sumarhiti, svo vatnið sjálft varð að bíða.

Við urðum vör við dálítið undarlegt tré, það voru mjó á því blöðin og froða sem spratt útúr öxlunum á því, og þegar hreyfði vind ýrði af því þunnfljótandi, glærum, lyktar- og bragðlausum vökva yfir okkur. Hlaut af þeim sökum nafnið „Rigningartré.“ Ég var aldrei sleipur í grasafræðinni og hef sattbestaðsegja ekki hugmynd um hvaða tré þetta var. Mig langar að vita það.

– – –

Hitt þekkti ég þegar ég sá það; blað af Ginkgo biloba sem lá á stéttinni framan við innganginn á UKT Frauenklinik þegar ég mætti til vinnu í morgun. Það þótti mér hið dularfyllsta mál, enda hef ég vakandi auga fyrir Musteristrjám hvar sem ég fer. Ég held dálítið uppá þau. En ég hef hvergi séð neitt slíkt í grennd við spítalann ennþá.

Leitin heldur áfram.

– – –

Á mánudeginum, meðan við biðum eftir frúnni, skruppum við í stutta skógarferð í útjaðri þorpsins Kiebingen, sem er hérna skammt suðvesturundan. Það er annar túr sem verður endurtekinn.

– – –

Frúin mun eflaust útlista fjölskylduævintýri komandi helgar. Þar á eftir mun ég síðan skreppa á fund til Parísar og verð tvær nætur í burtu. Það verður í fyrsta skipti sem ég kem þangað. Fundurinn verður á hótelinu sem fjallað er um hér að neðan. Vonandi fæ ég samt að fara heim að honum loknum.