Grand Prix der Volksmusik 2009: Svissneska forkeppnin

Næsta úrslitakeppni Grand Prix der Volksmusik fer fram að kveldi laugardagsins 29. ágúst í München. Þar munu keppa 16 lög, fjögur frá hverju þátttökulandanna. Nákvæmlega hvernig sigurvegarinn verður valinn veit ég ekki enn en geri ráð fyrir að símaatkvæðagreiðslur komi við sögu að einhverju leyti. Sent verður út beint og keppendur munu mæma af sannri fagmennsku og fádæma myndarskap.

Lögin fjögur frá hverju landi fyrir sig voru valin í undankeppnum í vor. Sú fyrsta fór fram 25. apríl í Sviss. Þar mættu tólf keppendur til leiks og átta sátu eftir með sárt ennið. Kosið var í símakosningu og í öllum fjórum löndum fylgdi sögunni strax á keppniskvöldinu hvað hvert lag hlaut mörg atkvæði og í hvaða vinsældaröð þau væru valin.

Í fjórða sæti svissnesku forkeppninnar (með 16.1% atkvæða)  lentu Pläuschler-frændurnir: tvímenningar sem hafa, þrátt fyrir ungan aldur, troðið upp saman í fimmtán ár, og skemmta enn af sömu innlifun og ennþá sé árið 1994. Harðlínumenn myndu fussa og sveia og segja að þetta sé nú bara Schlager, en ekki alvöru Volksmusik, en látum slíkar hártoganir liggja milli hluta og njótum flutningsins á „Ich kann nicht aufhör’n dich zu lieben,“ eða „Ég get ekki hætt að elska þig“:

Í þriðja sæti (16.3%) lenti hið stórskemmtilega „Chlefeler Schtimmig,“ með Geni Good und seine Glarner Oberkrainer (sem hlýtur að þýða eitthvað rosalega hresst). Þetta er hinsvegar fyrsta klassa óumdeild Volksmusik og meiraðsegja sótt beint í svissneska þjóðararfinn: Chlefele ku vera klappleikur sem skólakrakkar í kantónunni Schwyz stunda í dymbilviku með einhvunnlags heimasmíðuðum (og samnefndum) kastanéttuplötum. Það er algjört möst að fylgjast með eftirfarandi myndbandi þar til náunginn sem situr við skólaborðið fyrir miðju sviðinu fer að láta ljós sitt skína. Svo á hljómsveitarstjórinn Geni Good reyndar algjöran stjörnuleik á nikkuna líka. Sjón er sögu ríkari:

Sarah-Jane, sú sem lenti í öðru sæti (17.4%), er eldri en tvævetur í bransanum – hún vann svissnesku keppnina árið 2005 og komst þá alla leið uppí annað sætið í úrslitunum. Nú slær hún í gegn með slagaranum „Bliib doch bi mir,“ seeem ég hhheld að þýði „Vertu nú hjá mér,“ eða eitthvað svoleiðis. Þeir sem vilja geta horft á hvernig hún stóð sig í vefvarpi svissneska sjónvarpsins, en öðrum finnst eflaust yfirdrifið nóg að tékka á eftirfarandi hljóðprufu:

Söngkonan. Og viðfangið?
Söngkonan. Og viðfangið?

Sarah-Jane – Bliib doch bi mir

Sigurvegarar kvöldsins (19%) urðu svo Stefán Roos og söngvinir hans fagrir (SängerFREUNDe & Stefan Roos – já þeir skrifa sig svona) með óð sinn til móðurhjartans: „Das Herz einer Mutter.“ Hér er mynd af þeim félögum sigurreifum í lok kvölds og hljóðprufa af sigurlaginu. Einnig má sjá hvað þeir gera þetta vel strákarnir í svissneska vefvarpinu. Þetta er ekki aðeins hjartahreinn og fagur óður hjá þeim, heldur líka hverju orði sannari, enda erum við öll, með orðum Ali G., frá sama staðnum upprunnin.

Stefan Roos og viðsyngjandi vinirnir.
Stefan Roos og viðsyngjandi vinirnir.

SängerFREUNDe & Stefan Roos – Das Herz einer Mutter

Að lokum vil ég hvetja áhugasama til að tjá sig um keppendurna og lögin – það sýnist eflaust sitt hverjum og erfitt að gera upp á milli alls þessa hæfileikafólks. En hefur hver til síns ágætis nokkuð.

Grand Prix der Volksmusik: Suður-Týról og Oswald Sattler

Árið 2000 voru ákveðin tímamót í Grand Prix der Volksmusik: Suður-Týrólar bættust í hóp Þjóðverja, Austurríkismanna og Svisslendinga og urðu fjórða þjóðin í keppninni. Þeir komu inn með miklu trukki og unnu strax í fyrstu atrennu; reyndar ekkert skrýtið, enda tefldu þeir fram ómótstæðilegri formúlu: Dúett Volksmusik-goðsagnarinnar Oswald Sattler og óþolandi krakkakrúttsins og appelsínuhöfuðsins Jantje Smit. Bæði sjón og heyrn eru hér sögu ríkari, þetta er skylduáhorf hverjum mögulegum áhugamanni um Volksmusik – sigurlag Suður-Týról frá 2000, Ich zeig dir die Berge:

Oswald Sattler var þarna – þrátt fyrir ungan aldur – vel sigldur þátttakandi í Grand Prix der Volksmusik. Sem innfæddur Suður-Týróli hafði hann þó framtil þessa neyðst til að keppa undir merkjum annarra landa, og má þar sérstaklega nefna þegar hann sigraði fyrir hönd Þýskalands árið 1990 með suður-týrólskum félögum sínum í hljómsveitinni Kastelruther Spatzen með laginu Tränen passen nicht zu dir. Þar má glöggt sjá hve hreina og öfluga útgeislun hann hefur á sviði – hann þarf nánast ekkert að gera til að eiga sviðsljósið með húð og hári þar sem hann stendur hógvær með gítarinn og syngur með í bakgrunninum. Tékkið endilega á hlekknum (því miður er ekki boðið upp á að sýna þetta hér í innskoti): svona geta bara sannir listamenn.

Suður-Týról hefur komið mjög sterkt inn og sigrað í fjögur skipti af þeim níu sem keppnin hefur verið haldin síðan fjölgaði. Austurríki hefur sömuleiðis fjórum sinnum borið sigur úr býtum, en Svisslendingar einu sinni. Þýskaland hefur hinsvegar mátt þola mikla eyðimerkurgöngu þar sem þeir unnu síðast árið 1994 (senn sér þó fyrir endann á henni leyfi ég mér að vona, en meira um það síðar). Endum á gullvægri perlu sem sigraði fyrir hönd Suður-Týról árið 2006 – snyrtipinninn Rudy Giovannini, fríðleikshnátan Belsy og Monti Pallidi karlakórinn kyrja þjóðlagasálminn Salve Regina. Þetta kemur út tárunum á öllum nema köldustu steinhjörtum:

Næst verður farið yfir forkeppnisfyrirkomulagið, byrjað að segja frá komandi úrslitakeppni og úrslitalögin kynnt frá fyrsta landinu af fjórum. Ég get fullyrt að það er von á góðu.

Una fær svar

Unu hefur borist bréf. Nánar tiltekið í fyrradag. Og eins og ég lofaði birtist það hér:

Liebe Una,

entschuldige bitte, dass wir so lange gebraucht haben um dir zu antworten. Wir sind nach unserer Hochzeit gleich in Flitterwochen gefahren und haben nun eine Weile gebraucht, alles nachzuholen.

Wir freuen uns rießig, dass du unseren Ballon gefunden hast und uns geschrieben hast. Und ja, dein Ballon ist tatsächlich am weitesten geflogen!!

Wir hoffen es geht dir gut und dass dir Tübingen und der Kindergarten auch gefällt und du eine Menge Spaß mit deinen Spielkammeraden hast. Bestimmt verstehst du inzwischen die Deutsche Sprache schon mindestens genauso gut wie dein Vater! 😉

Damit du dir etwas besser vorstellen kannst, wer wir sind, haben wir dir ein Foto von uns und dem Luftballon mitgeschickt, der bei dir gelandet ist.

Vielen Dank nochmals für deine e-mail und alles erdenklich Gute für dich und deine Familie!

Liebe Grüße,
T. und R.

Að lokum eru hér myndirnar sem á var minnst. Góðar stundir.

Ballons

Frú T. og herra R.

Grand Prix der Volksmusik – kynning (fyrri hluti)

Sama ár og Ísland tók í fyrsta skipti þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva tóku þrjár sjónvarpsstöðvar í hinum þýskumælandi hluta heimsins sig saman um að halda sína eigin söngvakeppni til eflingar þjóðlegrar tónlistar og annarra fagurra gilda. Hin þýska Zweites Deutsches Fernsehen (ZDF), Svissneska ríkissjónvarpið (Schweizer Fernsehen) og Österreichischer Rundfunk (ORF) slógu saman í keppni þar sem lögin skyldu falla innan ramman þýskrar alþýðutónlistar (Volksmusik).

Fyrsta árið (sama ár og Gleðibankinn tapaði fyrir Söndru Kim í Björgvin) var keppnin haldin í Vín og þá vann Nella Martinetti fyrir Sviss með laginu Bella Musica. Í Hanover árið eftir (þegar Halla Margrét fór halloka fyrir Johnny Logan) var það aftur Sviss, þegar Maja Brunner vann með laginu Das kommt uns spanisch vor, og kom heldég engum spánskt fyrir sjónir. Ekki það að ég geti fullyrt, enda hvorugur fyrstu sigurvegaranna finnanlegur á internetinu í dag.

Fyrsta rafræna hreyfimynd- og hljóðheimildin sem fundist hefur af sigurvegurum GPdV er með Original Naabtal Duo sem unnu fyrir Þýskaland árið 1988 (ár Sverris Stormskers og Celine Dion) í Zürich með Patrona Bavariae. Þarna má sjá helstu aðalsmerki keppninnar sem hafa haldið velli æ síðan – gullfalleg melódía og bæði klæðnaður og sviðsframkoma til mikillar fyrirmyndar, auk þess sem ekkert er skilið eftir fyrir hendinguna í formi tónlistarflutnings í beinni útsendingu:

Árið 1989 var mikið niðurlægingarár í Evróvisjónkeppninni, bæði fyrir Íslendinga (sem vermdu botnsætið með Daníel Ágúst) og Evrópu alla, sem kaus yfir sig júgóslavnesku grúppuna Riva með ömurðina Rock me. En öðru máli gegndi með GPdV sem haldin var í Linz: Austurríki bar sigur úr býtum í fyrsta sinn þegar Stefan Mross blés sig inn í hjörtu þýskumælenda með Heimwehmelodie, fyrsta instrúmental vinningslaginu. Þetta er sko blástur sem bræðir steinhjörtu:

Nú skal farið hratt yfir sögu. Látum okkur nægja að taka saman að fyrstu fjórtán árin unnu Þjóðverjar keppnina fjórum sinnum, Austurríkismenn þrisvar, en Sviss hvorki meira né minna en sjö sinnum: fyrstu tvö árin, og svo fimm sinnum í röð 1995 til 1999. Lítum að lokum á hápunkt þessarar sigurgöngu svissneskra, lagið Ich suche nicht das Paradies sem Sandra Weiss söng sama ár og Páll Óskar steig sinn hinsta dans í Dyflinni:

Árið eftir varð breyting á framkvæmd keppninnar. Og það var líka ár mikillar stórstjörnu þýskrar alþýðutónlistar. Meira um það næst.

Kraftakveðskapur (snúið útúr gömlum húsgangi)

Grjóni kúldrast á kvíabekk
með krimmum og glæpahundum.
Engan skal hann matinn fá
fyrr en hann skilar pundum.
Og svo skilaði hann pundum.
Honum var gefinn grautur í skál og gamalt tyggjó.
Grjóni kúldrast á Kvíabryggjó.

Bjöggi kúldrast á kvíabekk
með krimmum og glæpaherfum.
Engan skal hann matinn fá
fyrr en hann skilar evrum.
Og svo skilaði hann evrum.
Honum var gefinn grautur í skál og gamalt tyggjó.
Bjöggi kúldrast á Kvíabryggjó.

Landráðamaður ráðleggur (1. hluti): Þýskir vængir

Fyrir margt löngu furðaði ég mig á því að ekki væri unnið markvisst í því að halda til haga við hverja sé óhætt að skipta án þess að verið sé um leið að borga undir fólkið sem tók veð í börnunum okkar. Síðan þá hef ég ekki séð mikla burði í þá veruna. Mér var reyndar bent á tengslanet Tíðarandans sem var mikil opinberun, en það er samt ekki alveg það sama – það er ekki nógu gagnsætt fyrir hinn réttsýna neytanda. Kannski maður verði bara að reyna að halda því helsta til haga sjálfur.

Fyrir utan að í sumum geirum er sama hvert maður snýr sér: Er tildæmis ekki alveg örugglega ómögulegt að finna óspillt síma- og fjarskiptafyrirtæki á skerinu? Engin lágvöruverðsverslun virðist ósnortin (eða hvernig var annars með Krónuna? Hverjir eiga hana? – Er hún kannski illskást?). Og ekki einusinni hægt að fljúga úr vistarbandinu án þess að borga með sér, annaðhvort til Hannesar Smárasonar eða Pálma í Fons (leiðréttið mig ef þörf krefur samkvæmt nýjustu kaupunum á eyrinni).

Hélt ég. Þartil núna fyrr í vikunni.

German Wings er lággjaldaflugfélag sem flýgur vítt og breitt um Evrópu, og þarámeðal sýnist mér á heimasíðunni þeirra milli Reykjavíkur og átján áfangastaða sem spanna frá Lissabon til Berlínar. Ég hef ekki skoðað nema einn þeirra sjálfur – Stuttgart, þarsem það er sú borg sem er næst okkur hjónunum. Og ákvað að gera smá verðsamanburð. Ég bar annarsvegar saman við flug með Icelandair til Frankfurt, og valdi alltaf ódýrustu dagsetningar sem voru í boði innan þess ramma sem lagt var upp með. Hinsvegar skoðaði ég Iceland Express, og leyfði hvort heldur sem er flug til Frankfurt eða Friedrichshafen, eftir því hvort var ódýrara.

Dæmi 1: Einn einstaklingur sem flýgur frá Reykjavík í næstu viku og til baka viku síðar. German Wings býður honum að fljúga á 338 evrur, eða tæpar 61 þúsund krónur á gengi dagsins. Icelandair býður honum að fljúga fyrir tæp 73 þúsund, og Iceland Express býður upp á hvortheldur sem er, Frankfurt eða Friedrichshafen, á rúm 66 þúsund.

Dæmi 2: Fimm manna fjölskylda (2+2+1) flýgur út í byrjun ágúst til tveggja vikna. German Wings býður 1213 evrur, eða rúm 218 þúsund. Icelandair kemst oní rúm 235 þúsund, og IE flýgur þeim til Frankfurt fyrir rúmlega 214 þúsund.

Dæmi 3: 2 fullorðnir skreppa út um mánaðamótin ágúst/september (undir lok sumaráætlunar lággjaldaflugfélaganna). German Wings býður sérlega vel í restina á sumrinu og hleypir fólkinu fram og til baka á 458 evrur, eða rúmlega 82 þúsund krónur. Icelandair rukkar skötuhjúin um rúmar 117 þúsund krónur. Og IE býður þeim uppá Friedrichshafen fyrir 120 þúsund.

Af þessu sýnist mér að German Wings sé að minnsta kosti samkeppnishæft við hin flugfélögin tvö, ef ekki hreinlega það ódýrasta að jafnaði. Fólk ætti endilega að skoða málin betur og gera verðsamanburð fyrir sitt leyti.

Og það besta er að ég veit ekki betur en að það sé að öllu leyti í eigu þýskra kapítalista, og því algerlega ósnortið af útrásarvíkingunum. Mér finnst dálítið undarlegt að ég hef ekki orðið var við að þetta sé auglýst neitt þarna heima. Það ætti að vera létt verk að ná undir sig markaði með örfáum grípandi slagorðum. Hvernig væri tildæmis eitthvað svona:

Gerðu Íslandi greiða. Verslaðu fjarri heimabyggð.