Þetta er bara spurning um prinsipp

Má til með að geta þess að ég fékk mér hinn erkitýpíska hádegisverð í dag: Schnitzel með Schwäbísku kartöflusalati. Og einhverslags hleypta mjólkurafurð á eftir sem var mjög ljúffeng.

Ég mætti seint í kvöldmatinn þar sem ég sat frameftir á fundi. Sá var góður. Sem og kvöldmaturinn: Fiskistautar og soðnar kartöflur hjá frúnni.

Við erum rög við að reyna okkur við fiskinn hérna í uppsveitunum. Fiskistautarnir eru þrautreyndur hittari oní ómegðina. Enda sniðnir beint úr flökunum. Eflaust djúpfrystir beint um borð í verksmiðjuskipinu. Ábyggilega eitthvað við þá sem Naomi Klein hefði að setja útá (og þá á ég ekki við Fuego piparsósuna sem ég lúri á innan á ísskápshurðinni). Ég fékk „No Logo“ sumsé lánaða um helgina sem leið. Ekki byrjaður á henni enn en hlakka til. Tek til við hana þegar ég klára „Less than Zero“ öðruhvoru megin við helgina.

Öðru megin. Hvoru megin. Hinu megin.

Með einu emmi!

Anskotakornið, hvert einasta bein í mér öskrar að þetta sé hvorugkynsmynd, ekki karlkyns. Og hefur alltaf gert (ég meina, „hinum veginn,“ hvaða helvítis rugl er það eiginlega?!). Og étiði það þarna, íslenskufríkin ykkar. Þetta er eitt dæmi af nokkrum vandfundum þar sem mér finnst fræðingarnir vera í tómri steypu með skýringarnar.

Mér finnst þetta bara eiga að vera svona!

Þetta er bara spurning um prinsipp!

Annars er sosum ekki frá miklu að segja. Enda eins gott – þrístiklan svífur á. Hún stóð undir ölum mínum væntingum.

Matseld

Rétt í þessu hringdi eggjaklukkan að láta frúna vita að hún mætti taka hitapokana af hellunni. Það er víst öxlin. En það minnir mig á þá skelfingu að ég steingleymdi að geta þess hvað ég fékk í hádegismatinn í gær. Það var jú ástæða þess að ég settist niður við skriftirnar til að byrja með.

Mér fannst dálítið gaman að halda þessu til haga þarna fyrripart sumars. Matardagbók. Ég man ekki afhverju ég hætti því.

– – –

Síðustu daga höfum við tínt slatta af kastaníuhnetum. Ekki til neins annars en bara að hafa þær á skál í stofunni – þetta er gullfallegt stáss. Þetta er víst óæta sortin, sú sem Tjallinn kallar Conkers.

(Ég veit það fyrir víst – ég prófaði að smakka hana. Segið svo að maður læri af reynslunni.)

Svo er líka svo róandi að taka tvær til þrjár og velta þeim í lófa sér.

– – –

Einhverntíma gæti ég skrifað hérna söguna af því þegar ég eitraði næstum fyrir sjálfum mér með því að bragða á ýviðarkönglum.

(Þeir voru bara svo girnilegir.)

– – –

Ég er að minnsta kosti í tvígang í þessari færslu búinn að stilla mig um að segja ku.

– – –

Í þessari bloggfærslu er ekkert rætt um það leikhús fáránleikans sem eru fréttir dagsins að heiman. Ekki orð.

– – –

Maturinn í gær? Það skal ég sko segja þér: Maultaschen skorin í bita og brösuð á pönnu með grænmeti. Borið fram með súrkáli og fersku salati. Stífþeyttur vanillubúðingur á eftir. Sehr lecker.

Í dag var það bara steik í soðsósu með soðnu blómkáli og salati. Enginn desert. En í kvöldmatinn steikti ég Leberkäse með eggjum og kartöflustöppu. Það er orðinn einn af uppáhaldsréttunum á heimilinu.

– – –

Frakkinn á næsta skrifborði kom í gærmorgun færandi hendi með flösku af frönskum bjór. „Frakkar kunna þetta náttúrulega ekkert sko,“ játti hann. „Nema þarna fyrir norðaustan, í grennd við Belgíu. Þaðan koma nokkrir góðir.“ Þar á meðal, segir hann, sá sem hann færði mér í gær. Hann bíður enn staðfestingar inni í ísskáp. En mér sýnist ég eiga von á góðu.

Punktar frá Vestur-Þýskalandi

Merkilegt hvernig lífið gengur einhvernveginn í bylgjum alltafhreint.

– – –

Ég hef átt yndislegt sumarfrí frá því ég var hérna síðast: Svissnesku Alparnir, ítölsku Dólómítarnir, Suður-Týról, Svartiskógur og Rínardalurinn.

Segið svo að maður noti ekki tækifærið til að skoða sig um meðan maður er hérna úti.

– – –

Það lítur æ meir út fyrir að ég muni skreppa upp á skerið í rétt rúma viku einhverntíma í október. Þó er það enn á huldu. En ekki eins mikið á reiki og mögulega fyrirhuguð för mín til Toulouse í sama mánuði.

Þetta skýrist alltsaman.

– – –

Íslensk þjóðmál? Nei. Ég reyndi það nokkrum sinnum síðan síðast en fannst það einhvern veginn ekki þess virði. Það er eins og völlurinn hafi verið tekinn yfir af viðrinum og öskuröpum.

Þessu óskylt: Ég veit ekki hvort ég á að hryggjast eða gleðjast yfir nýjasta slúðrinu ofanúr Hádegismóum. Mestanpart er mér þó bara sama – það er orðinn óratími síðan mér fannst mark á Mogganum takandi. Og það eru nokkrir mánuðir síðan mbl.is datt úr fyrsta sæti þeirra veffréttamiðla sem ég fletti. Geri ráð fyrir að það þokist enn neðar héðan af ef fréttirnar standa heima. Mér og mínum að meinalausu.

– – –

Finnst þetta bara sýna enn betur en áður (var það hægt?! ég hélt ekki) að Morrissey karlinn er með þetta – hversvegna enginn elskar okkur lengur og allir eru svona dónalegir og vondir við okkur. Hann segir þér hversvegna, hann segir þér hversvegna, hann segir þér hvehehehehehersvegna (þótt þú trúir honum ekki):

Annars er líka alveg ágæt útgáfa af sama lagi með henni Kirsty MacColl á þjónvarpinu. Sem ég vissi ekki að væri til fyrr en um daginn.

– – –

Voðalegt hvað ég er farinn að ruglast á lyklaborðinu. Í vinnunni er ég með stillt á þýska lyklaborðið a.m.k. hluta úr deginum. Einna verst hvernig það víxlar á y og z. En skorturinn á þ og ð og almennt flakk á ýmsum þörfum táknum hjálpa ekki til heldur.

– – –

Einhverntíma langar mig til að skrifa um skemmtilega karaktera hér í bæ: Sundskýlumanninn í Gamla Lystigarðinum og Hressa karlinn í Franska Hverfinu. En þeir munu þurfa heila færslu hvor.

– – –

Skruppum sumsé í helgarferð niður Rínardalinn um helgina sem leið. Gistum á farfuglaheimilinu í hinum stórfenglega Stahleck-kastala yfir þorpinu Bacharach á föstudagskvöldið áður en við héldum áfram niðreftir. Á laugardagskvöldinu bauðst okkur næturstaður hjá vinafólki í Bonn.

Dálítið skrítin tilfinning sem kom yfir mig á sunnudagsmorgninum. Við fórum öll niður í stærðarinnar skemmtigarð niðri á Rínarbökkunum. Suðuraf sást grilla í Deutsche Post turninn yfir trjátoppana. Við tíndum kastaníuhnetur og fengum okkur ís. Krakkarnir príluðu á leikvellinum. Svo gengum við um garðinn og það var eitthvað við skýjaþekjuna yfir okkur held ég (þótt veðrið væri ágætt) eða kannski bara það að það var eitthvað óáþreifanlegt en þó furðulega sterkt kaldastríðsvæb þarna í garðinum, eitthvað við bogalínurnar í stöllunum í hlíðinni eða blómin í beðunum niðri á völlunum – maður átti von á að sjá skuggalega menn hvíslast á um ríkisleyndarmál á einhverjum trébekknum.

Í smástund leið mér eins og ég væri í Vestur-Þýskalandi.

Það vill segja, mér leið eins og það væri ennþá Austur-Þýskaland þarna hinumegin. Og ég væri staddur í höfuðborginni hins.

Svo leið það hjá eins og annað.

– – –

Eiginlega ekki annað hægt en að enda þetta á sigurlagi Grand Prix der Volksmusik árið 2009. Þeir tóku þetta á lokasprettinum þeir bræðurnir, Vincent og Fernando. Og erfitt að vera mjög fúll fyrir hönd hans Oswalds, enda voru þeir bara hreinlega betri þarna á kvöldinu sjálfu. Það small eitthvað hjá þeim sem hann vantaði karlinn:

Svo held ég að ég láti duga af þýskum söngvakeppnum í bili. Að minnsta kosti þangað til líður að Bundesvision keppninni hans Stefan Raab í febrúar á næsta ári.