Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagur 1

Við lentum í Keflavík á fimmta tímanum í gær. Tengdaforeldrarnir biðu okkar eftir hóflegt stopp í fríhöfninni.

Ég skoða orðið auglýsingarnar í flughafnarrampinum af mikilli athygli í hvert skipti sem ég fer þar í gegn. Mest áberandi voru „lífstíls“ auglýsingar frá 66°N og Cintamani. Hvort tveggja herferðir sem mér sýnist hafa skilað sér í vellukkuðu „branding“ (merkjavæðingu?): Þetta snýst um eitthvað annað og meira en fötin.

Ræddi pólitík við tengdapabba á leiðinni í bæinn. Ég hef fylgst alltof vel með málum hér heima – ég er ekki alveg að standa mig í stykkinu með að vera í útlöndum.

Yfir Hafnarfirði gnæfðu þrír byggingarkranar. „Það þarf jú að geyma þetta einhversstaðar,“ sagði tengdapabbi þegar ég minntist á það.

Las Fréttablaðið í flugvélinni í gær og með kaffinu í morgun. Fannst athyglisverður (en sosum ekki óvæntur) hægri slynkur á blaðinu sem ég hafði ekki veitt athygli áður en ég fór utan í vor sem leið. Nú er ég hallur undir þá skoðun að fjölmiðlar hverju sinni eigi alltaf að vera í stjórnarandstöðu. Mér finnst þó miður hve gagnrýnin á sitjandi stjórn er öll frá hægri – það vantar harðara aðhald frá vinstri vængnum.

En þannig snýst víst heimurinn.

Við fengum nýtt slátur með kartöflustöppu og rabarbarasultu í kvöldmatinn. Foreldrar mínir litu í ánægjulega heimsókn uppúr kvöldmatnum; svo koma þau aftur í kvöld með bróður mínum og hans fjölskyldu. Þá verður lamb.

Svo verður fiskur einhverntíma á næstunni. Því hefur mér verið lofað.