Temavika kórtónlist (þriðji hluti): “Carmina Burana”

Carmina Burana eftir Carl Orff er eiginlega kunnara verk en frá þurfi að segja. Og hálffáránlegt að ég skuli ekki hafa tekið þátt í að syngja það ennþá.

– – –

Vorið 2001 söng Vox Academica Carmina Burana á tvennum tónleikum í Seltjarnarneskirkju. Ekki í fullri hljómsveitarútsetningu, heldur annarri eftir höfundinn sjálfan fyrir tvo flygla og slagverkssveit. Það er ágæt útfærsla – merkilega litlu síðri en sú með fullskipaðri hljómsveit, fannst mér.  Ég tók þátt í æfingum mér til mikillar ánægju framá næstsíðustu hljómsveitaræfingu. Þá lagðist ég í heiftarlega flensu, óráð og 40 gráða hita. Og þannig fór það.

(Ó, Forsjón…)

Mark mitt á þá tónleika einskorðaðist því við þýðingar á Carminutextunum sem ég snaraði til birtingar í tónleikaprógramminu. Þær voru notaðar aftur þegar Voxið söng Carminuna í Grafarvogskirkju haustið 2008. Þá var ég við störf í Danmörku. Og þannig fór það.

(Hvar sem forsjóninni lýstur niður skulu allir gráta með mér!)

– – –

Annað kvöld, fimmtudaginn 11. febrúar klukkan 19:30, flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands Carmina Burana í Háskólabíói. Með þeim verða Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Mark Tucker tenór, frændi minn Jón Svavar Jósepsson baritón, og Óperukórinn undir stjórn Garðars Cortes. Einnig eru á efnisskránni Bolero eftir Maurice Ravel, og Dansar frá Polovetsíu eftir Alexander Borodin. Stjórnandi á tónleikunum er Rumon Gamba.

Ég á bágt með að trúa öðru (án þess að vita fyrir víst) en að allt sé löngu uppselt. En tónleikarnir verða sendir út á Rás eitt. Ég ætla að hlusta. Af athygli og ánægju. (Svo fæ ég prógrammið í hendur seinna meir.)

Og einhvern daginn skal ég taka þátt í að syngja þetta.

– – –

Ég skelli ekki inn neinum þjónvörpum hérna núna. Hvet bara fólk til að gera eins og ég og stilla á RÚV annað kvöld.

Temavika kórtónlist (annar hluti): „Lux Aeterna“

Mig minnir að það hafi verið í desember 2001 sem Vox Academica hélt mjög minnisstæða aðventutónleika í Landakotskirkju. Frá upphafi hafði kórinn haldið litla aðventutónleika á hverju ári í kapellu Háskóla Íslands fyrir vini og vandamenn. Ekkert auglýst né rukkað inn, bara látið berast. En þegar þarna var komið sögu höfðu tónleikarnir sprengt utanaf sér kapelluna og horfði til vandræða. Svo ákveðið var að flytja þá yfir í Landakotskirkju, en halda samt í þá hefð og þann jólaanda að hafa ókeypis inná þá. Þeir voru eitthvað auglýstir, en ekki mikið samt. Þeir máttu bara koma sem koma vildu.

Það varð húsfyllir og fólk stóð meðfram veggjum.

Þeir hófust á hefðbundinn hátt: kórinn kom gangandi inn gólfið og söng „Hátíð fer að höndum ein.“ Ýmis aðventu-, Maríu- og jólalög úr litúrgíunni voru sungin, en einnig voru á prógramminu metnaðarfyllri stykki sem gerðu kröfur til bæði kórs og hlustenda: Alleluia eftir Randall Thompson. Ubi Caritas eftir Maurice Duruflé. Agnus Dei eftir Samuel Barber (sjá færslu gærdagsins). Totus Tuus eftir Henryk Górecki. O Magnum Mysterium eftir Morten Lauridsen.

Þetta voru rafmagnaðir tónleikar. Gríðarlegur súxess. (En settu kórinn reyndar í vanda ári síðar þarsem eiginlega var ekki lengur fært að hafa ókeypis á aðventutónleikana – æ síðan hefur verið rukkað málamyndagjald við innganginn.)

Ég var sérstaklega hrifinn af síðastnefnda verkinu. Svo mjög að ég mátti til með að heyra meira eftir höfundinn. Svo ég pantaði mér diskinn Lux Aeterna, með samnefndu verki og nokkrum öðrum, þar með töldu O Magnum Mysterium. Lux Aeterna hefur verið í uppáhaldi hjá mér æ síðan.

Morten Lauridsen er Bandaríkjamaður, fæddur árið 1943 og búsettur í Suður-Kaliforníu. Hann samdi Lux Aeterna til minningar um móður sína og verkið var frumflutt árið 1997. Þetta er einhvers konar sálumessa, en þó ekki nema rétt svo. Hún hefst og endar eins og hefðbundin sálumessa, en kaflarnir inn á milli koma annarsstaðar að og eiga það eitt sameiginlegt að vísa í ljós og birtu. Dagurinn er bjartur og laus við alla reiði og bræði. Engan þarf að frelsa frá eilífum dauða. Miskunnin er alltumlykjandi.

1. Introitus / 2. In Te, Domine, Speravi:

3. O Nata Lux / 4. Veni, Sancte Spiritus:

5. Agnus Dei – Lux Aeterna:

Temavika kórtónlist (fyrsti hluti): “Dona Nobis Pacem“

Kórtónlist bjargaði lífi mínu. Eða átti allavega góðan part í því. Ekki endilega í skilningnum að halda því í mér, en að minnsta kosti þannig að hún átti þátt í að beina því inná brautir sem það fylgir enn í dag: Í upphafi árs 1994 fór ég á mína fyrstu æfingu með Háskólakórnum og uppgötvaði eitthvað sem snerti mig á svo nýjan og óvæntan hátt að ég hef aldrei orðið alveg samur síðan. Ég söng með Háskólakórnum í fjögur ár, minnir mig, og skipti þá yfir í kórinn Vox Academica sem ég fylgdi næstu tíu árin.

Nú er reyndar annar veturinn í röð sem ég hef ekkert sungið – kemur til af kringumstæðunum. En ég veit og finn að ég mun taka til við það aftur síðar.

– – –

Ég hef tekið þátt í mörgum mögnuðum tónleikum. Fengið að syngja mörg stórfengleg verk. Svo hef ég kynnst nokkrum öðrum verkum sem ég hef ekki enn orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka þátt í að flytja.

Og mig langar skyndilega til að eyða púðri í að tala um nokkur þeirra.

– – –

Árið 1936 var frumflutt verkið Dona Nobis Pacem eftir Ralph Vaughan Williams. Á þessum árum gætti vaxandi spennu í Evrópu og Williams samdi verkið sem ákall og bæn um að skelfingar styrjaldarinnar miklu frá 1914-1918 yrðu ekki endurteknar: „Gef oss frið.“ Verkið er byggt í kringum texta latneskrar messu (sérstaklega Agnus Dei kaflann), með viðbótum úr ýmsum áttum: Biblíunni, þremur ljóðum eftir Walt Whitman, og úr þrumandi varnaðarræðu sem stjórnmálamaðurinn John Bright hélt í upphafi Krímstríðsins.

Verkið er fyrir kór og stóra hljómsveit með sópran- og baritónsóló. Það var gerður góður rómur að því á sínum tíma (og æ síðan), þótt bænin hafi ekki fengið að rætast. Það eru í því punktar sem kallast á við Requiem Verdis, og eins sækir Stríðssálumessa Benjamin Britten (War Requiem) nokkuð til verks Williams, með það hvernig hún notaði skelfingar seinni heimsstyrjaldarinnar sem brýningu um að leyfa svona nokkru ekki að gerast aftur.

Ég veit ekki til þess að það hafi nokkrusinni verið ráðist í flutning á Dona Nobis Pacem á Íslandi.

– – –

Það var einhverntíma sem Voxið söng verkið Agnus Dei eftir Samuel Barber. Þetta er raddsetning fyrir fjórradda kór á hinu gullfallega Adagio for Strings, sem ég held að allir hljóti að þekkja (tékkið á því í þessu geðveikislega flotta þjónvarpi). Og einhverntíma uppúr því vafraði ég inní Tólf tóna á Skólavörðustíg og sá disk sem innihélt meira eftir Barber, ásamt með verkum eftir Béla Bartók og Ralph Vaughan Williams. Hvorugt af fyrri verkunum tveimur náðu neitt sérstaklega til mín, en ég heillaðist af því þriðja: Dona Nobis Pacem. Gott ef það var ekki um svipað leyti sem gætti stigvaxandi spennu fyrir botni Persaflóa – þegar misgegnsæjum svikráðum var beitt til að blása glæður að eldi ófriðar, með lista „hinna staðföstu þjóða“ (svo) og öllu sem því fylgdi, og manni fannst sárvanta að heyrðist í þeim röddum sem kölluðu eftir friði.

Allavega, mér hefur verið hlýtt til þessa verks æ síðan. Og ég myndi stökkva á að fá að taka þátt í að syngja það, ef mér stæði það til boða.

– – –

Fyrir nokkrum mánuðum sé ég að var sett upp alveg prýðisgóð þjónvarpssería með öllu verkinu einsog það leggur sig. Hún er vafin inn í færsluna hér að neðan. Ég mæli sérstaklega með klippu númer tvö, þeirri sem hefur að geyma textann úr ljóðinu Reconciliation eftir Walt Whitman:

Word over all, beautiful as the sky!
Beautiful that war, and all its deeds of carnage, must in time be utterly lost;
That the hands of the sisters Death and Night, incessantly softly wash again, and ever again, this soil’d world:
… For my enemy is dead—a man divine as myself is dead;
I look where he lies, white-faced and still, in the coffin—I draw near;
I bend down, and touch lightly with my lips the white face in the coffin.

Gullfalleg orð, og gullfalleg tónlist við þau.

– – –

Temavika lágmenning (seinni hluti): „Leðjan til Lettlaaands!“

Höfum þetta stutt.

– – –

Ef kosið yrði á morgun eftir eftir því hver hefur sýnt besta og öruggasta flutninginn, þá ætti Íris Hólm að taka þetta. Hún er sá flytjandinn í úrslitunum sem skilaði lýtaminnstri frammistöðu í undanriðlunum: hún bar af  öðrum sem komust áfram (verst að ég er ekki nema rétt svo hrifinn af laginu…). Svo mæli ég með að kjóllinn hennar annað kvöld hæfi henni betur en sá sem hún var í síðast.

– – –

Af öllum sem komust áfram, sagði ég. Mér finnst reyndar hálfgerð synd að Anna Hlín hafi ekki komist áfram – hún kom mér ánægjulega á óvart. Hefði alveg átt skilið að vera kosin áfram frekar en hvor heldur sem er af hinum tveimur flytjendunum það kvöldið.

Eina dæmið um slíkt í þetta skipti, finnst mér. Og má telja vel sloppið.

– – –

Bæði Matti Matt og Sjonni Blank verða fagmannlegir og án stórslysa, sosum. En mun ekki fara af þeim meiri sögum.

– – –

„Stóru Evróvisjónstríðin“ hafa náttúrulega verið milli tjaldbúða Heru Bjarkar og Jógvans. Hálfhláleg vitaskuld, eins og öll önnur stríð á skerinu þessi dægrin (les: síðustu sextíu árin).

Þau eru bæði ágætir flytjendur, þótt hvorugt hafi verið uppá sitt besta í sínum flutningi þetta árið. Sem skýrist kannski af því að lögin þeirra beggja eru óttalegt miðjumoð.

Soddan hrat.

Lagið hans Örlygs Smára kannski ekki stolið, bara óttalega mikið eins. Gleymum þessari Kate Ryan; mér finnst ég alltaf vera að hlusta á ódýrt og handabakalega útfært rippoff af „This is my life“ þegar ég heyri það.

Og mér er fyrirmunað að muna eftir lagi frá Bubba sem er hvorttveggja, grípandi og góð lagasmíð, síðasta… tjah… hálfan annan áratuginn, sirkabát.

– – –

Þá sem þekkja mig þarf ekki að undra að ég held með Hvanndalsbræðrum. Langskemmtilegasti entransinn í ár. Minnir mig dálítið á Leðjuna frá því þarna um árið (án þess að vera að ræna neinu, haha). Og fiðlusólóið er innblásin himnasæla. Ef ég væri að fara að hringja inn á morgun myndi ég hringja í númerið þeirra.

– – –

En ég þori samt nánast að veðja að annaðhvort Hera Björk eða Jógvan á eftir að taka þetta.

– – –

Æ fokkitt. Ég er farinn að hlusta á Semino Rossi.

Temavika lágmenning (fyrri hluti): „Unser Star für Oslo“ (ist gefunden)

(VARÚÐ: þessi færsla er um Evróvisjón söngvakeppnina.)

– – –

Þegar kemur að Evróvisjón söngvakeppninni er Stefan Raab bjargvættur Þjóðverja.

Þetta er ekki vongóð draumlýsing, heldur staðreynd. Af síðustu tólf skiptum hefur þeim sex sinnum mistekist að skríða upp fyrir miðju. Af hinum sex skiptunum var Stefan Raab með puttana í þýska laginu í þrjú skipti: Hann samdi lagið „Guildo hat euch lieb!“ sem fleytti hinum ástsæla skallapoppara Guildo Horn uppí sjöunda sætið árið 1998. Hann söng sjálfur hið víðfræga „Wadde Hadde Dudde Da“ árið 2000, í föngulegum félagsskap til fimmta sætis. Og svo samdi hann aftur lag og texta árið 2004: „Can’t Wait Until Tonight,“ fyrir Max Mutzke, sigurvegara keppninnar SSDSGPS („Stefan sucht den Super-Grand-Prix-Star“), sem Stefan Raab hélt sem forval fyrir Evróvisjónkeppnina það árið. Það dugði til áttunda sætis.

Síðan hefur þátttaka Þýskalands verið ein samfelld eyðimerkurganga. Stefan Raab missti áhugann á Evróvisjón og startaði í staðinn sinni eigin söngvakeppni, „Bundesvision,“ sem hann hélt úti þartil í fyrra. Þá kom þýska ríkissjónvarpið ARD að máli við hann og kumpána hans á Pro Sieben sjónvarpsstöðinni og grátbað um aðstoð við að rétta úr Evróvisjónkútnum með einhverju í líkingu við SSDSGPS þarna um árið. Útkomunni úr þeim viðræðum var svo hleypt af stokkunum í gærkvöldi þegar fyrsti þáttur af „Unser Star für Oslo“ var sýndur í beinni útsendingu úr sjónvarpssal Pro Sieben í Köln.

Serían á sér forsögu: fyrr í vetur var farið af stað með inntökupróf í Idolstílnum þar sem leitað var að upprennandi stjörnum til að halda uppi heiðri þjóðarinnar. Þau bestu tuttugu úr þeim prufum eru þau sem fá að spreyta sig í tveimur fyrstu þáttunum, þeim í gær og öðrum að viku liðinni. Í hvorum þætti kjósa áhorfendur svo áfram fimm af tíu flytjendum. Síðan taka við þrír þættir í viðbót á Pro Sieben sem ég veit ekki alveg hvernig fara fram, því næst það sem er kallað „fjórðungsúrslit“ á ARD, þar á eftir „undanúrslit“ á Pro Sieben og loks endanlegur lokaúrslitaþáttur á ARD þann tólfta mars. Nákvæmlega hvernig skorið verður niður úr tíu í einn í seinni sex þáttunum hef ég ekki hugmynd um. Né heldur hvernig farið verður að því að velja lagið: hvort það sé partur af prógramminu eða hvort Stefan Raab sjái bara um það sjálfur þegar flytjandinn hefur verið fundinn. En í hverjum þætti situr hann í dómarasæti (svipað og Cowell et al.) og fær sér til fulltingis tvo meðdómara fyrir hvern þátt – alltaf nýja og nýja. Já, voðalega Idol eitthvað.

Og hvernig var svo þátturinn í gærkvöldi?

Hann var ekki alveg eins leiðinlegur og Idol, í stuttu máli. Þegar níu flytjendur voru búnir varð ég að játa þetta voru allt krakkar sem gátu sungið, svona nokkurn veginn, og höfðu einna helst mismiklar líkur á því að komast áfram eftir óljósari mælistikum einsog „karakter,“ „útgeislun“ og, tjah, „eigind.“

(er það ekki orð, annars?)

Þá steig á svið síðasti keppandinn, og líka sá yngsti, átján ára skotta frá Hanover að nafni Lena Meyer-Landrut. Það var eitthvað við það hvernig hún steig á sviðið sem sagði manni að annaðhvort yrði þetta alveg stórkostlegt fíaskó eða eitthvað algjörlega æðislegt. Eftir nokkrar sekúndur í viðbót var morgunljóst hvort væri. Kannski ofrausn að segja að stjarna sé fædd. En að minnsta kosti á leiðinni í burðarliðinn. Sjáið hana taka lagið „My same“ sem upphaflega var með Adele og gera að sínu eigin:

Ég gæti þulið upp hina krakkana fjóra, en þau voru minni spámenn. Ég geri mér vonir um sterkan og skemmtilegan kandídat í þættinum að viku liðinni, þá gæti orðið spennandi keppni í framhaldinu. Annars sýnist mér þetta bara búið.

Slúttum þessu á tveimur bónusum, þeim Guildo og Max (entransinn hans Stefáns hef ég birt hérna áður í öðrum pósti).