Grand Prix der Volksmusik 2010: Svissneska forkeppnin

Nú þegar Evróvisjónsöngvakeppninni er lokið leggjast allir unnendur vandaðrar dægurtónlistar í kör og vesaldóm þartil undirbúningur kemst á skrið fyrir keppnina að ári. Víðast hvar er ekki farið að huga að slíku fyrr en líða fer að jólum, eða þar uppúr, svo framundan er hálfsárslöng eyðimerkurganga fyrir söngvakeppnisfíkla.

Nema maður sé svo heppinn að tilheyra þýska menningarsvæðinu.

Úrslit Grand Prix der Volksmusik söngvakeppninnar verða haldin í Vín í Austurríki þann 28. ágúst næstkomandi. Þar verður mikið um dýrðir, hátt til lofts og vítt til veggja og enginn hörgull á lystisemdum, enda nú þegar orðið uppselt á herlegheitin. Þar munu keppa 16 lög frá Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Suður-Týról, fjögur lög frá hverju landi. Þau voru valin af áhorfendum í símakosningum eftir undankeppnir sem haldnar voru í hverju landi fyrir sig nú í maí sem leið. Þá var svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki komist til að setja mig inní keppendurna fyrr en nú.

– – –

Svissneska forkeppnin var fyrst í röðinni þetta árið, hún var haldin strax þann fyrsta maí síðastliðinn. Þeir eru svo nútímalegir á Schweizer Fernsehen að þar má finna alla keppnina í fullri lengd. Áhugasamir ættu endilega að kynna sér herlegheitin, ef þeir eru alveg vissir um að hafa ekkert skárra að gera (og ekki setja tungumálið fyrir ykkur – þótt það minni afar takmarkað á þýsku stendur tónlistin alltaf fyrir sínu). Þarna var mikið um dýrðir, allir sótraftar á sjó dregnir og ástsælustu sigurlög fyrri ára rifjuð upp milli keppnisnúmera. Hápunkturinn var þegar Nella Martinetti steig á svið og tók sigurlagið úr allrafyrstu GPdV árið 1986, Bella Musica. Það var greinilegt að hún hefur engu gleymt og syngur enn nákvæmlega sömu engilþýðu röddinni og hún gerði fyrir 24 árum. Og svo var Semino Rossi þarna, þar fer listamaður sem er einn í sínum klassa.

Keppnin sjálf var samt náttúrulega aðalmálið, og hún var hörð. Til dæmis sætir furðu að ekki ómerkari listamenn en sjálfir Pläuschler-bræður hafi dottið út (en þeir áttu einmitt ógleymanlegt lag í úrslitum í fyrra) þrátt fyrir ágæta frammistöðu í sjónvarpssal og þaraðauki með stórkanónurnar Marcel Schweizer og Regina Engel til að bakka sig upp.

– – –

Í fjórða sæti með 10,51% atkvæða í símakosningunni lenti Original Voralpen-Express með lagið „Pfeif einfach drauf.“ Þrátt fyrir að hafa skyggnst um á heimasíðunni þeirra strákanna hef ég ekki enn getað komist að því hvort það sé einhver önnur Voralpen-Express sem er svona miklu meira Un-Original en þeir. Þetta mál er allt hið dularfyllsta. En lagið er hresst:

– – –

Í þriðja sæti með 12,98% lentu þau skötuhjúin Stixi & Sonja og höfðu sér til fulltingis ekki ómerkara kompaní en jóðlklúbbinn Alpablóm (takið sérstaklega eftir hvað þeir strumpa engilblítt í kynningunni á undan flutningnum hér að neðan). Lagið, „Bete zu unserem Herrgott,“ samdi Sonja sjálf og má með sanni segja að hún sé mikil hæfileikakona (hún átti annan entrans í keppninni þetta kvöldið, fluttan af ellibelgjunum í Tomaros). Ég vil hrósa róturunum á SF fyrir stórglæsilega sviðsmynd undir þessu lagi, þeir á RÚV gætu tekið sér þessi vinnubrögð til fyrirmyndar:

– – –

Yasmine-Mélanie er ein skærasta stjarnan á svissneska Schlager-himninum. Þessi tvítuga snót („Hallo zamme! Ich bid Yasmine-Mélanie, ich bid zwanzki!“) söng sig inn í hjörtu Svisslendinga með hugljúfum óð um það að það fylgja jú sorgir öllum sigrum. Að lífið er ekkert eintómur dans á rósum og ekki nóg með það, heldur væri það okkur ekki þess virði sem það er nema fyrir tárin sem fylgja með í kaupunum. „Tränen gehören zum Leben“ í flauelsmjúkum flutningi Yasmine-Mélanie lenti í öðru sæti svissnesku forkeppninnar með 13,74% greiddra atkvæða:

– – –

Sigurvegari kvöldsins með 15,72% greiddra atkvæða var tvítugur stráklingur, útlærður í því að spila á hakkbretti (Hackbrett), einhvunnlags slaghörpu sem leikið er á með þartilgerðum kjuðum (Svisslendingar virðast haldnir blæti fyrir þjóðlegum hljóðfærum – skemmst er að minnast Geni Good og félaga með Chlefele-lagið sitt í fyrra). Höfundar sigurlagsins í ár, Carlo Brunner og Philipp Mettler (en hann samdi líka lagið sem hún Yasmine-Mélanie söng upp í annað sætið) dæla þessu útúr sér eins og heimavöfðum vindlingum aftanúr silfursleginni styttu af Hjaltlandshesti: þeir sömdu með Maju Brunner (systur Carlos) lagið „Bliib doch bi mir“ sem lenti í öðru sæti í svissnesku forkeppninni í fyrra. Að síðustu er hér sigurlag svissnesku forkeppni Grand Prix der Volksmusik í ár, „Feuer und Flamme“ með Nicolas Senn, fyrsta manninum til að leika á hakkbretti á toppi Kilimanjaro. Ég vek sérstaka athygli á smekklegu eyrnaskrauti:

Ort á leið heim úr vinnu

Fuglar syngja, krybbur kyrja,
kátur heim ég greikka sporið.
Á Íslandi fer brátt að byrja
blessað seinniskipavorið.

Á mig fellur sumarsnjór,
sætlega ilmar gróandinn.
Kannski ég fái mér kaldan bjór
er kem ég heim, og glóaldin.

Heimsókn á hamfarasvæðin: Dagar 11-14 (og kosningauppgjör)

Jæja, þá er þetta bara að verða búið.

Báðir dagarnir um helgina voru miklir maraðonsdagar. Á laugardeginum vorum við komin af stað fyrir hádegið. Báðar systurnar höfðu gist hvor hjá sinni vinkonunni um nóttina, og þannig hittist á að þær fóru hvor á sína hverfishátíðina með þeim um morguninn. Svo við hittum þær þar og smöluðum, fyrst við Víkurskóla og síðan í Korpuhverfinu. Þaðan var haldið til bróður míns, þarsem við vorum strax sjanghæjuð í vorverkin: uppsetningu á trampólíni heimilisins í bakgarðinum. Svo fengum við dýrindis smörrebröð og mungát að smekk, nema krakkarnir, sem fengu kalda pizzu og vatn. Þaðan var farið í ýmsar útréttingar og um kvöldið var heljarinnar Evróvisjón- og kosningapartý hjá mági mínum, hinum eldri.

Talandi um það, þá glöddust allir vitaskuld óskaplega mikið yfir úrslitunum. Yngri systirin hoppaði og spangólaði af gleði og öllum nokk sama um hrakfarir hennar Heru. Ég sé mest eftir því sjálfur að hafa ekki haft tröllatrúna til að spá henni Lenu sigri – hálfasnalegt að hafa haldið með laginu sem vann án þess að hafa spáð því sigri. Asnalegt, en ánægjulegt. Annars telst mér til að ég hafi náð að spá sex þjóðum rétt á topp tíu: Hvíta-Rússland hefur endanlega sannað sig vera utan allra blokka, Serbía skoraði lægra en ég átti von á og Ísland og Noregur gerðu hvort öðru meira í brók í stigagjöfinni (þótt flutningur hafi verið skammlaus). Af þeim sem komu í staðinn furða ég mig mest á gengi Danmerkur – djöfuls holdrosalegt rusl sem það nú var. Armenska og georgíska lagið voru meðal þeirra sem hefði þessvegna verið hægt að spá sigri þótt þau rötuðu ekki inná topp tíu spána hjá mér – keppnin í ár var óvenju jöfn og tvísýn, eins og sést á úrslitunum. Það voru bara fleiri en tíu lög sem hefðu þessvegna getað tekið þetta. Svo náði Úkraína að slefa upp í tíunda sætið, hvað sem annars má um það segja.

Það er þó ljóst að allt tal um austantjaldsklíkuna fellur dautt og ómerkt, sem sést best á því að mesti hrollurinn yfir atkvæðablokkagreiðslu kvöldsins var þegar Jóhanna Guðrún tilkynnti tólf stig til „ár frends, Denmark.“

Bjakk.

Svo var glaðst yfir öðrum atkvæðaúrslitum framyfir aðrar tölur úr Reykjavík. Krakkarnir gistu hjá gestgjöfunum og voru sóttir þangað morguninn eftir fyrir morgunkaffi með vinafólki á Kjarvalsstöðum. Þá var brennt á Suðurnesin að hitta frænku frúarinnar, og svo aftur til baka í pönnukökur hjá frænda í hina ættina hennar. Um kvöldið bauð svo vinnufélagi minn í dýrindis kvöldverð til heimilis í rottubælinu Garðabæ.

– – –

Í gær var farið í hamfaraskoðunarferð undir Eyjafjöllin. Það var mjög athyglisverð upplifun. Við sáum fossana tvo, og þessutan öskugrátt mistur yfir öllu. Ég safnaði krukkufylli á grasbala við Skóga. Eftir þetta veitti ekki af að skola jarðefnin af sér í Árbæjarlaug.

Eftir ýmsar útréttingar í morgun hittum við móður mína sem kom með föður mínum í gær. Ég mun heilsa uppá hann sjálfur um kvöldmatarleytið í kvöld, og svo er ræs um óttubilið í nótt og brennt til Keflavíkur.

Stocherkahnrennen á Neckar á komandi Fronleichnam.