Um nýjan sáttmála

Í október 2008 rofnaði sáttmáli þjóðarinnar við sjálfa sig. Sáttmáli sem má segja að sé rofinn ennþá, og óvíst hvort og þá hvenær gengur saman aftur. Það er einhvern veginn eins og það sé sama hvað er tekið til umræðu þessa dagana, það loga illdeilurnar. Hver höndin rís upp á móti annarri. Það er talað um gjána milli þings og þjóðar. En það er líka gjá milli þings og þings. Og milli þjóðar og þjóðar.

Sáttmálinn er rofinn. Okkur vantar nýjan sáttmála.

– – –

27. nóvember verður kosið til stjórnlagaþings. Nú er tæpur mánuður þangað til. Nánast sléttar fjórar vikur.

Hverja myndir þú vilja sjá á stjórnlagaþingi? Hefurðu velt því fyrir þér? Hefurðu kynnt þér eitthvað af framboðunum?

Þú hefur mánuð.

– – –

Stjórnarskrá þjóðar er sáttmáli hennar við sjálfa sig og yfirvöld sín. Hún segir, „Þetta er sá rammi sem okkur er markaður. Frelsi og skyldur, einstaklinga sem stjórnvalda, skulu hið allraminnsta ná til þess sem hér er talið.“ Útfærslan má ekki vera of nákvæm, einstaklingar geta verið (og eiga að vera) ósammála um þá stjórnarháttu sem fylgt er í þetta eða hitt kjörtímabilið. En svo lengi sem stjórnvöld starfa innan ramma stjórnarskrárinnar á útfærslan ekki að þurfa að skipta máli: Hvort þau séu til hægri eða vinstri innan rammans, íhaldssöm eða frjálslynd, í alþjóðasamstarfi eða þjóðvörn. Svo lengi sem sáttmálinn heldur.

– – –

(Ég kríta náttúrulega pínu: Sá sáttmáli sem ég talaði um að hefði rofnað í október 2008 var auðvitað ekki stjórnarskráin. Ekki bara. En hún var partur af vandamálinu. Og sá partur þess sem stefnt er á að setja í slipp um miðjan febrúar næstkomandi.)

– – –

Ég hef áður sagt að mér þyki nauðsynlegt að endurstilla hlutföllin í þrískiptingu ríkisvaldsins. Draga úr styrk framkvæmdavaldsins. Auka sjálfstæði dómstóla og alþingis. Og ég er ekkert einn um það – mér sýnist meirihluti frambjóðenda vera á þessari skoðun.

En hvernig? Hvað er hægt að gera?

Það er hægt að leggja út í róttækar breytingar á ýmsum köflum stjórnarskrárinnar: Gerbylta skipulaginu, afnema skilyrðið um stuðning meirihluta þings við ríkisstjórn, kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, taka upp einmenningskjördæmi eða gera landið allt að einu kjördæmi. Engin af þessum hugmyndum er fyrirfram óraunhæf. Borðið er galopið, það er hægt að taka hvað sem er til greina. Og það er það sem á að gera – hugleiða kosti og galla hverrar þeirrar lausnar sem stendur til boða. Við verðum að gera það.

Mig grunar að þetta verði vandratað – við viljum nýja stjórnarskrá sem er sitt eigið sjálfstæða mannanna verk, þannig að við túlkun á einstökum atriðum hennar verði ekki hægt að halla sér til hæginda upp að því hvernig við túlkuðum þá gömlu. En ef breytingin verður of stór, ef nýja lýðveldið (og já, ég geri ráð fyrir að Ísland verði áfram lýðveldi) verður of ólíkt því gamla, þá er mögulegt að fólki finnist það of framandi, að fólk eigi þá erfiðara með að líta á þessa nýju stjórnarskrá sem sína eigin.

Ein leið til að nálgast þetta væri eftirfarandi: Sjáum hverju er hægt að breyta við núverandi stjórnskipan þannig að hún verði í megindráttum svipuð, en samt þannig að tekið sé fyrir þá galla á skipulaginu sem fólk telur þörf á að bæta. Ef slíkar breytingar duga ekki til að ná því fram sem fólki finnst þurfa, eða ef útkoman er óttalegur hortittur, þá er ekki undan því vikist að grípa til róttækari ráða.

– – –

Svo hvað er vandamálið? Byrjum á því helsta: Framkvæmdavaldið er of sterkt, löggjafar- og dómsvald eru of veik, og stjórnkerfið er í það heila tekið undir of miklum áhrifum frá valdablokkum innan stjórnmálaflokkanna. Hvað getum við gert við því?

Veltum því fyrir okkur til morguns – þá skal ég velta upp nokkrum hugmyndum. En svo væri líka gaman að fá að heyra fleiri.

Um bakgrunn og hagsmunatengsl

Ég heiti Hjörvar Pétursson. Ég er fæddur á Akureyri 1972 en ólst einnig upp á Blönduósi og að Hólum í Hjaltadal áður en ég flutti til Reykjavíkur um tvítugt. Ég útskrifaðist sem líffræðingur (B.Sc.) frá Háskóla Íslands 1996, starfaði á tölfræðideild Íslenskrar Erfðagreiningar frá 1998, og hef starfað við læknisfræðilega erfðafræðideild Háskólasjúkrahússins í Tübingen í Þýskalandi frá vorinu 2009. Jafnframt vinn ég að mastersverkefni um erfðir handskjálfta við læknadeild Háskóla Íslands. Ég er kvæntur Árnýju Guðmundsdóttur táknmálstúlki, bókasafns- og upplýsingafræðingi og mastersnema í fötlunarfræðum. Við eigum þrjú börn, það elsta fætt árið 2000.

Svipan.is hefur undanfarna daga verið að safna saman banka af upplýsingum fyrir stjórnlagaþingkosningarnar (sjá dæmi um undirritaðan). Þar má finna upplýsingar um ekki bara stefnumál frambjóðenda og bakgrunn, heldur líka  hagsmunatengsl þeirra og fleira. Það eru gagnlegar upplýsingar þarna fyrir þá sem þurfa að gera upp hug sinn. Sérstaklega þetta með hagsmunatengslin, sem ég veit ekki hvort nokkur annar vef- eða annarskonar fjölmiðill hefur lagt sig fram um að halda til haga fyrir kjósendur. Þar sem mér finnst skipta mjög miklu máli að fólk viti hvaða hagsmunir geti skarast við störf þeirra sem kjósast á stjórnlagaþing vil ég hnykkja sérstaklega á því fyrir mitt leyti:

  • Ég skráði mig í VG til að geta kosið í prófkjöri fyrir kosningar vorið 2009, en hef hvorki tekið þátt í flokksstarfi í þeim flokki né öðrum.
  • Ég vann um langt árabil á Íslenskri Erfðagreiningu og þykir vænt um það starf sem þar hefur verið unnið. Ég kom ekki auga á þetta strax, en ef upp kæmi umræða í tengslum við möguleg mannréttinda- eða náttúruauðlindaákvæði stjórnarskrár um það hvort kveða ætti á um rétt einstaklinga m.t.t. lífsýna, þá gæti þetta þótt skipta máli. En mér þykir bara svo sjálfsagt að sá réttur sé alltaf metinn einstaklingnum í vil. Og ég tel mig geta sagt að það fannst öllum sem ég hafði þá ánægju að vinna með á Íslenskri Erfðagreiningu.
  • Það má e.t.v. telja til hagsmunatengsla sem ég hef gegnum störf og nám konu minnar að ég hef haft kynni af málstað heyrnarlausra og nauðsyn þess að tryggja mannréttindi þeirra, eins og allra, óháð tungu, menningu eða fötlunum.
  • Ég hef verið utan trúfélaga síðan árið 2007 og ekki verið virkur í neinu félagsstarfi tengdu trúmálum eða afstöðu til þeirra. Kona mín og börn eru í Þjóðkirkjunni.

Ég vil hvetja fólk til að kynna sér bakgrunn og möguleg hagsmunatengsl þeirra sem það gæti hugsað sér að kjósa til stjórnlagaþings. Og ganga eftir því að fá upplýsingar um hagsmunina, ef þær liggja ekki fyrir.

Það er auðvitað ekki það eina sem skiptir máli. En það verður að vera hægt að taka það með í reikninginn.

Um framboð til stjórnlagaþings

Nú þegar frestur fyrir framboð til komandi stjórnlagaþings er útrunninn virðist sem þau slagi eitthvað á fimmta hundraðið. Dálítill munur frá því fyrir minna en þremur vikum þegar einhvernveginn virtist ósköp lítil umræða í gangi um komandi þjóðfund og kosningar. Nú berast líka fréttir af því að þjóðfundur í byrjun nóvember verði fullsetinn og ekkert sem bendi til annars en að þaðan eigi að geta komið skýr skilaboð frá fundargestum um þau gildi sem þeir vilja sjá í stjórnarskránni sinni.

Á fimmta hundrað manns gefur kost á sér í kosningum til stjórnlagaþings þann 27. nóvember. Ég verð einn þeirra.

Þetta er það sem mér finnst mestu máli skipta:

Mikilvægasta verkefni stjórnlagaþings verður að breyta hlutföllum í þrískiptingu valdsins, þ.e. að styrkja löggjafar- og dómsvaldið gegn framkvæmdavaldinu. Það þarf að treysta bæði framkvæmda-, löggjafar- og dómsvald gegn áhrifum flokkakerfisins, og vernda stjórnmálaumhverfið sem frekast er unnt fyrir áhrifum valdablokka og viðskiptalífs. Hlutverk, ábyrgð og réttindi forsetaembættisins þarf að afmarka nákvæmlega, og valdmörk þess við framkvæmdavaldið.

Margir óska sér ákvæðis um náttúruauðlindir sem þjóðareign í nýja stjórnarskrá. Þá verður að vera ljóst hvað átt er við, þannig að hafi raunverulegt inntak og merkingu. Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar eru mun betri í dag en þau voru við upphaf lýðveldisins. Enn má samt til einhvers vinna – mér sjálfum er annt um að þar verði kveðið á um rétt fólks til eigin tungu og eigin menningar. Ég er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju og afnámi atkvæðamisvægis eftir búsetu.

Á fimmta hundrað sem býður sig fram. Það eru gleðitíðindi.

Ég vona að hvar sem fólk kemur saman á næstunni noti það tækifærið til að ræða hvert við annað um stjórnarskrána, komandi þjóðfund og stjórnlagaþing, og hvernig það vilji móta lýðveldið til framtíðar. Ef vel tekst til er dálítið merkur tími að fara í hönd.

IgNóbelsverðlaunin 2010

Ignóbelsverðlaunin 2010 voru veitt í Harvard síðastliðið fimmtudagskvöld við hátíðlega athöfn (þá tuttugustu fyrstu árlegu, nánar tiltekið). Þar voru verðlaunuð eftirfarandi vísindaleg afrek sem áttu skilið að fá viðurkenningu fyrir að, með orðum verðlaunanefndarinnar, „fá fólk til að hlæja, og svo til að hugsa.“

Sokkar utanyfir stígvél. Sviðsett mynd.
Mynd 1: Sokkar utanyfir stígvél.

Verkfræði: Fyrir að þróa aðferð til að safna hor úr blæstri hvala með fjarstýrðri þyrlu.

Læknisfræði: Fyrir þá uppgötvun að hægt sé að draga úr asma með því að setja asmasjúklinginn í rússíbana.

Samgönguskipulagsfræði: Fyrir að nota slímmyglu við að reikna út hvernig best sé að leggja járnbrautarteina. Hluti viðtakenda voru hér að vinna sín önnur IgNóbelsverðlaun, þar sem þeir voru einnig í hópnum sem vann verðlaunin í hugvísindum árið 2008 fyrir að uppgötva að slímsveppir geta leyst völundarþrautir.

Eðlisfræði: Fyrir að sýna fram á það með tvíblindri slembirannsókn að fólk rennur síður á rassinn í hálku ef það fer í sokkana utan yfir skóna (sjá mynd 1).

Mynd 3:Skeggjaður maður og bakteríusmitberar. Þessi mynd er sviðsett.
Mynd 2:Skeggjaður maður og bakteríusmitberar. Þessi mynd er sviðsett.

Friðarverðlaun: Fyrir vísindalega staðfestingu á þeim gömlu alþýðusannindum að það dregur úr sársauka að bölva hressilega þegar maður meiðir sig.

Dæmi um skegghreinsun. Myndin er sviðsett.
Mynd 3: Dæmi um skegghreinsun.

Lýðheilsuverðlaun: Fyrir að sýna fram á að skeggjaðir vísindamenn eru gróðrarstíur baktería. Ég hvet lesendur eindregið til að kynna sér verðlaunagreinina, „Microbiological Laboratory Hazard of Bearded Men“ eftir Barbeito et al., sem birtist í tímaritinu Applied Microbiology árið 1967. Klassísk grein í fræðunum og vel studd dæmum (sjá myndir 2 og 3).

Hagfræði: Stjórnendur Goldman Sachs, AIG, Lehman Brothers, Bear Stearns, Merrill Lynch, og Magnetar fjármálastofnananna, fyrir að skapa og ýta undir nýjar fjárfestingarleiðir til að hámarka fjárhagslegan gróða og lágmarka áhættu fyrir fjármálakerfi heimsins, eða hluta af því. Hagfræðiverðlaunin í ár kallast því skemmtilega á við hagfræðiverðlaun IgNóbels í fyrra, sem fóru einmitt til Íslands, sællar minningar.

Efnafræði: Veitt rannsakendum frá MIT og háskólanum á Hawaii, sem hröktu þær gömlu kerlingabækur í skýrslu á vegum BP árið 2005 að olía og vatn blandist ekki saman.

Mannauðsstjórnun: Fyrir stærðfræðilega útskýringu á því að affarasælasta leiðin til að veita stöðuhækkanir innan stofnana og fyrirtækja er að velja bara einhvern af handahófi.

Líffræði: Fyrir vísindalega skrásetningu á munnmökum meðal ávaxtaleðurblakna. Bæði er hægt að nálgast greinina í heild sinni, og þeir sem eru ekki fyllilega sannfærðir geta séð þetta með eigin augum á þjónvarpinu.

Góðar stundir.

Hvernig er stemmingin?

Ég ligg slappur og sloj uppí rúmi hérna í Svabíu og horfi með öðru auganu á útsendingar að heiman, eftir því sem línan leyfir. Hugsa sitthvað: um íslenska fjölmiðla, stjórnvöld, almúga og alþingi, stjórnarskrána, forsetann og frúna hans. Svo fátt eitt sé nefnt.

Það er sitthvað sem þarf bæði að segja og gera sem hvorki heyrist né sést. Veit samt ekki hvort ég verði til neins við hvort heldur sem er þar sem ég er. Enda löngum því marki brenndur að vilja helst hugsa mig um í nokkra daga áður en ég segi eða geri nokkurn skapaðan hlut sem gæti mögulega skipt nokkurn mann máli.

Svo finnur maður ekki alveg hvernig ástandið er heima; maður fær ekki nema undan og ofan af því hingað út, enda varla neinum íslensku fjölmiðlanna treystandi til að gefa sjónarhorn sem er ólitað af áhrifum pólitískra og fjármálalegra valdhafa.

(Eins og sagan ætti að hafa kennt okkur: Fjármálalegt vald er ekki endilega mælt í prósentum af eignaraðild. Pólitískt vald er ekki endilega mælt í fjölda sæta á alþingi eða í ríkisstjórn. Hvað þá í niðurstöðum nýjustu skoðanakannana.)

Svo ég velti fyrir mér: Hvernig er stemmingin?

Hvernig var hún niðri á Austurvelli? Hverju var fólk að mótmæla? Hverju vill það koma í verk? Hver er krafan? Það komst ekki alveg til skila til mín.

Hvernig er hún allsstaðar annarsstaðar? Hvernig líður fólki? Hvernig hafið þið það?

Spyr sá sem ekki veit.